Miðvikudagur 6. ágúst 2014 08:14

Tvö ný Íslandsmet í undanrásum morgunsins


Allir fjórir íslensku sundmennirnir tóku þátt í undanrásum í morgun á Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fer í Eindhoven í Hollandi. Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, og Kolbrún Alda Stefánsdóttir, Fjörður/SH, settu báðar ný Íslandsmet.

Thelma Björg Björnsdóttir komst í úrslit í 50m skriðsundi á EM fatlaðra er hún hafnaði í 6. sæti á nýju Íslandsmeti, 40,32 sek. Úrslitin fara fram kl. 17:53 að staðartíma í Eindhoven eða kl. 15:53 að íslenskum tíma.

Jón Margeir Sverrisson, Fjölnir, varð fjórði inn í úrslit í 100m bringusundi S14 á tímanum 1:15,19 mín. en Íslandsmet hans í greininni er 1:13,91 mín. Úrslit greinarinnar fara fram kl. 18:24 að staðartíma eða kl. 16:24 að íslenskum tíma.

Þær Kolbrún Alda Stefánsdóttir og Aníta Ósk Hrafnsdóttir, Fjörður/Breiðablik, syntu báðar í undanrásum í 100m bringusundi S14 kvenna. Eins og áður greinir setti Kolbrún nýtt Íslandsmet á tímanum 1:25,24 mín og var sjöunda inn í úrslit en Aníta synti á 1:29,84 mín. og komst ekki í úrslit að þessu sinni.

Mynd/ Sverrir Gíslason - Aníta, Thelma og Kolbrún við setningarathöfn Evrópumeistaramótsins í Hollandi.

Til baka