[Fréttir 2010]  [Fréttir 2009]  [Fréttir 2008]  [Fréttir 2007]  [Fréttir 2006]  [Fréttir 2005]  [Fréttir 2004]  [Fréttir 2003]  [Fréttir 2002] 

Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 30. desember 2010 14:16
Æfingabúðir landsliðs ÍF í sundi og Nýárssundmótið

Áður en kemur að sjálfu Nýárssundmóti ÍF sunnudaginn 9. janúar 2011 mun Sundnefnd ÍF standa að æfingabúðum fyrir landslið ÍF í sundi. Dagskrá æfingabúðanna er sem hér segir:

8. jan: Laugardagsmorgun                        8:15 – 10:15        Bara eldri krakkarnir sem keppa ekki á mótinu

8. jan: Laugardagseftirmiðdagur            16:00 -18:00       Allir krakkarnir, bara létt upphitun og tækni

9. jan: Sunnudagsmorgun                       10:30 – 12:30     Bara eldri krakkarnir sem keppa ekki á mótinu

Fyrirlestur, Klemens Sæmundsson næringarfræðingur
Sunnudagseftirmiðdagur            13:00 – 14:00    
Í veitingasalnum á 2. hæð í Laugardalslaug

Klemens Sæmundsson næringarfræðingar ætlar að vera með fyrirlestur fyrir foreldra.  Fyrirlesturinn er opinn öllum foreldrum en ætlast er til að foreldrar barna í landsliðinu sjái sér fært um að mæta.  Fyrirlesturinn verður uppi í fundaraðstöðunni í lauginni.

Þá minnum við á að síðasti skiladagur fyrir skráningu á Nýárssundmótið í excel skjölum er í dag en síðasti skiladagur skráninga á Hy-Tek formi er 3. janúar. Skráningar sendist á if@isisport.is og við minnum á að mótið er fyrir fötluð börn og ungmenni 17 ára og yngri.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 24. desember 2010 16:05
Gleðileg jól
 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 22. desember 2010 16:10
Nýárssundmót fatlaðra barna og unglinga 9. janúar 2011

Sunnudaginn 9. janúar 2011 mun Nýárssundmót fatlaðra barna og unglinga fara fram í innilauginni í Laugardal. Upphitun hefst kl. 14:00 og sjálf keppnin kl. 15:00.

Skráningargögn hafa þegar verið send út til aðildarfélaga ÍF og ber að skila þeim 30. desember (excel) og 3. janúar (Hy-Tek).

Mótið er fyrir þá sem eru 17 ára á árinu 2011 og yngri.

Sigurvegarar á Nýárssundmótinu frá árinu 2000:

2010: Vilhelm Hafþórsson - Óðinn
2009: Jón Margeir Sverrisson - Ösp
2008: Karen Gísladóttir - Fjörður
2007: Karen Gísladóttir - Fjörður
2006: Hulda H. Agnarsdóttir - Fjörður
2005: Guðrún Lilja Sigurðardóttir - ÍFR
2004: Guðrún Lilja Sigurðardóttir – SH/ÍFR
2003: Guðrún Lilja Sigurðardóttir - SH
2002: Jóna Dagbjört Pétursdóttir – ÍFR
2001: Gunnar Örn Ólafsson – Ösp
2000: Gunnar Örn Ólafsson – Ösp

Ljósmynd/ Sigurvegarar Nýárssundmótsins árið 2010

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 9. desember 2010 17:33
Erna og Jón Margeir Íþróttafólk ÍF 2010

Erna Friðriksdóttir og Jón Margeir Sverrisson voru í dag útnefnd Íþróttakona og Íþróttamaður Íþróttasambands fatlaðra árið 2010 við hátíðlega athöfn á Radisson SAS Hóteli Sögu. Jón Margeir er 18 ára sundmaður úr Ösp/Fjölni en Erna er 23 ára gömul skíðakona frá skíðafélaginu í Stafdal.

Jón Margeir hefur farið mikinn á árinu 2010 og sett alls 19 Íslandsmet í 11 greinum, 16 met í 25m. laug og 3 met í 50m. laug. Erna gat því miður ekki verið viðstödd viðburðinn þar sem hún er nú við æfingar í Winter Park í Colorado í Bandaríkjunum. Hún varð fyrr á þessu ári fyrsta íslenska konan til þess að öðlast þátttökurétt á Vetrarólympíumóti fatlaðra. Það var faðir hennar Friðrik Guðmundsson sem tók við verðlaununum í dag fyrir hönd Ernu.

Jón Margeir syndir fyrir Ösp/Fjölni, Ösp á mótum fatlaðra en Fjölni á mótum ófatlaðra. Þjálfari Jóns hjá Fjölni er Vadim Forafonov en þjálfari Ernu er Scott Olson.

Sjá nánar árangur Ernu.

Sjá nánar árangur Jóns Margeirs.

Íþróttasamband fatlaðra óskar Jóni og Ernu innilega til hamingju með útnefninguna.

Ljósmynd/ Jón Margeir Íþróttamaður ársins úr röðum fatlaðra t.h. en t.v. á myndinni er Friðrik Guðmundsson faðir Ernu. Á neðri myndinni er svo Erna Friðriksdóttir.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 7. desember 2010 17:27
Sveinn Áki handhafi Barnamenningarverðlaunanna 2010

Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands fatlaðra hlaut í dag Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna árið 2010 fyrir öflugt starf í þágu barna og ungmenna. Verðlaunaféð, tvær milljónir króna, verður nýtt til að efla enn frekar starfsemi ÍF. Þá voru í dag veittir fleiri styrkir úr Velferðarsjóðnum og námu þeir alls sjö milljónum króna.

Það var Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sem afhenti Sveini Áka verðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó í dag. Frá því að Íslensk erfðagreining stofnaði Velferðarsjóð barna fyrir tíu árum hefur verið úthlutað úr honum yfir 600 milljónum króna.

Ljósmynd/ Sveinn Áki ásamt stjórn Velferðarsjóðs barna.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 6. desember 2010 11:58
Skrifstofa ÍF lokuð eftir hádegi í dag

Skrifstofum Íþróttasambands fatlaðra verður lokað frá hádegi í dag vegna útfarar Erlings Þ. Jóhannssonar. Útförin verður frá Bústaðakirkju og hefst kl. 13:00.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 3. desember 2010 15:44
Ísland sendi tvo keppendur á fyrstu Evrópuleika SO í lishlaupi á skautum

Fyrstu Evrópuleikar Special Olympics í listhlaupi á skautum voru haldnir í  í Pétursborg í Rússlandi dagana 30. nóvember til 3. desember. Skautafélagið Björninn sendi 2 keppendur ásamt þjálfurum á leikana. Það voru  Katrín Guðrún Tryggvadóttir og Þórdís Erlingsdóttir sem kepptu á leikunum en þjálfarar voru Helga Olsen og Berglind Rós Einarsdóttir sem jafnframt sótti dómaranámskeið í tengslum við leikana.

Á þessum fyrstu Evrópuleikum í greininni voru 7 þátttökulönd,  Rússland, Þýskaland, Finnland, Austurrík og Ísland.  Keppendur voru 40 en keppt var í mismunandi styrkleikaflokki.   Íslensku keppendurnir kepptu í byrjendaflokki en keppt var í skylduæfingum og frjálsum æfingum og úrslit voru í samræmi við samanlagðan árangur.

Eftir skylduæfingar var Katrín Guðún í öðru sæti og Þórdís í fjórða sæti en eftir frjálsu æfingarnar skilaði frammistaða þeirra því að Katrín Guðrún varð  í fyrsta sæti og Þórdís í öðru sæti.   Allir fá verðlaun á leikum Special Olympics og keppnisform er gjörólíkt því sem gerist á hefðbundnum íþróttamótum en frammistaðan var glæsileg.

Það er mjög ánægjulegt að íslenskir keppendur séu í þessum brautryðjendahópi en greinin er mjög  mjög krefjandi og reynir mjög á samhæfingu og einbeitingu keppenda.    Skautafélagið Björninn á heiður skilinn fyrir að vinna með ÍF að því að efla þátttöku fatlaðra í fleiri íþróttagreinum en skautaíþróttin hefur lengi verið mjög vinsæl meðal barna og unglinga á Íslandi.   Fötluð  börn og ungmenni og einstaklingar með sérþarfir hafa ekki verið virk nema í fáum íþróttagreinum þó möguleikar til þátttöku í flestum greinum ættu að vera til staðar, séu þjálfarar tilbúnir að aðlaga æfingar í samræmi við þarfir hvers og eins.

Skautafélagið Björninn hefur staðið fyrir æfingum fyrir einstaklinga með sérþarfir frá árinu 2005. Íþróttasamband Fatlaðra sendi 2  keppendur til þátttöku í listhlaupi á skautum á alþjóðaleika Special Olympics í Japan 2005 og leitaði þá aðstoðar Helgu Olsen skautaþjálfari sem tók að sér að undirbúa keppendur. Þessi grein var á þeim tíma ekki talin henta þessum hópi og margir höfðu ekki trú á að þetta verkefni gengi upp.  Helga Olsen sýndi einstakan áhuga á að fylgja málum eftir og náði frábærum árangri í þjálfun einstaklinganna vegna leikanna. Frá þeim tíma hefur hún unnið markvisst að því að efla þátttöku einstaklinga með sérþarfir í skautaíþróttinni og hefur þjálfað einstaklinga með sérþarfir hjá Skautafélaginu Birninum.   Íþróttasamband Fatlaðra sem er umsjónaraðili Special Olympics á Íslandi hefur hvatt aðildarfélög sín og almenn íþróttafélög að taka þátt í verkefnum sem Special Olympics samtökin standa fyrir í einstaka greinum. Þegar kynnt var tækifæri til þátttöku í Evrópuleikunum í Rússlandi sýndi Skautafélagið Björninn strax áhuga á málinu og hefur  alfarið séð um skipulag og undirbúning þessa verkefnis í samstarfi við ÍF.

Íslenski hópurinn lenti í ýmsum ævintýrum, taska með skautabúningi og skautum varð eftir í Stokkhólmi fyrsta keppnisdaginn en leyst var úr þeim málum.  Verkfall Finnair breytti brottfararáætlun og tungumálaörðugleikar gerðu verkefnin skrautlegri en ferðin var ævintýri sem án efa lifir lengi í minningunni.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 30. nóvember 2010 13:11
Erlingur Þ. Jóhannsson fallinn frá

Erlingur Þ. Jóhannsson fallinn fráGóður félagi okkar og vinur og einn frumherja íþrótta fatlaðra á Íslandi, Erlingur Þ. Jóhannsson lést laugardaginn 27. nóvember sl. langt um aldur fram.
Erlingur, sem var kennari að mennt, starfaði lengst af sem Íþróttafulltrúi Reykjavíkurborgar.  Sem íþróttamaður stundaði Erlingur sund og sundknattleik hjá KR en eftir að hann hætti keppni tók hann til við þjálfun sundfólks auk þess sem hann var formaður Sundsambands Íslands um hríð.
Erlingur hóf afskipti af þjálfun fatlaðra sundmanna 1978 og var upp frá því vakinn og sofinn yfir velferð og velgengni fatlaðra íþróttamanna.  Sem aðalsundþjáfari Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík (ÍFR) og sem  landsliðsþjálfari ÍF í sundi átti hann stóran þátt í að byggja upp sundkunnáttu fatlaðra íþróttamanna.  Þannig er óhætt að fullyrða að hann hafi átt þátt í að móta allt besta sundfólk Íslands úr röðum fatlaðra, íþróttafólk sem borið hefur hróður landsins víða um heim.
Eftir að Erlingur hætti sem landsliðsþjálfari ÍF í sundi 1996 tók hann sæti í stjórn ÍF og sat í stjórn sambandsins til ársins 2009 er hann steig til hliðar. 

Erlings Þ. Jóhannssonar verður þó fyrst og síðast minnst fyrir að vera drengur góður og vera maður með stórt hjarta sem ávallt var hægt að leita til.  Skrápurinn virtist sundum hrjúfur en fyrir innan var einstakt ljúfmenni sem vildi veg allra sem mestan.  Heimsóknum Erlings á skrifstofu ÍF, ráðleggingum hans, liðveislu og gamansemi verður sárt saknað.

Þakkir og söknuður eru efst í huga þegar þessi góði félagi og vinur er fallinn frá.  Blessuð sé minning Erlings Þ. Jóhannssonar.

Íþróttasamband fatlaðra sendir eftirlifandi eiginkonu hans Hrafnhildi Hámundardóttur og fjölskyldu samúðarkveðjur.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 29. nóvember 2010 14:45
Ragney 10. í 50 m skriðsundi

Í gær, sunnudaginn 28. nóvember, lauk Ragney Líf Stefánsdóttur keppni sinni á Evrópumeistaramóti ófatlaðra í 25 m laug með því að keppa í undanrásum í 50 m skriðsundi. Hafnaði Ragney í 10. sæti á tímanum 34.84 sek en best á hún 34.44 sem er einnig Íslandsmetið í greininni.
Eins og áður hefur komið fram var keppendum í flokki S10, sem er minnsta fötlun í flokki hreyfihamlaðra, var boðið að taka þátt Evrópumeistaramóti ófatlaðra að þessu sinni.

Við óskum Ragney Líf til hamingju með þátttökuna en án efa má vænta mikils af þessari ungu stúlku í framtíðinni.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 28. nóvember 2010 17:11
Fjölmörg met á ÍM 25 í Laugardal: Thelma setti fimm!

Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í sundi í 25m. laug lauk í innilauginni í Laugardal í dag. Alls voru 15 Íslandsmet sett á mótinu, sjö í gær og átta í dag á síðari keppnisdegi mótsins þar sem Thelma B. Björnsdóttir, ÍFR, var í fantaformi og setti alls fimm Íslandsmet á mótinu í flokki S6. Flokkar S1-S10 eru flokkar hreyfihamlaðra þar sem S1 er mesta fötlun og S10 minnsta fötlun. Flokkar S11-S13 eru flokkar blindra og sjónskertra þar sem S11 er flokkur alblindra en flokkur S14 er flokkur þroskahamlaðra.

Íslandsmet á ÍM 25 2010:

Laugardagur:
Hjörtur Már Ingvarsson, ÍFR – 50m skriðsund – 46,17 sek (flokkur S5)
Thelma B. Björnsdóttir, ÍFR – 50m skriðstun – 47,17 sek (flokkur S6)
Vaka R. Þórsdóttir, Fjörður – 50m baksund – 1:07,49mín (flokkur S11)
Jón Margeir Sverrisson, Ösp/Fjölnir – 400m skriðsund – 4:27,82 (flokkur S14)
Thelma B. Björnsdóttir, ÍFR – 200m skriðsund – 3.49,56 mín (flokkur S6)
Thelma B. Björnsdóttir, ÍFR – 400m skriðsund – 7:37,88 mín (flokkur S6)
Vignir G. Hauksson, ÍFR – 100m bringusund – 2.39,00 mín (flokkur S6)

Sunnudagur:
Thelma B. Björnsdóttir, ÍFR – 100m skriðstund – 1.44,35 mín (flokkur S6)
Hjörtur Már Ingvarsson, ÍFR – 100m skriðsund – 1.40,34 mín (flokkur S5)
Eyþór Þrastarson, KR/ÍFR – 100m skriðsund – 1:06,86 mín (flokkur S11)
Sonja Sigurðardóttir, ÍFR – 50m flugsund – 1.21,11 mín (flokkur S5)
Vignir G. Hauksson, ÍFR – 50m bringusund – 1:11,67 mín (flokkur SB5)
Pálmi Guðlaugsson, Fjörður – 100m baksund – 1:38,13mín (flokkur S7)
Thelma B. Björnsdóttir, ÍFR – 200m skriðsund – 3:45,67 mín (flokkur S6)
Jón Margeir Sverrisson, ÍFR – 200m skriðsund – 2:07,47 mín (flokkur S14)

Mótið gekk vel fyrir sig og vill Íþróttasamband fatlaðra koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra er komu að mótinu.

Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Thelma B. Björnsdóttir setti fimm Íslandsmet um helgina.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 27. nóvember 2010 19:46
Sjö Íslandsmet á fyrri keppnisdegi ÍM 25

Fyrri keppnisdagurinn á Íslandsmóti ÍF í sundi í 25m laug fór fram í innilauginni í Laugardal í dag. Alls voru sjö Íslandsmet sett í dag þar sem Thelma B. Björnsdóttir, ÍFR, setti þrjú met í 50m skriðsundi, 200m skriðsundi og 400m skriðsundi.

Íslandsmet setti í Laugardalslaug í dag:

Hjörtur Már Ingvarsson, ÍFR – 50m skriðsund – 46,17 sek (flokkur S5)
Thelma B. Björnsdóttir, ÍFR – 50m skriðstun – 47,17 sek (flokkur S6)
Vaka R. Þórsdóttir, Fjörður – 50m baksund – 1:07,49mín (flokkur S11)
Jón Margeir Sverrisson, Ösp/Fjölnir – 400m skriðsund – 4:27,82 (flokkur S14)
Thelma B. Björnsdóttir, ÍFR – 200m skriðsund – 3.49,56 mín (flokkur S6)
Thelma B. Björnsdóttir, ÍFR – 400m skriðsund – 7:37,88 mín (flokkur S6)
Vignir G. Hauksson, ÍFR – 100m baksund – 2.39,00 mín (flokkur S6)

Mótið heldur áfram í innilauginni í Laugardal á morgun, upphitun hefst kl. 09:00 en keppni kl. 10:00.

Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Frá mótinu í dag

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 26. nóvember 2010 16:51
Ragney tíunda í 100m skriðsundi

Ragney Líf Stefánsdóttir keppti í 100m skriðsundi á Evrópumeistaramóti ófatlaðra í 25m laug í dag og hafnaði í 10. sæti í undanrásum á tímanum 1:20,36 mín. en hennar besti tími í 100m skriðsundi í 25m laug er 1.18,63mín. Mótið fer fram í Eindhoven í Hollandi.

Ragney Líf syndir fyrir Ívar á Ísafirði en sú nýbreytni var á EM ófatlaðra að keppendum í flokki S10 sem er minnsta fötlun í flokki hreyfihamlaðra var boðið að taka þátt á mótinu.

Þetta er í fyrsta sinn sem fatlaðir keppa á EM ófatlaðra en Sundsamband Evrópu bauð 32 keppendum úr röðum fatlaðra til að keppa í S10-flokknum á mótinu í Eindhoven.

Ragney Líf mun einnig keppa í 50 m skriðsundi á sunnudaginn.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 25. nóvember 2010 10:55
Félagar í framboði

Einstaklingar sem tengjast Íþróttasambandi fatlaðra koma víða við. Nú hefur Þórður Árni Hjaltested, gjaldkeri stjórnar ÍF og stjórnarmaður til margra ára, tilkynnt framboð sitt til kjörs formanns í Kennarasambandi Íslands. Þar etur hann kappi við Elnu Katrínu Jónsdóttur. Kynningu á frambjóðendum fá finna á heimasíðu Kennarasambandsins www.ki.is

Þá er Ludvig Guðmundsson, formaður læknaráðs ÍF einn þeirra fjölmörgu sem í kjöri eru til Stjórnlagaþings www.stjornlagathing.is

Það er gaman að vita til þess að íþróttasamtök fatlaðra eigi einstaklinga sem eru í kjöri til jafn viðamikilla embætta og þessara en eins og ávallt segjum við - gangi öllum frambjóðendum vel og megi sá hæfasti sigra.


 

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 24. nóvember 2010 19:24
Körfuboltavika Special Olympics: FIBA Europe og Euroleague koma myndarlega að málum

FIBA Europe og meistaradeild Evrópu í körfuknattleik (Euroleague) hafa bæði, á nýjan leik, ákveðið að taka þátt í körfuboltaviku Special Olympics sem verður dagana 27. nóvember til 5. desember næstkomandi. Hugmyndin að körfuboltaviku Special Olympics í Evrópu er að allir í álfunni taki höndum saman í þeirri viðleitni að fjölga tækifærum þroskahamlaðra einstaklinga innan körfuboltans.

Nar Zanolin framkvæmdastjóri FIBA Europe segir í bréfi að samstarf sambandsins við Special Olympics hafi byrjað árið 2004 og síðan þá hafi körfuknattleiksmönnum með þroskahömlun fjölgað úr 13.000 í 53.000! Í ár munu svo 15.000 þroskahamlaðir leikmenn taka þátt í fjölmörgum verkefnum tengdum körfuknattleiksviku Special Olympics víðsvegar um álfuna. Þema vikunnar verður ,,körfuknattleikur fyrir alla” og þá verður einnig leikinn ,,unified basketball” eða sameinaður körfuknattleikur þar sem ófatlaðir munu leika með þroskahömluðum en reynslan sínir að slíkir viðburðir séu vel til þess fallnir að auka hæfni í íþróttinni ásamt því að skapa vinabönd.

Meistaradeild Evrópu mun á næstu tveimur vikum auglýsa körfuboltaviku Special Olympics á 24 leikjum innan sinna raða þar sem leikmenn, þjálfarar og dómarar munu láta til sín taka. Þetta er annað árið í röð sem Meistaradeildin tekur þátt í verkefninu og í ár munu leikmenn klæðast bolum í upphitun tengdum verkefninu og rauðum reimum sem nú er verið að selja til að vekja enn frekari athygli á verkefninu.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 24. nóvember 2010 10:31
83 keppendur skráðir á ÍM 25

Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í 25m. laug fer fram dagana 27. og 28. nóvember næstkomandi. Mótið verður haldið í innilauginni í Laugardal en 83 keppendur frá níu aðildarfélögum ÍF eru skráðir til leiks.

Laugardagur 27. nóvember
Upphitun hefst klukkan 14:00 og mót 15:00

Sunnudagur 28. nóvember
Upphitun hefst klukkan 09:00 og mót 10:00

Greinaröð mótsins:

Dagur 1. (27. nóvember)
1. grein 50 m frjáls aðferð kk 2. grein 50 m frjáls aðferð kvk
3. grein 50 m baksund kk 4. grein 50 m baksund kvk
5. grein 200 m fjórsund kk 6. grein 200 m fjórsund kvk
7. grein 400 m frjáls aðferð kk 8. grein 400 m frjáls aðferð kk
9. grein 100 m flugsund kk 10. grein 100 m flugsund kvk
11. grein 100 m bringusund kk 12. grein 100 m bringusund kvk
Hlé 10 mínútur
13. grein 4*50 m frjá

Dagur 2 (28. nóvember)
14. grein 100 m frjáls aðferð kvk 15. grein 100 m frjáls aðferð kk
16. grein 50 m flugsund kvk 17. grein 50 m flugsund kk
18. grein 50 m bringusund kvk 19. grein 50 m bringusund kk
20. grein 75 m þrísund kvk 21. grein 75 m þrísund kk
22. grein 100 m fjórsund kvk 23. grein 100 m fjórsund kk
24. grein 100 m baksund kvk 25. grein 100 m baksund kk
26. grein 200 m frjáls aðferð kvk 27. grein 200 m frjáls aðferð kk
Hlé 10 mínútur
28. grein 4*50 m fjórsund

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 18. nóvember 2010 11:49
17 Íslandsmet hjá Jóni í 11 greinum þetta árið

Þrír fatlaðir sundmenn tóku þátt á Íslandsmeistaramóti ófatlaðra í 25m. laug sem fram fór á dögunum. Jón Margeir Sverrisson átti gott mótt þar sem hann bætti Íslandsmetið sitt í 1500 og 800m. skriðsundi. Aðrir sundmenn á mótinu úr röðum fatlaðra voru Guðmundur Hermannsson og Ragnar Ingi Magnússon sem báðir bættu sinn fyrri árangur á mótinu.

Jón synti 1500 metra sundið á 17:46,39 mín. og 800 metrana á 09:26,56 mín. Með þessu bætti hann nokkurra vikna gömul met sín í 800 um rétt tæpar 10 sek. og tæpar 20 í 1500 metrunum, gömlu metin setti hann á Ármannsmótinu nú fyrr í haust. Hann bætti einnig tíma sinn í 50 metra baksundi um nokkur sekúntubrot (00:32,30). Hann var líka í boðsundsveit Fjölnis og náðu þeir í úrslit þrisvar sinnum. Að öðru leiti var hann að synda rétt við sína bestu tíma. Hann hefur nú sett 17 Íslandsmet á árinu í 11 greinum.

Ljósmynd/ Jón Margeir á EM í sundi 2009

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 17. nóvember 2010 16:36
Vel heppnaðar og vel sóttar æfingabúðir í sundi og frjálsum

Um síðastliðna helgi voru haldnar æfingabúðir í frjálsum íþróttum fatlaðra í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Samhliða þeim var  haldið þjálfaranámskeið. Helgina þar á undan fóru fram æfingabúðir hjá sundlandsliði ÍF.

Hópur vaskra íþróttamanna og þjálfara mætti og má með sanni segja að vel hafi tekist til við báðar æfingabúðirnar. Í frjálsum var þetta fyrsti hluti af þremur,  en eftir áramót verður  annar hluti  og þriðji hluti í vor. Íþróttamennirnir æfðu tvisvar  yfir daginn og fengu síðan stutta fyrirlestra um flokkanir og gildi upphitunar. Þjálfarar fengu hugmyndir um  tækniæfingar  fyrir langstökk og stört í spretthlaupum, þeir fengu einnig fyrirlestra um áætlun afreksfólks, greiningar/flokkanir, muninn á  Íslandsleikum Special Olympics  og Íslandsmótum  ÍF.

Á sundbúðunum var æft vel og mikið og sátu iðkendur svo fyrirlestur frá Ólafi Magnússyni framkvæmdastjóra fjármála- og afrekssviðs ÍF, Inga Þór Einarssyni formanni Sundnefndar ÍF og Kristínu Guðmundsdóttur landsliðsþjálfara ÍF í sundi. Líkt og í frjálsum verða einnig fleiri æfingabúðir sundlandsliðsins á komandi mánuðum.

Margir hverjir eru nú komnir á fullt í undirbúningi sínum fyrir stærri verkefni og það stærsta framundan á afrekssviði er Ólympíumót fatlaðra í London árið 2012.

Ljósmynd/ Frjálsíþróttahópurinn tók vel á því í Laugardal um síðustu helgi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 16. nóvember 2010 14:50
Ragney á leið til Hollands: Keppir á EM 25m

Sundkonan Ragney Líf Stefánsdóttir frá Ívari á Ísafirði er á leið til Hollands þar sem hún mun keppa í flokki S10 á Evrópumeistaramóti ófatlaðra í 25m. laug. Ákveðið var að hafa flokk S10 með á mótinu en Ragney mun halda út með hópi frá Sundsambandi Íslands.

Ytra keppir Ragney í 100 og 50 metra skriðsundi en hún heldur út þann 25. nóvember og keppir dagana 26. og 28. nóvember.

Þjálfarar í ferðinni eru:
Arna Þórey Sveinbjörnsdóttir
Kristján Jóhannesson

Sundmenn SSÍ
Hrafn Traustason
Ragnheiður Ragnarsdóttir
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir
Bryndís Rún Hansen

Sundmenn ÍF
Ragney Líf Stefánsdóttir (S10)

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 10. nóvember 2010 16:25
Lyfjamisnotkun og íþróttir

Merki Íþróttasambands ÍslandsMálþing verður haldið þann 23. nóvember 2010 í Háskóla Íslands við Stakkahlíð (salur: Brattur). Málþingið er hluti af námskeiði á vegum 5. árs nema í klínískri lyfjafræði við Háskóla Íslands.

Dagskrá málþingsins.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 9. nóvember 2010 13:44
Aðalfundur Golfsamtaka fatlaðra á Íslandi

Haldinn að Engjavegi 6 þann 28 október 2010-11-08

Fundargerð
Hörður Þorsteinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann fór yfir aðdraganda þess að fundurinn var boðaður og einnig lauslega yfir starfsemi sumarsins. Hann bað svo Ólaf Ragnarsson að koma upp og gera frekari grein fyrir starfseminni á liðnu sumri. Ólafur sagði frá góðri þátttöku á æfingum og mótum og einnig að til stæði að halda úti æfingum í vetur. Jóhann Hjaltason sagði frá því hvernig hann hefði hagað æfingum í sumar og hvernig hann hefði hugsað sér starfið í vetur, planið væri að æfa tækniatriðin vel og reyna svo að spila meira næsta sumar.
Þessu næst var gengið til kosninga í stjórn samtakana en samkvæmt lögum þeirra á ÍF að skipa einn stjórnarmann og GSÍ annan. Iðkendur kjósa svo þriðja stjórnarmanninn og einn til vara sem einnig situr stjórnarfundi.  Ólafur Ragnarsson og Jóhann K. Hjaltason voru tilnefndir í stjórn fyrir hönd ÍF og GSÍ og það kom uppástunga um Atla Jóhann Guðbjörnsson fyrir hönd iðkenda. Áki Friðriksson gaf svo kost á sér sem varamaður. Skoðunarmenn samtakana verða þau Hörður Þorsteinsson og Anna Karólína Vilhjálmsdóttir. Hörður sagði síðan frá því að samtökin ættu einhverja peninga á bók en það væri engin með prókúru á þær og það yrði næsta verk komandi stjórnar að leysa úr því að koma peningamálunum á hreint. Undir liðnum önnur mál kom fram sú ósk að fá að spila meira golf næsta sumar og hugsanlega að samtökin beittu sér fyrir lægri vallargjöldum eða aðild að klúbb/klúbbum fyrir sína félagsmenn.
Annað var ekki gert og var fundi slitið og boðið upp á kaffiveitingar að honum loknum.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 1. nóvember 2010 14:32
11 Íslandsmet á haustmóti Fjölnis

Á Haustmóti Fjölnis um síðustu helgi tóku þátt tólf fatlaðir sundmenn úr röðum Íþróttafélags Fatlaðra í Reykjavík og þrír fatlaðir sundmenn úr röðum Fjölnis. Það dró strax til tíðinda í fyrstu grein mótsins þegar Thelma Björg Björnsdóttir setti Íslandsmet í flokki S-6 í 50.metra skriðsundi á tímanum 49.33 sek.

Stutt var í næsta Íslandsmet sem var 3. grein en þar var á ferðinni Anna Kristín Jensdóttir sem setti met í flokki SB-5, 50 metra bringu á tímanum 1.06.70 mín. Fljótlega birtist þriðja Íslandsmetið sem var í 7.grein en þar var á ferðinni Sonja Sigurðardóttir í flokki S-5 sem var 50 metra flugsund á tímanum 1.22.73 mín. og í lok 1. mótshluta kom fjórða Íslandsmetið í grein 10 sem var 1500 metra skriðsund karla en þar var á ferðinni Pálmi Guðlaugsson í flokki S-7 á tímanum 24.16.63. Þannig lauk 1.mótshluta með fjórum Íslandsmetum.

Laugardagsmorgunin byrjaði vel og þar kom fimmta Íslandsmetið í 13. grein en þar var á ferðinni Anna Kristín Jensdóttir í flokki SB-5, 200.metra bringusund á tímanum 5.03.19 mín. Næsta Íslandsmet kom í 14. grein og þar var á ferðinni Jón Margeir Sverrisson í flokki S-14 í 200 metra bringusundi á tímanum 2.49.49. Sjöunda Íslandsmetið kom í 16.grein og þar var á ferðinni Pálmi Guðlaugsson í flokki S-7. 100.metra baksund á tímanum 1.41.83 mín. Í lok 2.mótshluta kom 8. Íslandametið og þar var á ferðinni Jón Margeir Sverrisson í flokki S-14 í 400 merta fjórsundi á tímanum 5.13.16 mín.

Laugardags eftirmiðdagur byrjaði með 9. Íslandsmetinu sem sett var í 19. grein sem var 100 metra skriðsund en þar var á ferðinni Thelma Björg Björnsdóttir í flokki S-6 á tímanum 1.48.99 mín. Tíunda Íslandsmetið kom í 26.grein sem var 100.metra fjórsund en þar var á ferðinni Marinó Ingi Adólfsson á tímanum 1.58.02 mín. Þannig lauk 3.hluta mótsins og 10 Íslandsmet komin.

Fjórði og síðasti mótshlutinn fór fram á sunnudeginum og þar kom 11. Íslandsmetið sem sett var í 30.grein sem var 400.metra skriðsund og þar var á ferð Jón Margeir Sverrisson í flokki S-14 á tímanum 4.29.35.

Keppt var í opnum flokki allt mótið þannig að fatlaðir keppendur áttu möguleika á að komast á verðlaunapall með ófötluðum í sínum aldursflokkum og það varð rauninn Anna Kristín Jensdóttir vann til silfurs og bronsverðlauna í sínum aldursflokki sem var 15.ára og eldri Alex Árni Jakobsson vann til bronsverðlauna í sínum aldursflokki 15 og eldri. Emil Steinar Björnsson vann til gullverðlauna og Marinó Ingi Adólfsson vann til silfurverðlana í þeirra aldursflokki 13-14 ára.

Mótshaldarar voru mjög ánægðir með aðkomu fatlaðra sundmanna á þessu móti enda mótið auglýst með sundreglum IPC sem er forsenda þáttöku þeirra. Þjálfarar ÍFR og Fjölnis voru mjög ánægðir með heildarárangur sundmanna félaganna enda flestir ungir að árum.

Kveðja
Björn Valdimarsson
Sundnefnd ÍF

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 30. október 2010 09:25
Jóhann úr leik á HM: Riðillinn einfaldlega of sterkur!

Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson er úr leik á Heimsmeistaramótinu í borðtennis í flokki C2. Fyrr í vikunni tók Jóhann þátt í opnum flokki þar sem hann datt út í fyrstu umferð gegn þýskum spilara.

Jóhann var afar óheppinn með riðil að þessu sinni þar sem hann hafnaði með fyrrum Ólympíumeistara frá Kóreu og núverandi Ólympíumeistara frá Frakklandi.

Í fyrstu umferð lék Jóhann gegn Frakkanum Vincent Boury og tapaði 3-0. Frakkinn lék svo gegn Kóreumanninum Kyung Mook Kim og lá sá franski 3-0 svo á brattann var að sækja fyrir Jóhann gegn Kóreumanninum. Svo fór að Kyung Mook Kim hafði betur 3-0 og Jóhann úr leik en hinir tveir komnir áfram.

Jóhann hefur því lokið þátttöku sinni á HM að þessu sinni og er væntanlegur heim til landsins í byrjun nóvembermánaðar.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 28. október 2010 13:05
Jóhann úr leik í opnum flokki

Keppni á heimsmeistaramótinu í borðtennis hófst í Kóreu í gær þar sem Jóhann Rúnar Kristjánsson hóf keppni í opnum flokki. Jóhann keppir í sitjandi flokki C2 og fékk þýskan andstæðing í fyrstu umferð að nafni Thomas Schmidtberger sem er í flokki C3. Skemmst er frá því að segja að Thomas hafði betur 3-0.

,,Thomas er einn sá besti í flokki C3 í dag en Jói spilaði alls ekki illa þó smá hefði vantað upp á að við næðum að stríða honum,“ sagði Helgi Þór Gunnarsson landsliðsþjálfari sem staddur er í Kóreu ásamt Jóhanni.

,,Síðan var dregið í riðla í einliðaleiknum og riðillinn hans Jóa er mjög snúinn og einn sá alversti myndi ég halda svona fyrirfram en hann er með núverandi Ólympíumeistara frá Frakklandi og svo fyrrvernadi Ólympíumeistara frá Sydney sem er frá Kóreu þannig að það er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur,“ sagði Helgi ennfremur en keppni í riðlunum hefst á morgun, föstudag.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 26. október 2010 10:54
Jóhann og Helgi mættir til Kóreu

Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson og landsliðsþjálfari ÍF í borðtennis, Helgi Þór Gunnarsson, eru mættir til Gwangju í Kóreu þar sem heimsmeistaramótið í borðtennis mun fara fram næstu 10 daga.

Eitt af síðustu verkum Jóhanns í undirbúningnum fyrir mótið voru æfingabúðir í Slóveníu sem að sögn Jóhanns komu sér vel. Nú er alvaran tekin við í Kóreu þar sem allir sterkustu spilarar heims eru mættir en Jóhann keppir í sitjandi flokki.

Keppni á mótinu hefst 27. október en opnunarhátíðin fer fram í dag. Á morgun hefst svo sjálf keppnin og þá í opnum flokki, keppni í einstaklingsflokki hefst svo föstudaginn 29. október en þar keppir Jóhann í flokki C2.

Flokkur C1-C5 eru hjólastólaflokkar en flokkar C6-C10 eru standandi flokar.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 14. október 2010 14:20
EDGA minnist Harðar: The Hordur Barddal Trophy

Evrópusamband fatlaðra í golfi, EDGA, hefur ákveðið að nefna verðlaunin, sem þeir veita á Evrópumóti fatlaðra, eftir Herði Barðdal og hafa verðlaunin fengið það formlega nafn "The Hordur Barddal Trophy." Þessi verðlaun voru afhent í fyrsta sinn á Evrópumótinu sem fram fór í Zell am See í Austurríki í síðustu viku.

Þetta er mikill heiður fyrir Hörð, sem var ötull forvígismaður golfíþróttar fatlaðra á Íslandi og gengdi formennsku hjá GSFÍ til dauðadags. Þá var Hörður á meðal fyrstu afreksíþróttamanna landsins í röðum fatlaðra og fyrrum stjórnarmaður hjá Íþróttasambandi fatlaðra. 

Ljósmynd/ Hörður heitinn Barðdal við púttvöllinn í Hraunkoti í Hafnarfirði.

Sjá þessa frétt á www.igolf.is

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 11. október 2010 12:19
Steig upp úr hjólastólnum

Eyþór Bender, nýráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækisins Berkeley Bionics, kynnti á blaðamannafundi í Bandaríkjunum á dögunum sérstakan búnað sem gerir lömuðum kleift að standa upp úr hjólastólnum.

Bandaríska skíðakonan Amanda Boxtel var fengin til að kynna þennan byltingarkennda búnað, en hún lamaðist í skíðaslysi árið 1992 og hefur verið bundin við hjólastól upp frá því. Á fundinum steig hún bókstaflega á svið og gekk um skælbrosandi með hjálp búnaðarins, sem var upphaflega hannaður fyrir hermenn svo þeir gætu borið meiri byrðar.

Boxtel hefur verið í samstarfi við Íþróttasamband fatlaðra og aðstoðað við uppbyggingu vetraríþrótta fatlaðra á Íslandi. Hún hefur komið hingað til lands, haldið fyrirlestra og aðstoðað við skíðanámskeið fyrir fatlaða í Hlíðarfjalli.   

„Þessi manneskja er alveg ótrúleg en hennar markmið hefur alltaf verið að stíga í fæturna á ný,“ segir Anna Karólína Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri fræðslu- og útbreiðslusviðs Íþróttasambands fatlaðra og góð vinkona Boxtel. „Hún er mjög öflug við að verða öðrum að liði og sýna að það sé ekki neitt sem er ekki hægt.“

Frétt af www.mbl.is

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 8. október 2010 14:42
Fjarðarmótið á morgun í Ásvallalaug

Fyrsta sundmót tímabilsins verður haldið laugardaginn 9.október 2010. Mótið verður haldið í Ásvallalaug en keppt er í 25m. laug. Upphitun hefst kl. 13:00 og mót kl:14:00. Greinar mótsins eru eftirfarandi.

Grein 1 og 2    50m skrið karla og kvenna
Grein 3 og 4   100m skrið karla og kvenna
Grein 5 og 6    25m frjáls aðferð karla og kvenna
Grein 7 og 8   50m flug karla og kvenna
Grein 9 og 10   100m flug karla og kvenna
Grein 11 og 12  50m bak karla og kvenna
Grein 13 og 14  100m bak karla og kvenna
Grein 15 og 16  50m bringa karla og kvenna
Grein 17 og 18  100m bringa karla og kvenna
Grein 19 og 20  100m fjór karla og kvenna
Grein 21 og 22  200m fjór karla og kvenna
Grein 23 og 24  400m skrið karla og kvenna
Grein 25             4x50m frjáls aðferð blandaðar sveitir

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 3. október 2010 18:40
Íslandsmótinu lokið í Reykjanesbæ: Hjalti meistari fjórða árið í röð

Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í einstaklingskeppni í boccia var að ljúka rétt í þessu þar sem Hjalti Bergmann Eiðsson varð Íslandsmeistari í 1. deild fjórða árið í röð en Hjalti keppir fyrir Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík.

Íþróttafélagið Nes var framkvæmdaraðili mótsins sem fór fram með miklum sóma í Íþróttahúsinu að Sunnubraut og í Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Fjölmargir sjálfboðaliðar sáu til þess að dómgæsla væri með besta móti og að allt gengi snuðrulaust fyrir sig. Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem stóðu svo myndarlega að mótsframkvæmdinni.

Úrslit í deildum 1-4:

1. Deild
1. Sæti: Hjalti Bergmann Eiðsson, ÍFR
2. Sæti: Stefán Thorarensen, Akri
3. Sæti: Kristjana Halldórsdóttir, Ösp

2. Deild
1. Sæti: Jón Sigfús Bæringsson, Grósku
2. Sæti: Reynir Ingólfsson, Suðra
3. Sæti: Ómar Örn Ólafsson, Grósku

3. Deild
1. Sæti: Sigurrós Karlsdóttir, Akri
2. Sæti: Haukur Gunnarsson, Suðra
3. Sæti: Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra

4. Deild
1. Sæti: Magnús H Guðmundsson, Ívari
2. Sæti: Ragnhildur Ólafsdóttir,ÍFR
3. Sæti: Sigvaldi Hreiðarsson, ÍFR

Heildarúrslit má sjá hér.

Ljósmynd/ Frá vinstri: Jenný Þórkatla Magnúsdóttir formaður Nes í Reykjanesbæ, Stefán Thorarensen frá Akri (2. sæti), Hjalti Bergmann Eiðsson frá ÍFR (Íslandsmeistari) og Kristjana Halldórsdóttir frá Ösp (3. sæti).

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 3. október 2010 15:45
Íslandsmeistarar í deildum 5-8

Lokaspretturinn á Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í einliðaleik í boccia er hafinn en rétt í þessu voru krýndir Íslandsmeistarar í deildum 5-8 og eru þeir eftirfarandi.

5. Deild
1. Sæti: Lúðvík Frímannsson, ÍFR
2. Sæti: Guðjón Hraunberg Björnsson, Ívari
3. Sæti: Þórarinn Ágúst Jónsson, Ægi

6. Deild
1. Sæti: Jakob B. Ingimundarson, ÍFR
2. Sæti: Kristbergur Jónsson, Ösp
3. Sæti: Anna Kristinsdóttir, Snerpu

7. Deild
1. Sæti: Kristófer Fannar Sigmarsson, Eik
2. Sæti: Bjarni Þór Einarsson, ÍFR
3. Sæti: Gunnar Ingimundarson, ÍFR

8. Deild
1. Sæti: Sigurrós Kristrún N. Weber, ÍFR
2. Sæti: Vilborg Þorvaldsdóttir, ÍFR
3. Sæti: Baldvin Steinn Torfason, Eik

Ljósmynd/ Fyrir miðju er Lúðvík Frímannsson frá ÍFR en hann er Íslandsmeistari í boccia í 5. deild. Með honum á myndinni eru Guðjón Hraunberg Björnsson frá Ívari sem hafnaði í 2. sæti og Ægir Þórarinn Ágúst Jónsson frá Ægi í Vestmannaeyjum sem hafnaði í 3. sæti.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 3. október 2010 12:41
Keppendur í úrslitum í deildum 2-8

Línur eru farnar að skýrast á Íslandsmótinu í einliðaleik í boccia en mótið fer fram í Reykjanesbæ og lýkur seinni partinn í dag. Hér að neðan má finna nafnalista þeirra sem skipa úrslitin í deildum 2-8.

2. Deild 
Nes Davíð Már Guðmundsson
Ívar Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir
Eik Heiðar Hjalti Bergsson
Gróska Ómar Örn Ólafsson
Suðri Reynir Ingólfsson
Gróska Jón Sigfús Bæringsson
 
3. Deild 
ÍFR Einar Árni Þorfinnsson
Snerpa Hugljúf Sigtryggsdóttir
Suðri Hulda Sigurjónsdóttir
Akur Sigurrós Karlsdóttir
Akur Sigrún Björk Friðriksdóttir
Suðri Haukur Gunnarsson
 
4. Deild 
Eik Sigfús Jóhannesson
ÍFR Sigvaldi Hreiðarsson
ÍFR Ragnhildur Ólafsdóttir
Ívar Magnús H Guðmundsson
Eik Nanna Kristín Antonsdóttir
Ívar Emilía Arnþórsdóttir
 
5. Deild 
ÍFR Lúðvík Frímannsson
Ösp Ína Valsdóttir
Nes Unnur Hafstein Ævarsdóttir
Ívar Guðjón Hraunberg Björnsson
Snerpa Sigurjón Sigtryggsson
Ægir Þórarinn Ágúst Jónsson
 
6. Deild 
ÍFR Jakob B. Ingimundarson
ÍFR Guðlaugur Eysteinsson
ÍFR Katrín Guðrún Tryggvadóttir
Ösp Kristbergur Jónsson
Nes Gestur Þorsteinsson
Snerpa Anna Kristinsdóttir
 
7. Deild 
Eik Kristófer Fannar Sigmarsson
ÍFR Gunnar Ingimundarson
ÍFR Bjarni Þór Einarsson
Nes Ari Ægisson
Gróska Grétar Georgsson
Ösp Anton  Kristjánsson
 
8. Deild 
Nes Ingólfur Bjarnason
ÍFR Vilborg Þorvaldsdóttir
ÍFR Sigurrós Kristrún N. Weber
Eik Baldvin Steinn Torfason

Ljósmynd/ Einbeitingin skín úr hverju andliti á mótinu í Reykjanesbæ.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 3. október 2010 11:39
Þrír Íslandsmeistarar krýndir í gær

Laugardaginn 2. október lauk fyrsta keppnisdegi á Íslandsmóti ÍF í einstaklingskeppni í boccia. Þrír Íslandsmeistarar voru krýndir frá jafn mörgum félögum. Keppni heldur áfram í dag þar sem úrslitin ráðast í deildum 1.-8.

Rennuflokkur:

1. Kristján Vignir Hjálmarsson – Ösp
2. Árni Sævar Gylfason – Ösp
3. Þórey Rut Jóhannsdóttir – ÍFR
4. Ásvaldur Ragnar Bjarnason - Nes

U flokkur:

1. Sigríður Þórunn Jósepsdóttir – Akur
2. Díana Björk Friðriksdóttir – Akur
3. Marteinn Jónsson – ÍFR
4. Magnús Ingvarsson – Ösp

BC 1-4:

1. Aðalheiður Bára Steinsdóttir – Gróska
2. Valgeir Ómarsson – ÍFR
3. Hulda Klara Ingólfsdóttir – Ösp
4. Kjartan Ásmundsson – Ösp

Ljósmynd/ Aðalheiður Bára Steinsdóttir kastar hér í Heiðarskóla í gærdag en Aðlheiður hafði sigur í flokki BC 1-4.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 2. október 2010 14:00
Svipmyndir frá Íslandsmótinu í Reykjanesbæ

Keppni er nú í fullum gangi á Íslandsmóti ÍF í einstaklingskeppni í boccia sem fram fer í Reykjanesbæ. Íþróttafélagið NES er framkvæmdaraðili mótsins og er góður gangur á allri keppni.

Hér má nálgast fyrstu svipmyndir frá mótinu.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 2. október 2010 11:23
Íslandsmótið hafið í Reykjanesbæ

Camilla Th. Hallgrímsson varaformaður Íþróttasambands fatlaðra setti Íslandsmótið í einstaklingskeppni í boccia rétt í þessu en mótið fer fram í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ. Rúmlega 200 keppendur frá 12 aðildarfélögum Íþróttasambands fatlaðra eru skráðir til leiks og verður leikið til þrautar framundir kvöldmat á sunnudag.

Jenný Þórkatla Magnúsdóttir formaður Íþróttafélagsins NES og mótsstjóri mótsins bauð gesti velkomna en þetta er í annað sinn sem Íslandsmót fatlaðra í boccia fer fram á Suðurnesjum.

Dagskrá mótsins:

Laugardagur 2. oktober 2010:
Íþróttahús Sunnubraut

10:00 – 11:40 7. Deild undanúrslit
11:50 – 13:30 6. Deild undanúrslit
13:40 – 15:20 5. Deild undanúrslit
15:30 – 17:10 4. Deild undanúrslit
17:20 – 19:00 3. Deild undanúrslit
19:10 – 20:50 2. Deild undanúrslit

10:00 – 15:20 8. Deild undanúrslit einn riðill í senn.

Íþróttahús Heiðarskóla
10:30 – 11:50 BC 1 – 4 undanúrslit
12:00 – 15:00 Rennuflokkur undanúrslit
15:10 – 15:40 BC 1 – 4 úrslit
15:50 – 16:50 Rennuflokkur úrslit

10:30 – 12:20 U flokkur úrslit

Sunnudagur 3. oktober 2010:
Íþróttahús Sunnubraut

10:00 – 11:50 1. Deild undanúrslit 
12:00 – 14:10 4. til 7. Deild úrslit
14:10 – 16:20 1. til 3. Deild úrslit

Verðlaunaafhending fer fram að úrslitum loknum í hverri deild.

Ljósmynd/ Camilla Th. Hallgrímsson varaformaður ÍF við mótssetningu í Reykjanesbæ.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 28. september 2010 15:52
Vel heppnaðir Íslandsleikar í Hafnarfirði

Íslandsleikar Special Olympics í frjálsum íþróttum og knattspyrnu fóru fram í Kaplakrika um síðastliðna helgi í samvinnu og samstarfi við frjálsíþrótta- og knattspyrnudeild FH.

Keppni í knattspyrnu fór fram inni í Risanum og má nálgast úrslit frá fótboltanumhér. Glæsileg tilþrif litu dagsins ljós og gengu leikirnir vel fyrir sig, vel dæmdir og góð tilþrif.

Í frjálsum var umhverfið aðeins erfiðara, keppt var utandyra í 100m. spretthlaupi og langstökki en keppendur létu slagviðrið ekki á sig fá. Úrslit frá keppni í frjálsum verða aðgengileg innan tíðar hér undir liðnum ,,Íþróttagreinar“ á síðu ÍF.

Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til handa FH sem stóð myndarlega að framkvæmdinni.

Ljósmynd/ Það voru allir með taktana á hreinu í Risanum.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 27. september 2010 17:02
Dagskrá Íslandsmótsins í Boccia: Einstaklinsmót 2010

Íslandsmótið í einstaklingskeppni í boccia fer fram í Reykjanesbæ dagana 2. og 3. október næstkomandi en keppt verður í Íþróttahúsinu við Sunnubraut og í Heiðarskóla. Meðfylgjandi er dagskrá mótsins:

Laugardagur 2. oktober 2010:
Íþróttahús Sunnubraut

  9:00 – 9:30 Fararstjórafundur
  9:30 – 10:00 Mótsetning
10:00 – 11:40 7. Deild undanúrslit
11:50 – 13:30 6. Deild undanúrslit
13:40 – 15:20 5. Deild undanúrslit
15:30 – 17:10 4. Deild undanúrslit
17:20 – 19:00 3. Deild undanúrslit
19:10 – 20:50 2. Deild undanúrslit

10:00 – 15:20 8. Deild undanúrslit einn riðill í senn.

Íþróttahús Heiðarskóla
10:30 – 11:50 BC 1 – 4 undanúrslit
12:00 – 15:00 Rennuflokkur undanúrslit
15:10 – 15:40 BC 1 – 4 úrslit
15:50 – 16:50 Rennuflokkur úrslit

10:30 – 12:20 U flokkur úrslit

Sunnudagur 3. oktober 2010:
Íþróttahús Sunnubraut
10:00 – 11:50 1. Deild undanúrslit  
12:00 – 14:10 4. til 7. Deild úrslit
14:10 – 16:20 1. til 3. Deild úrslit

Verðlaunaafhending fer fram að úrslitum loknum í hverri deild.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 27. september 2010 15:04
Björninn býður upp á skautanámskeið fyrir fatlaða

Skautafélagið Björninn í samstarfi við Íþróttasamband fatlaðra, býður upp á 10 vikna skautanámskeið fyrir fatlaða einstaklinga í Egilshöll. Kennt verður á sunnudögum  kl.10:50-11:25 og hefjast æfingar sunnudaginn 26.september.

Markmið
Að auka almenna færni innan íþróttarinnar
Að bæta jafnvægi
Að auka samhæfingu handa og fóta
Að bæta líkamsvitund

Kennt er eftir námsskrá Skautasambands Íslands: ,,Skautum regnbogann”
Æfingagjald er aðeins 5000kr.
Kennslan er í höndum reyndra þjálfara sem hafa reynslu af þjálfun fatlaðra.

Frekari upplýsingar og skráning er í höndum þjálfara námskeiðsins, Helgu Olsen; helga@bjorninn.com

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 24. september 2010 21:32
Íslandsleikar Special Olympics í frjálsum og fótbolta

Íslandsleikar Special Olympics í frjálsum íþróttum og knattspyrnu verða haldnir laugardaginn 25. september í Kaplakrika í Hafnarfirði en leikarnir eru haldnir í samvinnu við frjálsíþróttadeild og knattspyrnudeild FH.

Í knattspyrnu eru keppendur á öllum aldri, blönduð lið karla og kvenna og skipt verður í flokka getumeiri og getuminni.

Öll verðlaun til Íslandsleikanna eru gefin af Íslandsbanka sem er aðalstyrktaraðil Special Olympics á Íslandi

Þá er um að gera að mæta snemma þar sem enginn annar en sjálfur Logi Geirsson, handboltakappinn góðkunni, mun sjá um upphitun fyrir keppni í fótboltanum.

Dagskrá Íslandsleikanna:
Kl. 09.30           Upphitun, knattspyrna
Kl. 10.00           Keppni hefst í knattspyrnu 
Kl. 12.30           Keppni lokið í knattspyrnu
Kl. 12.30           HLÉ
Kl. 13.00           Upphitun, frjálsar
Kl. 13.30           Keppni hefst 100 m hlaup,  karlar og konur, undankeppni
Kl. 14.00           Langstökk, karlar og konur, undankeppni.
Kl. 14.30           Úrslit 100 m hlaup, karlar og konur
Kl. 14.50           Úrslit langstökk, karlar og konur
Kl. 15.30           Keppni lokið í frjálsum

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 23. september 2010 14:21
Það fæðist enginn atvinnumaður!

Í tilefni af Heilsuviku hjá Reykjanesbæ 27. september - 3. október býður Heilsu- og uppeldisskóli Keilis uppá tvo fyrirlestra, annars vegar með Loga Geirssyni, handboltakappa og hins vegar með Klemenz Sæmundssyni, næringarfræðing og maraþonhlaupara. Fyrirlestrarnir verða haldnir hjá Keili á Ásbrú og allir eru velkomnir án endurgjalds.

Það fæðist enginn atvinnumaður
Logi Geirsson, mánudagskvöldið 27. september kl. 20.30-22.00

Loga Geirsson þarf vart að kynna en hann er einn ástsælasti íþróttamaður þjóðarinnar og er nýkominn heim til Íslands, tímabundið, eftir atvinnumennsku í handbolta í Þýskalandi en þar notaði hann tímann einnig til að mennta sig í ÍAK einkaþjálfun hjá Keili.

Logi fæddist ekki atvinnumaður frekar en nokkur annar og þurfti að leggja hart að sér til að ná þeim árangri sem hann hefur náð. Logi mun tala sérstaklega til ungra íþróttamanna, foreldra þeirra og þjálfara um markmiðasetningu, þjálfun, hugarfarsþáttinn og fleira sem huga þarf að ætli menn að ná langt í sinni íþrótt. Allir velkomnir - Engin forskráning!

Næring á 21. öldinni
Klemenz Sæmundsson, fimmtudagskvöldið 30. september kl. 20.00-21.30

Klemenz Sæmundsson hafa líklegast flestir Suðurnesjamenn séð á hlaupum um bæinn en hann er mikill maraþonhlaupari. Hann er einnig næringarfræðingur og matvælafræðingur og kennir næringarfræði við Heilsuskóla Keilis.

Klemenz mun fjalla um næringu á 21. öldinni og gefa Suðurnesjamönnum góð ráð um holla næringu og hreyfingu. Allir velkomnir - Engin forskráning!

www.keilir.net

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 22. september 2010 12:09
Íslensku keppendurnir klyfjaðir verðlaunapeningum í Póllandi

Allt hefur gengið vel hjá íslenska hópnum á Evrópuleikum Special Olympics í Póllandi og allir ljúka keppni í dag. Sveinbjörn Sveinbjörnsson vakti athygli í lyftingum þar sem hann sigraði allar sínar greinar og hlaut verðlaun fyrir mesta samalagða þyngd.  Íslensku keppendurnir í frjálsum íþróttum, keilu og borðtennis eru klyfjaðir verðlaunapeningum og verðlaunaborðum og mikil stemming ríkir í hópnum. 

Í lyftingum er keppt í þyngdarflokkum auk aldursflokka og engin undankeppni er þar til að jafna í flokka eftir getu. Í öðrum greinum fer fram undankeppni þar sem keppendum er raðað í jafna styrkleikaflokka auk aldursflokk. Verðlaunahafar geta því verið þeir sem eru lakastir í hverri grein jafnt og þeir allra bestu. Fyrir fjórða til áttunda sæti eru veittir verðlaunaborðar Bæjarstjóri og fulltrúar bæjarstjórnar Wola mættu á leikana til að fylgjast með og hvetja íslenska keppendur og það var mjög ánægjulegt.
 
Timothy Kennedy Shriver, forsvarsmaður Special Olympics International sem hélt ræðu á opnunarhátíðinni hefur farið á milli keppnisstaða og ávallt vakið mikla athygli. Margir töluðu um það eftir ræðu hans hve honum svipaði til frænda sinna, Forseta Bandaríkjanna, ekki síst í ræðustól þar sem hann lætur mjög að sér kveða. Fólk hópast að honum og óskar eftir myndatöku en Kennedy nafnið virðist ennþá vera jafn áhrifaríkt og á árum áður.
 
Í tengslum við leikana er boðið upp á skoðun á heilsufari keppenda og íslenski hópurinn hefur verið duglegur að nýta sér það. Nike íþróttaskór eru í boði fyrir þá sem  klára 4 mælingar en þar sem er í boði eru sjón- og heyrnarmælingar, mælt þol, styrkur og liðleiki, fætur eru skoðaðir og ráðgjöf veitt varðandi umhirðu, tannheilsa skoðuð o.fl.  Ókeypis gleraugu eru afhent þeim sem þurfa gleraugu eða endurnýjun gleraugna og vísað er til skoðunar í heimalandi ef eitthvað kemur fram sem þarf frekari skoðunar við.

Lokahátíðin verður haldin annað kvöld og hópurinn kemur heim 24. september

Ljósmyndir/ Sveinbjörn Sveinbjörnsson lyftingamaður tekur á því á efri myndinni en á þeirri neðri er Ágúst Þór Weaber í fimmta gír.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 22. september 2010 11:59
Íslandsmeistaramót Sólheima í Svarta Pétri

Íslandsmeistaramót Sólheima í Svarta Pétri verður haldið í tuttugasta skiptið laugardaginn 25. september. Mótið fer fram í Kaffihúsinu Grænu könnunni að venju og hefst með kennslu og upphitun klukkan 13:00. Mótið mun standa til ca.16:00.

Íslandsmeistaramót 2010

1. sæti - Nafn þitt grafið á Svarta Péturs bikarinn.
                Eignabikar frá Leirgerð Sólheima, viðurkenningarskjal og
              10.000.- króna ávísun frá Íslandsbanka

2. sæti - Eignabikar frá Leirgerð Sólheima, viðurkenningarskjal og
                5.000 króna ávísun frá Íslandsbanka

3. sæti - Eignabikar frá Leirgerð Sólheima, viðurkenningarskjal og
                3.000 króna ávísun frá Íslandsbanka

Boðið verður upp á kakó og kleinu í hléi.

Aðgangseyrir er 1.000 krónur á mann.

Mótið er öllum opið sem áhuga hafa. Aðstoðarfólk verður á staðnum!
Nánari upplýsingar gefur Valgeir s: 847-1907

Ef ágóði verður af deginum rennur hann til
Skátafélags Sólheima
Íþróttafélagsins Gnýs Sólheima
og Heimili friðarins í Afríku.

Nánar um mótið hér á heimasíðu Sólheima

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 21. september 2010 09:32
Opnunarhátíð Evrópuleika Special Olympics
Opnunarhátið Evrópuleika Special Olympics fór fram á Legia leikvanginum í Varsjá sl. laugardag. Óhætt er að segja að íslenski hópurinn hafi skemmt sér vel enda um glæsilega hátíð að ræða. Eftir hefðbundin ræðuhöld og setningu var fáni leikanna dreginn að húni og ólympíueldurinn tendraður. Síðan tóku við glæsileg söng og dansskemmtiatriði. Má nefna þríleik á píanó þar sem verk eftir Frédéric Chopin var leikið en Pólverjar fagna nú 200 ára fæðingarafmæli hans. Einnig söng Mick Hucknall, söngvari Simply Red eitt af þeirra þektustu lögum. Að lokum lék Myslovitz, frægasta popphljómsveit Pólverja nokkur lög við mikinn fögnuð hátíðargesta. Eftir tveggja klukkustunda skemmtun hélt hópurinn sæll og glaður heim á hótel enda nokkir sem hefja keppni strax á sunnudeginum.
 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 17. september 2010 16:34
Hópurinn búinn að koma sér vel fyrir í Póllandi

Íslenski hópurinn á Evrópuleikum Special Olympics í Póllandi var í gærdag í skoðunarferð í Varsjá. Móttaka var í ráðhúsinu í Wola, þar sem hópurinn býr fyrir leikana. Gengið var um gamla bæinn, keyrt um borgina og farið heimsókn í  safn í Póllandi og eitt af elstu söfnum í Evrópu þar sem sýndur er búnaður slökkviliðsmanna auk slökkviliðsbíla. 

Hópurinn fékk að prófa búninga og hjálma auk þess sem útkall var sett á og fyrstu viðbrögð sýnd. Deginum lauk með siglingu á ánni Wislu. Þar voru einnig aðrar þjóðir sem búa í Wola dagana fyrir leikana eins og Ísland en n.k. vinabæjarprógramm er í gangi 15. – 18. september.  Auk Íslands voru Slóvenia, Georgia og Svartfjallaland í siglingunni en þar var boðið upp á grillmat og diskótónlist. Á dag  er gefinn tími til æfinga í hverri grein og í lok dagsins er löndunum sem búa í Wola boðið í kvöldverð og skemmtun.

Á morgun verður farið á háskólasvæðið þar sem gist verður meðan leikarnir standa yfir. Allur hópurinn er mjög ánægður með móttökurnar í Wola og greinilegt er að móttaka landanna hefur verið vel undirbúin. Aðalmarkmið með vinabæjarheimsókn fyrir leika Special Olympics er að fólk fái tækifæri til að kynnast betur innviðum samfélagsins í því landi  sem heldur leikana hverju sinni. Fólk fær tækifæri til að kynnast betur landi og þjóð og þannig skapast forsendur til að vinna gegn fordómum og auka virðingu fyrir siðum og venjum í hverju landi.

Ljósmynd/ Íslenskir lyftingakappar í Póllandi, bíða spenntir eftir að láta til sín taka við lóðin.

 

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 17. september 2010 12:54
Brjáluð keyrsla í Slóveníu

Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson er nú staddur í viðamiklum æfingabúðum í Slóveníu ásamt félaga sínum og dyggum aðstoðarmanni Sigurði Kristni Sigurðssyni. Heimasíða ÍF náði stuttu tali af Jóhanni í gær á milli æfinga.

,,Þetta eru tveir og hálfur tími tvisvar sinnum á dag sem við æfum, það er frí á morgun (í dag) en annars hefur þetta verið brjáluð keyrsla,“ sagði Jóhann sem hélt út þann 12. september síðastliðinn og er væntanlegur aftur heim þriðjudaginn 21. september.

,,Hér hef ég séð ýmislegt sem betur má fara hjá mér og ég get lagað strax og annað sem mun kannski taka lengri tíma,“ sagði Jóhann en ferðin til Slóveníu er einn stærsti lokahnykkurinn í undirbúningi hans fyrir HM í borðtennis sem fram fer í Suður-Kóreu dagana 25. október til 3. nóvember.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 16. september 2010 12:52
Fótboltaæfingar fyrir fatlaða í Víkinni

Nú geta fatlaðir haft aðgang að fótboltaæfingum í Víkinni á sunnudögum. Markmiðið er að gefa fötluðum einstaklingum tækifæri til að æfa og keppa í fótbolta á sínum eigin forsendum undir leiðsögn fólks sem hefur reynslu af starfi með fötluðum.

Æfingar fara fram í Víkinni á sunnudögum milli kl 15-16. Frekari upplýsingar má fá í síma 696-0727 Guðrún milli kl 09-12 og hjá Kolbrúnu í síma 899-4035 milli kl 13-16.

www.fotbolti.net

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 15. september 2010 12:41
Andlát: Aðalsteinn Friðjónsson og Ívar Örn Guðmundsson

Íþróttahreyfing fatlaðra er samhent hreyfing þar sem vinátta og áralöng tengsl myndast á milli fólks. Hver og einn félagi er hlekkur í heildarkeðjunni og stórt skarð myndast þegar kveðjustundin rennur upp. Síðasta vika var til vitnis um það hve lífið er hverfult en þá bárust fréttir um að tveir góðir félagar okkar hefðu fallið frá. Það eru þeir Aðalsteinn Friðjónsson, Akri og Ívar Örn Guðmundsson, ÍFR. 

Báðir hafa þeir verið virkir félagar í starfi ÍF og aðildarfélaganna í fjölda ára og tekið þátt í mótum erlendis fyrir Íslands hönd. Það er mikill missir að þessum góðu félögum og vinum og þeirra verður sárt saknað.

Íþróttasamband fatlaðra sendir aðstandendum og vinum þeirra, innilegar samúðarkveðjur.

Ljósmyndir/ Á myndinni er Aðalsteinn til vinstri en Ívar til hægri.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 15. september 2010 12:10
Umsóknarfrestur í Afrekskvennasjóð Íslandsbanka og ÍSÍ að renna út

Næstkomandi föstudag, 17. september, rennur út umsóknarfrestur í Afrekskvennasjóð Íslandsbanka og ÍSÍ.

Hægt er að senda umsóknir rafrænt á orvar@isi.is eða merktar Afrekskvennasjóði Íslandsbanka og ÍSÍ, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Nánari upplýsingar um sjóðinn og umsóknareyðublaðið má nálgast hér.

Ljósmynd/ Sonja Sigurðardóttir og Embla Ágústsdóttir eru á meðal fatlaðra kvenna sem úthlutað hafa fengið úr sjóðnum.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 9. september 2010 12:41
Evrópuleikar Special Olympics

Varsjá, Póllandi 18. – 23. september 2010

Íþróttasamband fatlaðra sendir fimmtán keppendur á leikana en þeir taka þátt í borðtennis, frjálsum íþróttum, keilu og lyftingum.

Borðtennis; Sigurður A Sigurðsson, Soffía Rúna Jensdóttir og Guðmundur Hafsteinsson, ÍFR og  Sunna Jónsdóttir, Akri. Þjálfari er Elvar Thorarensen.  

Frjálsar íþróttir; Ágúst Þór Weber,Gný Stefán Thorarensen, Akri, Inga Hanna Jóhannesdóttir og Birkir Eiðsson, Ösp. Þjálfari er Ásta Katrín Helgadóttir.

Lyftingar; Bóas Hreindal Ösp og  Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Guðjón Friðgeirsson, ÍFR.  Þjálfari er Arnar Már Jónsson. 

Keila; Magnús Ragnarsson, Sigurður A Kristjánsson, Óðinn Rögnvaldsson, Sæunn Jóhannesdóttir og  Sunnefa Gerhardsdóttir, Ösp og Laufey María Vilhelmsdóttir, Þjóti. Þjálfarar eru Guðlaug Sigurðardóttir og Haukur Þorvaldsson.
 
Fararstjórar eru Anna Karólína Vilhjálmsdóttir og Jóhann Arnarson en þau munu einnig taka þátt í ráðstefnu í tengslum við leikana. Þar verður kynnt samstarf Special Olympics samtakanna við háskóla í Póllandi og háskóla á Írlandi auk kynninga á niðurstöðum rannsókna sem tengjast starfi samtakanna.
 
Keppnisgreinar á leikunum eru   frjálsar íþróttir, borðtennis, knattspyrna kvenna, körfubolti, tennis, lyftingar, keila, hjólaskautar, badminton og  MATP sem miðast við einstaklinga sem eru með mikla hreyfihömlun. Keppendur eru 1.600 frá 58 löndum en reiknað er með að 2000 sjálfboðaliðar aðstoði við leikanna.  

Dagana 15. – 18. september verður vinabæjardagskrá fyrir löndin em markmið með því er að efla  tengsl þátttökuþjóða við heimafólk í því landi sem Evrópuleikar og /eða alþjóðaleikar eru haldnir hverju sinni. Íslenski hópurinn mun taka þátt í slíkri dagskrá í  Wola þar sem hópurinn mun verða fyrstu dagana.    

Special Olympics samtökin hafa byggt upp samstarf við fagfólk í heilbrigðisþjónustu  þar sem augnlæknar, heyrnar og talmeinafræðingar, sjúkraþjálfarar og fótaaðgerðarfræðingar  bjóða ókeypis þjónustu á leikum samtakanna.  Alþjóðalionshreyfingin styrkir verkefnið “Opening Eyes” þar sem augnlæknar skoða sjón keppenda og  margir hafa fengið ókeypis gleraugu í kjölfar slíkrar skoðunar.

Opnunarhátíð fer fram 18. september í Legia Stadium í Varsjá. Lögregluþjónar hlaupa með kyndil leikanna um Pólland dagana 10. – 18. september og bera eldinn inn á leikvanginn. 

Viðburðir fara fram á eftirfarandi stöðum;
Academic of Physical Education (AWF)    Frjálsar íþróttir
Hulakula Bowling Center     Keila
Warsaw Agricultural University (SGGW)    Lyftingar  og borðtennis
Legia Stadium       Opnunarhátíð     18. september
Castle Square ( The Warsaw Old Town)     Lokahátíð      23. september

Special Olympics er alþjóðlegt nafn sem ekki má yfirfæra í ólympíumót enda gjörólíkt.
Einstaklingar með þroskahömlun keppa á leikum Special Olympics og allir geta verið með.
Á  Ólympíuleikum  fatlaðra eða Paralympics keppir aðeins afreksfólk úr röðum fatlaðra.

Special Olympics samtökin voru stofnuð í Bandaríkjunum, árið 1968, af Kennedy fjölskyldunni.  . Framþróun á síðustu 10 árum hefur verið gífurlega hröð og ekki hefur aðeins verið lögð áhersla á íþróttastarf, heldur hafa samtökin einnig fengið til liðs við sig færustu sérfræðinga víða um heim, til samstarfs á sviði mennta og heilbrigðismála.  Markmið er fyrst og fremst að vekja athygli á því að þroskaheft og seinfært fólk á að eiga kost á því að njóta sömu lífsgæða og annað fólk, jafnt hvað varðar almenna þjónustu sem tómstundastarf. Á íþróttasviðinu eru allir jafnir og keppa við sína jafningja, þeir sterkari sem veikari. Allir eiga sama möguleika á að hljóta verðlaun.  

www.specialolympics.org

http://www.specialolympicsee.eu/ee_2010_Special_Olympics_European_Games.aspx        www.warsaw2010.eu

Ljósmynd/ Guðmundur Hafsteinsson og Sigurður Andri Sigurðsson eru á meðal þeirra sem verða í Póllandi í næstu viku.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 8. september 2010 12:45
Sigurborg afhenti hlaupafé: Team Össur á fleygiferð

Einn helsti styrktar- og samstarfsaðili Íþróttasambands fatlaðra er stoðtækjafyrirtækið Össur. Á dögunum fór Reykjavíkurmaraþonið fram þar sem fjöldi starfsmanna Össurar hljóp til styrktar ÍF. Alls söfnuðu starfsmennirnir 399.500 kr. fyrir ÍF og var það framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs ÍF, Ólafur Magnússon, sem tók við styrknum úr hendi Sigurborgar Arnarsdóttur tengiliðs fjárfesta Össurar.

Rétt eins og ÍF hefur Össur hafið undirbúning sinn fyrir Ólympíumót fatlaðra sem fram fer í London 2012. Á Ólympíumótinu í Peking 2008 var hópur íþróttamanna sem keppti undir fánum sinna þjóða og Össurar og kallaðist sá úrvalshópur íþróttamanna Team Össur. Hópurinn vann til fjölda verðlauna í Peking og meðal íþróttamanna í hópnum er hlaupagarpurinn og Íslandsvinurinn Oscar Pistorius sem vann til gullverðlauna í öllum sínum hlaupagreinum í Peking. Magnaður árangur hjá liði Össurar sem mun vísast láta vel fyrir sér finna í London þegar þar að kemur.

Ólafur Magnússon sagði við afhendingu styrksins að framtak af þessu tagi gerði Íslandi kleift að berjast á meðal þeirra bestu. „Markmiðið er ávallt sett hátt hjá Íþróttasambandi fatlaðra og því fylgir töluverður kostnaður að standa jafnfætis þeim bestu. Össur hefur sýnt óbilandi skilning á þessu umhverfi og verið ÍF afar mikilvægur styrktar- og samstarfsaðili og kunnum við fyrirtækinu okkar bestu þakkir fyrir.“

Ljósmynd/ Ólafur tekur við styrknum frá Össuri úr hendi Sigurborgar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 7. september 2010 15:42
Norræna barna- og unglingamótið í Finnlandi 2011

Í ágúst á næsta ári fer Norræna barna- og unglingamótið fram í Finnlandi. Venju samkvæmt er mótið fyrir börn á aldrinum 12-16 ára og hefur Ísland ekki látið sitt eftir liggja enda eitt af fyrstu verkefnum ungra fatlaðra íþróttamanna á vegum ÍF.

Innan skamms mun Íþróttasamband fatlaðra kalla eftir tilnefningum aðildarfélaga í verkefnið en sá háttur hefur verið á að aðildarfélög ÍF tilnefni íþróttamenn til fararinnar.

Nánari upplýsingar um mótið koma síðar.

Ljósmynd/ Frá Norræna barna- og unglingamótinu í Svíþjóð 2009. Almar Þór Þorsteinsson frá Suðra á Selfossi er hér kampakátur á verðlaunapalli eftir sigur í kúluvarpi. Honum á vinstri hönd er Sigurjón Sigtryggsson frá Snerpu sem hafnaði í 2. sæti.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 7. september 2010 12:40
Áhugasamur hópur í Íþrótta- og ævintýrabúðum ÍF

Dagana 18.-20. ágúst síðastliðinn fóru fram Íþrótta- og ævintýrabúðir Íþróttasambands fatlaðra að Laugarvatni. Búðirnar voru fyrir hreyfihömluð/sjónskert ungmenni á aldrinum 12-16 ára og voru þær þátttakendum að kostnaðarlausu. Alls voru fimm ungmenni skráð til búðanna sem æfðu undir handleiðslu landsliðsþjálfara ÍF á meðan verkefninu stóð.

Að þessu sinni var áhersla lögð á frjálsar íþróttir og borðtennis í búðunum og gafst hópnum tækifæri til þess að sjá landsliðmennina Baldur Ævar Baldursson og Jóhann Rúnar Kristjánsson við undirbúning fyrir verkefni erlendis.

Þessir krakkar mættu í Íþrótta- og ævintýrabúðir ÍF:
Ingeborg Eide Garðarsdóttir -  Hafnarfjörður
Breki Arnarson – Akureyri
Auðunn Snorri Árnason – Reykjanesbær
Sigurður Þorri Sigurðsson – Egilsstaðir
María Sverrisdóttir – Egilsstaðir

Það er stefna ÍF að halda aftur viðlíka Íþrótta- og ævintýrabúðir og eru allar líkur á því að verkefnið verið haldið annað hvert ár, á milli þess sem Norræn barna- og unglingamót fara fram. Næstu búðir, ef af verður, fara þá fram sumarið 2012.

Ljósmynd/ Ungmennahópurinn sem dvaldi á Laugarvatni dagana 18.-20. ágúst síðastliðinn.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 2. september 2010 10:14
Starfsmenn Össurar hlupu til styrktar Íþróttasambandi fatlaðra

Góð stemming myndaðist í Reykjavíkurmaraþoninu hjá starfsmönnum Össurar þegar þeir lögðu af stað í hlaupið. Um 70 starfsmenn skráðu sig til þátttöku þetta árið. Alls 14 starfsmenn tóku þátt í hálfmaraþoni, 39 í 10 km, 16 í skemmtiskokki og fjöldamargir hlupu með börnum sínum í Latarbæjarhlaupinu. Í heildina hlupu starfsmennirnir 799 kílómetra. Af hverjum kílómeter sem hlaupinn var runnu 500 krónur til styrktar Íþróttasambandi fatlaðra og söfnuðust alls 399.500 krónur.

Einnig tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoninu fimm afreksmenn í íþróttum sem allir nota vörur frá Össuri og stoðtækjafræðingarnir þeirra. Þar á meðal var Richard Whitehead sem hlaupið hefur undir 3 tímum í heilu maraþoni. Það var frábær hvatning fyrir starfsfólk Össurar að heyra sögur þeirra og hlaupa með þeim í Reykjavíkurmaraþoninu.

Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til starfsmanna Össurar en fyrirtækið er einn af aðalstyrktaraðilum sambandsins.

Ljósmynd/ Hópur Össurar skemmti sér vel í Reykjavíkurmaraþoninu.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 1. september 2010 11:52
Jóhann komst í 9.-12 manna úrslit í Köln

Borðtennisspilarinn Jóhann Rúnar Kristjánsson lék á Opna þýska meistaramótinu sem fram fór í Köln um síðastliðna helgi. Bestum árangri náði Jóhann í einliðaleiknum þar sem hann komst í 9-12 manna úrslit. Framundan eru sterkar æfingabúðir í Slóveníu og svo Heimsmeistaramótið í Suður-Kóreu í lok októbermánaðar.

Opinn flokkur:
Jóhann mætti spilara frá Slóvakíu og tapaði 0-2.

Tvíliðaleikur:
Jóhann lék með Slóvakanum sem hann tapaði fyrir í opnum flokki. Saman mættu þeir írsku pari og lágu 0-2.
 
Liðakeppni:
Í liðakeppninni voru Jóhann og Slóvakinn mættir aftur saman og höfnuðu þeir í 3. sæti í sínum riðli eftir jafna leiki og munaði litlu að þeir kæmust áfram upp úr riðlinum en það hafðist þó ekki.

Einliðaleikur:
Í einliðaleiknum spilaði Jóhann við næststigahæsta mann í heiminum og tapaði 0-3, svo spilaði hann við Þjóðverja og vann hann 3-0, síðasti leikur sem var gegn Brasilíumanni fór 0-3 sem varð til þess að það urðu þrír spilarar allir jafnir og Jóhann var með besta hlutfallið á milli þeirra þar sem hann vann sinn leik stórt en tapaði mjög tæpt. Því spilaði Jóhann í 9-12 manna úrslitum og þar spilaði hann við Brasilíumann og tapaði 0-3.

Framhaldið verður þétt hjá Jóhanni þar sem hann er á leið í sterkar æfingabúðir í Slóveníu og að þeim loknum tekur við Heimsmeistaramótið í Suður-Kóreu sem fer fram dagana 25. október – 3. nóvember.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 31. ágúst 2010 13:34
Stefnumótunarfundur Nord-Hif í Danmörku

Helgina 27.-29. ágúst sátu fulltrúar ÍF stefnumótunarfund Nord-Hif (Íþróttasambönd fatlaðra á Norðurlöndum), en Ísland fer með formennsku í samtökunum næstu þrjú árin. Markmið fundarins var að móta framtíðarstefnu samtakanna í áframhaldandi samstarfi Norðurlandaþjóðanna. 

Á fundinum kom m.a. fram að allar Norðurlandaþjóðirnar vildu halda áfram þeirri samvinnu sem verið hefur við lýði allt frá stofnun þess 1976. Þannig var ákveðið að halda áfram öflugu samstarfi og fylgja eftir þeim góða árangri sem náðst hefur á alþjóðavettvangi með aukinni samvinnu og fræðslu millum landanna.

Bókað var á fundinum að samstaða Norðurlandaþjóðanna í alþjóðasamfélagi íþróttanna hefði um árabil skilað góðum árangri og að mikilvægt væri að halda henni áfram, þ.e. baráttunni í sameiginlegum verkefnum og markmiðum.

Ljósmynd/ Fundurinn fór fram í höfuðstöðum Íþrótta- og Ólympíusambands Danmerkur.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 31. ágúst 2010 12:51
London 2012: Tvö ár til stefnu

Nú eru aðeins tvö ár þangað til Ólympíumót fatlaðra í London fer fram en undirbúningur fyrir bæði Ólympíuleikana og Ólympíumótið hefur staðið lengi yfir. Þúsundir sjálfboðaliða hafa þegar skráð sig til leiks og enn er verið að taka á móti fólki í London sem vill aðstoða við þessa risavöxnu framkvæmd.

Fjölmiðlar í Bretlandi sækja í sig veðrið í umfjöllun sinni fyrir leikana og verslanir skjóta upp kollinum sem selja varning tengdan Ólympíuleikunum og Ólympíumótinu.

Ólympíumót fatlaðra hefst strax að Ólympíuleikunum loknum og munu um 150 þjóðir keppa í 20 mismunandi Ólympíumótsgreinum.

Nánar um niðurtalninguna og ítarlegan fréttafluting af gangi mála fyrir Ólympíuleikana og Ólympíumótið má nálgast hér: www.london2012.com

Mynd: Teikning af Ólympíuleikvanginum í London sem enn er í byggingu.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 26. ágúst 2010 14:40
Námskeið í sitjandi blaki

Helgina 3.-5. september mun Blaksamband Íslands standa fyrir veglegri blakhelgi. Í boði verða afreksbúðir fyrir ungmenni á aldrinum 14-17 ára, U19 ára landsliðin koma saman til æfinga og haldin verður stór þjálfararáðstefna.

Fyrirhugað er að vera með sérnámskeið fyrir íþróttakennara í krakkablaki og í Sitting Volleyball/Sitjandi blaki, laugardaginn 4. september. Íþróttasamband fatlaðra hvetur áhugasama til að fara á námskeiðið og kynna sér sitjandi blak en sú íþrótt er ekki stunduð hér á landi og hver veit nema breyting geti orðið þar á.

BLÍ hefur fengið liðsinnis Peter Guarnari frá Englandi en hann hefur þjálfararéttindi í blaki og sitting volleyball.

Námskeiðið fyrir sitjandi blak er á kr. 5.000.- og skila skal skráningum fyrir 1. september á bli@bli.is 

Námskeið í Krakkablaki og “sitting volleyball” er laugardaginn 4. september en blakhelgin stóra fer fram í Varmá í Mosfellsbæ.

Ljósmynd/ Frá keppni í sitjandi blaki kvenna á Ólympíumóti fatlaðra í Peking árið 2008.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 26. ágúst 2010 14:25
Jóhann á opna þýska í Köln

Jóhann Rúnar Kristjánsson borðtennismaður er nú staddur í Köln í Þýskalandi á opna þýska meistaramótinu. Með Jóhanni í för er Helgi Þór Gunnarsson landsliðsþjálfari ÍF í borðtennis.

Jóhann og Helgi undirbúa sig nú af kappi fyrir Heimsmeistaramótið í borðtennis sem fram fer í Suður-Kóreu dagana 25. október til 3. nóvember næstkomandi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 24. ágúst 2010 17:29
Úrslit frá opna danska meistaramótinu í frjálsum íþróttum

Nú um helgina tók Baldur Ævar Baldursson þátt í opna danska meistaramótinu í frjálsum íþróttum. Þátttaka hans á mótinu var lokatilraun til að ná tilskyldum lágmörkum fyrir Heimsmeistaramót fatlaðra í frjálsum íþróttum sem fram fer á Nýja-Sjálandi í byrjun janúar 2011.

Því miður tókst Baldri Ævari ekki að ná þessu markmiði sínu, stökk 4.91 m í langstökki þar sem lágmarkið er 5.12. Í kúluvarpi kastaði Baldur 10.25 m. og dugði það ekki til þar sem lágmarkið er 11,25 m.

Ljóst er að Baldur Ævar á mikið inni og fyrir honum liggur því að bretta upp ermarnar og nýta tímann til að ná lágmörkum fyrir Ólympíumótið í London 2012. 

Ljósmynd/ Baldur Ævar ásamt Ingeborg Eide en þau voru fulltrúar Íslands á Opna hollenska frjálsíþróttamótinu fyrr í sumar.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 24. ágúst 2010 12:52
Samantekt um Heimsmeistaramót fatlaðra í sundi

Heimsmeistaramót fatlaðra í sundi sem fram fór í Eindhoven í Hollandi var sögulegt fyrir margar hluta sakir.  Þannig tóku 649 sundmenn frá 53 löndum þátt í mótinu sem gerir mótið að fjölmennasta sundmóti sem IPC (Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra) hefur staðið fyrir – stærra mót en sundkeppnin á Ólympíumóti fatlaðra í Peking 2008!
 
Sigursælasta þjóðin á mótinu var Úkranía með 59 verðlaunapeninga þar af 21 gull, í öðru sæti voru Bandaríkjamenn með samtals 57 verðlaun og Rússar í þriðja sæti með 43. Sigursælasta Norðurlandaþjóðin voru Svíar með 10 verðlaun samtals þar af fern gullverðlaun.  Það sem vekur eftirtekt hér er hinn góði árangur Úkraníumanna sem hafa á undanförnum árum skotist upp á stjörnuhimininn í sundheimi fatlaðra og sópað að sér verðlaunum á hverju stórmótinu á fætur öðru. 

Áætlað er að tæplega sjö þúsund áhorfendur, aðstandendur og aðrir hafi fylgst með keppninni af áhorfendapöllunum í hinni glæsilegu Pieter van den Hoogenband laug.  Þá voru 68 heimsmet sett á mótinu á móti 24 sem sett voru á Evrópumeistaraótinu sem fram fór hér á landi árið  2009.  Sýnir þessi fjöldi meta þá gríðarlegu keppni og miklu framþróun sem á sér stað í sundheimi fatlaðra.

Íslensku sundmennirnir sem telft var fram á Heimsmeistaramótinu fengu nú smjörþefinn af keppi við þ allra bestu í heiminum.  Líkt og á Evrópumeistaramótinu, sem fram fór hér á landi 2009, telfdu Íslendingar fram efnilegu liði á mótinu sem flest voru á aldursbilinu
14 – 19 ára.   Nú stóð þessi ungi og efnilegi hópur okkar á stóra sviðinu og af úrslitum frá mótinu má ljóst vera að framundan er langt og strangt æfingaferli til þess að tryggja Íslandi “kvóta” og þar með sæti Ólympíumóti fatlaðra í London árið 2012.  Þá er bara að hefjast handa!

Neðanmáls er árangur íslensku keppendanna á mótinu:

Eyþór Þrastarson, S11 (flokkur blindra)
5. sæti 400 m skriðsund
9. sæti 100 m skriðsund
11. sæti 200 m fjórsund
12 sæti 100 m baksund
16. sæti 50 m skriðsund (Íslandsmet)

Sonja Sigurðardóttir, S5 (flokkur hreyfihamlaðra)
12. sæti 50 m baksund
15. sæti 100 m skriðsund

Hjörtur Már Ingvarsson, S5 (flokkur hreyfihamlaðra)
12. sæti 100 m skriðsund
12. sæti 200 m skriðsund (Íslandsmet bæði í 200 m og 100 m)
16. sæti 50 m skriðsund (Íslandsmet)

Anna Kristín Jensdóttir, SB5 (flokkur hreyfihamlaðra
9. sæti 100 m bringusund (Íslandsmet)

Jón Margeir Sverrisson, S14 (flokkur þroskaheftra)
15. sæti 200 m skriðsund
14. sæti 100 m baksund
18. sæti 100 m bringusund

Ragnar Ingi Magnússon, S14 (flokkur þroskaheftra)
18. sæti 100 m baksund
28. sæti 200 m skriðsund
28. sæti 100 m bringusund

Aníta Ósk Hrafnsdóttir, S14 (flokkur þroskaheftra)
17. sæti 100 m baksund
19. sæti 100 m bringusund
22. sæti 200 m skriðsund

Kolbrún Alda Stefánsdóttir, S14 (flokkur þroskaheftra)
13. sæti 200 m skriðsund
13. sæti 100 m bringusund
14 .sæti 100 m baksund

Ljósmynd/ Frá Pieter Van Den Hogenband sundhöllinni í Hollandi þar sem HM fór fram.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 20. ágúst 2010 12:34
Úrslit síðasta dags HM fatlaðra í sundi

Íslensku keppendurnir á HM fatlaðra í sund luku þátttöku sinni á mótinu í morgun.

Eyþór Þrastarson hafnaði þá í 12. sæti í 100 m baksundi flokki S11 (flokki blindra) synti á tímanum 1:21.04 mín.

Sonja Sigurðardóttir og Hjörtur Már Ingvarsson tóku þátt í 100 m skriðsundi flokki S5 (flokki hreyfihamlaðra) og hafnaði Sonja í 15. sæti á tímanum 2:01.91 mín og Hjörtur Már í 12. sæti á tímanum 1:42.35 mín.

Í flokki S14 (flokki þroskaheftra) var keppt í 200 m skriðsundi og þar hafnaði Jón Margeir Sverrison í 15. sæti á tímanum 2:14.11 mín, Rangar Ingi Magnússon í 28. sæti á tímanum 2:29.00 mín, Aníta Ósk Hrafnsdóttir í 22. sæti á tímanum 2:52.35 mín og Kolbrún Alda Stefánsdóttir í 13. sæti á tímanum 2:38.93 mín.

Lokaathöfn mótsins fer fram á morgun, laugardag að aflokinni keppni í sjósundi.

Þrátt fyrir að einungis einn íslensku keppendanna hafi komist í úrslit var árangur okkar fólks í samræmi við þær væntingar sem til þeirra voru gerðar.  Þannig voru fjögur Íslandsmet slegin á mótinu og mörg þeirra bættu sinn besta árangur.

Nú hefst af fullum þunga undirbúningur fyrir Ólympíumót fatlaðra 2012 þar sem úrtökuhóp vegna Ólympíumótsins verða sett ný markmið og lágmörk til þess öðlast þátttökurétt á því móti.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 20. ágúst 2010 10:46
Opna danska meistaramótið í frjálsum íþróttum

Nú um helgina mun Baldur Ævar Baldursson taka þátt í opna danska meistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fram fer í Fredriksberg í Kaupmannahöfn.

Baldur Ævar, sem keppir í flokki hreyfihamlaðra T37, mun á mótinu taka þátt í langstökki, kúluvarpi og spjótkasti. 

Þátttaka Baldurs Ævars á móti þessu er  lokatilraun hans til þess að ná tilskyldum lágmörkum á HM fatlaðra í frjálsum íþróttum sem fram fer á Nýja-Sjálandi í janúarmánuði n.k.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 20. ágúst 2010 09:46
Eyþór í fimmta sæti

Síðdegis í gær keppti Eyþór Þrastarson í úrslitum í 400 m skriðsundi í flokki blindra (S11).  Hafnaði Eyþór í 5. sæti, synti á tímanum 5:08.02 mín. Fjórir fyrstu í þessu úrslitasundi syntu undir fimm mínútum þar sem hinn spænski Enhamed Mohamed sigraði á tímanum 4:44.08 mín.

Í dag er síðasti keppnisdagur mótsins og þá synda þau Eyþór Þrastarson í 100 m baksundi flokki S11 (flokki blindra), Sonja Sigurðardóttir og Hjörtur Már Ingvarsson í 100 m skriðsundi flokki S5 (flokki hreyfihamlaðra) og Jón Margeir Sverrison, Ragnar Ingi Magnússon, Aníta Ósk Hrafnsdóttir og Kolbrún Alda Stefánsdóttir í 200 m skriðsundi í flokki S14 (flokki þroskaheftra).

Mótinu lýkur svo á morgun, laugardag, með keppni í 5 km sjósundi, grein sem nýlega er farið að bjóða upp á í tengslum við stærstu sundmótin sem IPC (Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra) stendur fyrir.

Ljósmynd/ Eyþór Þrastarson varð fimmti í 400m. skriðsundi á HM í gær. Á EM í október 2009 sem fram fór hér á Íslandi tók hann silfurverðlaun í þessari grein.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 19. ágúst 2010 14:30
Eyþór í úrslit og Íslandsmet hjá Hirti

Í morgun syntu í undanrásum á HM fatlaðra í sundi þeir Eyþór Þrastarson í 400 m skriðsundi flokki S11 (flokki blindra) og Hjörtur Már Ingvarsson í 200 m skriðsundi flokki hreyfihamlaðra (S5).

Eyþór synti sig inn í úrslit, synti á tímanum 5:12.77 mín sem er 7. besti tíminn inn í úrslitin.Besti tími Eyþórs er 5:06.67 mín sem gefur von um í úrslitasundinu bæti hann tíma sinn frá því í morgun.

Hjörtur már hafnaði í 12. sæti í sínum flokki S5, synti á tímanum 3:35.65 mín sem er nýtt Íslandsmet auk þess sem millitími hans eftir 100 m, 1:40.643 var einnig Íslandsmet í þessum flokki.
 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 18. ágúst 2010 14:48
Fjórði keppnisdagur HM fatlaðra í sundi – Eyþór með Íslandsmet

Á fjórða keppnisdegi HM fatlaðra í sundi kepptu í undanrásum í morgun þau Eyþór Þrastarson í 50 m skriðsundi flokki S11 (flokki blindra) og Jón Margeir Sverrison, Rangar Ingi Magnússon, Aníta Ósk Hrafnsdóttir og Kolbrún Alda Stefánsdóttir í 100 m bringusundi í flokki S14 (flokki þroskaheftra).

Í skriðsundinu hafnaði Eyþór í 16. sæti á tímanum á nýju Íslandsmeti 30.62 sek en gamla metið 30.86 sek átti hann sjálfur.

Í bringusundinu hafnaði Jón Margeir í 18. sæti á tímanum 1:21.98 mín og Ragnar Ingi í 28. sæti á tímanum 1:42.45 mín.

Í kvennaflokki, S14 hafnaði Kolbrún Alda í 13. sæti á tímanum 1:36.53 mín og Aníta Ósk í 19. sæti á tímanum 1:47.61 mín.

Á morgun keppa þeir Eyþór Þrastarson í 400 m skriðsundi flokki S11 (flokki blindra) og Hjörtur Már Ingvarsson í 200 m skriðsundi flokki hreyfihamlaðra (S5)

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 17. ágúst 2010 11:15
Stór dagur hjá íslensku keppendunum

Í morgun syntu í undanrásum á HM fatlaðra í sundi þau Eyþór Þrastarson í 100 m skriðsundi flokki S11 (flokki blindra), Sonja Sigurðardóttir i 50 m baksundi flokki S5 (flokki hreyfihamlaðra) og Jón Margeir Sverrison, Rangar Ingi Magnússon, Aníta Ósk Hrafnsdóttir og Kolbrún Alda Stefánsdóttir í 100 m baksundi í flokki S14 (flokki þroskaheftra).

Sá fyrsti til að stinga sér til sunds í morgun var Eyþór Þrastarson sem hafnaði í 9. sæti á tímanum 1:06.85 mín, örfáum sekúndubrotum frá því að tryggja sér sæti í úrslitum en 8. besti tíminn var 1:06.39 mín – tæpara gat það vart verið.

Í 50 m baksundi hafnaði Sonja 12. sæti á tímanum 59.86 sek, nokkuð frá sínum besta tíma en Íslandsmet hennar er 54.12 sek.

Keppni í flokki þroskahamlaðra S14 hófst í morgun og þar hafnaði Jón Margeir í 14. sæti á tímanum 1:13.44 mín. og Ragnar Ingi í 18. sæti á tímanum 1:15.43 mín. Til þess að tryggja sér sæti í úrslitum hefðu þeir kappar þurft að synda kringum Íslandsmetið í þessari grein sem er 1:08.14 mín þar sem 8. besti tíminn í sundinu í morgun var 1:08.85 mín.

Þá hafnaði Kolbrún Alda í 14. sæti á tímanum 1:29.16 mín og Aníta Ósk í 17. sæti á tímanum 1:32.79 mín og bættu báðar sínn besta tíma. 

Á morgun keppa þau Eyþór Þrastarson í 50 m skriðsundi flokki S11 (flokki blindra) og Jón Margeir Sverrison, Rangar Ingi Magnússon, Aníta Ósk Hrafnsdóttir og Kolbrún Alda Stefánsdóttir í 100 m bringusundi í flokki S14 (flokki þroskaheftra).

Samhliða heimsmeistaramótinu fara fram ýmsar kynningar, fundir og ráðstefnur tengdar framgangi íþrótta fatlaðra.  Þannig hafa verið haldnar ráðstefnur s.s. um þjálfun ungra og efnilegra sundmanna, ráðstefna um sund og fötlun, ráðstefna um blöndun fatlaðra íþróttamanna í önnur sérsambönd og svo mætti áfram telja.  Þá hafa þjálfurum og forráðamönnum keppnisþjóðanna verið kynntar þær nýjungar og þeir möguleikar sem til staðar eru í þessari glæsilegu laug t.a.m. möguleika á greiningu á sundi hvers einstaklings.

Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri fjármála og afrekssviðs ÍF, hefur auk þess að fylgjast með gengi íslensku keppendanna setið hluta þeirra ráðstefna sem boðið hefur verið upp á.

Ljósmynd/ Jón Margeir Sverrisson kampakátur í Hollandi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 16. ágúst 2010 12:55
Anna Kristín með Íslandsmet

Eini íslenski keppandinn sem stakk sér til sunds á HM fatlaðra í morgun var Anna Kristín Jensdóttir en hún tók þátt í 100 m bringusundi SB5 (flokki hreyfihamlaðra). Anna Kristín hafnaði í 9. sæti á nýju Íslandsmeti, tímanum 2:22.60 mín og var örfáum sekúndubrotum frá því að tryggja sér sæti í úrslitum.

Á morgun keppa þau Eyþór Þrastarson í 100 m skriðsundi flokki S11 (flokki blindra), Sonja Sigurðardóttir i 50 m baksundi flokki S5 (flokki hreyfihamlaðra) og Jón Margeir Sverrison, Rangar Ingi Magnússon, Aníta Ósk Hrafnsdóttir og Kolbrún Alda Stefánsdóttir í 100 m baksundi í flokki S14 (flokki þroskahamlaðra).

Sund fatlaðra:
Í sundi fatlaðra, líkt og í sundi ófatlaðra, er keppt í fimm sundgreinum auk boðsunds í mismunandi  vegalengdum.  Þá er í flestum flokkum í ; skriðsundi keppt í 50, 100, 200 og 400 m, í bringusundi í 50, 100 og 200 m, í baksundi 50, 100 og 200 m, í flugsundi 50, 100 og 200 m flugsundi, í fjórsundi í 150 og 200 mauk 4 x 50, 4 x 100, 4 x 200 og 4 x 400 m boðsunds í skriðsundi og fjórsundi.

Í sundi fatlaðra er keppnisreglum FINA (Alþjóðasundsambandsins) fylgt að mestu með þeim undantekningum að t.a.m. er leyft að banka í höfuð blinds sundmanns er hann nálgast bakkann, einhentur maður getur aldrei sett báðar hendur í bakkann og í flokkum þeirra er mest eru fatlaðir er leyfilegt að “starta” ofan í lauginni.

Ljósmynd/ Anna Kristín lengst til vinstri ásamt félögum úr íslenska hópnum.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 15. ágúst 2010 15:18
Keppni hafin á HM fatlaðra í sundi - Íslandsmet hjá Hirti

Keppni á HM fatlaðra í sundi hófst í morgun og þá voru í eldlínunni og kepptu í undanrásum  þeir Eyþór Þrastarson og Hjörtur Már Ingvarsson. Eyþór hafnaði í 11. sæti í sínum flokki S11(flokki blindra), synti á tímanum 2.57.23 sem er persónulegt met hjá honum en hans besti tími áður var 3:08.52. 

Hjörtur synti síðan í undanrásum í flokki S5 (flokki hreyfihamlaðra) og hafnaði í 16. sæti, synti á tímanum 45.57 sek sem er nýtt Íslandsmet í flokki S5.
 
Lokaflokkun keppenda á mótinu hefur nú farið fram og var Pálmi Guðlaugson flokkaður upp um flokk, fer úr S6 í flokk S7, sem þýðir að Pálmi hefur ekki tilskilin lágmörk til þátttöku. Pálmi, sem er aldurforseti hópsins, mun því verða öðrum keppendum til halds og trausts og koma síðan tvíelfdur til leiks og tilbúinn til að ná þeim lágmörkum sem hin nýja flokkun S7 setur honum.

Á morgun keppir Anna Kristín Jensdóttir í 100 m bringusundi í flokki hreyfihamlaðra SB5

Nokkrar  staðreyndir um HM fatlaðra í sundi:
• Verndari mótsins er Pieter van den Hoogenband margfaldur Ólympíumeistari í sundi
• 54 þátttökuþjóðir
• 600 sundmenn (40% konur, 60% karlar)
• 386 þjálfarar, fararstjórar, fylgdarmenn
• Fjölmennasta þjóðin á mótinu Rússar með 49 sundmenn og 21 aðstoðarmenn
• 400 sjálfboðaliðar
• Rúmlega 26 þúsund matarskammtar framreiddir meðan á mótinu stendur
• 712 verðlaunum verður útdeilt í 212 verðlaunaafhendingum

Ljósmynd/ Hjörtur Már, sitjandi, ásamt Jóni Margeiri Sverrissyni og Ragnari Inga Magnússyni á keppnisstað í Hollandi. Hjörtur setti Íslandsmet í morgun en hafnaði þrátt fyrir það í 16. sæti í 50m. skirðsundi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 14. ágúst 2010 23:39
HM fatlaðra í sundi sett í Hollandi

Setningarhátíð Heimsmeistaramóts fatlaðra í sundi fór fram í kvöld í hinni glæsilegu Pieter van den Hoogenband laug í Eindhoven þar sem mótið fer fram 15. -  21. ágúst.

Setningarathöfnin, sem stóð yfir í um klukkustund, var hin glæsilegasta þar sem keppendur gengu inn undir fána síns lands en fánaberi Íslands var Pálmi Guðlaugsson. Í kjölfarið nutu áhorfendur allir hinna ýmsu skemmtiatriða sem boðið var upp á.  

Sundkeppnin sjálf hefst síðan strax á sunnudagsmorgni en þá keppa þeir Eyþór Þrastarson í 200 m fjórsundi í flokki blindra (S11) og Hjörtur Már Ingvarsson í 50 m skriðsundi í flokki hreyfihamlaðra (S5).

Heimsmeistaramótið, sem nú er haldið í fimmta sinn, er hið stærsta sem farið hefur fram og með fleiri keppendum en á Ólympíumótinu í Peking þannig að búast má við harðri keppni og vonandi fjölda meta.

Mögulegt er að fylgjast með mótinu á heimasíðu þess www.wcswimming2010.com á www.facebook.com/IPCSwimming og opinberri vefsjónvarpsstöð IPC (Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra) www.paralympicport.tv

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 13. ágúst 2010 17:13
Keppnisdagskrá íslensku þátttakendanna á HM í sundi

Nú eru aðeins þrír dagar þar til Heimsmeistaramót fatlaðra í sundi verður formlega sett í Eindhoven í Hollandi.

Setningarathöfnin, fer fram að kvöldi 14. ágúst í glæsilegri innilaug sem kennd er við fræknasta sundmann Hollendinga, Pieter van den Hoogenband.

Sundkeppnin hefst 15. ágúst og lýkur þann 21. ágúst. Undanrásir hefjast hvern dag kl. 09:00 að hollenskum tíma og úrslit kl. 17:00.

Mögulegt er að fylgjast em mótinu á heimasíðu mótsins www.wcswimming2010.com á www.facebook.com/IPCSwimming og opinberri vefsjónvarpsstöð IPC (Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra) www.paralympicsport.tv

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 13. ágúst 2010 16:35
Kynning á hjólastóla- og göngugrindadansi

Stjórn Íþróttafélagsins Glóðar í Kópavogi hefur ákveðið að kynna nýja möguleika fyrir þá sem þurfa að nota hjólastóla og/eða göngugrindur við athafnir daglegs lífs.

Ákveðið hefur verið að hafa kynningu á “Hjólastóla- og göngugrindadansi” fyrir hádegi laugardag 14. ágúst n.k.

Kynningin verður í félagsheimilinu Boðanum, Boðaþingi 9, Kópavogi frá kl. 9:00 – 12:00.  Þátttökugjald er kr. 5.000.-

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 9. ágúst 2010 00:11
Heimsmeistaramót fatlaðra í sundi

Heimsmeistaramót fatlaðra í sundi fer fram í Eindhoven í Holandi daga 15. – 21. ágúst n.k.  Alls munu 655 sundmenn frá 54 löndum taka þátt í mótinu og keppa um þau verðlaun sem veitt eru hinum ýmsu greinum og fötlunarflokkum en mótið er stærsta sundmót frá upphafi.  Á mótinu keppa allir bestu sundmenn heimsins sem meðal annars tóku þátt í Ólympíumóti fatlaðra í Peking 2008 og Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fór hér á landi í októbermánuði 2009.

Níu íslenskir sundmenn verða meðal þátttakenda en af þeim kom fimm úr röðum hreyfihamlaðra og blindra og fjögur úr flokki þroskaheftra.  Í sundi fatlaðra er keppt í flokkum S1 – S10 fyrir hreyfihamlaða þar sem S1 táknar mestu fötlun og S10 minnstu fötlun. Flokkar S11 – S13 eru flokkar blindra og sjónskertra og flokkur S14 er flokkur þroskaheftra.

 

Íslenska hópinn skipa eftirtaldir sundmenn:

Aníta Óska Hrafnsdóttir, Firði

Kolbrún Alda Stefánsdóttir, Firði

Sonja Sigurðardóttir, ÍFR

Anna Kristín Jensdóttir, ÍFR

Hjörtur Már Ingvarsson, ÍFR

Eyþór Þrastarson, ÍFR/KR

Jón Margeir Sverrisson, Ösp/Sunddeild Fjölnis

Ragnar Magnússon, Firði

Pálmi Guðlaugsson, Firði/Sunddeild Fjölnis

 

Þjálfarar og fararstjórar verða þau Kristín Guðmundsdóttir, Helena Ingimundardóttir, Hjördís Hjartardóttir og Rúnar Arnarsson

Líkt og á Evrópumeistaramótinu 2009 teflir Ísland fram ungum og efnilegum hópi sundfólks sem miklar vonir eru bundnar við í framtíðinni.  Flestir ofangreindra einstaklinga þreyttu frumraun sína á stórmóti með þátttöku sinni á Evrópumeistaramótinu og til gamans má geta að reynslumestu einstaklingarnir þar voru Eyþór Þrastarson og Sonja Sigurðardóttir - bæði innan við tvítugt!   Það verður því spennandi að fylgjast með þessu unga og efnilega sundfólki í keppni meðal þeirra bestu.

Unnt verður að fylgjast með keppninni alla daga í vefsjónvarpi www.paralympicsport.TV þar sem aðdáendur íþrótta fatlaðra geta séð í beinni útsendingu sund á heimsmælikvarða jafn óðum og hlutirnir gerast.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 6. ágúst 2010 16:57
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka

27. Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram 21. ágúst n.k.Skráning fer fram á vef Reykjavíkurmaraþons www.marathon.is og líkt og áður geta þátttakendur hlaupið til góðs og safnað áheitum fyrir góðgerðar og líknarfélög.Þannig velur hlauparinn sér góðgerðarfélag til að safna áheitum fyrir en upplýsingar um þau má finna á vefnum www.hlaupastyrkur.is

 Dagskrá hlaupsins í Lækjargötu verður sem hér segir:
08:40 Maraþon, hálfmaraþon og boðhlaup (maraþon)
09:30 10 km hlaup
11:45 Upphitun
12:00 Skemmtiskokk
14:40 Tímatöku hætt

Dagskrá fyrir Latabæjarhlaupið í Hljómskálagarðinum verður birt þegar nær dregur hlaupi en reiknað er með að dagskrá hefjist á svipuðum tíma og í fyrr þ.e. um kl. 12:30

Allir sem þess eiga kost eru hvattir til þátttöku, sér og öðrum til góðs og safna áheitum fyrir sitt félag.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 5. ágúst 2010 17:54
Íslandsleikar Special Olympics frjálsum íþróttum og knattspyrnu

Íslandsleikar Special Olympics í frjálsum íþróttum og knattspyrnu verða haldnir 25. september n.k. í Kaplakrika í Hafnarfirði en leikarnir eru haldnir í samvinnu við frjálsíþróttadeild og knattspyrnudeild FH.

Drög að dagskrá:

Kl. 09.30  Upphitun, knattspyrna
Kl. 10.00  Keppni hefst í knattspyrnu
Kl. 12.30  Keppni lokið í knattspyrnu
Kl. 12.30  HLÉ
Kl. 13.00  Upphitun, frjálsar
Kl. 13.30  Keppni hefst 100 m hlaup,  karlar og konur, undankeppni
Kl. 14.00  Langstökk, karlar og konur, undankeppni.
Kl. 14.30  Úrslit 100 m hlaup, karlar og konur
Kl. 14.50  Úrslit langstökk, karlar og konur
Kl. 15.30  Keppni lokið í frjálsum

Í knattspyrnu eru keppendur á öllum aldri, blönduð lið karla og kvenna og skipt verður í flokka getumeiri og getuminni.Athygli er vakin því að skrá þarfkeppendur í annanhvorn flokkinn, þannig að keppnin verði sem jöfnust og áskilur undirbúningsnefnd sér að geta fært lið milli flokka reynist þau ekki rétt flokkuð.

Skráningafrestur er til 10. september n.k. en frekari upplýsingar um leikana má fá á skrifstofu ÍF if@isisport.is og hjá astakata@fss.is

Öll verðlaun til Íslandsleikanna eru gefin af Íslandsbanka sem er aðalstyrktaraðil Special Olympics á Íslandi

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 26. júlí 2010 14:24
Unglingalandsmót UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið í Borgarnesi 29. júlí - 1. ágúst.Unglingalandsmót UMFÍ eru vímuefnalaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin eru árlega um verslunarmannahelgina.Mótin eru haldin á mismunandi stöðum ár frá ári en töluverð uppbygging íþróttamannvirkja hefur átt sér stað samhliða mótunum. Fyrsta Unglingalandsmótið var haldið á Dalvík árið 1992.

Aldurstakmörk þátttakenda til að keppa á mótunum eru 11 – 18 ára.Allir sem eru innan þessara marka geta tekið þátt í mótinu, óháð búsetu eða þátttöku í íþróttum, allir geta verið með.

Þátttaka á Unglingalandsmótunum hefur farið vaxandi og eru keppendur um 1.500 talsins.Mótsgestir hafa verið um og yfir 10.000

Sjá heimasíðu: http://www.umfi.is/umfi/unglingalandsmot/

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 20. júlí 2010 20:49
Úthlutun Pokasjóðs verslunarinnar

Pokasjóður myndÁrlega úthlutar Pokasjóður verslunarinnar styrkjum til hinna ýmsu verkefna á sviði umhverfismála, menningar, mannúðar, íþrótta og útivistar um land allt.

Nýlega úthlutaði sjóðurinn við hátíðlega athöfn um 50 milljónum króna til 55 verkefna á hinum ýmsu sviðum.Með þessari úthlutun hefur Pokasjóður alls úthlutað einum milljarði króna frá því sjóðurinn tók til starfa árið 1995.

Pokasjóður hefur mörg undanfarin ár styrkt sumarbúðir ÍF á myndarlegan en styrknum veitti viðtöku að þessu sinni Jóhann Arnarsson, annar forstöðumanna sumarbúða ÍF til margra ára.

Til gamans má geta að við þetta tækifæri voru Ómari Ragnarssyni veitt umhverfisverðlaun UMFÍ og Pokasjóðs 2010 fyrir óeigingjarnt og ötult starf í þágu íslenskrar náttúru.

Íþróttasamband fatlaðra færir stjórn Pokasjóðs sínar bestu þakkir fyrir velvilja og veittan stuðning nú sem áður.Stuðningur Pokasjóðs er Íþróttasambandi fatlaðra, sumarbúðunum og þeim sem þær sækja mikils virði og gerir sambandinu kleift að standa jafn myndarlega að starfseminni og raun ber vitni.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 16. júlí 2010 14:54
Ungir til athafna: Thelma Ólafsdóttir

Síðustu tvo mánuði hefur Thelma Ólafsdóttir unnið hörðum höndum við hin ýmsu verkefni á vegum Íþróttasambands fatlaðra. Thelma kom til ÍF í verkefninu Ungir til athafna sem er á vegum Vinnumálastofnunar og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Meðal verkefna Tehlmu hefur verið endurskipulagning á hinum ýmsu gögnum ÍF s.s. úrslitum móta, ritaskrá, myndaskrá og hin ýmsu tilfallandi verkefni.

Verkefnið var ÍF afar kærkomið enda mörg verk sem gangast þarf í á skrifstofunni sem og utan hennar og það gerði Thelma af röggsemi og ráðvendni og kann ÍF henni bestu þakkir fyrir.

Ljósmynd/ Thelma önnum kafin á skrifstofunni.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 14. júlí 2010 17:16
Jóhanna sigurvegari á fyrsta minningarmóti Harðar

Jóhanna Ásgeirsdóttir hafði sigur úr bítum á fyrsta minningarmóti Harðar Barðdal í pútti sem fram fór á púttvellinum við Hraunkot í Hafnarfirði í gær. Jóhanna hafði sigur í flokki fatlaðra og fékk fyrir vikið farandbikar en héðan í frá verður minningarmót Harðar Barðdal haldið árlega í júlímánuði. Hörður Barðdal var ötull forvígismaður golfíþróttar fatlaðra á Íslandi og gengdi formennsku hjá Golfsamtökum fatlaðra til dauðadags. Þá var Hörður á meðal fyrstu afreksíþróttamanna landsins í röðum fatlaðra og fyrrum stjórnarmaður hjá Íþróttasambandi fatlaðra en hann lést í fyrra eftir baráttu við krabbamein.

Alls voru 43 keppendur skráðir til leiks og þar af kepptu 15 í flokki fatlaðra sem flest hver hafa stundað æfingar á vegum GSFÍ undir handleiðslu Jóhanns Kristjáns Hjaltasonar í sumar. (Æfingarnar fara fram í Hraunkoti alla þriðjudaga í sumar frá kl. 17-19 fyrir bæði hreyfi- og þroskahamlaða).

Lokastaða:

Flokkur fatlaðra:
Jóhanna Ásgeirsdóttir 37
Hildur Jónsdóttir 38
Sigurður V. Valsson 39

Flokkur ófatlaðra:
Valgerður – 36
Kristmann Magnússon – 36 (Valgerður með betra skor á seinni 9)
Halldór K. – 37

Mótið lukkaðist í alla staði vel enda brakandi blíða sem brosti við pútturum á mótinu og þá voru dætur Harðar heitins þær Fanney og Sesselja mættar til þess að afhenda verðlaun á mótinu. Systurnar kvöddu sér hljóðs og tilkynntu mótsgestum að fyrir lægi að stofna minningarsjóð Harðar Barðdals og yrði honum komið í gagnið sem allra fyrst.

Nú þegar er búið að festa annað minningarpúttmót Harðar Barðdals en það fer fram í Hraunkoti á næsta ári miðvikudaginn 13. júlí og því slétt ár sem fatlaðir jafnt og ófatlaðir púttarar fá til þess að slípa sig fyrir næsta mót.

Meðalskor þessa fyrsta móts var 46,8 högg.

Mynd1: Sigurvegarar á mótinu ásamt systrunum Fanney Barðdal (lengst til vinstri) og Sesselju Barðdal (lengst til hægri)
Mynd 2: Sigurvegarar í flokki fatlaðra, frá vinstri Hildur Jónsdóttir, Jóhanna Ásgeirsdóttir og Sigurður V. Valsson.
Mynd 3: Sigurvegarar í flokki ófatlaðra, frá vinstri Kristmann, Valgerður og Halldór K.

Ljósmyndir/ Jón Björn Ólafsson - ÍF

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 2. júlí 2010 10:36
Minningarmót um Hörð Barðdal

Golfsamtök fatlaðra á Íslandi munu standa að púttmóti í minningu Harðar Barðdal þriðjudaginn 13. júlí næstkomandi kl. 18:00. Hörður var ötull forvígismaður golfíþróttar fatlaðra á Íslandi og gengdi formennsku hjá GSFÍ til dauðadags. Þá var Hörður á meðal fyrstu afreksíþróttamanna landsins í röðum fatlaðra og fyrrum stjórnarmaður hjá Íþróttasambandi fatlaðra.

Mótið fer fram á púttvellinum við Hraunkot (GK) í Hafnarfirði og hefst stundvíslega kl. 18.00 Skráning fer fram á annak@isisport.is en einnig er hægt að skrá sig á staðnum við komu.

Keppt verður í tveimur flokkum, flokkum ófatlaðra og fatlaðra og veitt verðlaun í báðum flokkum. Sigurvegari í flokki fatlaðra fer svo heim með veglegan farandbikar en stefnt er að því að gera mótið að árlegum viðburði.

Allar nánari upplýsingar má fá á skrifstofu Íþróttasambands fatlaðra í síma 514 4080 eða með töluvpósti á if@isisport.is

Ljósmynd/ Hörður Barðdal heitinn við púttvöllinn í Hraunkoti í Hafnarfirði.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 25. júní 2010 12:33
Arion banki áfram einn af bakhjörlum Íþróttasambands fatlaðra

Arion banki og Íþróttasamband fatlaðra undirrituðu samstarfssamning í dag, 23. júní, sem felur í sér að Arion banki verður einn af aðalbakhjörlum sambandsins. Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka og Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands fatlaðra skrifuðu undir styrktarsamninginn í dag sem gildir fram yfir Ólympíumótið árið 2012. Allt frá stofnun Íþróttasambands fatlaðra 1979 hefur bankinn verið einn stærsti styrktaraðili íþrótta fatlaðra hér á landi.

Í tilefni af undirritun samningsins sagði Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands fatlaðra að mikil ánægja væri með stuðning Arion banka: ,,Við Íslendingar höfum eignast fjölda ólympíu- og heimsmeistara í íþróttum fatlaðra og stuðningurinn nú hvetur okkur til áframhaldandi afreka.“

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka sagði við undirritun samningsins að það væri heiður að fá tækifæri til að taka þátt í að efla íþróttir fatlaðra hér á landi: ,,Við teljum afar mikilvægt að halda áfram þessu góða samstarfi með Íþróttasambandi fatlaðra og óskum þeim velfarnaðar í því starfi sem framundan er.“

Ljósmynd/ Höskuldur t.v. og Sveinn Áki t.h.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 25. júní 2010 11:12
Heildarúrslit: Opna Þýska meistaramótið

Alls voru 14 íslenskir sundmenn sem tóku þátt í opna þýska meistaramótinu í sundi um síðustu helgi. Hér að neðan gefur að líta heildarúrslit mótsins hjá íslenska hópnum en níu gullverðlaun féllu Íslandi í hlut að þessu sinni enda efnilegur hópur hér á ferðinni.

Fimmtudagur 17. Júní 2010.
800 skrið  Pálmi Guðlaugsson   S7,  synti á:  13:10,40 nýtt Íslandsmet.

Föstudagur  18. Júní  Undanrásir
100 bringa
 
Anna Kristín Jensdóttir  SB5  2:22,92  Íslandsmet   nr. 6  SB5
Bjarndís Sara Breiðfjörð  SB7  2:13,56   nr. 7  SB7
Kolbrún Alda Stefánsdóttir  SB14  1:40,04   nr. 4 flokkur AB
Ragnar Ingi Magnússon  SB14  1:39,66   nr. 9  S14
Adrian Erwin   SB14   1:36,83   nr. 6  S14
Vilhelm Hafþórsson  SB14  1:31,34   nr. 5 flokkur AB
Jón Margeir Sverrisson SB14  1:21,92   Silfur S14

200 skrið
Thelma Björg Björnsdóttir  S6  3:55,67 Íslandsmet nr. 9  S6
Aníta Hrafnsdóttir      S14  2:57,09   brons S14
Kolbrún Alda Stefánsdóttir  S14  2:48,65   brons unglingaflokkur  C
Hjörtur Már Ingvarsson  S5  3:42,40   nr. 6  S5
Pálmi Guðlaugsson, S7   3:30,40   nr. 10 S7
Guðmundur Hermannsson, S9  2:27,47   nr. 8 S9
Adrian Erwin,  S14   2:47,40   nr. 12 S14
Vilhelm Hafþórsson S14   2:23, 24  Gull flokkur AB
Ragnar Ingi Magnússon  S14  2:24,23   nr. 6  S14
Eyþór Þrastarson S11  2:31,61   Gull flokkur S11
Jón Margeir Sverrisson  S14  2:11,24   Gull flokkur S14 og unglingaflokkur

50 bak
Sonja Sigurðardóttir S5  1:00,52   nr. 7  S5
Aníta Hrafnsdóttir S14  0:44,37   Gull flokkur S14  
Ragnar Ingi Magnússon   S14  0:34,78   Gull flokkur S14

Föstudagur  18. Júní  Úrslit
100 bringa

Jón Margeir Sverrisson SB14  1:21,55

200 skrið
Jón Margeir Sverrisson S14  2:10,20   1. Sæti í unglingaflokki

50 bak
Aníta Hrafnsdóttir S14  0:44,34
Ragnar Ingi Magnússon   S14  0:34,44

Laugardagur 19. Júní    Undanrásir
100 skrið

Bjarndís Sara Breiðfjörð  S7  2:03,02   nr. 14  S7
Anna Kristín Jensdóttir  S6  2:21,48   nr. 11  S6
Thelma Björg Björnsdóttir, S6  1:51,73   nr. 9  S6
Sonja Sigurðardóttir, S5   2:08,42   nr. 9  S5
Aníta Hrafnsdóttir, S14   1:23,38   brons í flokki S14
Kolbrún Alda Stefánsdóttir, S14  1:17,53   nr 7. flokkur AB
Hjörtur Már Ingvarsson, S5  1:44,99   nr. 8  S5
Pálmi Guðlaugsson, S6   1:37,10   nr. 22  S7
Guðmundur H. Hermannsson, S9 1:09,18   nr. 25  S9
Eyþór Þrastarson, S11   1:09,18   nr. 7   S11
Adrian Erwin, S14   1:11,04   nr. 13  S14
Ragnar Magnússon, S14  1:04,35   nr. 6  S14
Vilhelm Hafþórsson, S14  1:02,94   brons í flokki AB
Jón Margeir Sverrisson, S14  1:00,04   silfur í flokki S14 og unglingaflokkur A

50 Bringa
Bjarndís Sara Breiðfjörð  SB7  0:59,51   nr. 5  SB7
Anna Kristín Jensdóttir  SB5  1:07,16   nr. 5  SB5
Thelma Björg Björnsdóttir, SB5  1:20,45   nr. 7  SB5
Kolbrún Alda Stefánsdóttir, S14  ógild
Vilhelm Hafþórsson, SB14  0:39,79   nr 7. flokkur AB
Adrian Erwin, SB14   0:41,46   brons í flokki S14

200 bak
Sonja Sigurðardóttir, S5   4:37,60   nr. 15  í opnum flokki

200 fjórsund
Kolbrún Alda Stefánsdóttir, S14  3:23,50   nr 7. flokkur AB
Aníta Hrafnsdóttir, SM14  3:25,67   silfur í flokki S14
Ragnar Ingi Magnússon, SM14  2:46,38   Brons í flokki S14
Vilhelm Hafþórsson, SM14  2:52,05   brons í flokki AB
Eyþór Þrastarson, SM11  3:08,43   nr. 4 S11
Pálmi Guðlaugsson, SM6  3:53,31   nr. 10  SM7
Adrian Erwin, SM14   3:01,51   nr. 5 S14
Jón Margeir Sverrisson, SM14  2:36,82   gull í flokki S14

Laugardagur 19. Júní    Úrslit
100 skrið

Jón Margeir Sverrisson, S14  0:59,24   nr. 3 í unglingaflokkur
Ragnar Ingi Magnússon, S14  1:03,59   unglingaflokkur

50 Bringa
Bjarndís Sara Breiðfjörð  SB7  0:58,61   unglingaflokkur
Vilhelm Hafþórsson    0:39,69   unglingaflokkur

200 fjór
Jón Margeir Sverrisson, SM14  2:34,20   unglingaflokkur 
Ragnar Ingi Magnússon, SM14  2:50,96   unglingaflokkur

Sunnudagur 20. Júní    Undanrásir
400 skrið

Pálmi Guðlaugsson   6:38,16
Guðmundur H. Hermannsson, S11 4:58,74   nr. 10 í S9 & nr. 9 í unglingaflokki
Eyþór Þrastarson, S11   5:19,72   brons í flokki S11
Jón Margeir Sverrisson, S14  4:42,64   gull í flokki S14

100 bak 
Sonja Sigurðardóttir, S5   2:11,93   brons í flokki S5
Bjarndís Sara Breiðfjörð, S7  1:54,57   nr. 5  S7
Aníta Hrafnsdóttir, S14   1:36,03   silfur í flokki S14
Kolbrún Alda Stefánsdóttir, S14  1:35,90   nr 7. flokkur AB
Adrian Erwin, S14   1:29,39   nr. 10 S14
Vilhelm Hafþórsson, S14  1:22,17   nr 7. flokkur AB
Ragnar Ingi Magnússon, S14  1:16,48   nr. 4 S14
Jón Margeir Sverrisson, S14  1:13,32   brons í flokki 14
Eyþór Þrastarson, S11   1:25,30   nr. 6  S11

50 flug
Pálmi Guðlaugsson, S7   0:44,81   nr. 11  S7
Ragnar Ingi Magnússon, S14  0:34,24   gull í flokki  S14

50 skrið
Bjarndís Sara Breiðfjörð , S7  0:54,70   nr. 12 S7
Anna Kristín Jensdóttir, S6  1:02,67   nr. 12  S6
Thelma Björg Björnsdóttir, S6  0:49,55   Íslandsmet  nr. 9  S6
Sonja Sigurðardóttir, S5   0:56,41   nr. 8  S5
Aníta Hrafnsdóttir, S14   0:37,46   brons í flokki S14
Kolbrún Alda Stefánsdóttir, S14  0:34,58   nr 7. flokkur AB
Hjörtur Már Ingvarsson, S5  0:46,40   Íslandsmet  nr. 9  S5
Pálmi Guðlaugsson, S7   0:37,96   nr. 15 S7
Guðmundur H. Hermannsson, S9 0:32,32   nr. 34 í S9
Eyþór Þrastarson, S11   0:32,42   nr. 10 S11
Adrian Erwin, S14   0:32,52   nr. 12 S14
Vilhelm Hafþórsson, S14  þjófstart
Ragnar Ingi Magnússon, S14  0:28,69   nr. 4 S14
Jón Margeir Sverrisson, S14  0:27,30   gull í flokki  S14

Sunnudagur 20. Júní    Úrslit
400 skrið

Guðmundur H. Hermannsson, S11 5:05,73  unglingaflokkur 
Jón Margeir Sverrisson, S14  4:42,77  unglingaflokkur 

100 bak 
Ragnar Ingi Magnússon, S14  1:20,00  unglingaflokkur
Jón Margeir Sverrisson, S14  1:14,88  unglingaflokkur

50 flug
Ragnar Ingi Magnússon, S14  0:33,79  unglingaflokkur

50 skrið
Ragnar Ingi Magnússon, S14  0:29,47  unglingaflokkur
Jón Margeir Sverrisson, S14  0:27,76  unglingaflokkur

Íslandsmet sett á Opna Þýska meistaramótinu 17. til 20. júní 2010
Pálmi Guðlaugsson  S7 800 frjálst  13:10,40 17/06/10
Anna Kristín Jensdóttir  SB5 100 bringa  2:22,92  18/06/10
Thelma Björg Björnsdóttir S6 200 skrið  3:55,67  18/06/10
Thelma Björg Björnsdóttir S6 50 skrið   0:49,55  20/06/10
Hjörtur Már Ingvarsson  S5 50 skrið   0:46,40  20/06/10

Ljósmynd/ Íslenski hópurinn í Þýskalandi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 23. júní 2010 11:56
Golfæfingar í Hraunkoti á þriðjudögum í sumar

Í sumar mun Golfsamband fatlaðra á Íslandi bjóða upp á golfæingar í Hraunkoti hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði. Æfingarnar verða á þriðjudögum á milli kl. 17:00-19:00 fyrir alla fötlunarhópa.

Jóhann Hjaltason verður kennari við æfingarnar og stefnt er á að skipta tímunum upp eftir getu þannig að æfingin verði um klukkustund á hvern iðkanda í viku. Æfingarnar eru þegar hafnar og næsta æfing verður í Hraunkoti þriðjudaginn 29. júní næstkomandi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 23. júní 2010 11:49
Alþjóðlegi Ólympíudagurinn í dag

Alþjóðlegi Ólympíudagurinn er haldinn hátíðlegur um allan heim í dag, 23. júní. Þennan dag árið 1894 var Alþjóðaólympíunefndin stofnuð.

Þetta er því sérstakur dagur í sögu íþrótta og er markmiðið að bjóða fólki að koma saman, hreyfa sig, læra nýjar íþróttagreinar og kynnast ólympískum hugsjónum og gildum. Ólympísku gildin eru; að ávallt gera sitt besta, sýna vináttu og virðingu.

Í tilefni dagsins standa ÍSÍ og Ólympíufjölskylda ÍSÍ (Sjóvá, Íslandsbanki, Valitor Visa og Icelandair) að dagskrá sem hefst kl:13.00 í Egilshöll og lýkur við Laugardalslaugina kl:22:00 með Miðnæturhlaupinu.

Dagskráin er fjölbreytt; íþróttaþrautir Fjölnis í Egilshöll, stefnt að því að bæta íslandsmetið (500 manns) í að mynda ólympíuhringina, Ólympíufarar verða á staðnum. Síðan verður hægt að hitta upp fyrir Miðnæturhlaupið í Laugardalnum frá kl:20:00 með því að prófa, hafnarbolta, hjólaskíði, skylmingar og sundknattleik (sýningarleikur). Ólympíudagurinn er ætlaður öllum, óháð íþróttalegri getu. Meginþemu í tengslum við daginn eru þrjú – hreyfing, lærdómur og uppgötvun.

Frekari upplýsingar um dagskrána er að finna á heimasíðu ÍSÍ www.isi.is  

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 21. júní 2010 12:42
Úrslit á Opna þýska í sundi: Laugardagurinn 19. júní

Fleiri verðlaun féllu íslenska hópnum í skaut í Þýskalandi um helgina. Landsliðsþjálfararnir Kristín Guðmundsdóttir og Helena Hrund Ingimundardóttir hafa tekið saman öll úrslit frá laugardeginum.

Laugardagur 19. Júní                     Undanrásir

100 skrið
Bjarndís Sara Breiðfjörð  S7                         2:03,02
Anna Kristín Jensdóttir  S6                           2:21,48
Thelma Björg Björnsdóttir, S6                    1:51,73
Sonja Sigurðardóttir, S5                                 2:08,42
Aníta Hrafnsdóttir, S14                                  1:23,38       brons í flokki S14
Kolbrún Alda Stefánsdóttir, S14                    1:17,53
Hjörtur Már Ingvarsson, S5                         1:44,99
Pálmi Guðlaugsson, S6                                  1:37,10
Adrian Erwin, S14                                          1:11,04
Guðmundur H. Hermannsson, S9             1:09,18
Eyþór Þrastarson, S11                                   1:09,18
Ragnar Magnússon, S14                              1:04,35
Vilhelm Hafþórsson, S14                             1:02,94       brons í flokki AB
Jón Margeir Sverrisson, S14                        1:00,04       silfur í flokki S14 og jugend A

50 Bringa
Bjarndís Sara Breiðfjörð  SB7                     0:59,51
Anna Kristín Jensdóttir  SB5                       1:07,16
Thelma Björg Björnsdóttir, SB5                 1:20,45
Kolbrún Alda Stefánsdóttir, S14                               ógild
Vilhelm Hafþórsson, SB14                           0:39,79
Adrian Erwin, SB14                                         0:41,46                 brons í flokki S14

200 bak
Sonja Sigurðardóttir, S5                                               4:37,60
 
200 fjór

Kolbrún Alda Stefánsdóttir, S14                 3:23,50
Aníta Hrafnsdóttir, SM14                             3:25,67                 silfur í flokki S14
Ragnar Ingi Magnússon, SM14                  2:46,38                 Brons í flokki S14
Vilhelm Hafþórsson, SM14                         2:52,05                 brons í flokki AB
Eyþór Þrastarson, SM11                              3:08,43
Pálmi Guðlaugsson, SM6                             3:53,31
Adrian Erwin, SM14                                       3:01,51
Jón Margeir Sverrisson, SM14                   2:36,82                 gull í flokki S14

Laugardagur 19. Júní                     Úrslit

100 skrið
Jón Margeir Sverrisson, S14                       0:59,24                 nr. 3 í youth flokki
Ragnar Ingi Magnússon, S14                      1:03,59

50 Bringa

Bjarndís Sara Breiðfjörð  SB7                     0:58,61                 youth flokki
Vilhelm Hafþórsson                                       0:39,69                 youth flokki

200 fjór
Jón Margeir Sverrisson, SM14                   2:34,20                 youth flokki                      
Ragnar Ingi Magnússon, SM14                  2:50,96                 

Á laugardag voru Jón Margeir og Ragnar Ingi í úrslitum í 100 skrið og 200 fjór.
Bjarndís og Vilhelm í úrslit í 50 bringu.

Kveðja,
Kristín og Helena, þjálfarar íslenska hópsins á opna þýska meistara mótinu.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 19. júní 2010 14:23
Opna þýska meistaramótið: Verðlaun og met í stríðum straumi

Þrjú Íslandsmet hafa fallið hjá íslensku sundmönnunum sem nú keppa á opna þýska meistaramótinu. Alls fóru fjórtán sundmenn frá Íslandi til Þýskalands og hér að neðan má sjá öll helstu afrekin sem hópurinn hefur unnið hingað til.

Fimmtudagur 17. Júní 2010.
800 skrið  Pálmi Guðlaugsson   S7,  synti á:  13:10,40 nýtt Íslandsmet.

Föstudagur  18. Júní  Undanrásir

100 bringa 
Anna Kristín Jensdóttir  SB5  2:22,92  Íslandsmet 
Bjarndís Sara Breiðfjörð  SB7  2:13,56
Kolbrún Alda Stefánsdóttir  SB14  1:40,04
Ragnar Ingi Magnússon  SB14  1:39,66
Vilhelm Hafþórsson  SB14  1:31,34
Jón Margeir Sverrisson SB14  1:21,92   Silfur S14

200 skrið
Thelma Björg Björnsdóttir  S6  3:55,67 Íslandsmet
Aníta Hrafnsdóttir      S14  2:57,09   brons S14
Kolbrún Alda Stefánsdóttir  S14  2:48,65   brons youth  flokkur C
Hjörtur Már Ingvarsson   S5 3:40,40
Pálmi Guðlaugsson, S7   3:30,40
Guðmundur Hermannsson, S9  2:27,47
Adrian Erwin,  S14   2:47,40
Vilhelm Hafþórsson S14   2:23, 24  Gull flokkur AB
Ragnar Ingi Magnússon  S14  2:24,23
Eyþór Þrastarson S11  2:31,61   Gull flokkur S11
Jón Margeir Sverrisson  S14  2:11,24   Gull flokkur S14 og Youth A

50 bak
Sonja Sigurðardóttir S5  1:00,52
Aníta Hrafnsdóttir S14  0:44,37   Gull flokkur S14  
Ragnar Ingi Magnússon   S14  0:34,78   Gull flokkur S14

Föstudagur  18. Júní  Úrslit

100 bringa
Jón Margeir Sverrisson SB14  1:21,55

200 skrið
Ragnar Ingi Magnússon  S14  2:26,70  (synti í youth finals)
Jón Margeir Sverrisson S14  2:10,20  1. Sæti í youth finals by 1000 point system

50 bak
Aníta Hrafnsdóttir S14  0:44,34
Ragnar Ingi Magnússon   S14  0:34,44

Krakkarnir stóðu sig rosalega vel og voru flestir að synda á sínum bestu tímum.

Jón Margeir, Ragnar og Aníta komust í úrslit. Jón Margeir synti í opnum flokki í úrslitum en þar sem hann er líka í unglingaflokki var hann gildur þar líka. Þannig kom það okkur mjög á óvart þegar hann var kallaður upp og við vorum mjög stolt þegar íslenski þjóðsöngurinn var spilaður.

Kveðja frá Þýskalandi
Kristín og Helena þjálfarar íslenska hópsins

Ljósmynd/ Jón Margeir Sverrisson er á meðal íslensku keppendanna í Þýskalandi og er þegar búinn að vinna til verðlauna.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 15. júní 2010 22:19
14 sundmenn á Opna þýska

Dagana 17.-20. júní fer fram opna þýska meistaramótið í sundi og mun Ísland tefla fram 14 sundmönnum á mótinu. Margir sundmannanna freista þess að ná lágmörkum fyrir Heimsmeistaramótið í sundi sem fram fer í Hollandi í ágústmánuði. Íslenski hópurinn hélt út í dag og er væntanlegur aftur heim 21. júní.
 
Íslenska hópinn skipa eftirtaldir sundmenn:

Adrian Erwin
Aníta Ósk Hrafnsdóttir
Anna Kristín Jensdóttir
Bjarndís Sara Breiðfjörð
Hjörtur Már Ingvarsson
Kolbrún Alda Stefánsdóttir
Pálmi Guðlaugsson
Ragnar Ingi Magnússon
Sonja Sigurðardóttir
Thelma Björg Björnsdóttir
Guðmundur Hermannsson
Vilhelm Hafþórsson
Jón Margeir Sverrisson
Eyþór Þrastarson

Þjálfarar og aðstoðarmenn í ferðinni eru:
Kristín Guðmundsdóttir – landsliðsþjálfari
Ingi Þór Einarsson – formaður Sundnefndar ÍF
Helena Hrund Ingimundardóttir  - þjálfari
Ludvig Guðmundsson – læknir
Hafdís Aðalsteinsdóttir – aðstoðarmaður
Hjördís Klara Hjartardóttir - aðstoðarmaður

Ljósmynd/ Eyþór Þrastarson er á meðal keppenda á Opna þýska meistaramótinu en Eyþór keppir í flokki S11, flokki blindra.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 14. júní 2010 21:49
Þrjú Íslandsmet á Akureyri

Bikarkeppni Íþróttasambands fatlaðra í sundi fór fram á Akureyri um síðustu helgi þar sem sveit Fjarðar hafði öruggan sigur á mótinu. Þetta var þriðja árið í röð sem Fjörður vinnur bikarinn en á sjálfan mótsdaginn féllu þrjú Íslandsmet í 25m. laug. Pálmi Guðlaugsson setti tvö met en kappinn hefur tekið stöðugt stærri skref síðustu misserin.

Íslandsmet sett á Bikarkeppni ÍF 2010:

Pálmi Guðlaugsson Fjörður S6 200 skriðsund Karla  2.56.38
Pálmi Guðlaugsson Fjörður S6 50.metra flugsund karla 00:44.02.
Thelma Björg Björnsdóttir ÍFR S5 200.skriðsund kvenna 3.59.14.

Þess má svo geta að bæði Pálmi og Thelma verða í íslenska landsliðshópnum sem heldur til Þýskalands á morgun sem tekur þátt í opna þýska meistaramótinu. Ferðin er liður í undirbúningi fyrir Heimsmeistaramótið í sundi sem fram fer í Hollandi í komandi ágústmánuði.

Ljósmynd/ Pálmi er á góðu skriði þessi misserin

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 14. júní 2010 11:26
Sumarhátíð CP félagsins

Hin árlega sumarhátíð CP félagsins á Íslandi verður haldin verður í Reykholti í Biskupstungum helgina 2. júlí - 4. júlí næstkomandi.

Boðið er uppá stæði fyrir tjaldið eða gistingu í svefnpokaplássi. Þeir sem ekki vilja gista geta keyrt á staðinn að morgni laugardags og til baka um kvöldið.

Sumarhátið CP félagsins er góður vettvangur fyrir bæði börn og foreldra í félaginu. Stemningin er að venju mjög góð, á laugardeginum skella flestir sér í sundlaug sem er á svæðinu og um kvöldið er kvöldverður í boði grill og gaman.

Í framhaldi af grillinu eru skemmtiatriði og diskó fyrir börn og fullorðna. Hoppukastalar og leiktæki eru á svæðinu .

Skráning er hafinn og fer fram í gegnum tölvupóst á skrifstofa@cp.is  í póstinum þarf að koma fram  nafn þess sem pantar og hversu margir koma, aldur barna og hvar á að gista. Skráning að vera búin fyrir 29. júní. Einnig er hægt að skrá sig í síma félagsins 691-8010.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 12. júní 2010 15:44
Fjörður bikarmeistari þriðja árið í röð

Bikarkeppni Íþróttasambands fatlaðra var rétt í þessu að ljúka í blíðskaparviðri á Akureyri. Liðsmenn Fjarðar frá Hafnarfirði höfðu öruggan sigur á mótinu og hafa því unnið bikarinn þrjú ár í röð, glæsilegur árangur en Fjarðarliðar rökuðu inn 12299 stigum á mótinu.

Lokastigaröð mótsins:
Fjörður 12299
Óðinn  6906
ÍFR  6594
Ösp  2711

Ljósmynd/ Þór Jónsson: Sigursveit Fjarðar kát í Akureyrarlaug í dag.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 11. júní 2010 10:17
60 keppendur á bikarmóti ÍF

Bikarmót Íþróttasambands fatlaðra í sundi fer fram á Akureyri á morgun, þann 12. júní. Upphitun hefst kl. 11:00 í Akureyrarlaug og mótið sjálft hefst kl. 12:00.

Fjörður á titil að verja en félagið vann mótið fyrir Norðan í fyrra.

Að þessu sinni eru 60 keppendur skráðir til leiks frá 4 aðildarfélögum ÍF. Gisting verður í Brekkuskóla sem er staðsettur við hlið sundlaugarinnar.

Þar sem mótið fer fram í útilaug segir spáin fyrir morgundaginn að von sé á 13 stiga hita, alskýjað og nánast logn eða um 3 m/s. 

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 10. júní 2010 15:03
Myndasafn: Íslandmót ÍF í frjálsum utanhúss

Nú má finna myndasafn frá Íslandsmóti ÍF í frjálsum Íþróttum inni á myndasíðu ÍF en mótið fór fram á Laugardalsvelli þann 5. júní síðastliðinn. Alls voru 44 keppendur skráðir til leiks frá 12 félögum.

Smellið hér til að sjá myndasafnið

Ljósmynd/ Akureyringurinn Kristófer Sigmarsson lét vel til sín taka á mótinu og fór aftur heim drekkhlaðinn verðlaunum.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 7. júní 2010 11:24
Suðrasystur komu færandi hendi á Íslandsmótinu

Íslandsmót ÍF í frjálsum íþróttum utanhúss fór fram á Laugardalsvelli laugardaginn 5. júní. Alls voru 44 keppendur skráðir til leiks frá 12 félögum. Að frátalinni svifryksmengun voru aðstæður góðar við mótið en sökum mengunarinnar var ákveðið að fella niður lengstu hlaupagreinarnar, 200m. og 400m. hlaup. Af þeim sökum var aðeins keppt í 100m. hlaupi, langstökki, kúluvarpi, hástökki og spjótkasti.

Sérstaka ánægju vakti á mótinu vaskleg endurkoma Hauks Gunnarssonar en kappinn reif fram skónna á nýjan leik og keppti fyrir hönd Suðra. Haukur keppir í flokki T37 og sýndi að hann hefur engu gleymt. Haukur er á meðal fremstu frjálsíþróttamanna í íþróttasögu fatlaðra á Íslandi og margfaldur verðlaunahafi hérlendis sem erlendis og hélt nokkrum heimsmetum í sínum ranni er ferill hans stóð sem hæst.

Þá voru þau Ingeborg Eide Garðarsdóttir, FH, og Baldur Ævar Baldursson, Snerpa, einnig mætt til leiks en bæði unnu þau til verðlauna á opna hollenska frjálsíþróttamótinu helgina 29.-30. maí síðastliðinn. Ingeborg náði sínum besta tíma á árinu í 100m. hlaupi er hún kom í mark á 17,51 sek. og Baldur bætti sig umtalsvert í langstökki frá mótinu í Hollandi er hann stökk 5,14m.

Kristófer Sigmarsson frá Eik á Akureyri vakti einnig verðskuldaða athygli á mótinu en Kristófer keppir í flokki þroskahamlaðra. Kraftmikill strákur að Norðan hér á ferðinni sem m.a. hljóp 100 metrana á rétt rúmum 13 sekúndum og skreið yfir 5 metrana í langstökkinu. Glæsilegur árangur hjá kappanum og verður spennandi að fylgjast með honum á næstu mótum.

Fleiri glæst tilþrif litu dagsins ljós á mótinu en Suðrasystur þær Hulda, Sigríður og María stálu senunni þegar þær systur komust allar þrjár saman á verðlaunapall. Þá kvað Hulda sér hljóðs á vellinum en þær systur komu færandi hendi. Stelpurnar búa í Mið-Mörk undir Eyjafjöllum og ef það er eitthvað sem þær eiga nóg af þessi misserin þá er það aska! Stelpurnar leystu mótsstjórn og fulltrúa stjórnar ÍF út með öskugjöfum en þær höfðu safnað saman ösku í nokkur ílát til gjafar. Þessi misserin er grátt um að litast á heimaslóðum systranna en það var enga grámyglu að sjá á þeim systrum við mótið enda annálaðir orkuboltar og fóru heim drekkhlaðnar verðlaunum að vanda.

Liðsmenn Eikar og Sigurjón Sigtryggsson frá Snerpu lentu í nokkru basli á leið sinni til Reykjavíkur. Töf varð á flugi hópsins að Norðan en Sigurjón og Eikarliðar börðu sér leið Suður og komust til mótsins þegar stökk- og kastgreinar voru að hefjast. Mótsstjórn heimilaði hópnum einnig að keppa í 100m. spretthlaupi en þar sem tímatökubúnaður mótsins var ekki lengur fyrir hendi voru hlaupin tímasett á skeiðklukku og því telst árangur þeirra í hlaupunum ekki lögleg úrslit.

Camilla Th. Hallgrímsson varaformaður ÍF setti mótið um síðustu helgi og hennar fyrsta verk við mótssetningu var að afhenda Kára Jónssyni silfurmerki ÍF. Hér að neðan fer umsögn um Kára:

Kári Jónsson er landsliðsþjálfari Íþróttasambands fatlaðra í frjálsum íþróttum. Kári sem er lektor í íþróttafræðum við Háskóla Íslands hefur yfirgripsmikla reynslu af frjálsíþróttum sem keppandi, þjálfari, kennari og fræðimaður
Kári hefur stýrt íslensku afreksfólki úr röðum fatlaðra á erlendri grundu með glæsilegum árangri og verið ÍF veigamikill aðstoðarmaður í hinum ýmsu atriðum er tengjast frjálsum íþróttum.

Stjórn ÍF hefur einróma samþykkt að sæma Kára Jónsson Silfurmerki ÍF en það er veitt þeim einstaklingum, sem inna af höndum skipulags- stjórnunar eða þjónustustörf í þágu íþrótta fatlaðra.

Úrslit í sæti 1-3 á mótinu eru væntanleg síðar í dag og á morgun verða heildarúrslit mótsins aðgengileg hér á síðunni.

Mynd 1: Suðrasystur þær Hulda, María og Sigríður ásamt mótsstjórn og Camillu Th. Hallgrímsson varaformanni ÍF.
Mynd 2: Haukur Gunnarsson á sjöundu hæð í langstökkinu.
Mynd 3: Camilla Th. Hallgrímsson sæmir Kára Jónsson silfurmerki ÍF.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 3. júní 2010 16:30
Öspin í góðu yfirlæti á Gíbraltar

Þessa dagana er myndarleg sveit frá Íþróttafélaginu Ösp stödd á Gíbraltar þar sem afmælismót Special Olympics á Gíbraltar fer fram.

Sverrir Gíslason, einn leiðangursmanna, sendi okkur þessa mynd af hópi Aspar en hópurinn keppir m.a. í knattspyrnu, sundi og frjálsum á mótinu.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 2. júní 2010 14:08
Fjölgun milli ára á Íslandsmótinu í frjálsum

Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í frjálsum íþróttum utanhúss fer fram á Laugardalsvelli laugardaginn 5. júní næstkomandi. Mótið hefst kl. 10:00 og er ráðgert að því ljúki um kl. 14:00.

Keppt verður í 100, 200 og 400 m. hlaupi, langstökki með atrennu, kúluvarpi og hástökki. Að þessu sinni eru 12 félög sem skráð hafa keppendur til leiks og eru þeir 44 talsins. Það er nokkur fjölgun frá því í fyrra en 35 manns kepptu á mótinu á síðasta ári sem þá fór fram í Kópavogi.

Ljóst er að íþróttafólkið ætlar sér stóra hluti um helgina enda er fjöldi skráninga 141 og því margir að keppa í fleiri en einni grein.
 
Veðurspáin fyrir laugardaginn er góð en samkvæmt framtíðarspánni á að vera um 15 stiga hiti, alskýjað og vindur um 3m/s.

Ljósmynd/ Frá Íslandsmótinu í fyrra á Kópavogsvelli þar sem veðurguðirnir léku við hvurn sinn fingur.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 1. júní 2010 10:03
Fundur um málefni Golfsamtaka Fatlaðra
N.k. miðvikudag 2. Júní kl.17:00 verður fundur á skrifstofu GSÍ um málefni Golfsamtaka Fatlaðra þar sem undirbúinn verður aðalfundur samtakanna og rætt um starfið í sumar. Áhugasamir eru hvattir til mæta á fundinn.
 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 31. maí 2010 16:34
Eitt gull og tvö brons í Hollandi

Þau Baldur Ævar Baldursson og Ingeborg Eide Garðarsdóttir eru væntanleg aftur til Íslands í dag með gullverðlaun og tvenn bronsverðlaun í farteskinu frá opna hollenska mótinu í frjálsum íþróttum.

Mótið fór fram í Emmen í Hollandi um síðastliðna helgi og var árangur íslensku keppendanna eftirfarandi:

Ingeborg Eide Garðarsdóttir
Bronsverðlaun í 100m. hlaupi á tímanum 17,58 sek. Var fjórða inn í úrslit eftir undanrásir á tímanum 17,55 sek.
Ingeborg hljóp á 37,06 sek. í 200m hlaupi í undanrásum og náði ekki inn í úrslit en besti tími mótsins í hennar flokki T37 var 29,34 sek.
Ingeborg hafnaði í 11. sæti í langstökki er hún stökk 2,92 metra og náði 5 gildum stökkum í 6 tilraunum.

Baldur Ævar Baldursson
Vann til gullverðlauna í kúluvarpi, kastaði 10,32 m.
Vann til bronsverðlauna í spjótkasti, kastaði spjótinu 28,76 m
Baldur náði ekki á verðlaunapall í langstökki, hann gerði 5 ógild stökk af 6 en það sem taldi var 4,75m. en Íslandsmet Baldurs í greininni í flokki T37 er 5,42m. og þá lengd fór hann síðast í Fuglshreiðrinu á Ólympíumóti fatlaðra í Peking árið 2008.

Ljósmynd/ Úr safni: Baldur Ævar í loftköstum á Ólympíumóti fatlaðra í Peking 2008.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 28. maí 2010 16:05
Íslenski hópurinn klár í slaginn í Hollandi

Íslenski hópurinn er lentur og búinn að koma sér vel fyrir í Emmen í Hollandi þar sem opna hollenska mótið í frjálsum íþróttum fer fram um helgina. Hópurinn fór í morgun í heimsókn á keppnisvöllinn og skoðaði aðstæður.

Tveir keppendur frá Íslandi taka þátt í mótinu en það eru þau Ingeborg Eide Garðarsdóttir og Baldur Ævar Baldursson. Ingeborg er að keppa á sínu fyrsta alþjóðlega móti sem er viðurkennt af IPC (alþjóðaólympíusambandi fatlaðra).

Veður ytra var milt í morgun samkvæmt Kára Jónssyni öðrum af tveimur þjálfurum í ferðinni, 14 stiga hiti en sólarlaust og stöku skúrir. Keppni hefst svo á morgun, laugardag, og lýkur á sunnudag.

Ljósmynd/ Kári Jónsson: Baldur Ævar og Ingeborg Eide við frjálsíþróttavöllinn í Emmen í Hollandi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 26. maí 2010 13:54
Ingeborg og Baldur á opna hollenska

Frjálsíþróttafólkið Ingeborg Eide Garðarsdóttir og Baldur Ævar Baldursson halda til Hollands á morgun þar sem þau munu taka þátt í opna hollenska frjálsíþróttamótinu fyrir Íslands hönd. Mótið fer fram í Emmen í Hollandi sem er í um það bil 200 km. fjarlægð frá Amsterdam. Þjálfarar í ferðinni verða þau Kári Jónsson og Linda Kristinsdóttir. Mótið sjálft fer fram dagana 29. og 30. maí.

Baldur Ævar, Snerpa, keppir í langstökki, spjótkasti og kúluvarpi á mótinu en Ingeborg mun keppa í 100 og 200m. hlaupi og langstökki en þetta er fyrsta alþjóðlega mótið, viðurkennt af IPC, sem Ingeborg tekur þátt í en hún er 14 ára gömul og æfir með FH í Hafnarfirði.

Ljósmynd/ Ingeborg í langstökki á Norræna barna- og unglingamótinu í Svíþjóð síðastliðið sumar.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 25. maí 2010 15:16
Bikarkeppni ÍF í sundi á Akureyri 12. júní

Nú er komið að bikarkeppni ÍF í sundi. Mótið verður á Akureyri laugardaginn 12. júní. Upphitun hefst kl. 11:00 og mótið 12:00. Mótið ætti ekki að taka nema um tvo tíma til þrjá tíma. Reglurnar í ár eru þær sömu og fyrri ár. Hver keppandi má mest keppa í þremur greinum og hvert félag má mest senda tvo keppendur í hverja grein til stiga. Stigin eru svo reiknuð út frá heimsmeti í flokki viðkomandi sundmanns. Hins vegar mega eins margir keppa í eins mörum greinum og þeir vilja á mótinu. Það þarf bara að koma skýrt fram hver er til stiga í hverri grein.

Keppt verður í eftirfarandi greinum:
1. Grein 200 m skrið karla
2. Grein 200 m skrið kvenna
3. Grein 50 m bak karla
4. Grein 50 m bak kvenna
5. Grein 100 bringa karla
6. Grein 100 bringa kvenna
7. Grein 50 flug karla
8. Grein 50 flug kvenna
9. Grein 100 m skrið karla
10. Grein 100 m skrið kvenna
11. Grein 100 m bak karla
12. Grein 100 m bak kvenna
13. Grein 50 bringa karla
14. Grein 50 bringa kvenna
15. Grein 100 fjór karla
16. Grein 100 fjór kvenna
17. Grein 50 skrið karla
18. Grein 50 skrið kvenna

Mikilvægt er að það komi skýrt fram í hvaða flokkum sundmennirnir eru. Ef sundmennirnir hafa ekki verið flokkaðaðir formlega verður einnig að geta þess í skráningu. Skráningum skal skilað til Inga Þórs issi@islandia.is síðastalagi mánudaginn 7. júní. Þá hafa ítargögn ásamt Hy-Tek skrá mótsins verið send til aðildarfélaga, þeir sem ekki hafa fengið þessi gögn geta nálgast þau hjá skrifstofu ÍF á if@isisport.is 

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 25. maí 2010 11:37
Andlát: Össur Aðalsteinsson

Góður félagi og mikill velgjörðamaður Íþróttasambands fatlaðra, Össur Aðalsteinsson lést hinn 13. maí sl.

Leiðir Össurar og Íþróttasambands fatlaðra lágu saman í gengum störf hans fyrir Kiwanisklúbbinn Esju en klúbburinn gaf m.a. um áratuga skeið öll verðlaun til Íslandsmóta ÍF.  Var Össur þá oftar en ekki mættur til þess að veita verðlaun enda allt íþróttastarf fatlaðra honum mjög hugleikið. Össur var um áratuga  skeið félagsmaður klúbbsins og m.a. forseti hans starfsárið 1974 – 1975.  Össur gaf bikar í minningu konu sinnar Guðrúnar Pálsdóttur sem nefndur var Guðrúnarbikarinn. Í reglugerð um bikarinn segir að hann skuli ár hvert veittur árlega í 10 ár þeirri konu sem starfað hefur sérlega vel í þágu fatlaðs íþróttafólks. Þannig var Össur öflugur hvatamaður að eflingu íþrótta fatlaðra og honum hér með þakkaður ómetanlegur stuðningur við íþróttir fatlaðra.

Blessuð sé minning Össurar Aðalsteinssonar

Efri mynd: Össur ásamt Ernu Maríusdóttur, keiluþjálfara hjá Ösp, við afhendingu Guðrúnarbikarsins.
Neðri mynd: Össur Aðalsteinsson

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 20. maí 2010 11:41
Mandeville tekur við af Fu Niu Lele

Ólympíuleikarnir og Ólympíumótið færast nú nær en London kraumar nú við undirbúninginn fyrir stóru stundina 2012. Í gær voru lukkudýr leikanna kynnt til leiks, á Ólympíuleikunum verður Wenlock lukkudýr leikanna en á Ólympíumóti fatlaðra verður Mandeville lukkudýr leikanna og er það við hæfi þar sem síðasta Ólympíumót fatlaðra á Bretlandseyjum fór fram í Stoke Mandeville. Á þeim leikum unnu Íslendingar til tveggja bronsverðlauna í sundi en það gerðu þær Edda Bergmann og Anna Geirsdóttir, sundmenn úr röðum ÍFR.

Nöfn lukkudýranna eiga að endurspegla ríka sögu Bretlandseyja í tenglsum við Ólympíuleika og Ólympíumót og sagði Sebastian Coe formaður leikanna 2012 að lukkudýrin væru sköpuð fyrir börn til að sýna þeim glæsta sögu landsins á þessum stóru mótum.

Mandeville tekur því við hlutverkinu af litskrúðuga kálfinum Fu Niu Lele sem var lukkudýr Ólympíumóts fatlaðra í Peking árið 2008.

Sjá nánar um málið

Ljósmynd/ Wenlock til vinstri og Mandeville til hægri.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 20. maí 2010 10:18
Jón Margeir með besta afrekið á Asparmótinu

Um síðustu helgi fór fram 30 ára afmælismót Aspar í innilauginni í Laugardal. Á mótinu voru sett fimm Íslandsmet í sundi og keppt var um nýja bikar sem Kiwanisklúbburinn Elliði gaf til mótsins.

Nýja bikarinn fékk sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson fyrir besta afrek mótsins er hann fékk 781 stig fyrir 50m. flugsund, Jón Margeir syndir fyrir Ösp og Fjölni.

Ljósmynd/ Jón Margeir ásamt fulltrúum Kiwanisklúbbsins Elliða

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 18. maí 2010 12:45
Alþjóðlegt hjólastólarallí á Íslandi!

Á alþjóða MND deginum!

Staður: Thorsplan í Hafnarfirði og næsta nágrenni.

Dagur: Sunnudaginn 20. Júní 2010.

Stund: 14:00-? Fer alveg eftir fjölda.

Keppnisflokkar:
A. Rafmagnshjólastólar.
B. Handknúnir stólar.
C. Stjörnuflokkur á handknúnum stólum (vanir rallí ökumenn og „frægir“ einstaklingar.)

Þau sem þarfnast aðstoðar manns til að komast á leiðarenda eru að sjálfsögðu velkomin. Markmiðið er að hafa gaman af lífinu og njóta dagsins saman.

Verðlaun: Bikarar fyrir a og b flokk. Allir fá þátttökuverðlaun auk drykkja.

Að rallinu loknu munu verða tónleikar á planinu til kl. 18:00. Veltibíllinn verður á staðnum.

Allir eru velkomnir og enginn aðgangseyrir eða þátttökugjöld.

Vegna undirbúnings er fólk beðið að skrá sig til þátttöku á netfangið gudjon@mnd.is eða í S. 823 7270

Fjölmennum og brosum saman.
MND félagið á Íslandi

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 17. maí 2010 15:53
Íslandsleikar Special Olympics

Íslandsleikar Special Olympics fóru fram sunnudaginn 16. maí.  Íslandsleikar Special Olympics eru samstarfsverkefni Íþróttasambands fatlaðra og Knattspyrnusambands Íslands og eru haldnir tvisvar á ári. Þátttakendur eru frá aðildarfélögum Íþróttasambands Fatlaðra en ÍF er umsjónaraðili starfsemi Special Olympics á Íslandi.

Íslandsleikarnir voru haldnir á KR svæðínu en KR var umsjónaraðili leikanna 2010 í samstarfi við ÍF og KSÍ.

Sterkasta lið Aspar er stigi ofar en næstu lið sem skráð voru á leikana.  Leitað var til KR og óskað eftir að fá lið frá KR til að keppa við sterkasta liða Aspar.  Vel var tekið í þá beiðni og 16 drengir í 4 flokki KR mættu á leikana til að keppa við lið Aspar.  Þetta var skemmtileg nýbreytni sem verður án efa endurtekin ef talin er þörf á því.  Fjögur önnur lið sem skráð voru til leiks kepptu í einum riðli þar sem allir kepptu við alla.

Sérstakur Stjörnuflokkur var settur á fyrir börn með sérþarfir sem  hófu nýlega að stunda knattspyrnuæfingar með íþróttafélaginu Stjörnunni.  Í forsvari hópsins er Ýr Sigurðardóttir, barnalæknir og þessi hópur setti skemmtilegan svip á Íslandsleikana.   Börnin ásamt aðstoðarþjálfurum kepptu í fjórum liðum sem öll voru í bolum  merktum Íslandsleikum Special Olympics.

 ÍF og KSÍ hófu samstarf við KR árið 2008 í þeim tilgangi að stuðla að aukinni þátttöku fatlaðra í knattspyrnu með því að fá almenn knattspyrnufélög til liðs við verkefnið. 

KR hefur sýnt mikinn áhuga á verkefninu og var umsjónaraðili leikanna vorið 2009 og nú 2010. Þormóður Egilsson fyrrverandi fyrirliði mfl.KR sá um upphitun og Kristinn Kjærnested formaður knattspyrnudeildar KR  setti mótið. Meistaraflokkur kvenna dæmdi alla leikina á mótinu.Geir Þorsteinsson formaður KSÍ afhenti verðlaun ásamt  Gylfa Sigurðssyni leikmanni Reading.  Í lok móts bauð KR  upp á grillaðar pylsur og meðlæti ásamt því að öllum þátttakendum og foreldrum var boðið  á  leik KR - Selfoss sem vera átti um kvöldið.

 Myndir á www.123.is/if

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 17. maí 2010 10:30
Afmæli ÍF
Íþróttasamband fatlaðra fagnar 31 árs afmæli sínu í dag 17. maí en sambandið var stofnað þennan dag árið 1979. 
Fyrsti formaður þess var Sigurður Magnússon en árið 1984 tók Ólafur Jensson við formennsku sem hann gegndi til ársins 1996 er núverandi formaður Sveinn Áki Lúðvíksson tók við. 
Aðildarfélög sambandsins voru fimm þegar það var stofnað, Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík, Akur og Eik á Akureyri, Björk og Íþróttafélag heyrnarlausra.  Félögunum fjölgaði síðan ört á næstu árum og eru nú 21 talsins auk þess fatlaðir íþróttamenn í dag æfa og keppa í hinum ýmsu félögum ófatlaðra.
 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 17. maí 2010 10:09
Öspin 30 ára

Íþróttafélagið Ösp hélt upp á 30 ára afmæli sitt með veglegu hófi 9. maí sl. en félagið var stofnað 18. maí 1980.  Hófið var haldið að undangengnum aðalfundi félagsins þar sem auk venjulegra aðalfundarstarfa var Ólafur Ólafsson var kosinn formaður í 28. sinn.   

Á hófinu veitti formaður ÍF, Sveinn Áki Lúðvíksson fjórum Asparmönnum heiðursmerki ÍF en þetta voru þau Karl Þorsteinsson, sem hlaut gullmerki ÍF og Einar Guðnason, Kittý Stefánsdóttir og Margrét Kristjánsdóttir sem hlutu silfurmerki ÍF.

Þess má geta að um liðna afmælishelgi stóð Öspin fyrir Vormóti en mótið var haldið í Sundlauginni Laugardal í gær.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 14. maí 2010 14:28
Þátttöku á NM í boccia aflýst
Askan úr Eyjafjallajökli kemur víða við og hrellir marga!  Vegna öskufalls hefur þátttöku Íslands í NM í boccia 2010 nú verið aflýst þar eð hópurinn komst ekki frá Íslandi til Danmerkur eins og til stóð.
Mótið, sem fram fer í Fredricia í Danmörku, hefst á laugardagsmorgun en fyrirhugað var að níu keppendur frá Íslandi yrðu meðal þátttakenda.  Íslenski hópurinn mætti á lokaæfingu í gær þar sem hann stillti saman strengi sína fyrir komandi átök og var hópurinn þá myndaður.  Því miður verður ekki af þátttöku þeirra en fróðlegt hefði verið að fylgjast með árangri þeirra á mótinu.
Næsta Norðurlandamót í boccia fer fram hér á landi 2010 og gefst Íslendingum þá kostur á að sýna hvað í þeim býr.
 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 10. maí 2010 15:33
Padraig Harrington gerist alþjóðlegur erindreki Special Olympics hreyfingarinnar

Staðfest hefur verið að Padraig Harrington, atvinnumaður í golfi hefur tekið að sér að vera alþjóðlegur ráðgjafi og erindreki Special Olympics hreyfingarinnar á sviði golfíþróttarinnar. Harrington bætist í hóp alþjóðlegra erindreka Special Olympics hreyfingarinnar  sem eru m.a.  Yao Ming, Michael Phelps, Michelle Kwan, Scott Hamilton, Nadia Comaneci; Joe Jonas; Arnold Schwarzenegger; Muhammad Ali og Vanessa Williams.

Harrington mun veita sérfræðiráðgjöf varðandi uppbyggingu golfíþróttarinnar innan Special Olympics og vera til aðstoðar á golfnámskeiðum fyrir þjálfara og íþróttafólk. Hann mun einnig verða í forsvari átaks sem felur í sér að fá fleiri golfkennara til liðs við Special Olympics hreyfinguna. Þetta samstarf Harrington og Special Olympics hreyfingarinnar er talið geta stuðlað að innleiðingu golfíþróttarinnar fyrir þennan hóp í fleiri löndum og aukið skilning fólks á því að allir eigi sama rétt á því að stunda þessa vinsælu íþróttagrein.

 

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 10. maí 2010 15:19
Asparmótið á sunnudag

Vormót Aspar verður haldið í Sundlaugini Laugardal sunnudaginn 16. maí. Upphitun hefst klukkan 12:00 og mótið klukkan 13:00.  Keppt verður í eftirtöldum greinum:

1.grein 50 skrið karla  2.grein 50 skrið kvenna
3. grein 25 frjálst karla           4.grein 25 frjálst kvenna
5.grein 50 bringa karla            6.grein 50 bringa kvenna
7.grein 50 bak karla  8.grein 50 bak kvenna
9.grein 50 flug karla  10.grein 50 flug kvenna
11. grein 100 skrið karla 12.grein 100 skrið kvenna
13.grein 100 bringa karla 14.grein 100 bringa kvenna
15.grein 100 fjór karla 16.grein 100 fjór kvenna

Keppt verður í tveim getuflokkum á mótinu, svo að sem flestir eigi möguleika á að skara fram úr. Veitt verða gull, silfur og brons verðlaun í báðum flokkunum.  Það skiptir því miklu máli að þjálfarar skrái sundfólkið með tíma.Tíminn þarf alls ekki að vera löglegur heldur fyrst og fremst sem næst getu sundmannsins. 

Skráningum skal skilað í síðasta lagi í kvöld, mánudagskvöldið 10. maí til Sverris Gísla í tölvupósti sgisla@visir.is

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 6. maí 2010 10:45
Íslandsmót ÍF í frjálsum utanhúss laugardaginn 5. júní

Laugardaginn 5. júní næstkomandi fer fram Íslandsmót ÍF í frjálsum íþróttum utanhúss en keppt verður á Laugardalsvelli í Reykjavík.

Mótið stendur frá kl. 10-14 þar sem eftirfarandi greinar verða í boð:
100, 200 og 400 m. hlaup, langstökk með atrennu, kúluvarp og hástökk

Skráningablöð verða send aðildarfélögum síðar.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 3. maí 2010 16:04
Fjórtán sundmenn á leið til Þýskalands

Fjórtán sundmenn hafa verið valdir til þess að taka þátt í opna þýska meistaramótinu fyrir Íslands hönd. Mótið er liður í undirbúningi Ísland fyrir Heimsmeistaramótið í 50m. laug sem fram fer í Hollandi um miðjan ágúst á þessu ári. Þetta er síðasta mótið þar sem íslenskir sundmenn fá möguleika á því að ná lágmörkum fyrir HM.

Íslenska hópinn skipa:

Pálmi Guðlaugsson, Firði/Fjölni
Ragnar Magnússon, Firði/SH
Aníta Ósk Hrafnsdóttir, Firði
Kolbrún Alda Stefánsdóttir, Firði
Jón Margeir Sverrisson, Ösp/Fjölni
Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR
Bjarndís Sara Breiðfjörð, ÍFR
Sonja Sigurðardóttir, ÍFR
Anna Kristín Jensdóttir, ÍFR
Hjörtur Már Ingvarsson, ÍFR
Eyþór Þrastarson, ÍFR/KR
Guðmundur Hermannsson, ÍFR/KR
Vilhelm Hafþórsson, Óðni
Adrian Erwin, Ösp/Fjölnir

Á heimasíðu ÍF má finna upplýsingar um þau verkefni sem framundan eru hjá sundlandsliði ÍF s.s. æfingabúðir, landsliðslágmörk og lágmörk vegna hinna ýmsu móta.

Ljósmynd/ Frá EM 2009: Guðmundur Hermannsson er á meðal þeirra sundmanna sem skipa íslenska hópinn. Hann stórbætti sig í nokkrum greinum á EM í október 2009.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 3. maí 2010 14:47
Erna Friðriksdóttir íþróttamaður UÍA 2009
Erna Friðriksdóttir, 23ja ára skíðakona úr Skíðafélaginu Stafdal, hefur verið valin íþróttamaður UÍA (Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands) fyrir árið 2009.

Erna varð á seinasta ári fyrst Íslendinga til að tryggja sér þátttökurétt í alpagreinum á vetrarólympíuleikum fatlaðra, sem fram fóru í Vancouver í Kanada í mars. Erna hefur æft bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum en undanfarna fjóra vetur hefur hún æft í Winterpark í Colorado í Bandaríkjunum. Árangur hennar má að miklu leyti þakka þeim æfingum.

Erna fékk farandbikar frá UÍA, eignabikar, blómvönd frá Alcoa-Fjarðaáli og 100 þúsund króna styrk úr Spretti, styrktarsjóði UÍA og Alcoa-Fjarðaáls. Úr sjóðnum er úthlutað tvisvar á ári en næst verður úthlutað í byrjun maí.

"Árangur Ernu er mikil hvatning fyrir skíðafólk. Hann sýnir með vinnu og ákveðni er hægt að láta drauminn rætast," segir Elín Rán Björnsdóttir, formaður UÍA.

Ljósmynd/ Erna Friðriksdóttir með viðurkenningar sínar sem íþróttamaður UÍA 2009.
 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 28. apríl 2010 15:46
Aðalfundur Nord-HIF: Ísland með formennsku næstu þrjú árin

Á Aðalfundi Nord-HIF (Íþróttasambanda fatlaðra á Norðurlöndum) sem haldinn var í Þórshöfn í Færeyjum 9. – 10. apríl sl. tók Ísland við formennsku í samtökunum næstu þrjú árin. Fund þennan sátu f.h. ÍF þeir Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður og Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs.

Nord-HIF samtökin voru stofnuð hér á landi 1979 og halda árlega fundi, til skiptis á Norðurlöndunum auk þess sem framkvæmdastjórar landanna hittast á fundum einu sinn á ári. Skiptast löndin á að fara með formennsku og skrifstofu samtakanna og þar með að koma fram fyrir hönd þeirra í hinum ýmsu málum sem tengjast íþróttum fatlaðra á Norðurlöndum.
Hvert land fer með formennsku í Nord-HIF þrjú ár í senn og á aðalfundinum í ár tók Ísland við formennsku og skrifstofu samtakanna, en undanfarin þrjú ár hafa Færeyingar gengt formennsku.

Þetta er í þriðja sinn er Ísland leiðir þessi samtök þar sem Sigurður Magnússon var formaður árin 1983 – 1984, Ólafur Jensson frá 1992 – 1995 og nú mun Sveinn Áki Lúðvíksson gegna formennsku næstu þrjú árin. Til gamans má geta að Sveinn Áki var ritari samtakanna í fyrra skiptið og varaformaður í seinna skiptið.

Á fundum Nord-HIF er fjallað um þau mál sem orðið geta íþróttum fatlaðra og fötluðu íþróttafólki til framdráttar hvort heldur sem er á norrænum- eða alþjóðavettvangi og hafa Norðurlöndin þannig verið leiðandi í stefnumótun íþrótta fatlaðra á alþjóðavettvangi.

Á aðalfundinum í ár voru samþykkt félagsgjöld aðildarlandanna til næstu þriggja ára, tekin fyrir málefni sem tengjast íþróttastarfi fatlaðra sér í lagi hvað varðar Norrænt barna- og unglingamót sem og norrænt samstarf í tengslum við þátttöku landanna í Ólympíumóti fatlaðra 2012. Einnig voru kynnt málefni hinna ýmsu alþjóðasamtaka fatlaðra s.s. INAS FID (íþróttasamtök þroskaheftra afreksmanna), IBSA (íþróttasamtök blindra) sem og Special Olympics samtakanna.

Þá var samþykkt að frumkvæði Íslands að efnt yrði til ráðstefnu um framtíð Nord-HIF en miklar breytingar hafa átt sér stað t.a.m. í Noregi þar sem íþróttir fatlaðra eru nú á höndum hinna ýmsu sérsambanda þar og Svíar stefna í sömu átt.  Því er þörf breytinga á lögum Nord-HIF og vegvísi á hvern hátt Norðurlöndin sjá fyrir sér norrænt samstarf í framtíðinni.

Á myndinni afhendir Jögvan Jensen, formaður færeyska sambandsins, Sveini Áka Lúðvíkssyni fundarhamar Nord-HIF sem tákn um formennsku í samtökunum.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 28. apríl 2010 11:01
Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu 2010

Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu 2010 verða haldnir sunnudaginn 16. maí. Leikarnir fara fram á íþróttasvæði KR í Reykjavík en KR er umsjónaraðili leikanna í samstarfi við ÍF og KSÍ.

Upphitun hefst 12.45.  Kl. 13.00 verður mótssetning og reiknað er með að leikunum ljúki kl. 15.00. Á þessum leikum eru keppendur á öllum aldri, blönduð lið karla og kvenna og skipt er í flokka getumeiri og getuminni.

Tímasetning tekur mið af því að lið utan af landi geti ferðast suður á laugardagsmorgni.

Eingöngu er tekið á móti skráningum liða og skulu þær berast á gulli@ksi.is með cc á if@isisport.is en skráningarblað hefur þegar verið sent til aðildarfélaga ÍF.

Ljósmynd/ Frá Íslandsleikunum á síðasta ári

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 21. apríl 2010 11:48
Æfingabúðir í Hlíðarfjalli 16. –17. Apríl

Um síðustu helgi stóð Íþróttasamband fatlaðra í samstarfi við Hlíðarfjall fyrir æfingabúðum fyrir þá einstaklinga sem hafa náð góðum tökum á mónóski eða skíðasleðum fyrir hreyfihamlaða.  Farið var yfir tækniatriði og prófað að keyra í brautum. Verklegar æfingar voru á laugardag og sunnudag.  Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíðakona var með fyrirlestur um skíðamennsku og alla dagana voru fundir þar sem farið var yfir helstu atriði.

Í hópi leiðbeinenda og aðstoðarfólks var ungt skíðafólk, Erna Friðriksdóttir, ólympíufari og Breki Arnarson sem hefur sótt ýmis námskeið á þessu sviði.

Ljósmynd/ Erna í hópi keppenda á Paralympics 2010.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 20. apríl 2010 10:12
Norðurlandamót í boccia 2010

Norðurlandamót fatlaðra í boccia fer fram 14. – 17. maí n.k í Fredricia í Danmörku en Norðurlandamót þessi eru haldin annað hvert ár til skiptis á Norðurlöndunum. Til gamans má geta að Norðurlandamótið í boccia árið 2012 fer fram hér á landi.

Eftirtaldir einstaklingar hafa verið valdir til þátttöku á mótinu en hópurinn mun á næstunni koma saman og stilla saman strengi sína.

Hjalti Bergmann Eiðsson, ÍFR
Þórey Rut Jóhannesdóttir, ÍFR

Kristófer Skúlason, Suðra
Kolbeinn Jóhann Pétursson, Akri

Stefán Thorarensen, Akri

Sigrún Björk Friðriksdóttir, Akri
Aðalheiður Bára Steinsdóttir, Grósku,
Heiðar Hjalti Bergsson Eik

Steingrímur Davíð Ævarsson, Ösp

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 20. apríl 2010 09:49
Góður Formannafundur ÍF

Formannafundur Íþróttasambands fatlaðra var haldinn laugardaginn 17. apríl sl. en í sjöundu grein laga ÍF segir: ,,Það ár sem sambandsþing er ekki haldið skal halda formannafund með formönnum aðildarfélaga ÍF.“ Á formannafundum er farið yfir þau mál sem efst eru á baugi og kynntar þær hugmyndir sem uppi eru um eflingu íþrótta fatlaðra auk þess sem aðildarfélögin greina frá því starfi sem þau inna af hendi.

Á formannafundinum nú voru m.a. kynntar hugmyndir sundnefndar ÍF varðandi ýmsar breytingar á sundmótum s.s. flokkaskiptingu þroskaheftra, skráningu Íslandsmeta, lágmörk á mót en einnig ýmislegt sem varaðar framkvæmd Íslandmóta ÍF. Voru fundarmenn sammála um að áfram yrði unnið að þessum hugmyndum og ef af yrði, þær kynntar aðildarfélögum ÍF. 

Einnig var fundarmönnum kynnt hugmynd um Íþrótta- og ævintýrabúðir fyrir hreyfihömluð börn og ungmenni á aldrinum 12 - 16 ára. Fögnuðu fundarmenn þessu framtaki sem lið í nýliðun í starfi ÍF og aðildarfélaganna. Þá voru þau verkefni sem framundan eru kynnt fyrir fundarmönnum s.s. þátttaka Íslands í Evrópuleikum Special Olympics sem og ýmis þróunarverkefni sem ÍF stendur að ýmist eitt og sér eða í samvinnu við önnur sérsambönd.

Ljósmynd/ Hér lengst til vinstri á myndinni má m.a. sjá Ólaf Þór Jónsson en hann hefur setið í stjórn ÍF frá stofnun sambandsins.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 17. apríl 2010 10:50
Dagskrá formannafundar ÍF

Formannafundur Íþróttasambands fatlaðra fer fram í Laugardal í dag. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Skýrsla ÍF – helstu verkefni frá Sambandsþingi ÍF 2009
2. Frá Sundnefnd ÍF – flokkun og lágmörk á sundmótum ÍF
3. Frá aðildarfélögum ÍF
4. Íslandsmót ÍF
- Aldursflokkaskipting
- Lokahóf
- Annað
5. Evrópu- og alþjóðaleikar Special Olympics
6. Þróunarverkefni – nýjar greinar
7. Íþrótta- og ævintýrabúðir ÍF á Laugarvatni
8. Verkefnalisti 2010-2011
9. Endurnýjun samstarfssamninga
10. Önnur mál

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 15. apríl 2010 14:59
Samúðarkveðjur frá Special Olympics í Evrópu til pólsku þjóðarinnar

Mary Davis, framkvæmdastjóri Special Olympics í Evrópu fór á fund sendiherra Póllands í Írlandi þar sem hún f.h. Special Olympics í Evrópu vottaði pólsku þjóðin samúð vegna hins hörmulega flugslyss sem varð í Rússlandi.  Pólsku forsetahjónin voru mjög velviljuð starfi  Special Olympics í Póllandi og höfðu stutt vel við það undirbúningsstarf sem nú er í gangi vegna fyrirhugaðra Evrópuleika Special Olympics 2010 í Póllandi.   Special Olympics á Íslandi hefur átt mjög gott samstarf við Special Olympics í Póllandi og þá aðila eru í undirbúningsnefnd Evrópuleikanna 2010.   Evrópuleikarnir eru fyrirhugaðir dagana 18. – 24. september 2010.  Mikil áhersla hafði verið lögð á gildi þess að halda leikana í Austur Evrópu og forsenda þess var stuðningur stjórnvalda og borgaryfirvalda í Varsjá.

Hjálagt er bréf frá Mary Davis til aðildarlanda Special Olympics í Evrópu.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 14. apríl 2010 14:58
Tvennukort Olís og ÓB

Olís og ÓB bjóða félagsmönnum aðildarfélaga Íþróttasambands fatlaðra Tvennukort Olís og ÓB. Tvennukortið er staðgreiðslukort sem tryggir góðan afslátt af eldsneyti, vörum og þjónustu hjá Olís og ÓB. Ekki þarf að tengja kortið við debet- eða kreditkort heldur þarf einungis að framvísa kortinu þegar greitt er.

Kortið veitir ýmsan afslátt en með því að sækja um Tvennukort getur þú stutt þitt aðildarfélag um leið. Olís og ÓB greiða 2500,- kr. til félagsins fyrir hvert útgefið kort sem nær lágmarksveltu (200) lítrar. Til viðbótar fær félagið 1 krónu af hverjum eldsneytislítra sem greiddur er með kortinu. 

Kynntu þér málið nánar með því að smella hér eða fara inn á www.olis.is/felog/tvennukort

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 14. apríl 2010 10:25
ÍF kynnti boccia og blindrabolta í Garðaskóla

Í vikunni var Íþróttasamband fatlaðra með kynningu á boccia og blindrabolta fyrir nemendur 9. bekkjar í Garðaskóla.

Á myndinni sjást nemendur spreyta sig í þessum greinum. Nemendur prófuðu einnig að ganga og hlaupa með bundið fyrir augu, þar sem treysta þurfti alfarið á aðstoðarmann. ÍF hefur verið með kynningarstarf í háskólum og framhaldsskólum og ef kostur er er einnig reynt að koma til móts við óskir frá grunnskólum um slíka kynningu.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 13. apríl 2010 11:25
Að brjótast í gegnum takmarkanir

Kynning á sjálfstyrkingarnámskeiðifyrir hreyfihamlaðar stúlkur sem haldið var haustið 2009.

Í stofu 202 á Háskólatorgi, föstudaginn 16. apríl 2010, kl. 13:00

• Skipuleggjendur námskeiðsins verða með almenna umfjöllun um námskeiðið
• Stuttmynd um námskeiðið sýnd
• Tveir þátttakendur segja frá upplifun sinni af námskeiðinu
• Foreldrar segja álit sitt á námskeiðinu
• Samantekt
• Umræður og fyrirspurnir

Kynningin er haldin í samstarfi við Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands.
Þetta verkefni hefur verið fjármagnað með styrk frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þessi kynning lýsir aðeins viðhorfum höfundarins og Framkvæmdastjórnin tekur ekki ábyrgð á hvernig upplýsingar sem hér er að finna eru notaðar. Verkefnið fékk einnig styrk frá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 9. apríl 2010 15:49
Erna fékk úthlutað úr Afrekskvennasjóði

Í gær var úthlutað úr Afrekskvennasjóði Íslandsbanka og ÍSÍ og að þessu sinni voru 5 íþróttakonur og íþróttakvennahópar sem hlutu styrk, alls þrjár milljónir króna.

Erna Friðriksdóttir, 22 ára skíðakona frá Egilsstöðum, fékk 250.000 krónur vegna undirbúnings og keppni á Vetrarólympíumóti fatlaðra í Vancouver. Erna er fyrsta íslenska konan sem keppir á Ólympíumóti fatlaðra.

Þá fengu þær Íris Guðmundsdóttir, Ragna Ingólfsdóttir og frjálsíþróttadeildir ÍR og Ármanns úthlutað úr sjóðnum.

Íþróttakonunum í hópnum er tryggð hágæða þjálfun og besta mögulega aðstaðan og aðstæður til æfinga og keppni hérlendis sem erlendis. Teymi sérhæfðra þjálfara og ráðgjafa skipuleggur og heldur utan um þjálfun íþróttakvennanna. Í Ólympíuhóp Ármanns eru þær Ásdís Hjálmsdóttir og Helga Margrét Þorsteinsdóttir. Hjá ÍR eru það þær Hulda Þorsteinsdóttir, Jóhanna Ingadóttir, Kristín Birna Ólafsdóttir og Sandra Pétursdóttir sem skipa hópinn.

Stjórn sjóðsins skipa þær Svafa Grönfeldt, Vanda Sigurgeirsdóttir og Þórdís Gísladóttir.

Ljósmynd/ ÍSÍ – Frá úthlutuninni í gærdag.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 7. apríl 2010 15:31
Góðir gestir frá Magma í Laugardalnum

Nýlega heimsóttu fulltrúar Magma Energy Corp höfuðstöðvar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Sem kunnugt er var Magma Energy var einn af styrktaraðilum Íþrótta- og Ólympíusambandsins sem og Íþróttasambands fatlaðra fyrir Vetrarólympíuleikana og Ólympíumót fatlaðra í vetraríþróttum sem nýverið fóru fram í Vancouver í Kanada.

Í tilefni heimsóknar þessarar notaði ÍF tækifærið til þess að afhenda fulltrúum Magma Energy þeim Alison Thomson og Ásgeiri Margeirssyni, forstjóra Magma á Íslandi smá gjöf sem þakklætisvott fyrir velvilja og veittan stuðning fyrirtækisins við ÍF.

Á myndinni sjást fulltrúar ÍF þeir Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður og Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri fjármala- og afrekssviðs ásamt fulltrúum Magma þeim Alison Thomson og Ásgeiri Margeirssyni. 

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 4. apríl 2010 15:35
Íslandsbanki aðal styrktaraðili Special Olympics á Íslandi

Á dögunum undirrituðu Íslandsbanki og Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) samstarfssamning þess efnis að Íslandsbanki verði aðal styrktaraðili samtakanna vegna Special Olympics á Íslandi. Undirritunin fór fram í útibúi Íslandsbanka við Gullinbrú, sem er aðal viðskiptaútibú Íþróttasambands fatlaðra. Íslandsbanki og forverar hans hafa stutt ÍF og Special Olympics allt frá árinu 2000. Samningurinn sem undirritaður var gildir til ársloka 2010 en verður endurnýjaður í ársbyrjun 2011.

Special Olympics samtökin voru stofnuð af Kennedy fjölskyldunni í Bandaríkjunum árið 1968. Markmið þeirra er að bjóða upp á íþróttatilboð fyrir þroskaheft fólk og aðra þá sem eiga við námserfiðleika að stríða. Íþróttasamband Fatlaðra gerðist aðili að Special Olympics samtökunum árið 1989 og hefur síðan þá verið umsjónaraðili samtakanna á Íslandi.

Farsælt samstarf Íslandsbanka og ÍF
Samstarf Íslandsbanka og Íþróttasambands fatlaðra vegna starfsemi i Special Olympics á Ísland i hófst árið 2000 þegar Íslandsbanki/FBA (Fjárfestingabanki atvinnulífsins) gerðist aðalsamstarfsaðili samtakanna hér á landi. Allar götur síðan þá hafa ÍF og Íslandsbanki átt með sér farsælt og gefandi samstarf vegna íþróttatilboða tengdu þroskaheftu íþróttafólki jafnt innanlands sem erlendis. Þannig hefur stuðningur bankans gert sambandinu kleift að senda stóran hóp þroskahefts íþróttafólks til sumar- og vetrarleika Special Olympics, en Íslendingar hafa tekið þátt í alþjóðasumar- og vetrarleikum Special Olympics frá árinu 1991. Þá sendi Ísland í fyrsta skipti þátttakendur til keppni í listhlaupi á skautum á vetrarleika Special Olympics í Nagano 2005.

Góð þátttaka Íslendinga á Special Olympics 2007
Síðustu leikarnir sem Íþróttasamband fatlaðra sendi þátttakendur á voru alþjóðasumarleikarnir í Shanghai í Kína þar sem 32 keppendur á aldrinum 17 til 47 ára tóku þátt. Á leikum Special Olympics keppa þroskaheftir og seinfærir einstaklingar og allir eiga möguleika á að vera með. Þátttakan er aðalatriðið, allir keppa aðeins við sína jafningja og allir eiga sömu möguleika á verðlaunum. Hugmyndafræði Special Olympics byggir á gildi umburðarlyndis og jafnræðis. Lögð er megináhersla á þátttöku, ánægju, einstaklingsmiðaða færni og vináttu. Eðli málsins samkvæmt streymdu verðlaun í Shanghai heim fyrir fyrstu þrjú sætin og verðlaunaboðar fyrir 4. - 8. sæti en þó svo verðlaunapeningar væru eftirsóknarverðari en borðarnir undu allir glaðir við sitt.

Þátttaka Íslands í Shanghai 2007 líkt og undangengnum leikum var m.a. styrkt af Íslandsbanka en auk innlendra verkefna fyrir dyrum standa eru næstu verkefni erlendis þátttaka í Evrópuleikum sem fram fara í Póllandi og Alþjóðasumarleikarnir sem fram fara í Aþenu 2011.

Ljósmynd/ Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF t.v. en t.h. er Ólafur Ólafsson útibússtjóri Íslandsbanka við Gullinbrú.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 31. mars 2010 12:55
Sumarbúðir ÍF á Laugarvatni 2010

Hinar árlegu Sumarbúðir ÍF verða haldnar að venju á Laugarvatni næsta sumar. Eins og áður verður boðið upp á tvö vikunámskeið, það fyrra vikuna 18. -25. júní og hið síðara vikuna 25. júní-2. júlí.

Verð fyrir vikudvöl á Laugarvatni er kr. 57.000 og kr. 107.000 fyrir tveggja vikna dvöl.

Þó margir kjósi vikunámskeið fer þeim fjölgandi sem velja báðar
vikurnar.

Umsóknarfrestur er til 16. apríl nk.

Hér má nálgast umsóknareyðublað fyrir Sumarbúðir ÍF 2010

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 30. mars 2010 13:01
Olís styrkir NM í boccia

Olíuverslun Íslands hf – Olís hefur endurnýjað styrktarsamning við Íþróttasamband fatlaðra. Að þessu sinni er um að ræða beinan fjárstuðning vegna þátttöku Íslands í Norðurlandamóti fatlaðra í boccia sem fram fer í Fredricia í Danmörku í maímánuði n.k.
Olís hefur um áratuga skeið stutt starfssemi sambandsins á margvíslegan hátt en auk fjárhagslegs stuðnings við NM í boccia býðst aðildarfélögum Íþróttasambands fatlaðra aðgangur að ýmsum þeim tilboðum og fríðindum sem Olís hefur upp á að bjóða s.s. Olískortum, fríðindakorti o.fl. Um slíkt er hægt er að sækja um á www.olis.is

Norðurlandamót fatlaðra í boccia er haldið annað hvert ár, til skiptis á hverju Norðurlandanna.
Nú í dag er boccia án efa vinsælasta keppnisgreinin sem fatlaðir leggja stund á. Vinsældir greinarinnar eru án efa komnar til af því hversu einfaldur leikurinn er og allir sem á annað borð geta kastað, ýtt eða sparkað kúlu, geta verið með. Á síðari árum hafa blindir og sjónskertir byrjað að leggja stund á boccia en þá er notaður hljóðgjafi til þess að staðsetja kúlurnar

Íþróttasamband fatlaðra hefur lagt metnað sin í að eignast íþróttamenn í fremstu röð í sem flestum íþróttagreinum og vill Olís með samningi þessum renna styrkari stoðum undir starfssemi Íþróttasambands fatlaðra.

Ljósmynd/ Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Sigurður K. Pálsson, markaðsstjóri Olís við undirritun nýja samningsins.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 29. mars 2010 16:09
Móttaka hjá Íslendingafélaginu í Vancouver

Í tengslum við Vetrarólympíumót fatlaðra sem fram fór í Vancouver fyrr í þessum mánuði var íslensku þátttakendunum boðið til móttöku hjá Íslendingafélaginu í Vancouver en forseti félagsins er Kristjana Helgason. Um 40 manns, Vesturíslendingar og aðrir, mættu í Íslendingahúsið i Vancouver til að taka á móti hópunum og eiga með honum kvöldstund.  Fékk íslenski hópurinn hreint stórkostlegar móttökur og greinilegt að íslenska gestrisin hefur ekkert minnkað þrátt fyrir vegalendina milli landanna og blöndun fólks við aðra menningarheima. 

Meðal annars var skoðað bókasafn í húsinu, sem vakti mikla athygli, en þar eru fjölmargar bækur sem komnar eru vel til ára sinna og voru í eigu Íslendinga sem fluttu til Kanada. Íslenskukennsla fer fram i húsinu og það var upplifun að finna þau tengsl sem ríkja milli Íslands og Kanada. 

Til gamans má geta að meðal gesta í móttökunni var knattspyrnuþjálfarinn góðkunni Teitur Þórðarson, sem um þessar mundir þjálfar Vancouver Whitecaps með góðum árangri. Vegna móttöku þessarar naut Íslendinagfélagið í Vancouver velvilja tveggja af samstarfaðilum ÍF þ.e. Rúmfatalagernum og Magma Energy Ísland.

Er þeim og sér í lagi Íslendingafélaingu færðar alúðarþakkir fyrir höfðinglegar móttökur og velvilja og veittan stuðning.

Ljósmynd/ Frá mótttöku Íslendingafélagsins í Vancouver.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 25. mars 2010 16:40
Vetrarólympíumóti fatlaðra lokið

Vetrarólympíumóti fatlaðra lauk formlega með glæsilegri skemmtun og flugeldasýningu á “Verðaunatorginu” í Whisler sunnudaginn 21. mars síðastliðinn. Þúsundir manna voru samankomin á torginu til að fylgjast með skemmtuninni sem einkenndist af miklu fjöri með skýrskotun til stolts Kanadamanna af landi og þjóð.

Fyrsta Vetrarólympíumót fatlaðra fór fram 1976 í Örnsköndsvik í Svíþjóð en síðan 1988 hafa Ólympíumót fatlaðra, bæði sumar og vetrarmót, verið haldin í kjölfar Ólympíuleikanna sjálfara í sama landi á sama stað.

Að þessu sinni tóku um 600 íþróttamenn frá 42 löndum þátt í mótinu þar sem innigreinarnar, íshokkí og krulla fóru fram í Vancouver en aðrar greinar í glæsilegu skíðasvæði bæjarins Whisler, um 100 km frá Vancouver. Rússar voru sigursælastir þjóða á mótinu að þessu sinni með samtals 38 verðlaun þar af 12 gull, í öðru sæti Þjóðverjar með 24 verðlaun og þar á eftir Kanada og Úkranía með samtals 19 verðlaun.

Í ræðu sem forseti IPC - Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra, Sir Phil Craven flutti þakkaði hann Kanadamönnum fyrir einstaklega vel heppnað mót. Öll aðstaða og framkvæmd hefði verið til fyrirmyndar og einstök hjálpsemi allra, hvort heldur sjálfboðaliða eða annarra, verið landi og þjóð til sóma og gert þessa vetrarleika að þeim bestu sem hingað til hefðu verið haldnir.

Næsta Vetrarólympíumót fatlaðra verður haldið í Sochi í Rússlandi 2014. Vonandi  verður Ísland meðal þátttökuþjóða, því með þátttöku sinni í mótinu að þessu sinni sýndi íslenski keppandinn Erna Friðriksdóttir  það og sannaði að Ísland á fullt erindi meðal þeirra bestu í Vetrarólympíumótum fatlaðra.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 24. mars 2010 11:25
Myndasafn: Íslandsmótið 2010

Ljósmyndarinn Sölvi Logason var iðinn við kolann þessa helgina á Íslandsmóti ÍF og tók hann margar skemmtilegar myndir á mótinu sem nú má nálgast á myndasíðu ÍF.

Þá minnum við einnig á fleiri myndir úr starfinu á www.123.is/if

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 24. mars 2010 11:03
Úrslit á Íslandsmótinu í sveitakeppni í boccia

Íslandsmót ÍF í sveitakeppni í boccia fór fram í Laugardalshöll um síðustu helgi og venju samkvæmt var þátttakan afar góð. Sveit ÍFR C sigraði í 1. deild en þetta er annað árið í röð sem ÍFR vinnur 1. deildina.

Heildarúrslit mótsins má nálgast hér

Ljósmynd/ Sölvi Logason: Einbeitingin skein úr hverju auga í sveitakeppninni í boccia um síðustu helgi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 23. mars 2010 15:43
Úrslit á Íslandsmótinu í frjálsum íþróttum

Íslandsmót ÍF í frjálsum íþróttum fór fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal síðastliðinn sunnudag. Þátttaka var með besta móti en keppt var í 60m. hlaupi, 200m. hlaupi, langstökki, kúluvarpi og hástökki.

Heilarúrslit mótsins má sjá hér

Ljósmynd/ Sölvi Logason: Þessir ungu kappar, þeir Auðunn Snorri og Davíð Freyr, voru að keppa í fyrsta sinn á Íslandsmóti ÍF. Strákarnir tóku þátt í 60m. hlaupi og kepptu fyrir hönd Ungmennafélags Njarðvíkur.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 23. mars 2010 12:25
Úrslit á Íslandsmótinu í sundi

Íslandsmót ÍF í sundi í 50m. laug fór fram um síðustu helgi en keppt var í Ásvallalaug í Hafnarfirði. Hátt í 80 keppendur voru skráðir til leiks á mótinu þar sem alls 16 Íslandsmet féllu.

Íslandsmetin í sundi um síðustu helgi:



Íslandsmót ÍF 20. – 21. Mars Ásvallalaug Hafnarfirði
Ragney Líf Stefánsdóttir SB9 50 bringa 0:50,13 20/03/10
Sonja Sigurðardóttir SB4 50 bringa 1:52,92 20/03/10
Vaka Þórsdóttir S11 100 bak 2:37,91 20/03/10
Thelma Björnsdóttir S5 200 frjálst 4:06,39 20/03/10
Pálmi Guðlaugsson SM6 200 fjórsund 3:43,99 20/03/10
Guðmundur Hermannsson S9 50 bak 0:45,67 20/03/10
ÍFR-kk max 34 4*50 fjórsund 3:51,43 20/03/10
Guðmundur Hermanss. / Marinó Adolfsson / Vignir Haukss. / Hjörtur Már Ingvarsson
Vaka Þórsdóttir S11 50 frjáls aðferð 1:43,96 21/03/10
Ragney Líf Stefánsdóttir S10 50 frjáls aðferð 0:34,50 21/03/10
Hjörtur Már Ingvarsson S5 400 frjáls aðferð 8:04,99 21/03/10
Pálmi Guðlaugsson S6 400 frjáls aðferð 6:27,10 21/03/10
Vignir Gunnar Hauksson SB5 100 bringa 2:44,46 21/03/10
Anna Kristín Jensdóttir SB5 100 bringa 2:28,01 21/03/10
Bjarndís Breiðfjörð S8 50 bak 0:54,66 21/03/10
ÍFR-kk max 34 4*50 frjáls aðferð 3:07,76 21/03/10
Guðmundur Hermanss. / Marinó Adolfsson / Vignir Haukss. / Hjörtur Már Ingvarsson
ÍFR-kvk max 34 4*50 frjáls aðferð 3:56,07 21/03/10
Karen Jóhannsdóttir/Thelma Björnsdóttir/Sonja Sigurðardóttir/Bjarndís Breiðfjörð

Sjá heildarúrslit mótsins

Ljósmynd/ Sölvi Logason: Frá Íslandsmótinu í Ásvallalaug 2010. Pálmi Guðlaugsson er hér á ferðinni en hann setti tvö Íslandsmet um helgina.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 23. mars 2010 10:29
Úrslit á Íslandsmótinu í lyftingum

Íslandsmót ÍF í lyftingum fór fram síðastliðinn sunnudag í bíósal frjálsíþróttahallarinnar í Laugardal þar sem níu keppendur voru skráðir til leiks en átta mættu til keppni.

Daníel Unnar Vignisson varð Íslandsmeistari í flokki þroskahamlaðra þar sem hann lyfti samtals 570 kílóum í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Þá varð Þorsteinn Sölvason Íslandsmeistari í flokki hreyfihamlaðra en þar er einungis keppt í bekkpressu. Þorsteinn lyfti 145 kílóum og jafnaði þar með Íslandsmetið sem hann setti á Íslandsmótinu á síðasta ári.

Hér má nálgast heildarúrslit mótsins

Ljósmynd/ Sölvi Logason: Daníel Unnar Vignisson sigurvegari í flokki þroskahamlaðra í hrikalegum átökum síðastliðna helgi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 22. mars 2010 12:12
Úrslit á Íslandsmótinu í bogfimi

Íslandsmót ÍF í bogfimi fór fram um helgina í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Keppt var bæði laugardag og sunnudag þar sem þrjú met féllu. Í Recurve flokki karla var sett nýtt met 1.087 stig og það gerði Guðmundur Smári Gunnarsson. Þá setti Óskar Birgisson met í langbogaflokki karla eða 520 stig. Þá var einnig sett met í langbogaflokki kvenna en það gerði Indíana Elín Ingólfsdóttir og fékk hún alls 454 stig.

Alls voru 35 keppendur skráðir til leiks en nokkur afföll urðu svo aðeins 27 tóku þátt. Félagar í Hringhorna og Rimmugýg tóku einnig þátt á mótinu eins og siður er orðinn og setti fólkið skemmtilegan svip á mótið.

Skorkort hvers keppanda er hægt að nálgast inn á www.bogfimi.net en heildarúrslit mótsins eru einnig aðgengileg hér.

Ljósmynd/ Sölvi Logason: Frá keppni á Íslandsmótinu í bogfimi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 22. mars 2010 11:14
Úrslit á Íslandsmótinu í borðtennis

Um helgina fór Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra fram og keppni í borðtennis fór fram í TBR húsinu. Jóhann Rúnar Kristjánsson, Nes, kom sá og sigraði og nældi sér í þrjá Íslandsmeistaratitla. Í tvíliðaleik, opnum flokki og í sitjandi flokki.

Í tvíliðaleiknum voru Jóhann og Viðar Árnason sigurvegarar eftir úrslitarimmu gegn þeim Sunnu Jónsdóttur og Stefáni Thorarensen. Sunna Jónsdóttir, Akur, hafði sigur í kvennaflokki og í standandi flokki karla sigraði Tómas Björnsson, ÍFR.

Guðmundur Hafsteinsson bar sigur úr býtum í flokki þroskahamlaðra karla og Jóhann Rúnar í sitjandi flokki karla sem og í opnum flokki eins og fyrr greinir.

Hér má nálgast úrslit mótsins

Ljósmynd/ Sölvi Logson: Íslandsmeistarar helgarinnar í borðtennis ásamt fulltrúum frá Lionsklúbbnum Víðarri sem gáfu öll verðlaun á mótinu.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 21. mars 2010 10:46
Útsending fellur niður!

Af óviðráðanlegum orsökum fellur niður fyrirhuguð útsending frá Íslandsmóti fatlaðra á netútsendingastöðinni Sport TV. Til stóð að senda út frá mótinu í dag sunnudaginn 21. mars frá keppni í boccia, lyftingum og frjálsum íþróttum.

Ástæða þess að ekki tekst að sýna frá mótinu er sú að eldgos er hafið á Fimmvörðuhálsi nálægt jökuljaðri bæði Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Sá búnaður sem til stóð að nota við útsendingar frá Íslandsmóti ÍF hefur verið sendur út í verkefni í tengslum við gosið.

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að skapa en áréttum að af útsendingu verður ekki í þetta skiptið.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 20. mars 2010 17:28
Breyting á keppnistíma í boccia

Keppni í boccia á Íslandsmóti ÍF sunnudaginn 21. mars hefst kl. 10:00 en ekki kl. 09:00 eins og áður hefur verið auglýst. Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og áréttum að á morgun, sunnudaginn 21. mars, hefst keppni í boccia kl. 10:00.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 20. mars 2010 12:54
Fjörið hafið á Íslandsmóti ÍF

Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra hófst í morgun og var mótið sett formlega í aðalsal Laugardalshallar af Camillu Th. Hallgrímsson varaformanni ÍF. Keppni er þegar hafin í bogfimi, boccia og borðtennis en síðar í dag eða kl. 15 hefst keppni í sundi í Ásvallalaug í Hafnarfirði. Keppni í lyftingum og frjálsum íþróttum hefst á morgun.

Mikill fjöldi sjálfboðaliða hefur lagt á sig töluverða vinnu í undirbúningi mótsins og kann ÍF þeim bestu þakkir fyrir sitt óeigingjarna starf við undirbúninginn.

Ljósmynd/ Frá keppni í boccia í rennuflokki í morgun.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 19. mars 2010 18:18
Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra 2010

Dagna 20.-21. mars fer Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra fram þar sem keppt verður í sex greinum, sundi, boccia, bogfimi, frjálsum íþróttum, lyftingum og borðtennis. Keppni í sundi fer fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði, keppni í borðtennis fer fram í TBR húsinu en hinar fjórar greinarnar fara fram í Laugardalshöll. Frjálsar og bogfimi í frjálsíþróttahöllinni, lyftingar í bíósal frjálsíþróttahallar og boccia í aðalsal Laugardalshallar.

Alls eru 392 keppendur skráðir til leiks frá samtals 23 félögum. Af þessum 23 félögum eru 18 aðildarfélög Íþróttasambands fatlaðra en frá öðrum félögum hafa Ungmennafélag Njarðvíkur, Ármann, Rimmugýgur, Hringhorni og FH sent keppendur til leiks.

Sýnt verður beint frá boccia, lyftingum og frjálsum íþróttum á netútsendingastöðinni www.sporttv.is á sunnudeginum.

Mótsstjórar/yfirdómarar í hverri íþróttagrein:
Boccia: Ólafur Ólafsson
Bogfimi: Jón Eiríksson/Ísleifur Bergsteinsson
Borðtennis: Ingólfur Arnarson
Lyftingar: Arnar Jónsson
Frjálsar íþróttir: Linda Kristinsdóttir
Sund: Kristín Guðmundsdóttir

Ljósmynd/ Frá Íslandsmóti ÍF árið 2009 en þá fagnaði ÍF einmitt 30 ára afmæli sínu. Hér gefur að líta liðin í 1-.3. sæti í sveitakeppninni í boccia.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 17. mars 2010 17:56
Íslandsmót ÍF í beinni á Sport TV

Um helgina fer Íslandsmót Íþróttasamband fatlaðra fram en keppt verður í sex íþróttagreinum. Netútsendingastöðin www.sporttv.is mun sýna beint frá nokkrum íþróttagreinum á Íslandsmóti ÍF sunnudaginn 21. mars.

Á Íslandsmótinu er keppt í boccia, lyftingum, frjálsum íþróttum, sundi, bogfimi og borðtennis. Útsending hefst kl. 10:00 á sunnudagsmorgun á www.sporttv.is og hefjast leikar í keppni í boccia. Kl. 13:00 hefst sýning frá lyftingakeppninni og kl. 14:00 hefjast sýningar frá keppni í frjálsum íþróttum.

Fyrir þá sem ekki komast til að fylgjast með Íslandsmóti ÍF um helgina er því tilvalið að heimsækja www.sporttv.is á sunnudag.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 17. mars 2010 16:59
Mótaskráin fyrir Íslandsmótið í sundi

Íslandsmót ÍF í sundi í 50m. laug fer fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði um næstu helgi. Keppt er laugardaginn 20. mars og sunnudaginn 21. mars.
Upphitun hefst kl. 14:00 á laugardag og kl. 09:00 á sunnudag.

Smellið hér til að sjá mótaskránna í sundi

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 16. mars 2010 23:22
Keppni lokið hjá Ernu í Vancouver

Erna Friðriksdóttir hefur nú lokið þátttöku sinni á Vetrarólympíumóti fatlaðra í Vancouver, Kanada. Erna keppti í kvöld í stórsvigi og mátti sætta sig við að verða úr leik í seinni ferðinni.

Í fyrri ferðinni kom Erna í mark á tímanum 2.00,62 mín. en í síðari ferðinni byrjaði hún vel en datt nokkuð neðarlega í brekkunni og rann smá spotta og fram hjá nokkrum hliðum og því sjálfkrafa úr leik.

Í beinni lýsingu frá seinni umferðinni á www.paralympicsport.tv höfðu þulirnir í útsendingu það á orði að Erna hefði vakið athygli vestra fyrir mikla baráttu og þarna færi hugaður keppandi.

Það var svo Bandaríkjakonan Alana Nichols sem hrifsaði til sín gullið en sameiginlegur tími hennar í báðum ferðum var 2.57,57 mín.

Úrslit í stórsvigi kvenna í sitjandi flokki

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 16. mars 2010 16:20
Erna keppir í stórsvigi í dag

Á eftir kl. 17:00 keppir Erna Friðriksdóttir í sinni annarri og síðustu grein á Vetrarólympíumóti fatlaðra sem nú fer fram í Vancouver í Kanada. Að þessu sinni keppir Erna í stórsvigi en á sunnudag var hún dæmd úr leik eftir að hafa misst af einu hliði í svigi.

Hægt er að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu á www.paralympicsport.tv og á íþróttarásinni Eurosport.

Í dag eru 15 keppendur skráðir til leiks í stórsviginu og er Erna síðust á ráslistanum. Önnur ferðin hjá Ernu hefst svo kl. 20:30 í kvöld að íslenskum tíma.

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir aðalfararstjóri í ferðinni sagði að Erna væri hress og klár í slaginn og átti Anna von á því að brautin í dag væri hröð og nokkuð erfið viðureignar.

Ráslistinn hjá Ernu í dag
Sjá einnig fjölda nýrra mynda frá Vancouver inni á www.123.is/if

Ljósmynd/ Erna er klár í slaginn!

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 16. mars 2010 15:55
Jóhann Rúnar á HM í borðtennis

Jóhann Rúnar Kristjánsson mun taka þátt í heimsmeistaramótinu í borðtennis fatlaðra, sem fram fer í Suður-Kóreu í lok október á þessu ári. Honum barst tilkynning í morgun þess efnis að hann væri 15. maður inn á heimsmeistaramótið og því öruggur inn. Framundan eru því æfingabúðir og stíft þjálfunarprógramm fyrir mótið.

Jóhann Rúnar fór með sigur af hólmi í minningarmóti sem haldið var um síðustu helgi og um komandi helgi verður Jóhann svo í eldlínunni á Íslandsmóti ÍF í borðtennis. Skemmst er að minnast þess að Jóhann Rúnar varði Íslandsmeistaratitil sinn í 1. flokki ófatlaðra um þarsíðustu helgi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 16. mars 2010 11:30
Uppröðun í deildir á Íslandsmótinu í boccia

Þá er uppröðun í deildir á Íslandsmóti ÍF í sveitakeppninni klár. Keppnin í boccia fer fram í Laugardalshöll dagana 20. og 21. mars. Formleg setning Íslandsmótsins fer fram í Laugardalshöll en dagskráin hefst kl. 10:00 með fararstjórafundi og dómarafundi. Strax á eftir eða um kl. 10:30 verður mótssetning með marseringu aðildarfélaga inn í Höllina og áætlað er að keppni í boccia hefjist strax á eftir eða um kl. 11:00.

Smellið hér til að sjá uppröðun í deildir á Íslandsmótinu í sveitakeppni í boccia

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 15. mars 2010 11:23
Erna dæmd úr leik í svigi

Erna Friðriksdóttir sem keppti í sitjandi flokki í svigi í gær á Vetrarólympíumóti fatlaðra var dæmd úr leik eftir svigkeppnina. Á fundi liðsstjóra eftir svigkeppnina í gærkvöldi var staðfest að tveir keppendur hefðu verið dæmdir úr leik fyrir að sleppa hliði í seinni umferð. Annar þessara keppenda var Erna sem hafði verið skráð í 11. sæti eftir tvær umferðir. Það voru því aðeins 9 af 17 keppendum sem luku keppni í svigi í gærkvöldi.

Erna sýndi mikla þrautseigju í svigkeppninni og vakti mikla athygli áhorfenda fyrir einstakan baráttuvilja. Hún ætlaði sér að klára keppni og komast í mark þrátt fyrir fall á erfiðum stað í brautinni og gerði einmitt það en var því miður dæmd úr leik.

Með þátttöku Ernu í svikeppninni í gær hafa verið mörkuð ný spor í sögu fatlaðra á Íslandi en Íslendingar hafa aldrei átt keppanda í alpagreinum á Ólympíumóti fatlaðra. Í Whistler Greekside fara fram aplagreinar, norrænar greinar og skíðaskotfimi. Í Vancouver fer fram sleðaíshokký og hjólastjólakrulla. Miðar eru að verða uppseldir á íshokký en sú grein er ekki síður spennandi en hefðbundið íshokký. Keppni í svigi og stórsvigi var færð fram og því lýkur Erna keppni með stórvigi á morgun, þriðjudag. Hún átti upphaflega að hefja keppni 19. mars.

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir skrifar frá Vancouver

Ljósmyndir/ Frá fyrsta keppnisdegi Ernu í Vancouver í gær.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 14. mars 2010 00:41
Erna lauk keppni í 11. sæti

Þá er fyrstu keppnisgrein lokið hjá Ernu Friðriksdóttur á Vetrarólympíumóti fatlaðra í Vancouver. Eins og þegar hefur komið fram var keppni hjá Ernu flýtt og tók hún þátt í svigi í dag. Erna skíðaði fyrri ferðina og kom þá inn í 14. sæti á tímanum 2.04,05 mín. en hún mátti sætta sig við að detta tvisvar í seinni ferðinni núna í kvöld og kom í mark á tímanum 2.40,74 mín.

Samtalstími Ernu í sviginu í dag var því 4.44,79 mín. og hafnaði hún í 11. sæti þar sem sex aðrir keppendur gátu annað hvort ekki klárað brautina eða mættu ekki til leiks.

Austurríska skíðakonan Claudia Loesch landaði gullverðlaunum í greininni en samtalstími hennar í ferðunum tveimur var 2.12,05 mín.

Úrslit í svigi kvenna í sitjandi flokki

Erna keppir svo aftur á þriðjudag og þá í stórsvigi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 14. mars 2010 19:40
Erna í 14. sæti fyrir seinni umferðina

Erna Friðriksdóttir hefur hafið keppni á Vetrarólympíumótinu í Vancouver en í dag kl. 17:00 fór hún í fyrri ferð sína í svigi. Alls voru 17 keppendur skráðir til leiks í svigi í sitjandi flokki, einn keppandi fór ekki í brautina og tveir náðu ekki að klára. Því voru aðeins 14 sem kláruðu brautina og kom Erna síðustu í mark af þeim.

Erna kom í mark á tímanum 2.04,05 mín. en Stephani Victor frá Bandaríkjunum var með besta tímann eftir fyrstu umferð, 1.04,57 mín.

Í kvöld kl. 20:40 hefst svo seinni umferðin hjá Ernu en sýnt verður beint frá henni á www.paralympicsport.tv

Ljósmynd/ Erna á Opnunarhátíð Vetrarólympíumótsins í Vancouver.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 14. mars 2010 16:35
Breytt dagskrá hjá Ernu: Keppir kl. 17 í dag!

Af veðurfarslegum ástæðum hefur keppnisdagskráin hjá Ernu Friðriksdóttur breyst til muna á Vetrarólympíumóti fatlaðra sem nú fer fram í Vancouver í Kanada. Erna sem keppa átti í alpagreinum dagana 19. og 21. mars mun stíga á stokk í dag kl. 17:00 í fyrri ferðinni eða kl. 10:00 að staðartíma í Vancouver.

Síðari ferðin hefst svo kl. 13:40 að staðartíma eða kl. 20:40 að íslenskum tíma. Erna keppir í svigi í dag og á þriðjudag í stórsvigi.

Ráslistinn hjá Ernu er klár og nálgast má hann hér en í sitjandi flokki kvenna í svigi eru 17 keppendur skráðir til leiks og 49 í flokki karla. Í kvennaflokki eru aðeins tveir keppendur frá Norðurlöndum þær Erna frá Íslandi og Linnea Ottoson frá Svíþjóð.

Breyting þessi á keppnisdagskránni setur auðvitað ýmsar áætlanir úr skorðum en samkvæmt mótshöldurum er verið að tryggja öryggi keppenda í brekkunum.

Heimasíða mótsins: www.vancouver2010.com

Heimasíðan www.paralympicsport.tv sýnir beint frá leikunum en samkvæmt þeirra dagskrá sýna þeir beint frá seinni ferðunum í svigi karla og kvenna í sitjandi flokki í kvöld.

Ljósmynd/ Frá Vancouver, mikil þoka hefur sett sitt strik í reikninginn.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 13. mars 2010 14:02
Ísland boðið velkomið í Ólympíuþorpið

Síðastliðinn fimmtudag var íslenski hópurinn boðinn velkominn í Ólympíuþorpið í Vancouver með viðeigandi athöfn. Venjan er að þjóðirnar séu boðnar velkomnar í þorpin og yfirleitt nokkrar þjóðir í einu. Á fimmtudag var Ísland í hópi með Bosníu og Mexico við mótttökuna í Ólympíuþorpinu.

Töluverð snjókoma var í Vancouver á fimmtudag en létti yfir skömmu fyrir athöfnina. Fáni IPC og fáni hvers lands var dreginn að húni og fararstjórar afhentu gjafir við tilefnið og voru síðan sjálfir leystir út með þakklætisvotti frá mótshöldurum. Að lokinni athöfn átti íslenski hópurinn skemmtilega stund með Íslendingunum sem komu í heimsókn í Ólympíuþorpið.

Ljósmynd/ Íslenski hópurinn við opinbera mótttöku í Ólympíuþorpinu í Vancouver.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 12. mars 2010 17:12
Magma styrkir Íþróttasamband fatlaðra

Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) og Magma á Íslandi hafa gert með sér samkomulag um samstarf í tengslum við þátttöku Íslands á Vetrarólympíumóti fatlaðra í Kanada. Mun Magma greiða götu Ólympíumótsliðs Íslands á ýmsa vegu í Vancouver fram yfir leikana. Fulltrúi ÍF á leikunum er Erna Friðriksdóttir og keppir hún dagana 19. og 21. mars nk.

Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður ÍF sagði við undirritun samningsins sl. miðvikudag að mikill happafengur væri í jafn sterkum bakhjarli og Magma á Íslandi, sem bættist í hóp öflugra bakhjarla sambandsins.

Ásgeir Margeirsson forstjóri Magma á Íslandi lét hafa eftir sér við samningsgerðina að forsvarsmenn fyrirtækisins væru bæði ánægðir og spenntir á þeim tímamótum sem nú væru orðin í íþróttasögu fatlaðra hér á landi. Myndi Magma gera sitt besta til að aðstoða íslensku þátttakendurna í Vancouver en aðalstöðvar kanadíska fyrirtækisins eru einmitt þar.

Nánari upplýsingar:
Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður ÍF, sími 860 0108.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri magma á Íslandi, sími 665 2055.

Ljósmynd/ Sveinn Áki Lúðvíksson frá ÍF og Ásgeir Margeirsson frá Magma á Íslandi við frágang samninga síðastliðinn miðvikudag.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 12. mars 2010 12:06
Alþjóðadagur kvenna haldinn hátíðlegur í Whistler

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti var haldinn hátíðlegur í Whistler í Vancouver þann 8. mars síðastliðinn. Forseti Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC), Sir. Phil Craven hélt ræðu þar sem hann hvatti til aukinnar þátttöku kvenna í íþróttastarfi fatlaðra. Craven kynnti jafnframt nokkrar konur sem eiga það sameiginlegt að hafa starfað eða eru að hefja störf fyrir IPC.

Forseti Íþróttasambands fatlaðra í Kanada var með ávarp en hún hefur verið sérlega ötul í baráttu fyrir því að kynning sé samræmd á Ólympíuleikum og Ólympíumóti fatlaðra í Kanada. Einkennismerki beggja leikanna eru hlið við hlið á skiltum í Whistler og Kanada og markvisst hefur verið unnið að því að tengja þessa tvo viðburði saman.

Konur eru mun færri þátttakendur en karlar á vetrarólympíuleikum og því var fagnað að ný þátttökulönd mættu til leiks með keppendur í flokki kvenna eins og gildir um Íslands. Allar konur fengu blóm frá Sir. Phil Craven í tilefni alþjóðadags kvenna og mikil stemmning ríkti á staðnum.

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir skrifar frá Vancouver

Ljósmynd/ Craven í kvennafans.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 11. mars 2010 10:35
Erna mætt til Vancouver og fer á æfingu í dag

Erna Friðriksdóttir og Scott Wayne Olson þjálfari NSCD, Winter Park komu í Ólympíuþorpið í Vancouver frá Bandaríkjunum síðastliðinn mánudag. Í gær var verið að skoða aðstæður og áætlað að Erna fari á sína fyrstu æfingu á keppnissvæðinu í dag. Ólympíuþorpið er í um 10 mínútna fjarlægð frá keppnisstaðnum, Whistler Creekside.

Að sögn Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur, starfsmanns ÍF og aðalfararstjóri í ferðinni, eru aðstæður í Ólympíuþorpinu mjög góðar og stemmningin afslöppuð. ,,Áhersla er lögð á að reynt verði að leysa úr öllum málum sem upp koma og allir virðast boðnir og búnir til að láta hlutina ganga sem best,“ sagði Anna.

Íslenski hópurinn hefur aðsetur í blokk ásamt nokkrum öðrum þjóðum en Ísland er á sömu hæð og bandaríska landsliðið sem Erna hefur æft með undanfarið í undirbúningi fyrir Vetrarólympíumótið. Starfsfólk og þjálfarar NSCD Winter Park aðstoða fjórar þjóðir á leikunum auk Íslands vegna keppni í alpagreinum. Það eru Bretland, Serbía, Mexico og Nýja Sjáland. Ísland tengist því alþjóðlegu samvinnuverkefni þar sem samstarf þjálfara er mikið.

Ljósmynd/ Erna með íslenska fánann að vopni skömmu eftir að hún kom í Ólympíumótsþorpið.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 10. mars 2010 12:57
Vorboðinn ljúfi: Hekla kom færandi hendi

Kiwanisklúbburinn Hekla kom færandi hendi í vikunni en klúbburinn hefur um árabil stutt dyggilega við bakið á starfsemi Íþróttasambandi fatlaðra. Það var formaður ÍF, Sveinn Áki Lúðvíksson, sem tók við fjárstyrk Heklu.

Á myndinni eru frá vinstri Gísli Guðmundsson, Garðar Hinriksson og Þorsteinn Sigurðsson frá Kiwanisklúbbnum Heklu og lengst til hægri er Sveinn Áki Lúðvíksson.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 9. mars 2010 17:03
Lokahófið á Hótel Sögu

Lokahóf Íslandsmóts Íþróttasambands fatlaðra fer fram á Hótel Sögu sunnudaginn 21. mars næstkomandi. Hljómsveitin Saga Klass mun leika fyrir dansi fram á miðnætti og veislustjóri verður enginn annar en stuðboltinn Gunnar Einar Steingrímsson sem gerði allt vitlaust á árshátíðinni í fyrra.

Húsið verður opnað kl. 18:00 og matseðillinn er ekki af verri endanum, alíslenskt lambakjöt og meðlæti og ís í eftirrétt.

Að loknu borðhaldi mun Saga Klass stíga á stokk og leika fyrir dansi fram undir miðnætti.

Miðaverð kr. 5000,-

Við minnum á að skráning á lokahóf fer fram á heildarskráningarblaði sem þegar hefur verið sent út til allra aðildarfélaga.

Ljósmynd/ Hljómsveitin Saga Klass

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 8. mars 2010 15:32
Jóhann Íslandsmeistari í 1. flokki annað árið í röð

Borðtenniskempan Jóhann Rúnar Kristjánsson, NES, varð um helgina Íslandsmeistari í 1. flokki óftalaðra í borðtennis en þetta er annað árið í röð sem hann landar þeim stóra. Jóhann fagnaði sigri í 1. flokki eftir 3-1 sigur á Hlöðveri Steina Hlöðverssyni úr KR.

Úrslitaviðureignin fór svo:
11-5, 11-3, 9-11, 11-7.

,,Undanúrslitaviðureignin var erfiðust en hún fór 3-2 og mest spennandi lotan í þeirri viðureign var þriðja lotan. Þá var ég 10-8 undir en datt í gírinn og vann lotuna 12-10,“ sagði Jóhann Rúnar sem hafði svo öruggan sigur í úrslitaleiknum gegn Hlöðveri eins og áður greinir.

Á heimasíðunni www.bordtennis.is er greint nánar frá Íslandsmótinu en þar segir:
Þetta var annað árið í röð sem þessir leikmenn mætast í úrslitum og aftur sigraði Jóhann. Hann varði þar með titilinn frá 2009. Árangur Jóhanns er sérstaklega athyglisverður þar sem hann er bundinn við hjólastól.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 8. mars 2010 11:32
Skilafrestur til 10. mars

Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra fer fram dagana 20. og 21. mars næstkomandi. Skilafrestur á skráningum er miðvikudagurinn 10. mars. Þegar hafa verið send út skráningargögn og upplýsingar um hvert beri að skila skráningum.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 2. mars 2010 17:57
Vetrarólympíumót fatlaðra 12. – 21. mars 2010 í Vancouver

Í fyrsta skipti í sögu íþrótta fatlaðra á Íslandi mun ÍF eiga keppanda í alpagreinum á Vetrarólympíumóti fatlaðra.

Erna Friðriksdóttir frá Egilsstöðum hefur náð lágmörkum á leikana og mun keppa í svigi og stórsvigi.
Hún hóf skíðaferil sinn árið 2000 eftir námskeið ÍF, VMÍ og Winter Park í Hlíðarfjalli. Þá prófaði hún í fyrsta skipti sérhannaðan skiðasleða.

Faðir hennar lærði á skíði til að geta að geta fylgt henni eftir en hún bjó og býr enn á Egilsstöðum. Frá árinu 2006 hefur hún æft og keppt í Bandaríkjunum og notið leiðsagnar hjá samstarfsaðilum ÍF í Winter Park Colorado. ÍF mun njóta sérfræðiaðstoðar þjálfara frá NSCD á leikunum.´

Nánari upplýsingar og myndir (pdf skjal, 436 KB)

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 24. febrúar 2010 10:13
Námskeiðið í Hlíðarfjalli gekk mjög vel

Námskeiðið í Hlíðarfjalli á vegum Íþróttasambands fatlaðra, Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands og NSCD Winter Park Colorado gekk mjög vel. Dagskrá var frá föstudegi til sunnudags og allir skemmtu sér mjög vel, jafnt þátttakendur sem aðstoðarfólk. Beth Fox stýrði verkefnum aðstoðarfólks og John eiginmaður hennar var með fyrirlestra fyrir sjúkraþjálfara og fyrir gæslumenn í Híðarfjalli. Þátttakendur, aðstandendur og aðstoðarfólk um 40 manns mættu á fyrirlestur og í kvöldverð á Hótel Kea á laugardagskvöld. Þar var Jón Gunnar Benjamínsson með athyglisvert erindi þar sem hann sagði frá ferð sem hann og félagar hans fóru á fjórhjólum um hálendi Íslands.

Á sunnudag brast á óveður en hópurinn lét það ekki aftra sér frá því að ljúka námskeiðinu með því sem hafði verið stefnt að, að skíða öll saman niður brekkuna. Allir klæddu sig vel og fóru út í óveðrið þar sem hópurinn myndaði eina röð sem liðaðist niður brekkuna með færeyska fánann í broddi fylkingar.

Í kjölfar námskeiðsins áttu fulltrúar ÍF og VMÍ fund með fulltrúm NSCD þar sem rætt var frekara samstarf. Fyrirlestrar voru haldnir á vegum Þroskaþjálfafélags Íslands og áfyrir sjúkraþjálfara á Grensásdeild og Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Stefnt er að áframhaldandi samstarfi við NSCD í Winter Park Colorado en samstarfið byggir á ráðgjöf og kennslu fyrir byrjendur og þjálfun fyrir þá sem vilja ná lengra eins og Erna Friðriksdóttir sem nú æfir í Winter Park. Fleiri samstarfsmöguleikar eru til staðar sem skoðaðir verða en starfið í Winter Park byggir á útivistartilboðum jafnt sumar sem vetur.

Myndir frá námskeiðinu eru á www.123.is/if

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 19. febrúar 2010 14:55
Aðalfundur Aspar 9. maí

Þann 9. maí næstkomandi heldur Íþróttafélagið Ösp aðalfund sinn í Laugardalshöll. Af því tilefni mun Öspin einnig standa að vorhátíð því í ár fagnar félagið 30 ára afmæli sínu.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 18. febrúar 2010 16:12
Æfingabúðir sundnefndar ÍF 20.-21. febrúar

Æfingabúðir verða fyrir þá einstaklinga sem hafa náð lágmörkum sem sundnefnd ÍF hefur sett fyrir árið 2010. Búðirnar fara fram í innilauginni í Laugardal dagana 20. og 21. febrúar n.k..

Lágmörkum þarf að ná á viðurkenndum sundmótum (löglegum mótum, SSÍ eða ÍF). Einnig þarf viðkomandi að vera æfa allt að 4-7 sinnum í viku og skila 90% mætingu á æfingu.

Lágmörkum fyrir Heimsmeistaramótið þarf að ná í 50 metra laug og vera samþykkt af IPC.  Einnig þarf viðkomandi að vera með gilt keppnisleyfi frá IPC fyrir árið 2010 og hafa fengið alþjóðlega flokkun. Allir þeir einstaklingar sem kepptu á Evrópumeistaramótinu eru með gilt keppnisleyfi fyrir árið 2010.

Þjálfara vinsamlegast skoðið lágmörkin og boðið ykkar sundmenn til æfingabúða laugardaginn 20. febrúar klukkan 10:00 í sundlaug Laugardals.

Vinsamlegast sendið upplýsingar um þá sundmenn sem náð hafa lágmörkum, nafn og hvað lágmarki viðkomaandi hefur náð á netfangið krigu@simnet.is fyrir föstudaginn 19. febrúar.

Lágmörkin er að finna hér á heimasíðu ÍF undir "íþróttagreinar" - sund. 

Æfingar verða sem hér segja:

Laugardagur 20. febrúar 
Kl.   10:00-12:15  Sundlaug Laugardal  synt í útilaug (nema það verði pláss í innilaug).
Kl.  12:30-13:30  Hádegismatur
Kl. 14:00-15:00  Fundur með sundmönnum, markmið og fleira.
Kl. 15:30-17:30  Sundæfing í innilaug 

Sunnudagur 21. febrúar 
Kl. 8:30-11:00    Sundæfing í innilaug

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 15. febrúar 2010 15:04
Tímaseðill Íslandsmóts ÍF 2010

Íslandsmót ÍF í bogfimi, frjálsum, lyftingum, boccia, borðtennis og sundi fer fram dagana 20.-21. mars næstkomandi. Keppni í sundi fer fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði og keppni í borðtennis fer fram í TBR húsinu en aðrar greinar fara fram í Laugardalshöll.

Lokahófið verður svo á sínum stað og að þessu sinni fer það fram í Súlnasal á Hótel Sögu en nánar verður greint frá lokahófinu á næstu dögum.

Tímaseðillinn 2010:

Bogfimi
Laugardagur 20. mars: 10:00 – 15:00 bogfimi fyrri hluti Salur B (Frjálsíþróttahöll)
Sunnudagur 21. mars: 09:00 – 13:00 bogfimi seinni hluti Salur B (Frjálsíþróttahöll)

Frjálsar
Sunnudagur 21. mars: 14:00 – 17:00 Frjálsar íþróttir Salur B (Frjálsíþróttahöll)
Upphitun 13:30

Lyftingar
Sunnudagur 21. mars: 13:00 – 16:00 Bíósalurinn í Laugardalshöll

Boccia
Föstudagur 19. mars kvöld (20-22) Merking valla
Laugardagur 20. mars 10:00 – 20:00 (22:00) Aðalsalur
Sunnudagur 21. mars 09:00 – 13:00 Aðalsalur

Borðtennis (TBR húsið)
Laugardagur 20. mars 10:00 – 17:00 TBR Húsið

Sund
Laugardagur 20. mars 15:00 – 17:00 Ásvallalaug
Sunnudagur 21. mars 09:00 – 12 (13:00) Ásvallalaug

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 15. febrúar 2010 09:25
Vetraríþróttahátíð ÍSÍ í fullum gangi

Vetraríþróttahátíð ÍSÍ var sett á mikilli opnunarhátíð í Skautahöllinni á Akureyri þann 6. febrúar síðastliðinn. Hátíðin sem stendur yfir til 21. mars hófst með skrúðgöngu, inn á svellið þar sem í voru auk fólks, hestar, vélhjól, snjósleðar og forláta bifreið.

Ávörp fluttu Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ, Þröstur Guðjónsson formaður undirbúningsnefndar hátíðarinnar, Ólafur Jónsson formaður íþróttaráðs Akureyrarbæjar og Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri Akureyrar sem setti hátíðina formlega.

Eftir ávörp voru Ólympíufararnir 2010 kynntir. Íþróttasamband Fatlaðra sendir Ernu Friðriksdóttur á Vetrarólympíumót fatlaðra í Vancouver 12.-22. mars og keppir hún í alpagreinum. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sendir Árna Þorvaldsson, Björgvin Björgvinsson, Írisi Guðmundsdóttur og Stefán Jón Sigurgeirsson á Vetrarólympíuleikana í Vancouver 12.-28. febrúar og keppa þau öll í alpagreinum.

Nánar um málið á heimasíðu ÍSÍ

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 10. febrúar 2010 14:12
Skíðanámskeið fyrir hreyfihamlaða í Hliðarfjalli 12.–14. febrúar

Skíðanámskeið er haldið í samvinnu Íþróttasambands Fatlaðra, Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands og NSCD, ( National Sport Center for disabled) Winter Park Colorado. Námskeiðið sem er fullbókað hefst föstudaginn 12. Febrúar kl. 13.00 og lýkur sunnudaginn 14. Febrúar kl. 16.00

Leiðbeinendur eru Beth Fox, forstöðumaður NSCD Winter Park og John Florkiewicz forstöðumaður líkams og heilsuræktarstöðvar NSCD. Megináhersla á þessu námskeiði er á meðferð og notkun skíðasleða/ bi ski og mónóski fyrir hreyfihamlaða einstaklinga.

Fullbókað er á námskeiðið en þeir sem áhuga hafa eru hvattir til þess að kíkja í Hlíðarfjall og kynna sér tækjabúnað sem þar er til staðar. Markmið er að auka fjölda leiðbeinenda og fólk sem áhuga hefur á að aðstoða er hvatt til að láta vita af sér og taka þátt í næstu námskeiðum.

Beth Fox og John Florkiewicz verða með fyrirlestra á Akureyri og Reykjavík í tengslum við námskeiðið.

Fimmtudagur 11. febrúar kl. 0900 Fyrirlestur á Grensás fyrir sjúkraþjálfara

Föstudagur 12. febrúar kl. 0810. Fyrirlestur í Háskólanum Akureyri – fyrir nemendur í iðjuþjálfun.

Laugardagur 13. febrúar kl. 15.00 Fyrirlestur og ráðgjöf í Hlíðarfjalli fyrir sjúkraþjálfara

Mánudagur 15. febrúar kl. 20.00 Opinn fyrirlestur á vegum Þroskaþjálfafélags Íslands, Borgartúni 6. Reykjavík.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 4. febrúar 2010 16:11
Ellefu íþróttamenn fengu úthlutað frá ÍSÍ

Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands samþykkti fyrir skemmstu tillögu stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ og Styrktarsjóðs ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna fyrir árið 2010. Þá samþykkti framkvæmdastjórn ÍSÍ einnig úthlutun styrkja úr sjóði Ólympíufjölskyldu ÍSÍ. Að þessu sinni voru ellefu íþróttamenn með fötlun sem hlutu styrk.

Styrkveitingarnar að þessu sinni námu samtals rúmlega 60 milljónum króna en úthlutað var tæplega 45 milljónum úr Afrekssjóði, 10 milljónum úr Sjóði ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna og 6 milljónir úr sjóði Ólympíufjölskyldu.

Eftirtaldir íþróttamenn úr röðum fatlaðra fengu úthlutað að þessu sinni:

Baldur Ævar Baldursson – frjálsar – C-styrkur: 480.000,- kr.
Eyþór Þrastarson – sund – C-styrkur: 480.000,- kr.
Jóhann Rúnar Kristjánsson – borðtennis – C-styrkur: 480.000,- kr.
Erna Friðriksdóttir – skíðaíþróttir – eingreiðsla: 300.000,- kr.
Jón Margeir Sverrisson – sund – eingreiðsla: 300.000,- kr.
Pálmi Guðlaugsson – sund – eingreiðsla: 300.000,- kr.
Sonja Sigurðardóttir – sund – eingreiðsla: 300.000,- kr.
Ingeborg Eide Garðarsdóttir – frjálsar – ungir og framúrskarandi: 100.000,- kr.
Ragney Líf Stefánsdóttir – sund – ungir og framúrskarandi: 100.000,- kr.
Guðmundur Hákon Hermannsson – sund - ungir og framúrskarandi: 100.000,- kr.
Hjörtur Már Ingvarsson – sund - ungir og framúrskarandi: 100.000,- kr.

Þrír íþróttamenn voru að fá úthlutað í fyrsta sinn úr Afrekssjóði ÍSÍ en þeir eru Erna Friðriksdóttir, Jón Margeir Sverrisson og Pálmi Guðlaugsson. Þá fengu þrír íþróttamenn einnig úthlutað í fyrsta sinn úr sjóði ungra og framúrskarandi efnilegra en þeir eru Ingeborg Eide Garðarsdóttir, Guðmundur Hákon Hermannsson og Hjörtur Már Ingvarsson.

Ljósmynd/ Frjálsíþróttakonan unga og efnilega Ingeborg Eide Garðarsdóttir er hér á flugi í langstökki á Norræna barna- og unglingamótinu sem fram fór í Eskilstuna í Svíþjóð síðasta sumar.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 3. febrúar 2010 15:20
Æfingar fyrir fötluð börn og ungmenni hjá KR

Knattspyrnufélagið KR býður aftur upp á knattspyrnuæfingar fyrir fötluð börn og ungmenni. Markmiðið er að gefa fötluðum börnum og unglingum tækifæri að vera virkir þátttakendur hjá almennu knattspyrnufélagi.

Íþróttasamband fatlaðra er umsjónaraðili starfsemi Special Olympics á Íslandi. Evrópusamtök Special Olympics og UEFA hafa byggt upp samstarf á sviði knattspyrnu fyrir fatlaða en óskað var eftir því að aðildarlönd samtakanna starfi með knattspyrnusamböndum í hverju landi að þessu verkefni.

Miðvikudaginn 3. febrúar, í dag, hefjast  knattspyrnuæfingarnar fyrir fatlaða og þroskahefta, æft verður á miðvikudögum kl. 18.00 -18.50. Æfingarnar fara fram í íþróttsal KR , æfingarnar eru fyrir 16 ára og yngri.

Jafnframt verður reynt að stuðla að því að þeir sem þess óska geti verið á æfingum með sínum jafnöldrum. Meginmarkmið er að skapa valkost sem gerir fötluðum og þroskaheftum börnum og unglingum kleift að vera virkir þátttakendur á æfingum hjá almennu knattspyrnufélagi og leika undir merkjum þess félags.

Nánari upplýsingar gefa Rúnar Kristinsson í síma: 510-5306, e-mail rkr@kr.is og Stefán Arnarson í síma: 510-5310 og e-mail stefan@kr.is 

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 1. febrúar 2010 10:19
Jóhann Rúnar er Suðurnesjamaður ársins 2009

Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson var á dögunum útnefndur Suðurnesjamaður ársins 2009 af Víkurfréttum, elsta og mest lesna miðli Suðurnesjamanna.

Í inngangi viðtalsins við Jóhann segir m.a:
Jóhann hefur tekið þátt í baráttu fatlaðra á margvíslegan hátt og vakið athygli á hvernig bæta megi aðstöðu þeirra í samfélaginu. Hann hefur líka reglulega heimsótt fólk á sjúkrastofnanir sem hefur lent í svipaðri aðstöðu og hjálpað því fyrstu skrefin sem eru svo erfið. Þær heimsóknir hafa verið mönnum til lífs.

Sjá viðtalið við Jóhann í Víkurfréttum

Ljósmynd/ www.vf.isJóhann ásamt dóttur sinni Guðrúnu Önnu.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 26. janúar 2010 10:53
Hjörtur Már Ingvarsson Íþróttamaður Ölfus 2009

Sundmaðurinn Hjörtur Már Ingvarsson frá Þorlákshöfn var á dögunum útnefndur Íþróttamaður Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árið 2009.

Á heimasíðu Ölfus segir:

Hjörtur hefur staðið sig afskaplega vel í sundinu á liðnu ári. Hann náði þeim merka áfanga að vera valinn í landslið Íslands til keppni á Evrópumeistaramóti fatlaðra sem fram fór í Laugardalslauginni í október síðastliðnum. Þar vakti hann mikla athygli fyrir keppnishörku og árangur en hann setti íslandsmet í öllum greinum sem hann tók þátt í og synti í úrslitariðlum í sínum fötlunarflokki. Á Íslandsmótinu í 25 metra braut í nóvember síðastliðinn bætti hann en Íslandsmetin í sínum greinum.
Hann hefur sett alls 21 íslandsmet á árinu sem er aldeilis frábært.
Hjörtur hefur nú sett sér það markmið að ná lágmörkum fyrir Heimsmeistaramót fatlaðra sem fram fer í Hollandi á hausti komanda.

Íþróttasamband fatlaðra óskar Hirti til hamingju með útnefninguna.

Fréttin í heild sinni á heimasíðu Ölfus

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 22. janúar 2010 16:19
Video: Svipmyndir frá Nýárssundmótinu

Nú er hægt að nálgast svipmyndir frá Nýárssundmóti ÍF sem fram fór í innilauginni í Laugardal sunnudaginn 10. janúar síðastliðinn.

Myndbandið er að finna inni á Youtube-síðu ÍF með því að smella hér.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 19. janúar 2010 15:01
Pálmi sýndi Audda réttu tökin

Í síðustu viku mættust kapparnir Auðunn Blöndal og Pálmi Guðlaugsson í sundlauginni en sú viðureign var hluti af sjónvarpsþætti þeirra Audda og Sveppa sem er á dagskrá Stöð 2 alla föstudaga. Auddi og Sveppi kepptu í hinum ýmsu íþróttum sem voru á RIG um helgina og í sundi fatlaðra mætti hann Pálma í lauginni eins og fyrr segir.

Sér til halds og trausts á bakkanum hafði Pálmi æfingafélaga sína í Fjölni en Sveppi studdi Audda með ráðum og dáð en það dugði skammt! Fyrsta grein var 50m. skriðsund þar sem Auddi fór á kostum með nýstárlegum sundtökum en þegar Pálmi hafði lokið ferðinni var Auðunn um það bil hálfnaður.

Fyrir keppnina hafði Pálmi tekið loforð af Audda að ef hann tapaði fyrir sér í skriðsundi þá myndi Auðunn mæta honum í flugsundi og úr varð mikið sjónarspil því viðlíka sundtök hafa sjaldan eða aldrei verið framkvæmd með jafn miklu kappi, og litlum árangri. Skemmtileg uppákoma í alla staði og hver veit nema Pálmi taki Audda í kennslustund í lauginni í náinni framtíð.

Myndasafn frá viðureign Audda og Pálma

Ljósmynd/ Pálmi og Fjölniskrakkarnir voru ánægð með keppnina gegn sjónvarpsstjörnunum Audda og Sveppa.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 18. janúar 2010 11:11
Tíu Íslandsmet á RIG

Reykjavík International Games fóru fram um helgina þar sem tíu Íslandsmet féllu í sundi fatlaðra. Hjörtur Már Ingvarsson bætti fjögur Íslandsmet sem fyrir voru einnig í hans eigu en tímana var hann að bæta frá því hann synti glæsilega á Evrópumóti fatlaðra í október á síðasta ári. Pálmi Guðlaugsson var einnig í stuði og setti tvö Íslandsmet, annarsvegar í 200 m. skriðsundi og hinsvegar í 200m. fjórsundi.

Stigahæstu einstaklingar mótsins voru þau Jón Margeir Sverrisson og Kolbrún Stefánsdóttir en Jón syndir fyrir Ösp/Fjölni og Kolbrún syndir fyrir Íþróttafélagið Fjörð í Hafnarfirði.

Helsti árangur í sundi fatlaðra á RIG

RIG                                        16. -17. janúar           Sundlaug Laugardals
Hjörtur Már Ingvarsson         S5        50 frjáls aðferð           0:47,81            16/01/10
Anna Kristín Jensdóttir          SB5     100 bringa                  2:29,13            16/01/10
Bjarndís Breiðfjörð                S8        50 bak                         0:55,29            16/01/10
Vaka Þórsdóttir                      S11      50 bak                         1:05,61            16/01/10
Pálmi Guðlaugsson                S6        200 frjáls aðferð         3:11,21            16/01/10
Hjörtur Már Ingvarsson         S5        100 frjáls aðferð         1:47,15            16/01/10
Hjörtur Már Ingvarsson         S5        200 frjáls aðferð         3:42,35            16/01/10
Hjörtur Már Ingvarsson          S5        100 m frjáls aðferð      1:43,40            17/01/10
Bjarndís Breiðfjörð                 SB8     50 m bringa                 1:06,02            17/01/10
Pálmi Guðlaugsson                 SM6    200 m fjór                   3:44,55            17/01/10

Stigahæstu einstaklingarnir voru
Jón Margeir Sverrisson Ösp/fjölnir                 754 fyrir 50 skrið á tímanum 27,79
Kolbrún Stefánsdóttir Fjörður                        540 fyrir 50 skrið á tímanum 35,54

Ljósmynd/ Vignir Hauksson tekur á því í lauginni um helgina.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 17. janúar 2010 09:10
7 Íslandsmet á fyrsta keppnisdegi RIG

Í gærdag hófst keppni í sundi fatlaðra á Reykjavík International Games í innilauginni í Laugardal. Óhætt er að segja að íslensku sundmennirnir hafi verið í góðum gír þar sem alls 7 Íslandsmet féllu á þessum fyrsta keppnisdegi.

Hinn ungi og efnilegi Hjörtur Már Ingvarsson fór mikinn þegar hann bætti þrjú Íslandsmet sem voru í hans eigin eigu síðan á Evrópumeistaramóti fatlaðra sem fram fór í október á síðasta ári.

Íslandsmet á fyrsta keppnisdegi RIG:

Hjörtur Már Ingvarsson S5 50 frjáls aðferð 0:47,81 16/01/10
Anna Kristín Jensdóttir SB5 100 bringa 2:29,13 16/01/10
Bjarndís Breiðfjörð S8 50 bak 0:55,29 16/01/10
Vaka Þórsdóttir S11 50 bak 1:05,61 16/01/10
Pálmi Guðlaugsson S6 200 frjáls aðferð 3:11,21 16/01/10
Hjörtur Már Ingvarsson S5 100 frjáls aðferð 1:47,15 16/01/10
Hjörtur Már Ingvarsson S5 200 frjáls aðferð 3:42,35 16/01/10

Ljósmynd/ Frá Laugardalslaug í gær

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 15. janúar 2010 15:29
Armböndin tilbúin til afhendingar

Fyrir þá sundmenn úr röðum fatlaðra sem keppa á RIG mótinu um helgina upplýsist það að armböndin eru tilbúin til afhendingar. Armböndin gilda sem aðgöngumiðar á aðra íþróttaviðburði sem tengjast RIG leikunum sem og á diskótekið með Páli Óskari á Broadway n.k. sunnudagskvöld.

Armböndin er hægt að sækja í dag, föstudaginn 15. janúar, á skrifstofu ÍF í Laugardal til kl. 16:00 eða frá kl. 12:30 á morgun, laugardag, í innilauginni í Laugardal í tæknibúrinu við sundlaugarbakkann.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 13. janúar 2010 14:23
Lokahátíð RIG – miðar á hátíðina

Lokahátíð Reykjavík International Games verður haldin á Broadway, sunnudaginn 17. janúar. Hátíðin byrjar með sameiginlegu hlaðborði klukkan 19:00 þar sem matseðillinn verður eftirfarandi:
- Wagamas hlaðborð
- Ávaxtaís með blönduðum sælkerakökum og blandaðri berjasósu

Eftir matinn verður verðlaunaafhending þar sem verðlaun mótsins verða veitt af fulltrúum Reykjavíkur og ríkisstjórnar Íslands.

Skemmtikrafur kvöldsins verður enginn annar en einn besti plötusnúður og söngvari Íslands Páll Óskar Hjálmtýsson.

Þeir úr röðum fatlaðra sem hafa hugsað sér að fara á lokahátíðina eru vinsamlegast beðnir um að gefa upp fjölda miða á if@isisport.is eða með því að hafa samband við skrifstofu ÍF í síma 514 4080.

Verð kr. 3000,- á mann. Miðar verða svo afgreiddir í kaffiteríunni á 2. Hæð í sundmiðstöðinni í Laugardal næstkomandi föstudagskvöld.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 11. janúar 2010 14:34
Myndasafn og fréttir af Nýárssundmótinu

Nú er hægt að nálgast myndasafn frá Nýárssundmóti Íþróttasambands fatlaðara inni á myndasíðu sambandsins eða með því að smella á eftirfarandi tengil: http://if.123.is/album/default.aspx?aid=168867

Hér gefur einnig að líta fréttir sem RÚV og Morgunblaðið færðu frá mótinu:

RÚV:
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4497868/2010/01/10/13/

Morgunblaðið:
http://www.mbl.is/mm/sport/frettir/2010/01/10/vilhelm_tok_vid_sjomannabikarnum/

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 10. janúar 2010 18:46
Vilhelm handhafi Sjómannabikarsins árið 2010

Vilhelm Hafþórsson er handhafi Sjómannabikarsins árið 2010 en nú fyrir skemmstu lauk Nýárssundmóti Íþróttasambands fatlaðra í innilauginni í Laugardal. Tæplega 90 krakkar á aldrinum 17 ára og yngri tóku þátt í mótinu en þau komu frá níu aðildarfélögum ÍF.

Fjölmörg glæsileg tilþrif sáust á mótinu og ljóst að framtíðin er björt ef þessir ungu sundmenn halda sér við efnið. Afrek mótsins vann Akureyringurinn Vilhelm Hafþórsson í 50m. skriðsundi er hann synti á tímanum 28,28 sek. Vilhelm hlaut 657 stig fyrir sundið og var því stigahæsti sundmaður mótsins og hlaut af því tilefni Sjómannabikarinn sem nú var afhentur í 27. sinn.

Kolbrún Stefánsdóttir frá Íþróttafélaginu Firði hafnaði í 2. sæti með 542 stig fyrir 50m. bringusund þar sem hún synti á tímanum 45,14 sek. Þá varð Guðmundur Hermannsson, ÍFR, í 3. sæti með 443 stig er hann synti á 32,08 sek. í 50m. skriðsundi.

Þetta er aðeins í annað sinn síðan árið 1984 sem sundmaður frá Óðni á Akureyri vinnur Sjómannabikarinn en fyrst til þess var Anna Rún Kristjánsdóttir árið 1998.

Frú Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra var sérstakur heiðursgestur mótsins og afhenti sundmönnunum þremur sigurlaun sín í mótslok og þá afhentu Katrín og Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ öllum keppendum mótsins viðurkenningarskjal fyrir þátttöku sína.

Ljósmyndir/ Á efri myndinni eru sigurvegararnir þrír en á þeirri neðri er Vilhelm með Sjómannabikarinn.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 8. janúar 2010 14:30
Jón Margeir í hóp helsta afreksfólks Kópavogs

Síðastliðið þriðjudagskvöld fékk sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson (Ösp/Sunddeild Fjölnis) sérstaka viðurkenningu á Íþróttahátíð Kópavogs sem fram fór í Salnum.

Jón Margeir fékk viðurkenningu í flokki 17 ára og eldri íþróttamanna ásamt því að fá styrk úr Afrekssjóði ÍTK, Íþrótta- og tómstundaráði Kópavogs. Með þessu er Jón kominn í hóp með helsta afreksfólki bæjarfélagsins.

Jón syndir í flokki S14 sem er flokkur þroskahamlaðra.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 7. janúar 2010 12:41
Sjómannabikarinn afhentur í 27. sinn

Hið árlega Nýárssundmót Íþróttasambands fatlaðra fer fram í Innilauginni í Laugardal sunnudaginn 10. janúar n.k. kl. 15:00. Mótið er fyrir börn og unglinga með fötlun, 17 ára og yngri.

Sjómannabikarinn verður á sínum stað en hann er veittur fyrir besta afrekið á mótinu sem reiknað er út frá heimsmeti í fötlunarflokki viðkomandi en núverandi handhafi bikarsins er sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson sem syndir fyrir Ösp í röðum fatlaðra.

Frá árinu 2000 hefur sundmaður frá Ösp þrívegis unnið Sjómannabikarinn, slíkt hið sama hefur sundmaður frá Firði gert, ÍFR hefur unnið hann þrisvar sinnum og SH tvisvar sinnum en þegar Guðrún Lilja Sigurðardóttir vann Sjómannabikarinn árið 2004 synti hún bæði fyrir SH og ÍFR.

Það var Sigmar Ólason sjómaður á Reyðarfirði sem gaf Sjómannabikarinn til Nýárssundmótsins en síðan þá hafa aðeins þrír sundmenn unnið bikarinn til eignar en þeir eru Birkir Rúnar Gunnarsson, Gunnar Örn Ólafsson og Guðrún Lilja Sigurðardóttir.

Handhafar Sjómannabikarsins frá árinu 2000:

2009: Jón Margeir Sverrisson - Ösp
2008: Karen Gísladóttir - Fjörður
2007: Karen Gísladóttir - Fjörður
2006: Hulda H. Agnarsdóttir - Fjörður
2005: Guðrún Lilja Sigurðardóttir - ÍFR
2004: Guðrún Lilja Sigurðardóttir – SH/ÍFR
2003: Guðrún Lilja Sigurðardóttir - SH
2002: Jóna Dagbjört Pétursdóttir – ÍFR
2001: Gunnar Örn Ólafsson – Ösp
2000: Gunnar Örn Ólafsson – Ösp

Ljósmynd/ Jón Margeir Sverrisson handhafi Sjómannabikarsins árið 2009.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 6. janúar 2010 09:51
Eyþór hlaut 6 stig í kjöri á Íþróttamanni ársins 2009

Kjörið á Íþróttamanni ársins 2009 var kunngjört í gærkvöldi á Grand Hótel en Samtök Íþróttafréttamanna standa að kjörinu ár hvert. Fyrir kjörið heiðraði Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands þá íþróttamenn sem útnefndir höfðu verði íþróttamenn ársins hjá sérsamböndunum. Handboltakappinn Ólafur Stefánsson var útnefndur Íþróttamaður ársins 2009 og er það annað árið í röð sem hann hlýtur þessa nafnbót. Íþróttasamband fatlaðra óskar Ólafi innilega til hamingju með nafnbótina. 

Sundmaðurinn Eyþór Þrastarson, ÍFR/Ægir, hlaut 6 stig í kjörinu og ljóst að Eyþór er hægt og bítandi að vinna sig upp listann en hann fékk eitt stig í kjörinu á síðasta ári. Eyþór var eini íþróttamaðurinn úr röðum fatlaðra þetta árið sem hlaut stig í kjörinu.

1.sæti Ólafur Stefánsson (handbolti) 380 stig
2. Eiður Smári Guðjohnsen (knattspyrna) 187
3. Þóra Björg Helgadóttir (knattspyrna) 164
4. Helena Sverrisdóttir (körfubolti) 104
5. Helga Margrét Þorsteinsdóttir (frjálsar íþróttir) 98
6. Jón Arnór Stefánsson (körfubolti) 86
7. Guðjón Valur Sigurðsson (handbolti) 78
8. Jakob Jóhann Sveinsson (sund) 63
9. Björgvin Páll Gústavsson (handbolti) 55
10. Hólmfríður Magnúsdóttir (knattspyrna) 50

11. Hermann Hreiðarsson (knattspyrna) 34
12. Róbert Gunnarsson (handbolti) 14
13. Ásdís Hjálmsdóttir (frjálsar íþróttir) 12
14. Katrín Jónsdóttir (knattspyrna) 12
15. Eyþór Þrastarson (íþróttir fatlaðra) 6
16. Auðunn Jónsson (lyftingar) 5
17. Snorri Steinn Guðjónsson (handbolti) 5
18.-19. Ólafur Björn Loftsson (golf) 4
18.-19. Kristján Örn Sigurðsson (knattspyrna) 4
20. Jakob Örn Sigurðarson (körfubolti) 4

21. Berglind Íris Hansdóttir (handbolti) 4
22.-23. Viktor Kristmannsson (fimleikar) 3
22.-23. Guðmundur Stephensen (borðtennis) 3
24. Þormóður Jónsson (júdó) 3
25.-27. Sölvi Geir Ottesen Jónsson (knattspyrna) 2
25.-27. Björgvin Björgvinsson (skíði) 2
25.-27. Tinna Helgadóttir (badminton) 2
28.-30. Ragnheiður Ragnarsdóttir (sund) 1
28.-30. Sigurður Sigurðarson (hestaíþróttir) 1
28.-30. Ásgeir Sigurgeirsson (skotfimi) 1

Ljósmynd/ Eyþór og Sonja á meðal fjölda íþróttamanna sem heiðraðir voru á Grand Hótel í gærkvöldi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 5. janúar 2010 17:09
Erna Austfirðingur ársins 2009

Erna Friðriksdóttir, tuttugu og tveggja ára stúlka úr Fellabæ er Austfirðingur ársins 2009 að dómi hlustenda Útvarps Norður- og Austurlands. Erna stefnir á að verða fyrst Íslendinga til að taka þátt í alpagreinum á Vetrarólympíumóti fatlaðra sem verður haldið í Vancouver í Kanada dagana 12. til 22. mars næstkomandi. Erna hlaut yfirburðarkosningu og fékk vel yfir 100 atkvæði.
[tekið af ruv.is]

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 5. janúar 2010 12:27
Nýárssundmót ÍF 2010 - sunnudaginn 10. januar kl. 15

Nýárssundmót Íþróttasambands fatlaðra 2010 fer fram sunnudaginn 10. janúar kl. 15.00 í innisundlauginni í Laugardal. Þetta árlega sundmót er fyrir fötluð börn og ungmenni 17 ára og yngri og keppt er eftir sérstöku stigakerfi.

Undanfarin ár hefur verið sérstakur flokkur ungra barna og byrjenda þar sem synt er 25 m sund frjáls aðferð. Þar má nýta aðstoðarmann og nota kút, kork eða önnur hjálpartæki.

Skátar standa heiðursvörð, skólahljómsveit Kópavogs leikur og venjulega er sérstök stemming á þessum árlegum Nýárssundmótum ÍF.

Heiðursgestur árið 2010 verður menntamálaráðherra, frú Katrín Jakobsdóttir.

Til nánari kynningar eru myndir frá Nýárssundmóti 2009 er á myndasíðu ÍF www.123.is/if 
Fjölmiðlum er heimilt að nýta myndir af þeirri síðu í samráði við ÍF.

Umsjónaraðili er sundnefnd Íþróttasambands fatlaðra. Formaður Ingi Þór Einarsson issi@islandia.is 

Ljósmynd/ Frá Nýárssundmóti ÍF árið 2009.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 1. janúar 2010 15:41
Skíðanámskeið í Hlíðarfjalli febrúar 2010 í samstarfi ÍF, VMÍ og Winter Park

Helgina 12. – 14. febrúar 2010 verður haldið skíðanámskeið í Hlíðarfjalli í samstarfi ÍF, VMÍ og Winter Park.

Markhópar á námskeiðinu eru tveir;

  1. Einstaklingar sem þurfa að nýta sérhannaða skíðasleða vegna fötlunar.
    Sleðar verða á staðnum, bæði sleðar fyrir byrjendur og lengra komna.
    Hámarksfjöld 12 manns.
  2. Leiðbeinendur, skíðaþjálfarar, starfsfólk skíðasvæða og aðrir þeir sem áhuga hafa að læra notkun skíðasleða fyrir fatlaða og aðstoða við uppbyggingarstarfið á þessu sviði hér á landi. Sérstaklega er mikilvægt að starfsfólk skíðasvæða sé með þekkingu á notkun sleðana í lyftum.

Skráningafrestur er til 1. febrúar 2010.

Sjá nánar

 

[Fréttir 2010]  [Fréttir 2009]  [Fréttir 2008]  [Fréttir 2007]  [Fréttir 2006]  [Fréttir 2005]  [Fréttir 2004]  [Fréttir 2003]  [Fréttir 2002]