Laugardagur 9. mars 2013 11:26

Sambandsþing ÍF hafið á Radisson Blu

Sextánda  Sambandsþing Íþróttasambands fatlaðra er hafið á Radisson Blu Hóteli Sögu í Reykjavík. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF setti þingið í morgun að viðstöddu fjölmenni.

Sundkonan Íva Marín Adrichem lék fyrir gesti við setninguna á píanó og söng lagið Imagine eftir John Lennon. Íva æfir sund hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík og er blind.

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands var viðstaddur setningu þingsins sem og Frú Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og þá voru Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra einnig viðstaddir.

Við þingsetninguna voru afhent heiðursmerki sambandsins sem og ÍSÍ. Anna Karólína Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Special Olympics og fræðslu- og útbreiðslusviði ÍF hlaut gullmerki sambandsins fyrir sín störf hjá sambandinu.

Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF afhenti einnig Katrínu Jakobsdóttur og Guðbjarti Hannessyni gullmerki ÍF fyrir þeirra störf og velvilja í garð ÍF. Hafsteinn Pálsson formaður almenningsíþróttasviðs ÍSÍ og fundarstjóri á þinginu bað fyrir kveðjum frá forystu ÍSÍ og afhenti tvö gullmerki ÍSÍ en þau hlutu Jósep Sigurjónsson formaður Íþróttafélagsins Akurs á Akureyri og Haukur Þorsteinsson formaður Íþróttafélagsins Eikar á Akureyri.

Efri mynd/ Frá vinstri Hafsteinn Pálsson formaður Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, Jósep Sigurjónsson formaður Akurs og Haukur Þorsteinsson formaður Eikar.
Neðri mynd/ Sveinn Áki Lúðvíksson nælir gullmerki ÍF í Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur

Til baka