Bikarmót Íþróttasambands fatlaðra í sundi fer fram á Akureyri laugardaginn 13. júní þar sem fjögur aðildarfélög ÍF eru skráð til leiks en þau eru heimamenn í Óðni, bikarmeistarar 2008 frá Firði, Ösp og ÍFR. Alls verða 60 keppendur á mótinu sem fram fer í Akureyrarlaug sem er 25m. útilaug.
Ingi Þór Einarsson er formaður sundnefndar Íþróttasambands fatlaðra og á hann von á jöfnu og spennandi móti um helgina.
,,Fjörður vann þetta í fyrra og er sigurstranglegur í ár en hafa engu að síður misst sterka sundmenn á borð við Karen Gísladóttur, Huldu Hrönn og svo er Skúli meiddur svo það eru stórir póstar fjarverandi í Firði. Þetta verður annars virkilega spennandi keppni,“ sagði Ingi Þór sem að sjálfsögðu mun fylgjast grannt með gangi mála um helgina enda fjöldi sundmanna úr landsliðsbúðum ÍF að keppa á mótinu en öll stefna þau á þátttöku í Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Laugardal í október á þessu ári.
Mynd: Ingi Þór Einarsson formaður sundnefndar ÍF á von á spennandi keppni um helgina.