Miðvikudagur 16. september 2015 18:16

Íþróttir fatlaðra borga sig!


Í „Handicapidræt“, tímariti Íþróttasambands fatlaðra í Danmörku, birtist á dögunum afar áhugaverð grein um gildi íþrótta fatlaðra. Greinin sem ber yfirskriftina „Íþróttir fatlaðra borga sig“ er unnin út frá sænskri rannsókn. Íþróttassamband fatlaðra hefur fengið góðfúslegt leyfi til að þýða brot úr greininni hér neðanmáls

Við höfum alltaf búið við þann skilning að íþróttir séu hollar, að hópandinn í íþróttaheiminum hjálpi til við að tengja fólk og eyða því sem gerir okkur „ólík”. Þess þá heldur vitum við að iðkun íþrótta og hreyfing almennt stuðlar að því að vinna gegn ýmsum kvillum sem annars myndu kosta samfélagið gríðarlega fjármuni.

Í nýútgefinni könnun, sem gerð var af vísindamönnum í Malmö, kemur fram ný nálgun með beinni tilvísun í íþróttir fatlaðra. Könnunin sýnir muninn á þeim sem iðka líkamsrækt (æfa) og þeim sem ekki stunda reglubundna hreyfingu. Munurinn þar á milli er m.a. mældur í fjármagni, þ.e. hvað hver einstaklingur kostar samfélagið miðað við hvort hann stundi íþróttir/ líkamsrækt eður ei. Könnunin er byggð á 250 spurningalistum, sem voru fylltir út af annars vegar 125 einstaklingum sem á einn eða annan hátt voru þátttakendur í íþróttum fyrir fatlaða og 125 einstaklingum sem ekki lögðu stund á íþróttir eða aðra heilsueflingu.

Niðurstöðurnar sýna ótvírætt að hreyfing borgar sig, einnig þegar opinber kostnaður er tekinn inn í breytuna! Á sama tíma gerir það einstaklinginn meira sjálfbjarga og eykur sjálfsálit og sjálfstraust hans.

Nokkrar niðurstöður sem könnunin sýnir fram á: Meðal þeirra sem iðkuðu íþróttir voru 79% í vinnu en aðeins 59% voru í vinnu af þeim sem ekki stunduðu íþróttir. Tölurnar voru 56% gegn 30% hjá þeim sem unnu fulla vinnu. 23% af þeim sem iðka íþróttir finna fyrir verkjum daglega en 33% þeirra sem stunda ekki íþróttir, einnig er munur á notkun verkjalyfja, 12% á móti 33%. Not fyrir aðstoðarfólk er 25% hjá þeim sem iðka íþróttir á meðan 41% þeirra sem ekki iðka íþróttir þurfa á aðstoðarmanni að halda. Einnig finna 85% þeirra sem iðka íþróttir fyrir meiri lífsgæðum á móti 66% þeirra sem ekki iðka íþróttir.

Niðurstöðurnar í heild sinni sýna fram á að aukin íþróttaiðkun fatlaðra dregur úr kostnaði hins opinbera; minnkar útgjöld vegna aðstoðarfólks og lækkar lyfjakostnað ásamt því að auka lífsgæði þeirra sem íþróttir stunda samanborið við þá sem það ekki gera.

Kannanirnar sýna að hið opinbera sparar u.þ.b. 240 þúsund danskar krónur, tæpar fimm milljónir íslenskra króna, á mann á ári. (Greinina má finna í heild sinni á www.dhif.dk)

Sparnaðurinn er því u.þ.b. 1,2 milljónir danskra króna, um 24 milljónir íslenskra króna, á fimm ára tímabili á mann. Í greininni eru niðurstöðurnar kallaðar „mjög gott viðskiptamódel“ og því óhætt að segja að hér sé á ferðinni mikill gróði af lítilli fjárfestingu.

Þetta eru virkilega áhugaverðar niðurstöður sem nú hafa verið staðfestar í Svíþjóð. Óskandi væri að vísindamenn og yfirvöld gerðu sambærilega könnun um íþróttir fatlaðra hér á landi.

(Grein úr 1. tbl. Hvata 2015)

Til baka