Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 8. júní 12:50

Torfærustóll fyrir hreyfihamlaða - Nýung á Íslandi

Heimir Karlsson og Stöð 2 standa fyrir söfnun þessa viku þar sem stefnt er að því að safna fyrir kaupum á torfærustólum fyrir hreyfihamlaða en slíkur stóll var kynntur hér á landi í síðustu viku.


Fyrsti stóllinn var pantaður í kjölfar þess að Heimir og félagar á Stöð2 unnu um 200.000 kr. í getraunum og vildu að ÍF fengi að njóta afrakstursins.
Áhugi var á að finna einhvern hlut eða tæki sem kæmi hreyfingunni vel og ÍF leitaði til Paul Speight sem hefur framleitt m.a. vetraríþróttatæki fyrir fatlaða og óskaði eftir ábendingum. Hann benti á þennan stól og í framhaldi af því var stóllinn pantaður og hefur verið afhentur ÍF. www.spokesnmotion.com

Meðfylgjandi myndir eru frá afhendingu stólsins mánudaginn 6. júní en þá prófaði Svanur Ingvarsson stólinn í fjörunni og sjónum í Nauthólsvík.
Þetta var algjörlega ný upplifun fyrir hann sem hefur fram til þessa farið í fjöruferð með fjölskyldunni,, en beðið í bílnum meðan þau fara í fjöruna!
Stóllinn hentar vel til ferða á stöðum þar sem ekki er greiðfært á venjulegum hjólastólum og gefur hreyfihömluðum ný tækifæri til útivistar.

Þetta tæki vakti mikla athygli Heimis Karlssonar og félaga á Stöð2 og að þeirra frumkvæði hófst í morgun söfnun sem mun standa yfir þessa viku þar sem markmið er að fá fleiri stóla til landsins.

Markmið er að slíkir stólar verði í hverjum landsfjórðungi en það verður kynnt nánar þegar fjöldi stóla liggur fyrir í lok vikunnar.
Nú þegar hefur Íslandsbanki staðfest að fyrirtækið mun kaupa einn stól og mikill hugur er í þeim félögum á Stöð2 að fá a.m.k 10 stóla,,

Þeir sem vilja styðja þetta verkefni geta lagt inn upphæð á reikning Íslandsbanka HF - 565 - 14 - 605055 eða hringt í síma 901 - 5001 en þá verða dregnar 1000 kr. af símreikningi.