Miðvikudagur 29. apríl 2009 10:31

Átta fatlaðir skíðamenn á Andrésar Andar leikunum

Íþróttasamband Fatlaðra fagnar því að á Andrésar Andar leikunum á Akureyri 2009 kepptu fötluð börn og unglingar á skíðum og skíðasleðum. Sérstakur flokkur, "stjörnuflokkur" var settur upp fyrir þennan hóp. Alls átta mættu til leiks og stóðu sig öll mjög vel. Þeir sem eru hreyfihamlaðir kepptu á sérstökum skíðasleðum sem sérhannaðir eru fyrir hreyfihamlað skíðafólk.  
 
Íþróttasamband Fatlaðra og Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri hafa byggt upp samstarf frá árinu 2000 í þeim tilgangi að efla þátttöku fatlaðra í vetraríþróttum. Samstarfsaðilar hafa verið frá Challenge Aspen og Winter Park í Colorado.  Haldin hafa verið námskeið í Hlíðarfjalli þar sem fólk hefur komið saman víða af landinu. Síðast var haldið námskeið ÍF, VMÍ og Winter Park í febrúar 2009 og var þátttaka mjög góð.
 
Skíðafélag Akureyrar, Undirbúningsnefnd Andrésar Andar leikanna 2009, starfsfólk í Hlíðarfjalli og aðrir þeir sem aðstoðuðu við undirbúning og framkvæmd þessa verkefnis fá innilegar þakkir frá Íþróttasambandi Fatlaðra. Sérstakar þakkir fær Hermína Gunnþórsdóttir, móðir Breka Arnarssonar, skíðamanns en hún tók að sér hlutverk "sendiherra" foreldra fyrir ÍF og hefur reynst mikilvægur liðsmaður í kynningarstarfinu.

Nánar...

Til baka