Norrænt barna- og
unglingamót 2007
Norrænt barna- og unglingamót fatlaðra
verður haldið á Íslandi dagana 29. júní til 6. júlí 2007 en mótin eru haldin
annað hvert ár til skiptis á Norðurlöndunum.
Þannig stóð Ísland/Íþróttasamband Fatlaðra að framkvæmd mótanna 1985 í
Reykjavík og 1995 í Garðabæ.
Keppt verður í borðtennis, sundi og
frjálsum íþróttum og verður mótið haldið í íþróttamannvirkjunum í Laugardal í
Reykjavík en á mótið koma 140
þátttakendur (keppendur, fararstjórar, þjálfarar o.fl.).
Þátttakendur á
þessum mótum eru á aldrinum 12-16 ára og hefur val miðast við að 5 þátttakendur
séu hreyfihamlaðir, 5 heyrnarlausir / skertir, 5 þroskaheftir og 5
blindir/sjónskertir. Undanþága er þó veitt frá þessari reglu.
Hér á landi er
valið úr tilnefningum aðildarfélaga ÍF auk þess sem reynt er að finna “nýja”
iðkendur úti um land, sem ekki hafa fengið tækifæri til þátttöku í íþróttum.
Þetta mót er ekki eingöngu keppni heldur
er lagt mikið upp úr félagslega þættinum þar sem farið verður í leiki,
útsýnisferðir og haldnar kvöldvökur en af þessum mótum hafa einstaklingar komið
heim með meiri reynslu og þekkingu á sjálfum sér og sinni getu ásamt því að
kynnast erlendum börnum í svipuðum aðstæðum.
Þetta mót hefur oftar en ekki orðið til þess að þessir einstaklingar fái
aðra sýn á hvað þeir geta gert og hvað þeir vilja gera í framtíðinni, jafnt í
íþróttum sem og öðru sem þeir taka sér fyrir hendur.
Hvert land má
senda allt að 25 þátttakendur og 10 fararstjóra á þetta mót. Starf fararstjóra felst m.a. í umsjón með 1-3
börnum/unglingum alla dagana en mótið stendur yfir í viku. Aðstoðin við þessa keppendur er margvísleg,
alveg frá því að minna á salernisferðir, lyfjatöku og upp í það að aðstoða við
að mata, skera matinn, aðstoða á salerni, keyra hjólastóla o.s.frv.
Eins og staðan er
núna að þá erum við búin að fá staðfesta 5 fararstjóra og vantar því 4
fararstjóra en áður var búið að ákveða að á þessu móti yrði íslenski hópurinn
með 9 fararstjóra. Íslensku keppendurnir
eru 23 talsins.
Við hvetjum alla
þá sem hafa áhuga á að aðstoða við þetta skemmtilega en þó mjög krefjandi
verkefni sem fararstjórn er, að hafa samband við skrifstofu Íþróttasambands
Fatlaðra í síma 514 4080. Ekki er
krafist þess að viðkomandi einstaklingur hafi reynslu af starfi með fötluðum en
þó æskilegt.
Þeir
einstaklingar sem valdir hafa verið hingað til í fararstjórn á þessum mótum
hafa m.a. komið úr röðum foreldra/systkina fatlaðra, sjúkraþjálfara,
þroskaþjálfa, íþróttakennara og kennara eða einfaldlega fólk sem hefur unnið
lengi að málefnum fatlaðra á einhvern hátt og hefur þar af leiðandi mikla og
góða reynslu.
Með von um skjót og jákvæð viðbrögð
F.h. undirbúningsnefndar NBU 2007
_____________________________
Anna Guðrún Sigurðardóttir
Sviðsstjóri Þjónustusviðs ÍF
if@isisport.is
eða s. 514 4080