Kynning á keppnissundi fatlaðra

Flokkunarkerfi og þjálfun

 

Höf: Geir Sverrisson, Íþróttakennari.

(Ritgerð unnin við nám í Í.K.Í)

 

Inngangur

Alþjóðleg samtök fatlaðra íþróttamanna

Þróun flokkunarkerfisins

Nýja flokkunarkerfið (S flokkakerfið)

Fyrirkomulag flokkunar

Stigagjöf eftir flokkun

Starfsemi Íþróttasambands Fatlaðra

Þjálfun fatlaðra

Tækniþjálfun hreyfihamlaðra

Niðurlag

Heimildaskrá

 

Inngangur

 

Oft á tíðum hafa orðið heitar umræður um stöðu afreksíþrótta fatlaðra í samanburði við ófatlaða. Undirritaður lætur þessar umræður sem vind um eyru þjóta og sem betur fer fjallar ritgerð ekki um það málefni. Þeir sem eru hvað neikvæðastir benda oft á að íþróttum fatlaðra sé skipt upp í svo marga fötlunarflokka að tiltölulega auðvelt sé að verða sigurvegari. Svo ekki sé talað um hversu fáir séu þátttakendur á slíkum mótum.

Íslenskir fatlaðir íþróttamenn hafa átt mikilli velgengni að fagna í sundi. Í ritgerð þessari mun ég reyna að bestu getu að útskýra þetta margumtalaða flokkunarfyrirkomulag ásamt nokkrum atriðum um þjálfun fatlaðra keppnismanna.

Fyrir hinn almenna sundmann þá getur þetta einnig reynst áhugaverð lesning þar sem núverandi flokkunarkerfi gengur út frá nokkurs konar stigagjöf. Mismunandi þáttum sundsins og líkamspörtum er þannig gefið vægi sem reiknað er út frá. Þannig gæti ófatlaður sundmaður séð hversu mikið vankantar á tækni hans vega.

Ritgerðin greinir frá þeim þáttum sem spila inn í keppnisþjálfun fatlaðra sundmanna, hvernig alþjóðlegri flokkun fer fram og hvaða hugmyndafræði sé á bak við flokkunina. Einnig hver staða Íþróttasambands Fatlaðra sé og markmið sambandsins. Síðasti hluti ritgerðarinnar greinir frá nokkrum atriðum sem hafa ber í huga við þjálfun fatlaðra sundmanna og nefnd nokkur dæmi um algengar fatlanir.

 

Alþjóðleg samtök fatlaðra íþróttamanna

 

Í dag eru eftirfarandi samtök starfandi. Sum þessara samtaka halda sín eigin sér mót og eru hvert fyrir sig sterk samtök.

 

ISOD

Aflimaðir (Amputee), fæðingagallar (Les Autrus)

CP-ISRA

Spastískir (Cerebral Paralysis)

ISMGF

Lömun (Paralysis and paresis muscular impairment)

IBSA

Blindir og sjónskertir

INAS

Þroskaheftir

CISS

Heyrnalausir

 

IPC (International Paralympic Commitie) eru alþjóðleg samtök fatlaðra íþróttamanna og halda meðal annars Ólympíumót Fatlaðra (Paralympics). Ekki taka þó öll þessara alþjóðasamtaka þátt í því móti. Þau samtök sem þar taka þátt eru; ISOD, CP-ISRA, ISMGF, IBSA og nú síðast INAS. (H4, s.8)

Árið 1996 voru þroskaheftir (INAS) í fyrsta sinn meðal þátttakenda á Ólympíumóti Fatlaðra (Paralympics). Þess fyrri utan heldur INAS (þroskaheftir) sína eigin Special Olympics. CISS (heyrnalausir) hafa staðið utan við Ólympíumót fatlaðra (Paralympics).

Á heimsmeistaramótum er svipað fyrirkomulag utan þess að sér mót er fyrir hverja íþróttagrein.

Íþróttasamband Fatlaðra er aðili að öllum þessum samtökum, ásamt NORD-HIF sem eru samtök Íþróttasambanda Fatlaðra á Norðurlöndum. (H4, s.8)

 

 

Þróun flokkunarkerfisins

 

Hjá þroskaheftum og heyrnalausum er aðeins um einn fötlunarflokk að ræða. Hjá hreyfihömluðum og blindum/sjónskertum eru flokkarnir hins vegar fleiri.

 

Undirflokkar hreyfihamlaðra og blindra/sjónskertra:

 

ISOD (Amp)

ISOD (L.A.)

CP-ISRA

ISMGF

IBSA

A1

LSw1

CP1

1A

B1

A2

LSw2

CP2

1B

B2

A3

LSw3

CP3

1C

B3

A4

LSw4

CP4

2

 

A5

LSw5

CP5

3

 

A6

LSw6

CP6

4

 

A7

 

CP7

5

 

A8

 

CP8

6

 

A9

 

CP9

 

 

(H2, s. 67)

 

Á Ólympíumóti fatlaðra í Seoul 1988 var keppt eftir ofangreindu flokkunarkerfi sem samanstóð af talsvert mörgum flokkum hjá hreyfihömluðum. Á Heimsmeistaramóti í sundi í Assen Hollandi 1990 var keppt eftir nýju flokkunarkerfi hreyfihamlaðra sem samanstóð af aðeins 10 fötlunarflokkum.

Undantekning frá þessari þróun eru flokkar blindra og þroskaheftra. Ástæða þess er sjálfsagt eðli fötlunarinnar sem erfitt er að samræma flokkum hreyfihamlaðra. Blindir og sjónskertir skiptast í 3 undirflokka en þroskaheftir í einn flokk sem er auðkenndur með stafnum ‘C’.

 

Undirflokkar IBSA (blindir og sjónskertir):

 

Undirflokkur

Lýsing

B1

Ekkert til lítið ljósskyn í hvorugu auga og ófær um að greina útlínur handar í hvaða fjarlægð sem er. (Keppendur verða að synda með byrgt fyrir augu).

B2

Getur greint útlínur handar og upp að sjón nákvæmni 2/60 og/eða sjónsvið minna en 5 gráður. (Flokkun skal gerð á betra auga og ef notaðar eru linsur eða annað slíkt skulu þær notaðar við flokkun, burtséð frá því hvort þær eru notaðar í keppni eður ei).

B3

Sjón nákvæmni frá 2/60 til 6/60 og sjónsvið frá 5 gráðum til 20 gráða.

(H1, s. 73)

 

Ekki verður fjallað hér sérstaklega um undirflokka samtaka hreyfihamlaðra þar sem þeir flokkar hafa verið sameinaðir í 10 fötlunarflokka, sem er í daglegu tali nefnt S-flokkakerfið. Alennt má um eldra flokkunarkerfið segja að eftir því sem talan við viðkomandi undirflokk lækkar, því meiri fötlun (líkt og með B-flokkanna hér að undan).

 

 

Nýja flokkunarkerfið (S flokkakerfið)

 

S-flokkakerfið á við hreyfihamlaða, þ.e. alla flokka að undanskildum B- og C-flokkum (blindir/sjónskertir og þroskaheftir). Flokkarnir eru aðeins 10 talsins og þannig öllum hinum eldri hreyfihömlunarflokkum steypt saman í þessa 10 flokka.

Núverandi flokkakerfi sem hefur verið notað frá 1990 gengur út á stigaútreikninga þar sem gengið er út frá 300 stigum og talið niður á við. Þannig er reiknað út frá því að 300 stig séu heilbrigður sundmaður. Til þess að teljast fatlaður sundmaður þarf viðkomandi að hafa a.m.k. 15 stig til frádráttar þeim 300. (H1, s.74)

Þetta nýja flokkunarkerfi er vandmeðfarið þar sem sundmenn að ólíkri fötlun synda saman, t.d. sundmaður sem vantar á handlegg keppir við annan sem á vantar fótlegg. Þetta virðist ósanngjarnt því að vægi fóta og handa er misjafnt milli sundaðferða í aflfræðilegum skilningi. Þess vegna fá skriðsund, baksund og flugsund heitið S1 til S10, bringusund heitið SB1 til SB10 og fjórsund heitið SM1 til SM10. Þannig getur sá fatlaði lent í mismunandi flokkum eftir sundaðferð. (H1, s.76)

Með tilkomu þessa kerfis varð aðferðin við flokkun einstaklinga einnig fullkomnari. Til þess að öðlast keppnisrétt þarf sá fatlaði að öðlast alþjóðlega flokkun sem fer fram yfirleitt í vikunni fyrir stórmót. Ekki er síðar þörf á slíku mati nema til komi kærumál. Einnig bættist við sú aðferð að í stað þess að meta einstaklinga á þurru landi voru þeir látnir synda í sundlaug og fylgst með hreyfigetu í hverri sundaðferð (með tilliti til aflfræðilegra þátta). (H1, s. 75).

 

Fyrirkomulag flokkunar

 

Í hverri alþjóðlegri flokkun þarf læknisfræðilegan og tæknilegan flokkunarmann með tilskilin leyfi frá alþjóðanefnd.

 

Eftirfarandi atriði eru skoðuð (mæld) á landi:

Mat á vöðvastyrk
Mat á skerðinu hreyfigetu (samhæfing)
Mat á virkni liðamóta
Mæling á útlim/útlimum sem vantar
Mæling á búk

 

Eftirfarandi atriði eru skoðuð í sundlaug:

Stunga (ef mögulegt vegna fötlunar)
A.m.k. 25 metra af hverri sundaðferð
Út frá ákveðnu formi þarf að meta atriði s.s. legu, fleytni, stöðugleika/nýtingu hvers líkamshluta við sundtök.
Framkvæmdur snúningur á keppnislíkum hraða.

(H1, s. 75-76)

Stigagjöf eftir flokkun

 

Eins og áður sagði er gengið frá því að heilbrigður sundmaður fái 300 stig. Af þessum 300 stigum eru mismunandi þættir sundsins og líkamshlutum í sundtaki gefið vægi.

 

S flokkur

Skrið-, bak-, flugsund

SB flokkur

Bringusund

Armar

130 stig

Armar

110 stig

Fætur

100 stig

Fætur

120 stig

Búkur

50 stig

Búkur

50 stig

Start

10 stig

Start

10 stig

Snúningar

10 stig

Snúningar

10 stig

 

Samtals gefur hver sundaðferð fyrir sig 300 stig. Það á við að sundmaður sé ófatlaður. Til þess að teljast fatlaður má sundmaður ekki hafa fleiri en 285 stig (15 stiga frádrátt). (H1, s.74)

Það er augljóst að fatlaður einstaklingur getur fengið misjafnt vægi eftir því hvort um er að ræða t.d. skriðsund eða bringusund og þannig lent í sitthvorum flokknum t.d. S9 og SB8 ef á hann vantar t.d. fótlegg. Því þarf að reikna út hvaða flokk hann skal synda í þegar til fjórsunds kemur. Því er notuð þessi formúla:

 

3 x S flokkur + 1 x SB flokkur = SM

4

 

Formúlan margfaldar gildi S-flokks með þremur þar sem sundaðferðir S-flokks eru þrjár, þ.e. skrið-, bak- og flugsund. SB-flokkurinn er síðan margfaldaður með einum þar sem aðeins bringusund tilheyrir SB-flokknum. Síðast er deilt með fjölda sundaðferðanna í fjórsundi. (H1, s.78)

 

S-flokkar samkvæmt stigagjöf eftir mat: (H1, s. 98 - 117)

 

Flokkur

Stig

Almennt

S1

40-65

Sundmenn í þessum flokki framkvæma aðeins baksund með báðum höndum samtímis. Myndi venjulega ekki geta framkvæmt skiðsund vegna skorts á stöðugleika höfuðs. Startað ofan í sundlaug með engri fráspyrnu (einnig í snún.).

S2

66-90

Þessi flokkur myndi eðlilega aðeins framkvæma baksund vegna skorts á stöðugleika höfuðs við öndun í skriðsundi. Möguleiki á baksundi með báðum höndum samtímis. Startað ofan í sundlaug með engri fráspyrnu (einnig í snúningum).

S3

91-115

Sundmenn geta framkvæmt skriðsund. Hjá þeim sem skortir marga útlimi er leyfilegt að framkvæma flugsunds hreyfingar með líkama til framdrifs. Venjulega startað ofan í laug og engin fráspyrna í starti og snúningum.

S4

116-140

Tekur einnig yfir þá sem vantar marga útlimi en þó með betri líkamslegu en S3 og meiri nýtingu arma í sundtaki. Venjulega startað ofan í laug með lítilli eða engri fráspyrnu í starti/snúningum. Heimilt að starta sitjandi af startpalli.

S5

141-165

Tekur yfir dverga með aðra fötlun. Flestir í flokknum starta ofan í laug með engri fráspyrnu. Heimilt er að starta sitjandi af startpalli eða standandi við hlið startpalls. Þeir með fæðingagalla, spastískir eða aflimaðir mega framkvæma örlitla fráspyrnu.

S6

166-190

Dvergar, aflimun tveggja arma og sumir fæðingargallar tilheyra þessum flokki. Sumir starta ofan í laug en aðrir af startpalli. Lágmarks fráspyrna hjá öðrum en tveggja arma aflimun. Heimilt að starta sitjandi af palli.

S7

191-215

T.d. vöntun tveggja útlima. Fyrir utan þá sem vantar tvo útlimi er start af startpalli með takmarkaðri fráspyrnu (einnig ísnúningum). Sitjandi start er leyfilegt.

S8

216-240

T.d. Tveir styttri útlimir. Geta startað af startpalli, þó með skort á jafnvægi. Leyfilegt að starta af bakka. Snúningar með meðal sterkri fráspyrnu, fyrir utan þá einstaklinga með aflimun arma.

S9

241-265

T.d. einn styttri útlimur og spastískir með litla skerðingu á samhæfingu. Framkvæma eðlileg stört, snúninga og fráspyrnu.

S10

266-285

Lágmarks fötlun. Eðlileg stört, snún. og fráspyrnur.

 

 

SB-flokkar samkvæmt stigagjöf eftir mat: (H1, s. 118 - 137)

 

Flokkur

Stig

Almennt

SB1

40-65

T.d. veruleg stytting allra útlima eða verulega skert hreyfigeta allra útlima. Startað ofan í laug með engri fráspyrnu í starti og snúningum.

SB2

66-90

T.d. veruleg stytting eða skert hreyfigeta a.m.k. þriggja útlima. Startað ofan í laug með engri fráspyrnu í starti og snúningum.

SB3

91-115

T.d stytting eða skerðing útlima en stúfar sem mynda nokkurn framdrifskraft. Startað ofan í laug með engri fráspyrnu (einnig í snúningum). Sumir í þessum flokki gætu startað með stungu.

SB4

116-140

Skert hreyfigeta eða styttingar útlima en þó viðunandi framdrifskraftur á tveimur útlimum. Venjulega startað ofan úr laug. Sumir gætu hinsvegar framkvæmt start af startpalli með lágmarks fráspyrnu.

SB5

141-165

Engin framdrifskraftur af völdum fótataka. Venjulega startað ofan í laug en leyfilegt að starta sitjandi af startpalli eða af bakka.

SB6

166-190

T.d. vöntun beggja fótlima, þrír stúfar og eðlilegur fótlimur. Venjulega startað ofan í laug með meðal fráspyrnu. Leyfilegt að starta sitjandi af startpalli og sumir standandi.

SB7

191-215

T.d. vöntun tveggja arma, vöntun fótlima neðan hnjáliðs eða vöntun arms og fótlims. Sumir starta standandi af startpalli. Snúningar með meðal til eðlilegrar fráspyrnu.

SB8

216-240

Eðlilegur myndun framdrifskrafts arma, fyrir utan útlimamissi arms/arma en þá eru fótlimir óskaddaðir. A.m.k. einn fótlimur knýr eðlilegt sundtak. Eru færir um að starta af startpalli og framkvæma eðlilega snúninga.

SB9

241-265

Eðlileg armtök og fótatök. T.d. vöntun arms neðan olnboga og vöntun fótleggjar miðja vegu hnjá- og ökklaliðs. Geta framkvæmt eðlileg stört og snúninga.

SB10

266-285

Lágmarks fötlun. T.d. skert hreyfigeta annars mjaðmaliðs, vöntun fótar eða handar. Framkvæma eðlileg stört og snúninga.

 

 

Starfsemi Íþróttasambands Fatlaðra

 

Íþróttasamband Fatlaðra var stofnað 17. maí 1974. Hlutverk ÍF hefur verið frá stofnun þess að; ,,hafa yfirumsjón með allri íþróttastarfsemi fyrir fatlaða á Íslandi, að vinna að eflingu íþrótta fyrir fatlaða og koma fram sem fulltrúi Íslands við erlenda aðila varðandi allt er lýtur að íþróttastarfi fatlaðra." (H4, s. 7)

Íþróttasamband Fatlaðra hefur stundum verið nefnt ,,litla ÍSÍ" vegna þess að það tekur yfir allar íþróttagreinar fatlaðra og líkist því meira ÍSÍ heldur en nokkru sérsambandi.

Sambandið hefur sent fatlaða keppnismenn á Ólympíumót Fatlaðra (Paralympics) frá árinu 1980. (H4, s. 8)

Þó svo starf ÍF sé í alla staði göfugt starf er eins konar dulið markmið innan veggja ÍF. Það er að gera fatlaða íþróttamenn óháða sambandinu. Þetta virðist í fyrstu undarleg þversögn en er það ekki þegar nánar er að gáð. Til þess að fatlaður íþróttamaður nái sem mestum framförum er það mikilvægt að hann þjálfi á meðal ofjarla sinna (ófatlaðra). Þannig hefur hann endalaust tækifæri til framfara þrátt fyrir að vera e.t.v. fremstur í sínum flokki. Þetta viðhorf hefur a.m.k. verið ríkjandi meðal afreksmanna í röðum fatlaðra. Þeir hafa þjálfað í almennum félögum í sinni grein. Þetta hefur oft skilað frábærum árangri og hefur ÍF stutt dyggilega við bakið á afreksmönnum sínum. Þó svo fatlaðir íþróttamenn hafi ákveðnum skyldum að gegna gagnvart félagi sínu (ófatlaðir) hefur það sem betur fer aldrei stangast á við alþjóðlegar keppnir á vegum ÍF.

 

Þjálfun fatlaðra

 

Í gegnum tíðina hafa fatlaðir íþróttamenn verið mjög lánsamir hvað varðar þjálfarmál. Þeir hafa ætíð haft aðgang að bestu fáanlegum þjálfurum á landinu á hverjum tíma.

Þjálfun á fötluðum einstaklingum er að mestum hluta óbreytt þjálfun ófatlaðra. Hinsvegar eru þættir sem hafa verður í huga við þjálfun fatlaðra og eru frábrugðnir þjálfun ófatlaðra. Þjálfun fatlaðra er krefjandi tilbreyting fyrir þjálfara sem getur stuðlað að meiri víðsýni í þjálfun þar sem þjálfari þarf e.t.v. að þróa breytta tækni út frá fyrri kunnáttu og beita óhefðbundnum þjálfaðferðum með fatlaða einstaklinginn.

Hjá blindum/sjóskertum og þroskaheftum er þjálfun og tækni ekki ólíkt því sem gerist hjá ófötluðum. Takmörkun þeirra er ekki líkamslegs eðlis en á móti kemur að hjá þroskaheftum þarf að vanda mjög svo alla leiðsögn og erfitt getur verið að koma tæknilegum ráðleggingum til skila. Hjá blindum og sjónskertum þarf þjálfari að reyna að setja sig í spor iðkanda síns og skilja það að áræði hans í sundinu getur aldrei orðið á við þann sem er sjáandi. Leggja þarf áherslu á að rétt sundtök þannig að sá blindi/sjónskerti geti áætlað hvenær hann nálgast bakkann.

Ef um er að ræða þjálfun meðal ófatlaðra sundmanna verða æfingafélagar þess fatlaða að sýna umburðalyndi gagnvart þeim fatlaða og reyna að setja sig í hans spor.

Við þjálfun hreyfihamlaðra spila inn í mun fleiri þættir og þá sérstaklega varðandi tæknilega útfærslu sundsins. Hvað varðar þjálfræðina sjálfa að þá er beitt sömu aðferðum og hjá ófötluðum en áherslur gætu þó verið misjafnar.

 

 

Tækniþjálfun hreyfihamlaðra

 

Áður en rætt verður um þá þætti sem skipta máli í tækniþjálfun hreyfihamlaðra verður að hafa stuttan inngang að aflfræði sundsins.

Fjórir kraftar verka á sundmann í vatninu. Allir kraftarnir verka samtímis en mismikið.

Þyngdarkraftur. Þyngd hlutar er togkraftur jarðar í hlutinn og samræmist þyngdarlögmáli Newtons. Stærð þyngdarkraftsins fer eftir massa hlutarins sem hann hefur áhrif á. Sá punktur sem þyngdarkrafturinn verkar á nefnist þyndarpunktur. (H5, s. 13)

Uppdrifskraftur er gagnstæður kraftur við þyngdarkraftinn og veldur því að hlutir fljóta í vatni. Uppdrifskrafti er skipt í stöðuuppdrif og hreyfiuppdrif. Stöðuuppdrif samræmist kenningu Arkimedesar sem gengur út frá því að þegar hlutur er settur í vatn léttist hann jafnmikið og rúmmál þess vatns vegur sem hann ryður frá sér. Hreyfiuppdrif gengur út frá því að eftir því sem hraði sundmanns er meiri þeim mun ofar liggur hann í vatninu. (H5, s. 14)

Mótstöðukraftur (vatnsmótstaða). Skiptist í framhliðarmótstöðu sem er mótstaða af völdum vatns fyrir framan sundmann og líkami hans skellur á. Hörundsmótstaða er þegar hörund og vatn snertast og myndast þá núningur sem hefur einhver áhrif á sundmanninn. Yfirborðsmótstaða er sú hindrun á yfirborðinu (yfirborðsspenna) sem líkaminn þarf að rjúfa við sund/stungur. Iðumótstaða (aftursog) er sá hvirfilstraumur (sog) aftan við sundamann sem togar í hann og dregur þannig úr hraða hans. (H5, s. 15-17)

Framdrifskraftur (myndun knýiafls). Er sá kraftur sem kemur sundmanni áfram í vatninu og myndar knýiafl. Þetta samræmist 3. hreyfilögmáli Newtons um átak og gagnverkun þ.e. að þegar átaki er beytt á vatnið myndar það gagnverkun (framdrif) sem flytur sundmann áfram. (H5, s. 17)

 

Flot sundmanna er misjafnt. Það ákvarðast af þyngdarkrafti og uppdrifskrafti. Eins og áður sagði ákvarðast þyngdarkraftur af massa hlutarins (líkamans). Líkams samsetning skiptir máli varðandi ákvörðun líkamsmassa og þ.a.l. hversu sterkur þyngdarkrafturinn er til móts við uppdrifskraft. Eftirfarandi tafla sýnir eðlisþynd vatns í samanburði við líkamann.

Vatn 4°

1,000

Vöðva vefur

1,050

Bein vefur

1,800

Fitu vefur

0,950

(H3: s.14)

Þegar þyngdarkraftur og uppdrif er í jafnvægi getur sundmaður flotið. Einstaklingar fljóta misvel. Þegar þyndarpunktur og uppdrifskraftur falla ekki alveg saman sökkva t.d. fætur. Þá er uppdrifskrafturinn mun ofar á líkamanum en þyngdarkrafturinn. (H5: s.15)

Hjá líkamlega fötluðum einstaklingum getur þetta hlutfall skarast verulega. Hjá lömuðum visna fætur og verða mjög léttar því færist þyngdarpunktur ofar á líkamanum. Hjá einstaklingi sem á vantar annann fótlegg færist þyngdarpunktur ofar og meira yfir á ,,heilu" hliðina (þar er meiri þyngd). (H3: s.14)

Þegar armur ,,krossar" yfir þyngdarpunkt (miðlínu) t.d. í yfirtaki baksunds verður snúningur á líkamanum (í átt að hönd sem er í undirtaki). Hjá fötluðum sundmönnum sem á vantar t.d. útlim skerðist þetta hlutfall verulega miðað við hjá ófötluðum sundmanni vegna breyttrar staðsetningar þyngdarpunkts. (H3, s. 18-19). Því gæti þurft að breyta sundtækninni þannig að t.d. fætur gætu leiðrétt þann snúning sem verður þegar einhentur maður syndir baksund.

Framdrifskraftur getur talsvert frábrugðinn hjá fötluðum sundmönnum. Sumir hafa skertan kraft og skila því ekki sama framdrifi á höndum/fótum við sundtak. Hjá þeim sem ójafnvægi er á líkamshlutum verður verulegt ójafnvægi í sundtökum. T.d. hjá þeim sem á vantar annann handlegg er tilhneiging til að leita í þá átt sem á vantar handlegg, vegna sterks sundtaks á heilu hendinni. (H3. s. 20-21). Ráð við þessari stefnubreytingu er að snúa höfði í átt að ,,heilu" hliðinni og mynda þannig mótsnúning. Einnig er hægt að minnka kraftbeitingu á hinni ,,heilu" hendi. (H6. s.9) Höfundur ritgerðarinnar á við þess konar fötlun að stríða og samkvæmt eigin reynslu gefst það einnig vel að hafa sterk fótatök sem leiðrétta stefnubreytinguna jafn harðan og hún verður. Því þarf í þessu tilfelli að þjálfa fótatök mjög vel og er það jafnan vaninn að reynt er að fá 110% nýtingu úr þeim líkamspörtum sem heilir eru hjá þeim fatlaða.

Því hefur oftar en ekki farið svo að sundmenn velja sér sundgrein sem hentar þeim best miðað við fötlun. S.s. arm aflimanir í bringusund og fóta aflimanir í skrið-, bak- eða flugsund. Enda er þar um breytt hlutföll milli arm- og fótataka s.b.r. kaflann um ,,Stigagjöf eftir flokkun".

Framhliðarmótsstaða getur verið mjög mikil hjá þeim sem eru mikið fatlaðir, t.d. hjá mænusködduðum. Þar kemur til styrkleysi í fótum og má segja að þeir hafi akkeri að draga (set staða). Fyrir hinn ófatlaða sundmann er lárétt staða ásamt straumlínulögun mikilvæg til að minnka þessa mótstöðu. (H3. s.22)

Almennt má segja um þjálfun fatlaðra að reynt skal í lengstu lög að samræma þjálfunina við þjálfaðferðir hins ófatlaða sundmanns. Mögulegt er að hanna sérstaklega hjálpartæki s.s. blöðku á einfætta, spaða á einhenta o.s.frv. í þeim tilgangi að þjálfa einnig upp skaddaða líkamsparta í þeim tilgangi að viðhalda líkamlegu jafnvægi og að geta fylgt betur ófötluðum æfingafélögum á æfingum. Möguleikarnir til betrumbóta á tækni og við þjálfun eru ótakmarkaðir og ætti sá fatlaði og þjálfari hans að láta hugmyndaflugið ráða ferðinni í þjálfuninni. Hér hafa einungis verið nefnd þau almennu atriði sem vert er að hafa í huga við þjálfun fatlaðra.

 

Niðurlag

 

Þegar kom að lokum þessarar ritgerðar var greinilegt að efnið er það viðamikið að það ætti e.t.v. frekar heima í lokaritgerð. Því þurfti höfundur að setja sér takmarkanir í umfjölluninni og nefna helstu þætti efnistakanna. Mikið ber á hreyfihömluðum í yfirferðinni enda er þar um mestan mun að ræða miðað við ófatlaðann einstakling.

Það er von mín að áframhald verði á velgengni fatlaðra sundmanna á Íslandi og sundfélög og þjálfara haldi áfram því frábæra starfi og viðhorfi sem þeir hafa sýnt fötluðum sundmönnum í gegnum tíðina.

 

Heimildaskrá

 

  1. APOC, 1995. General & functional classification guide. Atlanta.
  2. COOB’92, 1992. General and functional classification guide. Barcelona.
  3. Ellen Bull, Jahn Haldorsen, Nina Kahrs, Gunnar Mathiesen, Inga Friis Mogensen, Åse Torheim, Mette Berg Uldal, 1985. In the pool. Univesitetsfolaget AS, Oslo.
  4. Íþróttasamband Fatlaðra, 1993. Námsefni fyrir leiðbeinendur. Reykjavík.
  5. Liselotte Kennel, Auðunn Eiríksson, 1994. Skólasund. Námsgagnastofnun. Reykjavík.
  6. Terje Hagen, 1988. Svömmeopplæring for funksjonshemmede. Norges Handicapidrettsforbund.