1.0 REGLUR
1.1. |
Keppt skal eftir leikreglum sem samþykktar hafa verið af stjórn ÍF. |
1.2. |
Íþróttasamband Fatlaðra (ÍF) er framkvæmdaraðili að Íslandsmótum. Ef sambandinu sýnist svo getur það fengið aðra aðila til að sjá um framkvæmd Íslandsmóts. |
1.3. |
ÍF skal halda Íslandsmót í eftirfarandi greinum: Sveitakeppni í boccia að vori og einstaklingskeppni að hausti. Sundi 25 m snemma vetrar og 50 m síðla vetrar, frjálsum íþróttum utanhúss að sumri. Keppni í öðrum greinum s.s. borðtennis, bogfimi, lyftingum og frjálsum íþróttum innanhúss fer fram síðla vetrar. |
1.4. |
Íþróttasamband Fatlaðra skal tilkynna með minnst 5 mánaða fyrirvara hvar og hvenær Íslandsmót fer fram. Aðildarfélögum ÍF er óheimilt að halda opin mót minnst viku fyrir Íslandsmót í viðkomandi íþróttagrein. |
1.5. |
Reglur þessar gilda fyrir Íslandsmót ef reglur íþróttagreinar kveða ekki á um annað. Með öðrum orðum, reglur þessar víkja í þeim tilfellum þar sem ákvæði reglna íþróttagreinar eru strangari eða ýtarlegri. |
1.6. |
Stjórn ÍF er heimilt að innheimta þátttökugjöld í samstarfi við mótshaldara hverju sinni. Upphæðin nemur kr. 1.000.- fyrir hverja þá grein sem einstaklingur tekur þátt í. Skráningargjald er greitt fyrir alla sem skráðir eru við lok skráningarfrests óháð því hversu margir mæta til leiks er mótið fer fram. Ekki skulu innheimt stungugjöld í tengslum við sundmót. |
1.7. |
Lyfjapróf ber að framkvæma á Íslandsmótum ÍF samkvæmt lögum ÍSÍ þar að lútandi en þar segir; Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ sér um framkvæmd lyfjaeftirlits meðal íþróttafólks á Íslandi. Lyfjaeftirlitsnefndin starfar samkvæmt reglum Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunarinnar, WADA. |
1.8. |
Reglur um klæðnað: Keppendum og starfsmönnum í mótum á vegum Íþróttasambands fatlaðra eða félaga innan þess er skylt að vera hreinir og snyrtilegir til fara. Klæðnaður keppenda og starfsmanna skal vera í samræmi við reglur sérsambands viðkomandi íþróttagreinar og í klæðnaði sem hæfir opinberum viðburðum sem og íþróttamótum – Nánar. | |
2.0. BREYTINGAR Á LEIKREGLUM
2.1. |
Íþróttanefndir ÍF sjá um að semja eða uppfæra leikreglur í viðkomandi íþróttagrein. Leikreglnabreytingar þurfa að hljóta samþykki stjórnar ÍF, til þess að öðlast gildi, einnig þarf að kynna þær aðildarfélögum og gefa þær út einum mánuði fyrir keppnistímabil íþróttagreinarinnar. Komi upp ágreiningur varðandi túlkunaratriði á leikreglum skal íþróttanefnd íþróttagreinarinnar skera úr um ágreininginn. | |
3.0. ALDURSFLOKKAR
3.1. |
Vísað til leikreglna hverrar íþróttagreinar. |
3.2. |
Stjórn ÍF er heimilt að láta keppa í sérstökum flokkum unglinga og öðlinga (aldraðra ). | |
4.0. VERÐLAUN
4.1. |
Íslandsmeistari er sá sem bestum árangri nær í viðkomandi íþróttagrein og/eða flokki á Íslandsmóti. Á Íslandsmótum skal veita þrenn verðlaun: Gull fyrir fyrsta sæti, silfur fyrir annað sæti og brons fyrir þriðja sæti. |
4.2. |
Aðeins er krýndur Íslandsmeistari þar sem minnst þrír keppendur eru skráðir til leiks í viðkomandi flokki. Sama gildir um liðakeppni. Þar verða a.m.k. þrjú lið að vera skráð til leiks.
Í frjálsum íþróttum skal krýna Íslandsmeistara og veita verðlaun þó ekki sé nema einn keppandi í 1./efsta flokki. |
4.3. |
Íþróttasamband Fatlaðra útvegar öll verðlaun á Íslandsmót. | |
5.0. MET
5.1. |
Skrá skal Íslandsmet í eftirtöldum greinum.: Sundi, frjálsum íþróttum, bogfimi og lyftingum. Til þess að Íslandsmet sé viðurkennt verður eftirfarandi að vera til staðar.:
a) Sá sem setur Íslandsmet verður að vera íslenskur ríkisborgari og keppa fyrir félag sem er aðili að Í.S.Í. Í þeim íþróttagreinum, sem þess er krafist, á að hafa gilt keppniskort sem staðfestir úrskurð læknanefndar ÍF á fötlunarflokkun methafans.
b) Aðeins er unnt að setja Íslandsmet á þeim mótum sem tilkynnt hafa verið til ÍF með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Einnig er unnt að setja met á mótum sem fram fara á vegum annarra sérsambanda. Þá skal mótið vera auglýst í mótaskrá viðkomandi sérsambands.
c) Starfsmenn, viðurkenndir af ÍF, verða að vera til staðar.
d) Eftir að Íslandsmet hefur verið sett skal tilkynna það á þar til gerðum eyðublöðum. Senda verður þessi eyðublöð til skrifstofu ÍF í síðasta lagi 14 dögum eftir að mótið fór fram.
e) ÍF skal gefa út metaskrá í janúar ár hvert og skal hún send aðildarfélögum. Metaskráin skal birt á heimasíðu ÍF og uppfærð reglulega.
|
5.2. |
ÍF skal útbúa eyðublöð fyrir hverja íþróttagrein og skulu framkvæmdaraðilar móta skrá met á þessi eyðublöð og senda skrifstofu ÍF. | |
6.0. SKYLDUR FRAMKVÆMDARAÐILA ÍSLANDSMÓTA
6.1. |
ÍF skal skipa mótanefnd til að sjá um framkvæmd Íslandsmóts. Íþróttanefndir ÍF bera ábyrgð á framkvæmd keppnishluta Íslandsmóts. Fari fleiri en eitt Íslandsmót, íþróttagreinar, fram samtímis skal skipa leikstjóra til að sjá um framkvæmd hvers móts. Skulu þessir leikstjórar sjá um framkvæmd mótanna. Einnig skulu þeir skera úr um ágreining sem upp kemur á keppnisstað t.d. Varðandi túlkun á leikreglum o.fl. |
6.2. |
Eftirfarandi skal tekið fram þegar boðið er til Íslandsmóts:
a) Hvenær mótið fer fram.
b) Keppnisstaður.
c) Upplýsingar um gistingu og annan kostnað.
d) Upplýsingar um hvenær skráningu á að vera lokið.
e) Upplýsingar um þátttökugjald.
f) Upplýsingar um lágmarksárangur.
|
6.3. |
Ef ÍF telur nauðsyn á að takmarka þátttökufjölda í einhverja íþróttagrein getur sambandið sett lágmarksárangur til þátttöku á Íslandsmót. Í þeim greinum sem ekki er unnt að setja lágmarksárangur t.d. boccia og borðtennis getur ÍF ákveðið hámarksfjölda keppenda frá hverju félagi. Ef það er gert skal tilkynna það um leið og mótið er auglýst. |
6.4. |
Boð um þátttöku á Íslandsmót skal senda til aðildarfélaga ÍF tveimur mánuðum fyrir fyrsta keppnisdag. |
6.5. |
Falli flokkur niður vegna ónógrar þátttöku skal það tilkynnt til viðkomandi félags. | |
7.0. TILKYNNINGAR
7.1. |
Tilkynna skal þátttöku á Íslandsmót einum mánuði fyrir fyrsta keppnisdag, eða eftir því sem tilkynnt er, við boðun ÍF á Íslandsmótið. |
7.2. |
Fjórtán dögum fyrir fyrsta keppnisdag skal ÍF senda aðildarfélögum sínum skrá yfir allar skráningar sem borist hafa á Íslandsmótið, eða eftir því sem tilkynnt er, við boðun ÍF á Íslandsmótið. | |
8.0. LÆKNAKORT
|
Allir keppendur á Íslandsmóti skulu hafa keppniskort (læknakort) sem fyllt er út af læknaráði ÍF. Á þessum kortum sést í hvaða flokki viðkomandi íþróttamaður er í. | |
9.0. DÓMARAR OG STARFSMENN
|
Leitast skal eftir að dómarar og aðrir starfsmenn sem starfa á Íslandsmótum séu eins vel og kostur er í stakk búnir til að sinna þessu verkefni. Í því skyni skal ÍF halda dómaranámskeið a.m.k. einu sinni á ári ef næg þátttaka fæst. | |
10.0. FLOKKASKIPTING
|
Vísað er til leikreglna hverrar íþróttagreinar. | |
11.0. FÉLAGASKIPTI
|
Þeir íþróttamenn sem keppt hafa á mótum ÍF, á Íslandi, skulu tilkynna félagaskipti til skrifstofu ÍF á þar til gerðum eyðublöðum og greiða félagaskiptagjald. Til að félagaskiptin teljist lögleg þarf formaður þess félags er íþróttamaðurinn hverfur frá að staðfesta með undirskrift sinni og stimpli félags að íþróttamaðurinn sé skuldlaus félaginu. Sé tilkynningin ekki útfyllt í samræmi við ofanskráð, tilkynnir ÍF félaginu sem íþróttamaðurinn óskar eftir að ganga úr um félagaskiptin. Svari félagið ekki innan 30 daga, teljast félagaskiptin lögleg. ÍF staðfestir félagaskiptin á tölvupósti og frá hvaða tíma keppandi telst löglegur með nýja félaginu. Félagaskipti geta farið fram hvenær sem er á keppnistímabilinu. Aðeins er þó heimilt að skipta um félag einu sinni á ári í hverri íþróttagrein. Greiðsla til Íþróttasambands fatlaðra fyrir félagaskipti skal vera kr. 5000,-
| |
12.0. MÓTMÆLI
12.1 |
Aðeins liðsstjóri eða fulltrúi hans geta borið fram mótmæli. Mótmælin skulu vera skrifleg og skal þeim fylgja tryggingargreiðsla sem íþróttanefndir (eða íþróttaráð) ákvarða við upphaf keppnistímabils. Tilkynna skal sambandsaðilum um upphæð gjaldsins þegar það liggur fyrir.
Tryggingarféð er endurgreitt ef mótmælin eru tekin til greina. |
12.2 |
Mótmæli geta verið þrenns konar:
a) Gegn dómsúrskurðum. Ef ákvörðun dómara er mótmælt skulu leikstjórar skera úr um ágreininginn.
b) Gegn flokkaskiptingu. Mótmæli gegn flokkaskiptingu skulu hafa borist til læknaráðs ÍF í síðasta lagi fjórum dögum fyrir fyrsta keppnisdag.
Úrskurði læknaráðs er ekki unnt að áfrýja.
c) Vegna ósæmilegrar hegðunar. Mótsstjórn er heimilt að vísa keppanda af móti ef á hann sannast ósæmileg hegðun. Málið sent aganefnd ÍF.
| |
TILKYNNING UM FÉLAGASKIPTI (WORD EYÐYBLAÐ) |