Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 29. desember 2008 12:47
Jólaball CP félagsins og SLF

Í dag,mánudaginn 29. desember klukkan 16.30 verður haldið jólaball CP félagsins og SLF í safnaðarheimili Grensáskirkju, að Háaleitisbraut 66.

Jólatré, jólasveinar- með pakka og flottar veitingar.

Verð 500 krónur fyrir 12 ára og eldri

Reiðufé - enginn posi verður á staðnum

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 25. desember 2008 14:14
Gleðileg jól

Íþróttasamband fatlaðra óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Þökkum samfylgdina á árinu 2008.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 18. desember 2008 15:15
Nýárssundmót ÍF 4. janúar 2009

Hið árlega Nýárssundmót ÍF fer fram í innilauginni í Laugardal sunnudaginn 4. janúar næstkomandi en mótið er jafnan fyrsta verkefnið á ári hverju hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Nýárssundmótið er fyrir fötluð börn og unglinga og er Sjómannabikarinn veittur í hvert skipti fyrir besta sundafrek mótsins. Það var Karen Björg Gísladóttir sundkona úr Firði sem hlaut bikarinn á síðasta móti.

Mótið hefst kl. 15:00 en upphitun kl. 14:00 og heiðursgetur á mótinu verður Halldór Guðbergsson formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Sjómannabikarinn var fyrst veittur árið 1984 en þá var það Sigrún Pétursdóttir úr ÍFR sem fékk hann með 482 stig fyrir 50 m. baksund. Á mótinu er ekki endilega sá sem fyrstur eða fyrst kemur í mark sem vinnur besta afrekið heldur sá eða sú sem nær bestum tíma miðað við sinn fötlunarflokk.

Skráningaeyðublöð hafa þegar verið send út til aðildarfélaga ÍF og mun mótaskrá sem og keppnisdagskráin liggja fyrir milli jóla og nýárs.

Mynd: Frá Nýárssundmóti ÍF 2008

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 16. desember 2008 11:37
Sérútgáfa Hvata kom út í gær með Fréttablaðinu

Útgáfan á Hvata, tímariti Íþróttasambands fatlaðra, var með breyttu sniði að þessu sinni en í gærdag var fjögurra blaðsíðna kálfi dreift með Fréttablaðinu. Í þessu eintaki af Hvata er Ólympíumót fatlaðra gert upp sem og almenn starfsemi sambandsins kynnt.

Stjórn ÍF tók á dögunum þá ákvörðun að ekki væri við hæfi að gefa út hið veglega tímarit Hvata að þessu sinni þegar litið væri til þjóðfélagsaðstæðna en hvert eintak Hvata hefur að jafnaði verið um 60 blaðsíður í vandaðri prentun. ÍF hefur gefið út Hvata síðastliðin 18 ár og er hlutverk blaðsins að segja frá og kynna starfsemi sambandsins. Ákveðið var að leita ekki til einstaklinga og fyrirtækja eftir styrktarlínum og því þessi leið með Fréttablaðsútgáfu farin að þessu sinni.

Í blaðinu má finna grein um árangur íslensku keppendanna á Ólympíumóti fatlaðra og fleiri skemmtilega fróðleiksmola um það sem framundan er og það sem Íþróttasamband fatlaðra stendur fyrir.

Það er því um að gera að næla sér í Fréttablað gærdagsins og tryggja sér fjórblöðunginn af Hvata.

Mynd: Forsíða Hvata í Fréttablaðinu í gær. Mynd frá lokaathöfn Ólympíumóts fatlaðra í Peking 2008.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 12. desember 2008 14:31
Íþróttafélagið Ægir er 20 ára í dag

Í dag fagnar Íþróttafélagið Ægir í Vestmannaeyjum 20 ára afmæli en þennan dag árið 1988 var félagið stofnað. Af þessu tilefni er mikið um að vera í Vestmannaeyjum og í dag á milli kl. 17 og 18:30 fer afmælisveisla fram í Týsheimilinu (efri hæð) við Hástein.

Boðið verður upp á veitingar, myndlistasýningu af jólakortum og þá verður búið að setja upp lítinn bocciavöll þar sem gestir geta reynt sig. Einnig verða aðrar óvæntar uppákomur í boði og vonast er til þess að sem flestir sjái sér fært um að mæta.

Íþróttasamband fatlaðra óskar Ægi innilega til hamingju með þennan merka áfanga!

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 11. desember 2008 16:08
Katrín undirbýr sig fyrir Idaho: Sýnir í jólagleði Bjarnarins

Skautakonan Katrín Tryggvadóttir sem snemma á næsta ári mun taka þátt í Alþjóða vetrarleikum Special Olympics í Idaho í Bandaríkjunum hefur að undanförnu staðið í ströngu við undirbúning Bandaríkjaferðarinnar. Föstudagskvöldið 12. desember næstkomandi verður Katrín í eldlínunni á svellinu þegar jólagleði Bjarnarins fer fram í Egilshöll.

Katrín mun taka þátt í jólagleðinni þar sem hún tekur þátt í hópatriði og síðar í sýningunni mun hún sýna þá dansæfingu sem hún mun framkvæma á Alþjóða vetrarleikunum í Idaho.

Katrín hefur verið í þjálfun hjá Helgu Olsen og tekið miklum framförum og í samtali við umsjónarmann heimasíðu ÍF í gær kvaðst Katrín mjög spennt fyrir Bandaríkjaferðinni.

Fyrir áhugasama er jólagleði Bjarnarins annað kvöld, föstudaginn 12. desember, frá kl. 19:00-21:00.

Mynd: Katrín er ansi sleip á svellinu!

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 11. desember 2008 12:37
Myndasyrpa o.fl. frá Íþróttafólki ársins

Þau Eyþór Þrastarson og Sonja Sigurðardóttir eru Íþróttafólk ársins 2008 úr röðum fatlaðra en hófið fór fram að Radisson SAS Hótel Sögu miðvikudaginn 10. desember. Við sama tilefni var Hörpu Björnsdóttur formanni Ívars á Ísafirði afhentur Guðrúnarbikarinn. Þétt var setið í Yale salnum við athöfnina og nú má m.a. finna snaggaralegt myndasafn á myndasíðu ÍF eða á þessari slóð: http://album.123.is/?aid=127733

Fjölmiðlar létu sig ekki vanta og má sjá þeirra umfjöllun hér að neðan:

MBL.IS:
http://www.mbl.is/mm/sport/frettir/2008/12/10/eythor_og_sonja_ithrottafolk_arsins/

Vísir.is:
http://visir.is/article/20081211/IDROTTIR/161926745

Sjónvarpsfréttir RÚV:
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4398136/13

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 10. desember 2008 16:00
Íþróttamaður og íþróttakona ÍF 2008

Íþróttasamband Fatlaðra hefur útnefnt þau Eyþór Þrastarson og Sonju Sigurðardóttur Íþróttamann og Íþróttakonu ársins 2008. Hófið hófst kl. 15.00 á Radison Sas Hótel Sögu.

Umsögn um Eyþór Þrastarson.

Umsögn um Sonju Sigurðardóttur.

Þá hlaut Harpa Björnsdóttir formaður Ívars á Ísafirði Guðrúnarbikarinn. Sjá umsögn hér.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 4. desember 2008 10:13
Norræna barna- og unglingamótið í Eskilstuna

Dagana 26. júní - 3. júlí næstkomandi fer Norræna barna- og unglinga mótið fram í Eskilstuna í Svíþjóð. Sem fyrr þá stefnir Íþróttasamband fatlaðra að þátttöku í mótinu og leitar því til hlutaðeigandi aðila eftir tilnefningum í mótið. Aldurshópurinn er 12-17 ára og valdir verða einstaklingar sem æfa með aðildarfélögum ÍF eða öðrum íþróttafélögum. Einnig er óskað eftir tilnefningum um þá einstaklinga með fötlun sem hafa ekki verið að stunda íþróttir en sjá þetta mót sem ákjósanlegan kost til þess að hefja íþróttaiðkun.

Óskað er eftir því að sérstaklega verði kannað hvort hreyfihamlaðir íþróttaiðkendur á aldrinum 12-17 ára eigi kost á því að taka þátt í mótinu.

Ítarlegri upplýsingar verða sendar aðildarfélögum ÍF á næstu dögum

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 3. desember 2008 17:04
Adolf Ingi tilnefndur til Hvatningarverðlauna ÖBÍ

Íþróttafréttamaðurinn Adolf Ingi Erlingsson hefur verið tilnefndur til Hvatningarverðlauna ÖBÍ í flokki einstaklinga. Í dag er alþjóðadagur fatlaðra og mun Öryrkjabandalag Íslands veita verðlaunin í annað sinn.

Adolf Ingi er tilnefndur fyrir að auka umfjöllun um íþróttir fatlaðra en hann og Óskar Nikulásson fóru mikinn í Peking á Ólympíumóti fatlaðra fyrr á þessu ári og þá hefur Adolf fjallað vel um önnur mót og aðrar íþróttir hjá fötluðum.

ÖBÍ veitir þrenn verðlaun, til fyrirtækis, stofnunar og einstaklings, sem þykja hafa skarað fram úr og endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðra í samfélaginu. Verðlaunin verða afhent og kunngjörð í Salnum í Kópavogi í kvöld

Mynd: Adolf Ingi vílaði það ekki fyrir sér að taka Sonju Sigurðardóttur á hestbak á Kínamúrnum á Ólympíumóti fatlaðra í Kína.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 3. desember 2008 09:40
Guðbjörg og Guðrún á fróðlegu námskeiði í Noregi

Helgina 15.-16. nóvember 2008 var haldinn hinn árlegi fundur hjá Norges idrettsforbund og olympiske og paralympiske komitè. Á námskeiðinu voru fulltrúar frá Noregi, Svíþjóð og Íslandi, alls um 50 manns. Fulltrúar Íslands voru endurhæfingarlæknarnir Guðbjörg Ludvigsdóttir og Guðrún Karlsdóttir en þær eru nýjir liðsmenn Læknaráðs ÍF. Helsta markmiðið var að kynna sér þær reglur sem gilda um flokkanir fyrir fatlaða í íþróttum sem keppt er í á ólympíumótinu.

Fyrri daginn var farið yfir IPC flokkunarkóðann (International Paralympic Committee Classification Code and International Standards). Hann inniheldur þær reglur sem fara þarf eftir þegar íþróttafólk með fatlanir er flokkað. Þar eru reglur um hverjir mega flokka og hvernig skuli standa að flokkunum. Einnig eru reglur um áfrýjanir og kærur. Hlutverk alþjóðlegra nefnda (International Paralympic committee, IPC) og landsnefnda (National Paralympics Committee, NPC) voru einnig útlistaðar.

Fyrirlesarinn var Terrie Moore frá Kanada, en hún er ein af þeim sem sömdu þetta regluverk. Eftir hennar inngang var hópnum skipt upp og rætt var nánar um hlutverk NPC og farið yfir lið númer 16.3 sem snýr að hlutverki þess. Þarna sköpuðust góðar og fróðlegar umræður og leiddist talið fljótt út í að reyna að hefja norrænt samstarf til að sinna þessum störfum. Mikill áhugi er fyrir því sérstaklega þar sem bæði fáir sjá um að flokka innan hverrar íþróttar og oft eru fáir iðkendur sem þarf að flokka innan hverrar íþróttargreinar. Til dæmis eru bara 2 í Noregi og Svíþjóð sem sjá um að flokka íþróttamenn í sund í hvoru landi. Í Noregi eru þau ekki að flokka nema 4-6 einstaklinga á ári. Það er því mikill vilji fyrir því að reyna að sameina þessa krafta. Það myndi bæði gera þjónustuna við íþróttamennina betri og skilvirkari og þeir sem að flokka yrðu hæfari í sínu starfi þar sem að þeir yrðu að flokka fleiri á hverju ári.

Seinni daginn var námskeið á vegum CP ISRA (Cerebral Palsy International Sports and Recreation Association) um hvernig á að flokka íþróttafólk í boccia og almennt um flokkanir hjá íþróttafólki sem tilheyra CP ISRA flokknum. Þetta var mjög fróðlegt og í lok dagsins voru 4 íþróttamenn flokkaðir af hópnum.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 2. desember 2008 16:42
Opna Reykjavíkurmótið í frjálsum: Úrslit

60 mhlaup karlar
1. Þórir Gunnarsson-Ármann-8.30 sek
2. Andri Jónsson-Þjótur-8.71
3. Ágúst Þór Guðnason-Gnýr-8.72
4. Baldur Æ Baldursson-Snerpa-8.95

Heildarúrslit mótsins má finna hér!

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 2. desember 2008 10:42
Sjálfboðaliðakort ÍF 2008

Íþróttasamband Fatlaðra og aðildarfélög ÍF gera sér vel grein fyrir gildi þess starfs sem sjálfboðaliðar hafa unnið til framgangs hreyfingarinnar. Allt frá upphafi hefur stór hópur sjálfboðaliða verið tengdur því starfi sem fram fer, hvort sem um er að ræða verkefni á vegum ÍF eða hvers aðildarfélags. Til að gefa þessu starfi aukið gildi lét ÍF hanna sérstök sjálfboðaliðakort ÍF. Þessi kort hafa verið til staðar í nokkur ár en nú hefur ÍF sent út bréf til aðildarfélaga og hvatt sérstaklega til þess að sjálfboðaliðakort ÍF  verði afhent við  ákveðin tækifæri. Þannig er staðfest þakklæti hreyfingarinnar í garð sjálfboðaliða og jafnframt er hlutverk þeirra staðfest formlega.  Einnig munu sjálfboðaliðar sem starfa að verkefnum ÍF fá sjálfboðaliðakort til  staðfestingar á mikilvægi þeirra framlags.

Hlutverk þessa hóps í starfi íþróttahreyfingarinnar hefur ekki verið skilgreint sérstaklega hér á landi. Í starfi Special Olympics International er lögð mikil áhersla á skráningu sjálfboðaliða og hlutverk þeirra.

Staðreyndin er sú að íþróttahreyfingin treystir á sjálfboðaliðastarf. Þrátt fyrir áratuga hefð er mikilvægt að vinna stöðugt að því  skapa hvetjandi umgjörð sem gerir sjálfboðaliðastarf áhugavert.  

Margir eiga í erfiðleikum í dag vegna utanaðkomandi aðstæðna og hafa þörf fyrir að fá hvatningu frá nánasta  umhverfi. Íþróttahreyfingin þarf að bregðast við því eins og önnur samtök. Einnig geta slíkar aðstæður skapað aukna þörf hjá fólki til að sinna verkefnum sem eru hvetjandi og áhugaverð t.d.  innan íþróttahreyfingarinnar. Þannig geta ný tækifæri verið til staðar  á umbreytingartímum.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 1. desember 2008 17:21
Myndasafn: Íslandsmót ÍF í 25m. laug

Nú er komið inn á myndasíðu ÍF veglegt myndasafn frá Íslandsmótinu í 25m. laug sem fram fór í Laugardal dagana 29.-30. nóvember síðastliðinn. Smellið á tengilinn til að komast beint í safnið - http://album.123.is/?aid=126552

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 1. desember 2008 15:11
11 Íslandsmet féllu á Íslandsmóti ÍF í 25m. laug

Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í sundi í 25m. laug fór fram um síðustu helgi í innilauginni í Laugardal. Keppt var laugardaginn 29. nóvember og sunnudaginn 30. nóvember. Á laugardeginum féllu þrjú Íslandsmet en á sunnudeginum voru keppendur í feiknastuði og settu átta ný Íslandsmet og var Pálmi Guðlaugsson frá sunddeild Fjölnis í banastuði um helgina er hann setti fimm Íslandsmet.

Íslandsmet Pálma á mótinu:
50m. frjáls aðferð – 38,39 sek.
100m. frjáls aðferð – 1.25,28 mín.
200m. frjáls aðferð – 3.02,51 mín.
100m. baksund – 1.42,21 mín.
100m. flugsund – 1.41,38 mín.

Önnur Íslandsmet settu eftirtaldir sundmenn:
Björn Daníelsson ÍFR, 50m. frjáls aðferð – 51,27 sek.
Hrafnkell Björnsson ÍFR, 50m. bringusund – 1.12,22 mín.
Marinó I. Adolfsson ÍFR, 50m. bringusund – 1.23,27 mín.
Anna K. Jensdóttir ÍFR, 50m. bringusund – 1.11,91 mín.
Vignir Gunnar Hauksson ÍFR, 100m. bringusund – 2.46,11 mín.
Anna K. Jensdóttir ÍFR, 100m. bringusund – 2.32,63 mín.

Sjá öll úrslit mótsins

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 1. desember 2008 12:56
Myndasafn: Opna Reykjavíkurmótið í frjálsum

Opna Reykjavíkurmótið í frjálsíþróttum fór fram í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal um síðustu helgi en það var Öspin sem var framkvæmdaraðili mótsins. Keppt var á laugardeginum og er hægt að sjá myndasafn frá keppninni á myndasíðu ÍF, www.123.is/if eða með því að smella á þennan tengil: http://album.123.is/?aid=126514

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 29. nóvember 2008 15:17
Líf og fjör í Laugardal

Nóg er um að vera í Laugardal þessa stundina en laust eftir hádegi lauk Opna Reykjavíkurmótinu í frjálsum þar sem glæst tilþrif litu dagsins ljós. Mótið var haldið á vegum Asparinnar í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal og á meðfylgjandi mynd má glögglega sjá að keppnin var allsvakaleg í langstökkinu. Nánari úrslit frá mótinu koma síðar ásamt fleiri myndum.

Núna er að hefjast á slaginu 15:00 Íslandsmót ÍF í 25 m. laug í innilauginni í Laugardal og hafa keppendur þegar tekið við að hita upp og er von á skemmtilegri keppni.

Nánar frá mótunum síðar...

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 28. nóvember 2008 12:41
Sportið mitt nýr sjónvarpsþáttur á ÍNN í kvöld

Núna í kvöld kl 21:00 hefst sportþátturinn SPORTIÐ MITT sem verður um allar íþróttir. Þátturinn verður í umsjón Sverris Júll og Sigurðar Inga Vilhjálmssonar. Í hverjum þætti verður tekin fyrir ein íþróttagrein en í fyrsta þættinum  sem verður á Föstudaginn mun  Kristján Jónsson frá Þjálfun.is líta til okkar  og verður svo farið yfir það sem framundan er í þáttunum í vetur og líka hvað er að gerast í sportinu um næstu helgi, einnig munum við bjóða áhorfendum upp á frábært myndband frá Indlandi sem við hvetjum ykkur til að sjá.

Þátturinn verður jákvæður og skemmtilegur og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Stjórnendur þáttarins hafa mis mikla reynslu á fjölmiðlun en Sverrir hefur unnið við fjölmiðla síðan 1991 en Sigurður Ingi byrjaði fyrir þremur árum að fikta við það en hann kemur nálægt sportinu á annan hátt en hann er leikmaður 3 deildar liðsins KFS. Þannig að sportið hefur lengi verið nálægt þeim félögum í góðan tíma enda unnið saman í sportinu í 3 ár . Þátturinn verður sýndur á sjónvarpstöðinni ÍNN og er hægt að ná henni á fjölvarpinu og á sjónvarpi Símans.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 27. nóvember 2008 16:07
Fjármálaráðstefna ÍSÍ

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir fjármálaráðstefnu föstudaginn 28. nóvember nk. kl. 13-16 í Laugardalshöll. Ráðstefnustjóri verður Stefán Konráðsson framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár.

Dagskrá verður eftirfarandi:

13:00 Setning – Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ
13:10 Ávarp Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra
13:20 Rekstur íþróttahreyfingarinnar – Gunnar Bragason, formaður Fjármálaráðs ÍSÍ
13:35 Niðurstöður vinnuhóps um áhrif efnahagsástandsins á íþróttahreyfinguna - Lárus Blöndal varaforseti ÍSÍ og formaður vinnuhópsins
13:50 Réttur allra til íþróttaiðkunar – sveitarfélög – Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar
14:05 Sjónarmið sérsambanda – Hörður Þorsteinsson framkvæmdastj. GSÍ
14:20 Sjónarmið íþróttafélaga - Guðjón Guðmundsson formaður KR
14:50 Íþróttir og atvinnulífið
15:00 Ný tækifæri - umræður - Stefán Konráðsson ráðstefnustjóri
15:45 Samantekt – Stefán Konráðsson ráðstefnustjóri 15:55 Ráðstefnuslit – Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ

Ráðstefnan er öllum opin.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 26. nóvember 2008 15:10
Aðalfundur INAS-FID Evrópu: Þórður varaformaður

Dagana 22. - 23. nóvember sl fór fram í Gävle í Svíþjóð aðalfundur Evrópudeildar INAS-Fid (Alþjóðahreyfingar þroskaheftra íþróttamanna). Fulltrúar Íslands á fundinum voru þeir Þórður Árni Hjaltested, ritari stjórnar ÍF og stjórnarmaður Evrópudeildar INAS-Fid og Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri fjármala og afrekssviðs ÍF. Samhliða fundinum var haldin ráðstefna, þar sem meðal efnis var möguleg þátttaka þroskaheftra íþróttamanna í London 2012, flokkunarmál og viðhorf INAS-Fid til IPC (Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra) og nánari samvinna þessara samtaka í millum. Einnig voru veittar upplýsingar um Global Games - Heimsleika þroskaheftra íþróttamanna sem haldnir verða í Tékklandi í júlímánuði 2009.

Auk venjulegra aðalfundastarfa var fjallað um stöðu og stefnu samtakanna vegna aðalfundar INAS-Fid sem fram fer í aprílmánuði 2009. Þá var kosið til ýmissa embætta innan samtakanna þar sem Þórður Árni var m.a. kosinn nýr varaformaður þeirra. Athygli er vakin á nýrri heimasíðu samtakanna www.inas-fid-europe.com

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 25. nóvember 2008 17:31
Kristín Rós gefur út bók: ÍF fékk fyrsta eintakið

Sunddrottningin Kristín Rós Hákonardóttir gaf nýverið út sína fyrstu bók og í dag kom hún færandi hendi og afhenti Íþróttasambandi fatlaðra fyrsta eintakið beint úr prentsmiðju. Bókin heitir: Kristín Rós Meistari í nærmynd. Það var Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs ÍF sem tók við fyrsta eintakinu úr höndum Kristínar. Uppheimar gefa bókina út.

Bókin er öll hin glæsilegasta skreytt skemmtilegum og áhrifaríkum myndum af ferli Kristínar sem er vægast sagt glæsilegur í alla staði. Kristín Rós Hákonardóttir var einhver fremsti íþróttamaður þjóðarinnar um árabil og hóf að æfa sund með ÍFR árið 1982. Ferillinn spannar 22 ár en að honum loknum hafði Kristín keppt á fimm heimsmeistaramótum, fimm ólympíumótum og sett samtals 66 heimsmet og 9 ólympíumet.

Ludvig Guðmundsson formaður Læknaráðs ÍF er mikill hagyrðingur og í bók Kristínar er að finna texta Ludvigs við lagið Blátt lítið blóm eitt er. Við látum texta Ludvigs um að botna grein þessa og hvetjum alla til þess að gera sér ferð í næstu bóksölubúð og kynna sér allt um Kristínu Rós Hákonardóttur.

Kærasta Kristín Rós
kveikt hefur frægðarljós
Íslands um alla jörð
og elft vora þjóð.
Í Sydney þú syntir mest
og sýndir að þú ert best
við dáum og dýrkum þig
drottning vor góð.

(Texti: Ludvig Guðmundsson)

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 25. nóvember 2008 15:31
Amanda Boxtel - ótrúleg baráttukona -

Árið 2001 kom Amanda Boxtel til Íslands ásamt skíðakennurum frá Challenge Aspen en ÍF og VMÍ hófu samstarf við Challenge Aspen í þeim tilgangi að efla vetraríþróttir fatlaðra á Íslandi.

Amanda lamaðist í skíðaslysi og hefur verið í hjólastól síðan þá. Eftir slysið hélt hún áfram að stunda skíði og stofnaði Challenge Aspen, fyrirtæki sem sérhæfir sig í útivist og vetraríþróttum fyrir fatlaða.

Amanda er með gífurlegan baráttuvilja og ætlar sér að standa upp aftur. Hún hefur sótt sérhæfða meðferð til Indlands en margir hafa efast um þessa baráttu hennar og haft áhyggjur af óraunhæfum væntingum.

"Human Embryonic Stem Cell Therapy has restored life into my limbs and HOPE back into my vocabulary. While my spinal cord injury took away my ability to walk, it didn't take away my ability to dream. I am making my dream my reality one baby step at a time."

Amanda heldur úti upplýsingasíðu á netinu og margt fólk fylgist með baráttu hennar auk fjölmiðla.
Website: www.AmandaBoxtel.com Blog: www.amandaboxtel.wordpress.com

Á myndbandinu sem Amanda sendir er hún komin út á götu í Delhi í Indlandi, í göngugrind!!!

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 21. nóvember 2008 13:42
Alþjóðavetrarleikar Special Olympics Idaho 2009

Íþróttasamband Fatlaðra sem er umsjónaraðili Special Olympics á Íslandi sendir 1 keppanda á alþjóðaleika Special Olympics sem haldnir verða Boise, Idaho, USA dagana 7. – 13. febrúar 2009.
Fyrstu íslensku keppendurnir í listhlaupi á skautum á leikum Special Olympics voru Stefán Erlendsson og Sandra Ólafsdóttir en þau tóku þátt á alþjóðaleikum SO í Nagano árið 2005. Á þeim tíma var trú manna misjöfn á að listhlaup á skautum væri grein sem hentaði fyrir fatlaða en þau sýndu og sönnuðu að allt er hægt sé viljinn fyrir hendi, góður þjálfari og markviss þjálfun. Árangur þeirra var ekki síst að þakka Helgu Olsen þjálfara hjá Birninum en hún kynntist starfi með fötluðum í tengslum við verkefnið í Nagano.
Katrín Tryggvadóttir hóf æfingar með listhlaupadeild Skautafélagsins Bjarnarins í kjölfar leikanna í Nagano og Helga Olsen hefur verið þjálfari hennar. Katrín hefur verið valin til keppni í listhlaupi á skautum á alþjóðaleikum Special Olympics sem fram fara í febrúar 2009. Hún mun fara til Idaho ásamt þjálfara sínum, Helgu Olsen og Lilju Guðmundsdóttur, greinastjóra Special Olympics í vetraríþróttum. Hlutverk Lilju auk fararstjórnar verður m.a. að afla upplýsinga og vera ráðgjafi varðandi fyrirkomulag keppnisgreina Special Olympics á sviði vetraríþrótta.

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 21. nóvember 2008 10:51
Ráðstefna Special Olympics á Kýpur
Guðlaugur Gunnarsson sótti ráðstefnuna á dögunum [frétt af ksi.is]

Á dögunum var haldin ráðstefna á vegum Special Olympics á Kýpur en ráðstefnan var haldin í tengslum við Smáþjóðaleika Special Olypics í knattspyrnu. Guðlaugur Gunnarsson, starfsmaður KSÍ, sótti ráðstefnuna fyrir hönd Íþróttasambands Fatlaðra.

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 20. nóvember 2008 13:24
Evrópuráðsfundur EEAC og Evrópuráðstefna Special Olympics 2008

Evrópuráðsfundur EEAC Búkarest Rúmeníu, 12. –13. nóvember 2008

Dagana 12. – 14. nóvember var haldinn í Búkarest fundur Evrópuráðs Special Olympics (EEAC). Fundurinn var haldin í tengslum við Evrópuráðstefnu SOE.

Nánar

Mynd: Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, Íslandi, Galina Dzyurych Belarus og Boguslaw Galazka, Póllandi fengu afhenta viðurkenningu fyrir störf sín hjá EEAC en þau höfðu öll lokið átta ára tímabili í ráðinu sem er hámarkstími kjörins fulltrúa.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 20. nóvember 2008 12:37
Kynningarfundur um nýjar lyfjareglur

Nýverið var haldinn kynningarfundur á vegum Lyfjaráðs og Lyfjaeftirlitsnefndar ÍSÍ. Til fundarins voru boðuð sérsambönd og sérgreinanefndir. Aðal umfjöllunarefnið var nýjar alþjóða lyfjareglur sem taka gildi nú um áramót og hvaða áhrif þær hafa á lyfjaeftirlitið.

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 20. nóvember 2008 11:59
Afreksráðstefna ÍF

Þann 8. nóvember sl. stóð Ólympíu- og afreksráð Íþróttasambands fatlaðra fyrir ráðstefnu um stefnumörkun afreksíþrótta fatlaðra og afreksstefnu ÍF 2008 – 2012.
Um afreksstefnu ÍF segir að hún sé stefnumótandi ákvörðun æðstu forystu Íþróttasambands fatlaðra og er líkt og annarra sérsambanda innan ÍSÍ, unnin að ósk Íþrótta- og Ólympíusambandsins. Markmið afreksstefnu ÍF er m.a. að Íþróttasamband fatlaðra hafi ávallt á að skipa einstaklingum eða liðum, sem standast kröfur til keppni á alþjóðlegum mótum í sínum íþróttagreinum.

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 14. nóvember 2008 14:51
Opna Reykjavíkurmótið í frjálsum íþróttum

Opna Reykjavikurmótið i frjálsum íþróttum verður haldið í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal laugardaginn 29. nóvember n.k. en framkvæmdaaðili mótsins er íþróttafélagið Ösp. Upphitun hefst kl. 9:00 og keppni stundvíslega kl. 10:00.

Greinar sem í boði verða eru: 60m hlaup, 200m hlaup, langstök m. atrennu og kúluvarp

Skráningarblöð verða send aðildarfélögum ÍF á næstunni en nánari upplýsingar um mótið veitir Haukur Gunnarsson á Haukur.gunnarsson@tollur.is

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 12. nóvember 2008 17:11
Íslandsmót ÍF í sundi

Íslandsmót ÍF í sundi í 25 m braut fer fram í Sundlaug Laugardals 29. og 30. nóvember nk. 

Sjá nánar dagskrá og greinar mótsins

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 12. nóvember 2008 17:00
Opin æfing í borðtennis hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík

Laugardaginn 15. nóvember kl. 13.50 - 15.30
Íþróttahúsi ÍFR, Hátúni 12

Hvatning til einstaklinga og aðstandenda að nýta þetta tækifæri


Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík (ÍFR) hefur ákveðið að bjóða upp á opna æfingu í borðtennis fyrir þá sem vilja koma og kynna sér þessa skemmtilegu íþrótt. Kristján Jónasson, þjálfari mun leiðbeina en honum til aðstoðar verður Tómas Björnsson, borðtennisspilari. Hann er með CP fötlun en lætur það á engan hátt hindra sig, steig skrefið og mætti á æfingar og var fljótlega orðin einn af efnilegustu borðtennisspilurum ÍF. Hann hefur keppt á alþjóðamótum og stefnir langt í íþróttinni.
Á myndinni eru borðtenniskapparnir Tómas t.h. og Jón Þorgeir, báði í ÍFR á Íslandsmóti ÍF 2008

Óskað er eftir því að þetta tilboð verði vel kynnt en æfingin er opin öllum fötluðum, þó markhópur nú séu hreyfihömluð börn og unglingar. Allir aldurshópar eru velkomnir og einnig fólk með aðrar fatlanir.
Nánari upplýsingar gefur Kristján Jónasson, þjálfari Sími 862 91 55 Heimasíða ÍFR www.ifr.is

Þeir sem ekki treysta sér til að prófa að spila geta komið og skoðað aðstæður, horft á og prófað síðar.
Fyrsta skrefið er erfiðast en það getur verið þess virði að stíga það!

Vinnum saman að því að rjúfa félagslega einangrun

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 10. nóvember 2008 11:54
Samstarf við Sérsambönd ÍSÍ

Íþróttasamband Fatlaðra hefur það að markmiði að auka enn frekar samstarf við Sérsambönd ÍSÍ.
Ýmis samstarfsverkefni verið þróuð með góðum árangri en sum verkefni hafa ekki skilað þeim árangri sem stefnt var að og nýjar greinar ekki náð að festast í sessi.
Með nýrri stefnu um skóla án aðgreiningu og áherslu á að fötluð börn séu með sínum jafnöldrum er mikilvægt að komið sé til móts við þennan hóp hjá almennum íþróttafélögum. Mikilvægt er að skapa valkosti og gefa fötluðum börnum tækifæri á að velja greinar sem ekki eru í boði hjá aðildarfélögum ÍF:

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 7. nóvember 2008 14:56
Dagskrá afreksráðstefnu ÍF 2008

Afreksráðstefna ÍF

Ólympíu- og afreksráð Íþróttasambands fatlaðra stendur fyrir ráðstefnu um stefnumörkun afreksíþrótta fatlaðra og afreksstefnu ÍF 2008 – 2012.

Til afreksráðstefnunnar er boðið formönnum aðildarfélaga ÍF, þjálfurum, landsliðsþjálfurum ÍF, fulltrúum íþróttanefnda og stjórnarfólki ÍF. Umsjón með ráðstefnunni og aðalfyrirlesarar eru Kári Jónsson, landsliðsþjálfari ÍF í frjálsum íþróttum og Ingi Þór Einarsson, formaður sundnefndar ÍF.

Án efa verða líflegar umræður um stefnumörkun afreksíþrótta fatlaðra og leiðir til að fatlað íslenskt íþróttafólk verði áfram í fremstu röð fatlaðra afreksmanna í heiminum.

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 7. nóvember 2008 12:11
Jólakort IF 2008

Jólakort ÍF er hannað af Camillu Th. Hallgrímsson, varaformanni ÍF.

Íþróttasamband Fatlaðra gefur aðildarfélögum sínum 1000 jólakort og þau félög sem þess óska fá kort á kostnaðarverði.  Sala jólakorta ÍF er ein aðalfjáröflun félaganna.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 1. nóvember 2008 15:16
Íslandsmótið í boccia hjá RÚV

RÚV lét sig ekki vanta í Laugardalshöll um síðustu helgi þegar Íslandsmótið í einliðaleik í boccia fór fram. Rúmlega 200 keppendur tóku þátt á mótinu sem tókst vel til í alla staði enda þaulvant fólk á ferðinni hjá Ösp sem var mótshaldari að þessu sinni.
 
Í meðfylgjandi hlekk má sjá svipmyndir og viðtöl hjá RÚV sem tók hús á mótinu: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4398091/20

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 27. október 2008 15:12
Íslandsmótið í boccia í einliðaleik í Laugardalshöll

Rúmlega 200 manns frá 15 aðildarfélögum ÍF tóku þátt í Íslandsmótinu í einliðaleik í boccia sem fram fór í Laugardalshöll. Sú hefð hefur skapast að aðildarfélög ÍF eru framkvæmdaraðilar þessa Íslandsmóts en tilgangur þess er m.a. að kynna starfsemi þeirra félaga sem standa að mótinu.
Íþróttafélagið Ösp var framkvæmdaraðili að þessu sinni í samvinnu við Íþróttasamband fatlaðra.
Nemendur frá Fjölbrautskólanum í Breiðholti aðstoðuðu við dómgæslu og fjölmargir aðstoðuðu íþróttafélagið Ösp við framkvæmd mótsins. Lokahóf var haldið í Fjörukránni í Hafnarfirði þar sem mikil stemming ríkti í gærkvöldi. Skipulag og framkvæmd mótsins var íþróttafélaginu Ösp til mikils sóma og Íþróttasamband Fatlaðra óskar félaginu til hamingju með glæsilegt Íslandsmót.

Úrslit mótsins , myndir á www.123.is/if

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 23. október 2008 10:52
Sonja fékk fyrsta eintakið beint úr prentsmiðju

Sundkonan Sonja Sigurðardóttir, ÍFR, fékk óvæntan glaðning á dögunum þegar rithöfundurinn Jónína Leósdóttir kom færandi hendi og gaf henni fyrsta eintakið af nýjustu skáldsögunni sinni: „Svart & hvítt.“

Óhætt er að segja að Jónína sé eftirtektarsöm en hún komst yfir síðasta eintak af Hvata, tímarit Íþróttasambands fatlaðra, og þar sá Jónína kynningu á Ólympíumótsförum Íslands. Nokkrar laufléttar spurningar voru lagðar fyrir íslensku keppendurna í Hvata þar sem kom í ljós að uppáhaldsbók Sonju var „Kossar og ólífur.“ Bókin er eftir Jónínu og nýjasta bókin Svart & hvítt er sjálfstætt framhald fyrri bókarinnar.

Sonja var að vonum ánægð með framtak Jónínu en Svart & hvítt er væntanleg í verslanir um land allt miðvikudaginn 29. október næstkomandi. Svart & hvítt er sjálfstætt framhald unglingabókarinnar Kossar og ólífur sem hlaut góðar viðtökur gagnrýnenda og lesenda. Fyrri bókin kom út á svipuðum tíma í fyrra en Forlagið gaf út báðar bækurnar.

Sonja fékk bókina afhenta föstudaginn 10. október síðastliðinn en Svart & hvítt er ekki væntanleg í verslanir fyrr en næsta miðvikudag.

Mynd: Jónína afhendir Sonju fyrsta eintakið af bókinni í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 22. október 2008 12:29
EM fatlaðra á Spáni: Mikil upplifun

Golfsamtök fatlaðra, GSFÍ, sendu tvo keppendur á EM fatlaðra í golfi sem fram fór á Panoramica vellinum í San Jorge í Katalóníu á Spáni í síðustu viku. Fulltrúar Íslands í mótinu voru þeir Hörður Barðdal og Rudolf Gunnlaugur Fleckenstein. Rudolf var að fara í fyrsta sinn, en hann byrjaði að stunda golf fyrir aðeins þremur árum. Hörður, sem byrjaði að stunda golf fyrir 40 árum, var að taka þátt í EM í áttunda sinn. Á Evrópumótinu er skipt niður í flokka eftir forgjöf, ekki flokkaskipt eftir fötlun. Leikið er í einu og öllu eftir reglum R&A með sérstökum viðauka frá þeirra hendi.

Skemmtilega grein um för þeirra Harðar og Rudolfs má lesa inn á golffréttasíðunni Kylfingur.is:

http://kylfingur.vf.is/Frettir/default.aspx?path=/resources/Controls/8.ascx&C=ConnectionString&Q=FyrstaFrett&Groups=26&ID=10251&Prefix=147

Mynd: Rudolf hitti fyrir á Spáni heimsfræga kylfinginn Sergio Garcia.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 21. október 2008 10:41
Þjálfararáðstefna ÍF 2008

Þjálfararáðstefna Íþróttasambands fatlaðra fer fram laugardaginn 8. nóvember næstkomandi í Íþróttamiðstöðinni Laugardal frá kl. 10:00-17:00. Fundurinn fer fram í fundarsölum ÍSÍ á 3. hæð. Yfirskrift ráðstefnunnar er: "Afreksmennska-Samfélag sigurvegara."

Skráningarfrestur á ráðstefnuna er til laugardagsins 1. nóvember. Umsjón með dagskrá hafa þeir Kári Jónsson, landsliðsþjálfari ÍF í frjálsum íþróttum, og Ingi Þór Einarsson formaður sundnefndar ÍF.

Vinsamlega kynnið fyrirhugaða ráðstefnu fyrir þjálfurum aðildarfélaganna. Vonast er til þess að þjálfarar frá hverju félagi sæki ráðstefnuna en einnig er mjög æskilegt að formenn eða fulltrúar stjórna aðildarfélaga sjái sér fært að vera viðstaddir ráðstefnuna. Málefni sem þar verður tekið fyrir varðar afreksfólk framtíðarinnar sem sjálfsagt má finna í hverju félagi!

Mynd: Ingi Þór Einarsson formaður sundnefndar ÍF og einn landsliðsþjálfara ÍF í sundi að störfum á Ólympíumóti fatlaðra í Peking 2008.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 20. október 2008 17:08
Myndasafn: Hörður sterkastur- jafnt í sitjandi flokki

,,Spennan hefur aldrei verið jafn mikil í báðum flokkum og þetta er skemmtilegasta, stærsta og flottasta mótið sem við höfum haldið," sagði Arnar Már Jónsson mótshaldari og hvatamaður að keppninni Sterkasti fatlaði maður heims. Mótið sjálft fór fram um helgina þar sem Hörður Árnason varð meistari í standandi flokki og erlendu gestirnir Ulf Erikson og Tafo Jettajorvi deildu með sér efsta sætinu í sitjandi flokki.

,,Þetta réðst ekki fyrr en í síðustu greinunum. Við þurftum að kalla út Ísspor til þess að bæta við bikar í sitjandi flokki og þetta gefur bara góð fyrirheit fyrir keppnina á næsta ári," sagði Arnar Már sæll með árangur helgarinnar. Arnar Már er lyftingaþjálfari hjá ÍFR og landsliðsþjálfari í lyftingum á vegum ÍF.

Keppt var víðsvegar um Reykjavík frá föstudegi til laugardags þar sem kraftajötnarnir sýndu allar sínar bestu hliðar. Við minnum á að inni á myndasíðu ÍF er komið myndasafn frá föstudeginum á mótinu þar sem keppendur reyndu fyrir sér í Smáralind í hrikalegum aflraunum.

Myndasafnið má nálgast hér: http://album.123.is/?aid=121307
Mynd: Egill í hrikalegum átökum í Smáralind á föstudag

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 20. október 2008 15:51
Íslandsmótið í boccia í einliðaleik í Laugardalshöll um helgina

Rúmlega 200 manns frá 15 aðildarfélögum ÍF munu taka þátt á Íslandsmótinu í einliðaleik í boccia um helgina en mótið fer fram í Laugardalshöll. Keppni hefst laugardagsmorguninn 25. október kl. 09:00 og lýkur seinni part sunnudagsins 26. október. Í ár er það Íþróttafélagið Ösp sem er framkvæmdaraðili mótsins í samvinnu við Íþróttasamband fatlaðra.

Lokahóf Íslandsmótsins fer svo fram á sunnudagskvöldið í Fjörukránni í Hafnarfirði að víkingastíl þar sem Friðrik Alexandersson verður veislustjóri. Lionsklúbburinn Víðarr gefur öll verðlaun á mótið að þessu sinni og þá munu nemendur við Fjölbrautaskólann í Breiðholti aðstoða við dómgæslu á mótinu.

Dagskrá mótsins

Laugardagur 25. oktober 2008:
9:00 - 9:30 Fararstjórafundur
9:30 - 9:50 Mótsetning
10:00 - 11:40 7. Deild undanúrslit
11:50 - 13:30 6. Deild undanúrslit
13:40 - 15:20 5. Deild undanúrslit
15:30 - 17:10 4. Deild undanúrslit
17:20 - 19:00 3. Deild undanúrslit
19:10 - 20:50 2. Deild undanúrslit

10:00 - 11:40 U flokkur úrslit
11:50 - 13:30 BC1 - 4 úrslit
13:40 - 17:10 Rennuflokkur úrslit

Sunnudagur 26. oktober 2008:
10:00 - 11:50 1. Deild undanúrslit
12:00 - 14:00 4. til 6. Deild úrslit
14:00 - 16:00 1. til 3. Deild úrslit

Mynd: Frá Íslandsmótinu í boccia á Akureyri 2007.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 20. október 2008 11:50
Lokauppgjör Reykjavíkurmaraþons Glitnis

Á dögunum greindi Íþróttasamband fatlaðra frá því að starfsmenn Össurar hefðu hlaupið til handa ÍF í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis þann 23. ágúst síðastliðinn. Nú hafa öll kurl komið til grafar frá maraþoninu og voru fleiri sem hétu á ÍF í hlaupinu.

Starfsmenn Glitnis, viðskiptavinir og aðrir þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoninu hlupu til góðs og söfnuðu áheitum að upphæð 114.550 kr. fyrir ÍF. Alls voru 10.719 sem hlupu um borgina í ágúst og vill ÍF koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra sem styrktu góð málfeni í hlaupinu sem og til þeirra sem hlupu fyrir hönd ÍF.

Starfsmenn Össurar söfnuðu alls 315.000 kr. fyrir ÍF og aukalega bættust við 114.550 kr. þar sem aðrir hlauparar styrktu ÍF. Samtals komu því 429.550 kr. í hlut ÍF þetta árið.

Kærar þakkir fyrir okkur! Ykkar framlag er ómetanlegt.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 16. október 2008 15:37
Opnun umsóknarsvæðis Ferðasjóðs íþróttafélaga

Íþróttasamband fatlaðra vill vekja athygli á því að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, ÍSÍ, hefur opnað umsóknarsvæði á heimasíðunni sinni www.isisport.is fyrir Ferðasjóð íþróttafélaga. Á umsóknarsvæðinu er hægt að sækja um styrk vegna ferða á fyrirfram skilgreind mót á árinu 2008.

Fyrir þá sem til þekkja er fyrirkomulag umsókna svipað og í fyrra en á umsóknarsíðunni sjálfri eru ítarlegri útskýringar um hvernig bera eigi sig að við umsókina. Umsóknarsvæðið má nálgast á þessari slóð: http://ns4.olympic.is/ferdastyrkir/ 

Hvert félag eða deild á ekki að þurfa að stofna nema eina umsókn þar sem hægt er að setja eins margar ferðir og þurfa þykir inn á einu og sömu umsóknina.

Umsóknarfrestur fyrir árið 2008 rennur út 12. janúar 2009 en að þessu sinni eru 60 milljónir til úthlutunar í sjóðnum. Afar brýnt er að íþróttahreyfingin nýti sér þennan styrkmöguleika svo íþróttaforystan og ríkisvaldið fái góða yfirsýn yfir þennan stóra kostnaðarlið í rekstri íþróttafélaga.

Héraðssambönd og íþróttabandalög eru hvött til að fylgja þessu máli vel eftir í héraði til að tryggja að íþróttahreyfingin á viðkomandi svæði verði ekki af styrkmöguleikum.

Frétt um málið á heimasíðu ÍSÍ:
http://www.olympic.is/?nwr_from_page=true&nwr_more=1660&ib_page=121&iw_language=is_IS

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 15. október 2008 12:25
Mannauður sem ekki verður metinn til fjár

Læknaráð ÍF hefur vakið athygli samstarfsaðila á Norðurlöndum en mjög erfitt hefur
reynst að fá lækna til starfa hjá samstarfsaðilum ÍF án þess að til komi mikill launakostnaður. Í læknaráði ÍF hafa starfað sérfræðingar sem lagt hafa sig fram um að sinna hverju því verkefni sem upp kemur og allt starf fer fram í sjálfboðavinnu. Helsta hlutverk fulltrúa læknaráðs ÍF hefur verið að sjá um flokkun iðkenda, vera til taks á Íslandsmótum ÍF og vera til staðar á stórmótum erlendis. Einnig að veita ráðgjöf og stuðla að aukinni umræðu um gildi þjálfunar og íþróttastarfs fyrir fatlað fólk.

Gísli Einarsson, yfirlæknir á Landspítala og Magnús B. Einarsson, fyrrv. læknir á Reykjalundi störfuðu með ráðinu til fjölda ára en hafa nú dregið sig út úr því starfi. Þeir hafa skilað gífurlega mikilvægu starfi og eru áfram liðsmenn ÍF sem hægt er að leita til þegar þörf er á.

Ludvig Guðmundsson, formaður læknaráðs ÍF hefur verið fulltrúi læknaráðs ÍF í fjölmörg ár og er ötull að afla nýrra liðsmanna. Hann hefur lagt áherslu á að í læknaráði ÍF séu ekki aðeins læknar, heldur einnig sjúkraþjálfari, sálfræðingur og hjúkrunarfræðingur. Á fundi læknaráðs ÍF þann 13. september var staðfest að í ráðinu eru nú læknar, sálfræðingur, hjúkrunarfræðingur og sjúkraþjálfari.

Læknaráð ÍF október 2008
Gerður A Árnadóttir, Læknir, Heilsugæslunni Garðabæ og formaður Þroskahjálpar
Ólöf H Bjarnadóttir, Læknir Reykjalundi
Guðrún Karlsdóttir, Læknir Grensás
Áslaug Sigurjónsdóttir, Hjúkrunarfræðingur, Grensás
Guðbjörg Kristín Ludvigsdóttir, Læknir í London
Ludvig Guðmundsson, Læknir Reykjalundi
Tryggvi Sigurðsson, sálfræðingur Greiningar og ráðgafarstöð ríkisins
Sveinbjörn Sigurðsson, sjúkraþjálfari í Hafnarfirði.

Íþróttasamband Fatlaðra hefur byggt starfsemi sína á sjálfboðaliðastarfi fjölda fólks sem gefið hefur kost á sér í hinar ýmsu nefndir og ráð sambandsins. Sérgreinanefndir starfa að uppbyggingu einstakra íþróttagreina og ýmis sérráð og nefndir starfa að afmörkuðum verkefnum. Þeir sem kynna sér starfsemi ÍF gera sér fljótlega grein fyrir því að sú umfangsmikla starfsemi og fjölbreyttu verkefni sem í gangi eru kalla á sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum. Skrifstofa ÍF þar sem starfa þrír starfsmenn heldur utan um heildarstarfsemi ÍF og Special Olympics. Stjórn og starfsmenn ÍF hafa reynt að stuðla að jákvæðu umhverfi og umgjörð fyrir þá sem vilja leggja starfinu lið og traust samskipti eru ráðandi.

Það er öllum ljóst að í nútímasamfélagi getur reynst erfitt að fá sjálfboðaliða til starfa. Framlag sjálfboðaliða í starfsemi ÍF er forsenda öflugs starfs og þar er mannauður til staðar sem ekki verður metinn til fjár. Á tímum samdráttar og erfiðleika í efnahagslífinu sem snertir íþróttahreyfinguna fjárhagslega ekki síður en önnur félagasamtök er mikilvægt að meta að verðleikum aðra þá þætti sem starfið byggist á.

Mynd: Ludvig Guðmundsson læknir að störfum á Ólympíumótinu í Peking.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 13. október 2008 13:36
Met slegið í lyfjaprófunum í Peking

Ólympíumót fatlaðra fór fram í Peking í Kína dagana 6.-17. september á þessu ári og
hefur Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) gefið það út að metfjöldi lyfjaprófana
hafi farið fram á mótinu. Aðeins þrír einstaklingar stóðust ekki lyfjapróf en allir
voru þeir lyftingamenn og féllu á prófunum áður en keppni á mótinu hófst.

Alls voru gerð 1155 lyfjapróf á Ólympíumóti fatlaðra og 317 þeirra voru gerð utan
keppnisdagskrár. Alls 838 lyfjapróf voru gerð á meðan keppni stóð. Til samanburðar
voru gerð 680 lyfjapróf á Ólympíumóti fatlaðra í Aþenu 2004 og telur IPC að miklum
árangri hafi verið náð í Peking í baráttunni gegn lyfjamisnotkun í íþróttum.

Sir Philip Craven formaður IPC sagði á heimasíðu IPC: "Þó IPC hafi ekki náð sínu
marki með að halda Ólympíumót án lyfjamisnotkunar íþrótamanna viljum við koma á
framfæri að leikarnir í Peking voru glæst skref fyrir IPC í átt að því að verða
samband sem sækir til þaula það að fylgja sínum markmiðum um jafnan leik. Við þökkum
öllum okkar félögum og samstarfsmönnum fyrir þeirra mikla framlag."

Tveir íslenskir keppendur voru lyfjaprófaðir í Peking en það voru lyftingamaðurinn
Þorsteinn Magnús Sölvason frá ÍFR og Eyþór Þrastarson, ÍFR, og stóðust þeir prófið með miklum glæsibrag. Þá voru allir íslensku keppendurnir lyfjaprófaðir á Íslandi áður en haldið var út og stóðust allir fimm keppendurnir þau próf.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 10. október 2008 15:23
Tveir Íslendingar á EM fatlaðra

Golfsamtök fatlaðra, GSFÍ, ákváðu nú í haust að senda tvo keppanda á EM fatlaðra í golfi sem fram fer á Spáni í nætu viku. Fulltrúar Íslands í mótinu verða Hörður Barðdal og Rudolf Gunnlaugur Fleckenstein. Þeir halda til Spánar á sunnudag og verður spilað á Panoramica vellinum í San Jorge í Katalóníu. Hörður, sem er með 15 í forgjöf, er að taka þátt í Evrópumóti í áttunda sinn, en Rudolf er að fara í fyrsta sinn, en hann byrjaði að stunda golf fyrir þremur árum.

Hörður, sem byrjaði að stunda golf fyrir 40 árum, sagði í samtali við Kylfing.is að nú væri verið að brjóta blað í sögu Golfsamtaka fatlaðra því þetta er í fyrsta skipti sem keppandi sem að frumkvæði GSFÍ hóf að iðka golf er sendur á EM.

Hægt er að lesa greinina í heild sinni á Kylfingur.is með því að smella á tengilinn hér að neðan:
http://kylfingur.vf.is/Frettir/default.aspx?path=/resources/Controls/8.ascx&C=ConnectionString&Q=FyrstaFrett&Groups=26&ID=10182&Prefix=147

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 10. október 2008 14:58
Óskað eftir dómurum í sjálfboðastörf á Íslandsmóti

Íþróttafélagið Ösp verður framkvæmdaraðili fyrir Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í einliða leik í Boccia dagana 25. og 26. október næstkomandi. Keppt verður í Laugardalshöll en um 200 keppendur víðsvegar að af landinu taka þátt í mótinu og keppt verður á 15 völlum þar sem tveir starfsmenn eru á hverjum velli.

Til að mótið megi lukkast sem best þarf á mörgum sjálfboðaliðum að halda og þá sérstaklega í dómgæslu. Óskað er eftir því að sem flestir taki höndum saman og bjóði sig fram til starfans, bæði reyndir jafnt sem óreyndir.

Margir hafa þekkingu á dómgæslu og ritarastörfum á viðlíka mótum en þeir sem hafa áhuga á að læra út á hvað þessi leikur gengur geta boðið sig fram og sótt námskeið í bocciadómgæslu og öðrum störfum. Námskeiðið verður haldið nokkrum dögum fyrir mót.

Allar upplýsingar veitir Ólafur formaður Aspar í síma 899 8164 eða á netfanginu olliks@simnet.is

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 6. október 2008 15:51
Flottar tímabætingar á Fjarðarmótinu

Fjarðarmótið í sundi fór fram sunnudaginn 5. október síðastliðinn í nýrri og glæsilegri innilaug í Hafnarfirði að Ásvöllum. Mótið var það fyrsta sem Íþróttafélagið Fjörður heldur í nýju lauginni og lönduðu heimamenn 15 gullverðlaunum, 6 silfurverðlaunum og 8 bronsverðlaunum.

Þrátt fyrir að skammt sé liðið á sundtímabilið sáust frábærar tímabætingar sem gefa góð fyrirheit um það sem koma mun þegar líður á veturinn. Úrslit mótsins er hægt að sjá með því að smella á tengilinn hér að neðan:

http://fjordur.com/Default.aspx?tabid=1056

Þá hefur ÍF sett inn myndasafn frá mótinu á myndasíðuna sína www.123.is/if en tengill á myndasafnið frá Fjarðarmótinu er hér:

http://album.123.is/?aid=119292

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 6. október 2008 10:58
ÍF sótti veglegt boð forseta að Bessastöðum

Föstudaginn 3. október síðastliðinn buðu forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Moussaieff Ólympíumótsförum Íþróttasambands fatlaðra og aðstandendum þeirra til síðdegisveislu að Bessastöðum.

Ólafur Ragnar bauð hópinn velkominn á þjóðarheimilið og sagði m.a. í ræðu sinni að sigur þeirra íþróttamanna sem komust fyrir Íslands hönd á Ólympíumót fatlaðra sem og Ólympíuleikana sjálfa væri mikill sigur út af fyrir sig. Þá nefndi Ólafur að hann hefði verið ákaflega stoltur af því að Ísland skyldi ávallt senda jafn vaskar sveitir á þessi stóru mót þar sem aðrar og jafnvel fjölmennari þjóðir ættu sumar hverjar ekki fulltrúa eða þá mjög fáa úr sínum röðum.

Forseti beindi svo orðum sínum til Ólympíumótsfara ÍF þegar hann sagði að þessir fimm einstaklingar, Jón Oddur, Þorsteinn, Sonja, Eyþór og Baldur væru öðru fólki með fötlun mikill innblástur og fyrirmynd fyrir afrek sín á íþróttasviðinu.

Hópur ÍF fékk svo að litast um á Bessastöðum þar sem marga gersemina bar fyrir augu á borð við gjafir frá sveitarfélögum hér innanlands sem og virtum þjóðhöfðingjum víðsvegar að úr heiminum.

Íþróttasamband fatlaðra þakkar kærlega fyrir mótttöku þeirra forsetahjóna að Bessastöðum.

Mynd: Keppendur Íslands á Ólympíumóti fatlaðara í Peking 2008 ásamt forsetahjónunum Ólafi Ragnari og Dorrit.

Hér á slóðinni að neðan má nálgast fleiri myndir frá heimsókn ÍF að Bessastöðum:
http://album.123.is/?aid=119266

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 3. október 2008 10:32
Sterkasti fatlaði maður heims 17.-18. október

Dagana 17.-18. október næstkomandi fer fram Sterkasti fatlaði maður heims en mótið fer nú fram í sjötta sinn hér á Íslandi. Arnar Már Jónsson landsliðsþjálfari Íþróttasambands fatlaðra í lyftingum og lyftingaþjálfari hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík er forvígsmaður keppninnar og býst hann við hörkukeppni þetta árið.

„Þetta er eina mótið sinnar tegundar í heiminum og er haldið í nafni Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík. Mótið verður stærra með hverju árinu og búist er við harðri keppni þetta árið. Fjölmiðlar hérlendis hafa jafnan sýnt mótinu mikinn áhuga og því von á skemmtilegri umfjöllun en ég skora á sem flesta að leggja leið sína á keppnisstaðina og fylgjast með þessum afreksmönnum í hrikalegum aflraunum,“ sagði Arnar.

Föstudaginn 17. október verður keppt í Smáralindinni frá kl. 14:00 en laugardaginn 18. október verður farið víða og hefst keppni kl. 10.00 á Fjörukránni. Þaðan verður farið í Intersport í Lindum kl. 13:00 og lýkur keppni í ÍFR Húsinu að Hátúni 14 í Reykjavík. Keppni í ÍFR húsinu hefst kl. 16:00 en þar verður sterkasti fatlaði maður heims í hjólastólaflokki og standandi flokki krýndur.

Þorsteinn Magnús Sölvason Ólympíumótsfari Íþróttasambands fatlaðra verður á meðal keppenda í mótinu en þess má geta að hann og Ulf Eriksson frá Svíþjóð eru einu tveir fötluðu lyftingamenn heims sem hafa lyft 90kg. Atlassteininum í steinatökunni.

Ulf er ríkjandi meistari og má búast við því að hann fá mikla samkeppni frá Finnanum og fjórföldum heimsmeistara Tafo Jettajorvi en vissulega munu íslensku keppendurnir láta vel fyrir sér finna og gera atlögu að öllum þeim verðlaunum sem í boði verða.

Nánari upplýsingar um mótið veitir Arnar Már Jónsson skipuleggjandi mótsins.
GSM: 868 6823 – loggurinn@hotmail.com

Mynd: Frá keppninni Sterkasti fatlaði maður heims árið 2006.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 2. október 2008 16:40
Ný heimasíða Special Olympics í Evrópu

Special Olympics í Evrópu hefur höfuðstöðvar sínar í Brussel en 11 ár eru síðan Special Olympics samtökin settu upp skrifstofu í Evrópu. Nú hefur verið sett upp heimasíða Special Olympics í Evrópu en markmið með því er að ná betur til aðildarlanda í Evrópu og auðvelda þeim aðgengi að upplýsingum og verkefnum í Evrópu.

Ýmis verkefni eru í gangi í Evrópu sem tengjast aðildarfélögum og um að gera að leita sér upplýsinga sé vilji til þess að taka þátt í verkefnum sem ekki eru á vegum Special Olympics á landsvísu.

Verkefni eins og Evrópuleikar og Alþjóðaleikar eru á vegum Íþróttasambands fatlaðra en ýmis mót í einstaka greinum gætu hentað félögum á Íslandi ekki síst sem samvinnuverkefni.

Heimasíðan er:
http://www.specialolympics-eu.org/

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 1. október 2008 17:04
Össur safnaði 315.000 kr. til handa ÍF

Reykjavíkurmaraþon Glitnis fór fram á dögunum og venju samkvæmt var fjölmenni sem lét gott af sér leiða við tilefnið. Starfsfólk Össurar hljóp til styrktar Íþróttasambandi fatlaðra og safnaði alls 315.000,- kr. til handa sambandinu.

Alls voru það 26 einstaklingar frá Össuri sem tóku þátt í maraþoninu og hlupu þau samanlagt 315 km. Össur er einn stærsti styrktar- og samstarfsaðili Íþróttasambands fatlaðra og sýnir hér enn einu sinni velvilja sinn í verki. Af þessu tilefni vill ÍF koma á framfæri innilegu þakklæti til Össuarar og þeirra einstaklinga sem lögðu á sig langhlaupin.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 25. september 2008 14:53
Fjarðarmótið sunnudaginn 5. október

Þann 5. október næstkomandi fer fram Fjarðarmótið í sundið í nýju lauginni að Ásvöllum en hún er staðsett við hliðina á íþróttahúsi Hauka. Upphitun hefst kl: 12:00 og mót kl: 13:00. Greinar mótsins eru eftirfarandi:
 
Grein 1 og 2    50m skrið karla og kvenna
Grein 3 og 4   100m skrið karla og kvenna
Grein 5 og 6    25m frjáls aðferð karla og kvenna
Grein 7 og 8   50m flug karla og kvenna
Grein 9 og 10   100m flug karla og kvenna
Grein 11 og 12  50m bak karla og kvenna
Grein 13 og 14  100m bak karla og kvenna
Grein 15 og 16  50m bringa karla og kvenna
Grein 17 og 18  100m bringa karla og kvenna
Grein 19 og 20  100m fjór karla og kvenna
Grein 21 og 22  200m fjór karla og kvenna
Grein 23 og 24  400m skrið karla og kvenna
Grein 25   4x50m frjáls aðferð blandaðar sveitir
 
Skráningum skal skila á hytec-formi og senda á fjordur@fjordur.com

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 24. september 2008 11:53
Veglegt myndasafn frá Peking

Nýverið lauk Ólympíumóti fatlaðra í Peking en mótið mun vera eitt það stærsta og veglegasta sem nokkru sinni farið hefur fram. Íþróttasamband fatlaðra lét ekki sitt eftir liggja í myndatökunni og nú er komið myndasafn inn á myndasíðu ÍF sem telur á annað hundrað myndir.

Myndasafnið er hægt að nálgast á www.123.is/if

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 24. september 2008 09:52
Fjallabyggð heiðraði Baldur og Þór

Langstökkvarinn Baldur Ævar Baldursson frá Ólafsfirði fékk hlýjar móttökur frá Fjallabyggð á dögunum þegar hann var nýkominn heim af Ólympíumóti fatlaðra í Peking. Formleg móttaka hans var síðastliðinn föstudag en þar var Þór Jóhannsson einnig heiðraður fyrir þátttöku sína á Special Olympics sl. haust þar sem hann keppti í golfi.

Afhenti bæjarstjórn Fjallabyggðar þeim báðum gyllt barmmerki og blómvönd fyrir afrek sín á íþróttasviðinu.

www.fjallabyggd.is

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 23. september 2008 16:31
Opnunarhátíðin (myndband)

Myndband frá opnunarhátíðinni.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 20. september 2008 17:31
Sonja fékk drottningarmeðferð á múrnum

Þegar keppni lauk hjá Íslandi á Ólympíumóti fatlaðra í Peking tók við þétt skemmtidagskrá og í henni fólst m.a. heimsókn á hinn heimsfræga Kínamúr. Aðstæður til þess að heimsækja Kínamúrinn voru allar hinar bestu, skyggni gott og allir í gönguskónum en enginn hafði þó reimað þá fastar en garpurinn og íþróttafréttamaðurinn Adolf Ingi Erlingsson.

Aðstæður fyrir fólk með fötlun við heimsókn á Kínamúrinn eru erfiðar og því fékk Sonja Sigurðardóttir að kynnast. Adolf Ingi var fljótur að átta sig og bauð Sonju á hestbak og bar hana á bakinu vítt um múrinn. Sonja var Adolfi að vonum þakklát fyrir framtakið en gamli skíðagarpurinn lét sig ekki muna um þetta smáræði og skömmu síðar var hann mættur framan við myndatökuvélina að bæta enn í veglega sögu um Kínaferð Íþróttasambands fatlaðra.

Íslenski hópurinn kom heim seint á fimmtudagskvöld og fékk hann höfðinglegar mótttökur. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF tók á móti hópnum með blómum sem og þau Ólafur Rafnsson formaður ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ. Þá voru stjórnarmenn ÍF einnig viðstaddir komu íslenska hópsins til Íslands og tóku hlýlega á móti ferðalöngunum.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 19. september 2008 11:56
Íslandsleikar Special Olympics í frjálsum íþróttum og knattspyrnu

Íslandsleikar Special Olympics í frjálsum íþróttum og knattspyrnu fóru fram á Akureyri 13. September. Verkefnið var í samvinnu ÍF, KSÍ og aðildarfélaga ÍF á Akureyri. Umsjón með undirbúningi höfðu frjálsíþróttanefnd ÍF og knattspyrnunefnd ÍF og KSÍ. Sigrún Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri setti mótið og bauð fólk velkomið. Keppni í frjálsum íþróttum var fyrir hádegi og í framhaldi af því tók við knattspyrnukeppnin. Það var Sean Webb breskur leikmaður Þórs sem sá um upphitun og síðan hófst keppni þar sem keppt var í tveimur styrkleikaflokkum. Ingi Björnsson, útibússtjóri Glitnis á Akureyri afhenti verðlaun en Glitnir er aðalstyrkaraðili Special Olympics á Íslandi.

Íþróttasamband Fatlaðra þakkar öllum þeim sem komu að þessu verkefni sem tókst sérlega vel. Mikil stemming ríkti meðal keppenda sem flestir tóku þátt í báðum greinum og gáfu ekkert eftir.

Úrslit mótsins
Myndir

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 18. september 2008 15:17
Fjör og flottir taktar á fótboltaæfingu fatlaðra

Sparkvallaverkefni ÍF og KSÍ á Akureyri

Síðastliðinn sunnudag var haldin sparkvallaæfing fyrir fatlaða á sparkvellinum við Brekkuskóla. Góðir gestir mættu á æfinguna, miðluðu af reynslu sinni og urðu vitni af flottum fótboltatöktum.

Jónas L. Sigursteinsson stjórnaði æfingunni en gestkvæmt var á sparkvellinum. Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari karla, var einn þeirra er kom á æfinguna ásamt Kristni R. Jónssyni landsliðsþjálfara U19 karla. Þá mættu Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliði HK og Rakel Hönnudóttir fyrirliðið Þórs/KA ásamt Evu Hafdísi Ásgrímsdóttur leikmanni Þórs/KA.

Þessi æfing er hluti af sparkvallaverkefni ÍF og KSÍ en verkefnið hófst árið 2007 og hefur mælst ákaflega vel fyrir. Tilgangur þessa verkefnis er að auka áhuga og þátttöku fatlaðra drengja og stúlkna í knattspyrnu.

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 17. september 2008 16:31
Stærsta og veglegasta Ólympíumóti sögunnar lokið

Fáir ef einhverjir hefðu stigið á stokk á eftir Frank Sinatra og hvað varðar Ólympíumót fatlaðra í Kína verður erfitt að standa að öðrum eins viðburði og vísast fyrir Breta að bretta upp ermar hið snarasta. Heimamenn í Kína voru sigursælastir með 211 verðlaun á Ólympíumótinu sem lengi verður í manna minnum. Alls voru sett 279 heimsmet á mótinu og 339 Ólympíumet en 4000 íþróttamenn frá 147 löndum spreyttu sig á mótinu og þar af fimm Íslendingar sem allir stóðu sig með mikilli prýði.

Vera íslenska hópsins í Peking hefur verið eftirminnileg og hópurinn er þegar farinn að gera sér hugmyndir um þátttöku í London 2012. Leiðin til London er löng og ströng og margir sem ætla beint heim til Íslands að æfa.

Lokaathöfnin í dag var öll hin glæsilegasta eins og við var að búast. Flugeldar og miklar danssýningar með glæstum loftfimleikatilþrifum. Phil Craven forseti Alþjóða íþróttasambands fatlaðra sagði við athöfnina að mótið í Peking væri besta Ólympíumót fatlaðra sem farið hefði fram og laug hann þar engu um.

Íslenski hópurinn heldur heim á leið á morgun og er væntanlegur til Ísland á miðnætti. Hvergi bar skugga á veru hópsins í Ólympíuþorpinu í Peking og vill Íþróttasamband fatlaðra koma á framfæri sérstöku þakklæti til íslenska sendiráðsins í Peking sem hefur aðstoðað sambandið í einu og öllu hér úti. Þá fær Erla Magnúsdóttir innilegar þakkir fyrir óeigingjarnt starf í þágu ÍF en hún hefur búið í Peking í 4 ár og var iðin við að sýna Frónverjum alla þá skemmtilegu hluti sem hægt er að gera í þessari tæplega 20 milljón manna borg.

Landsliðshópur ÍF þakkar Kínverjum fyrir hlýjar og góðar mótttökur.
Xie Xie Zhong Guo

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 17. september 2008 06:42
Eyþór verður fánaberi Íslands á lokahátíðinni

Lokahátíð Ólympíumóts fatlaðra fer fram í dag þar sem sundmaðurinn Eyþór Þrastarson verður fánaberi Íslands við athöfnina. Kínverjar lofa góðri sýningu rétt eins og á opnunarhátíðinni sem var öll hin glæsilegasta. Hópurinn kemur heim laust fyrir miðnætti þann 18. september næstkomandi og eins og sjá má á spjalli við íþróttamennina sem birst hafa hér á síðunni þá eru margir þegar farnir að huga að næsta Ólympíumóti sem fram fer í London 2012.

Síðustu grein Ólympíumóts fatlaðra lauk í dag þegar hlaupið var maraþon en heimamenn í Kína hafa verið sigursælir og unnið til flestra gullverðlauna eða alls 88. Samtals hafa Kínverjar unnið til 208 verðlauna en þar á eftir koma Bretar með 102 verðlaun.

Topp 10 sigursælustu þjóðirnar á Ólympíumótinu:

1. Kína 88 gull, 68 silfur, 52 brons
2. Bretland 42 gull, 29 silfur, 31 brons
3. Bandaríkin 36 gull, 35 silfur, 28 brons
4. Úkraína 24 gull, 18 silfur, 31 brons
5. Ástralía 23 gull, 29 silfur, 27 brons
6. Suður-Afríka 21 gull, 3 silfur, 6 brons
7. Kanada 19 gull, 10 silfur, 21 brons
8. Rússland 18 gull, 23 silfur, 22 brons
9. Spánn 15 gull, 21 silfur, 22 brons
10. Brasilía 15 gull, 14 silfur, 17 brons

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 16. september 2008 13:46
Þorsteinn: Mikilvægt í reynslubankann

Lyftingamaðurinn Þorsteinn Magnús Sölvason lyfti 115 kg. í -75 kg. flokki í bekkpressu á Ólympíumóti fatlaðra í Peking en íslenski hópurinn lauk þátttöku sinni á mótinu síðasta sunnudag. Þorsteinn rak smiðshöggið í keppni Íslands hér í Kína en hann stefnir að því að hefja æfingar fljótlega og segist ekki veita af tímanum til að undirbúa sig fyrir Ólympíumótið í London 2012.

Hvernig fannst þér að taka þátt á þessu gríðarstóra móti í Peking?
Þetta var rosalega gaman og mikil upplifun. Gaman að upplifa Ólympíumót fatlaðra og sérstaklega í svona fjarlægu landi.

Árangurinn var ekki sá sem þú hafðir ætlað þér, ertu kominn með hugann við London 2012?
Þó svo árangurinn hafi ekki verið sá sem ég hafði vonast eftir þá var þetta mikilvægt í reynslubankann. Nú fer maður bara að undirbúa sig fyrir næsta Ólympíumót með önnur markmið í huga.

Ætlar þú að taka þér smá frí eða á að fara beint heim í ræktina?
Ég ætla að byrja strax að æfa því það sem ég hef séð á þessu móti í bekkpressunni þá veitir mér víst ekkert af þessum tíma til að komast í sama flokk og þessir kappar.

Framtíðin í lyftingum fatlaðra á Íslandi. Hvernig sérð þú hana?
Ég tel að framtíðin sé björt. Ég kem inn á þetta mót sem frumkvöðull fyrir fatlaða íslenska lyftingamenn og ég held að við eigum góða lyftingastráka sem eiga eftir að gera góða hluti í framtíðinni.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 14. september 2008 12:47
Þorsteinn í 12. sæti í Peking

Lyftingamaðurinn Þorsteinn Magnús Sölvason hafnaði í dag í 12. sæti í bekkpressu á Ólympíumóti fatlaðra í Peking í -75 kg. flokki. Þorsteinn lyfti 115 kg. í fyrstu lyftu en næstu tvær lyftur hjá kappanum voru ógildar.

Heimamaðurinn Liu Lei vann yfirburðasigur í flokknum þegar hann lyfti 225 kg. við mikinn fögnuð áhorfenda. Athygli vakti að Lei var bæði yngsti og léttasti keppandinn en Lei er 18 ára gamall og 70,44 kg. Lei gerði ekki atlögu að heimsmetinu sem samlandi hans Haidong setti í Ástralíu en sú lyfta vó 240 kg!

Í annarri lyftu reyndi Þorsteinn við 125kg. og þyngdin fór upp en dómarar ákváðu að lyftan væri ógild. Arnar Már Jónsson þjálfari Þorsteins sá fátt athugavert við aðra lyftuna hjá Þorsteini og hefði viljað sjá dómara dagsins dæma hana gilda. Í þriðju lyftu reyndi Þorsteinn aftur við 125 kg. en þá vildu lóðin ekki upp.

Nú hefur íslenski hópurinn lokið keppni á Ólympíumótinu og staðið sig með glæsibrag. Hópurinn heldur heim á leið þann 18. september og þangað til verður farin heimsókn á Kínamúrinn, á Torg hins himneska friðar og Peking skoðuð með árvökulum augum ferðamannsins.

Mynd: Þorsteinn veifar aðdáendum sínum í lyftingahöllinni í Peking en hann var rækilega studdur áfram af íslenska hópnum í dag.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 13. september 2008 16:44
Jón Oddur: Eins og í Gladiator

Jón Oddur Halldórsson hafnaði í 5. sæti í 100m. spretthlaupi í flokki T 35 á Ólympíumóti fatlaðra í dag þegar hann kom í mark á tímanum 13.40 sek. Árangurinn var hans næstbesti á ferlinum og var kappinn sáttur við niðurstöðuna. Jón Oddur sagði í snörpu samtali við heimasíðuna að það að ganga inn á leikvanginn hefði örugglega verið eitthvað svipað því þegar skylmingaþrælarnir gengu inn í hringleikahúsið í Róm til forna.

Hvernig var þessi upplifun að ganga inn á völlinn frammi fyrir um 90.000 áhorfendum?
Þetta var bara eins og í bíómyndinni Gladiator. Maður var bara að labba inn í hringleikahúsið í Rómarborg, ég hef bara aldrei upplifað annað eins.

Þegar þú varst kynntur til leiks á vellinum rakst þú upp mikið stríðsöskur. Var það svona í hita leiksins?
Já já, maður þurfti að virkja víkingagenin og það gekk nú bara ágætlega.

Er þetta það stærsta mót sem þú hefur hlaupið á?
Já ég held það, þetta er sennilega það langstærsta sem maður hefur gert og mun sennilega ekki gera aftur.

Þetta er þinn næstbesti tími á ferlinum, ertu sáttur?
Mjög sáttur. Þetta var frábær árangur.

Svakalegt hlaup sem þú tókst þátt í og fjórir hlauparar hlupu undir heimsmetinu. Eitthvað sem fæstir hefðu búist við!Þetta hlýtur að vera eitthvað tímamótahlaup, í það minnsta mjög merkilegt.

Hvað tekur svo við núna?
Nú fer maður brátt heim til Íslands, að borða lambalæri verður mitt fyrsta verk og svo sjáum við til hvað verður.

Þorsteinn Magnús Sölvason lyftingamaður keppir á morgun í bekkpressu og er hann síðastur íslensku keppendanna til að stíga á stokk. Hann lyftir kl. 16:00 að staðartíma eða um kl. 08:00 að íslenskum tíma.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 13. september 2008 13:33
Jón Oddur fimmti í 100m. hlaupinu

Spretthlauparinn Jón Oddur Halldórsson varð í dag fimmti í 100m. hlaupi í flokki T 35 á Ólympíumótinu í Peking. Óhætt er að segja að hlaupið hafi verið eftirminnilegt þar sem fjórir hlauparar voru undir heimsmetinu. Jón Oddur kom í mark á tímanum 13,40 sek. sem er hans besti árangur á þessu ári og næstbesti árangur hans á ferlinum. Kínverjinn Sen Yang bætti heimsmetið til muna er hann hljóp á tímanum 12.29 sek. en heimsmetið var 12.98 og var sett í Assen í Hollandi árið 2006.

Jón Oddur hljóp á fimmtu braut frammi fyrir rúmlega 90.000 manns og þegar kappinn var kynntur til leiks rak hann upp skaðræðis stríðsöskur og var klár í slaginn. Heimamennirnir skipuðu tvö fyrstu sætin og stúkan lét vel í sér heyra en Jón Oddur var sáttur við tímann enda besti tími hans á árinu.

Þess má geta að heimsmethafinn Sen Yang er 18 ára gamall og besti tími hans í 100m. hlaupinu á þessu ári er 17.79 sek! Yang þessi fór því hreinlega á kostum frammi fyrir löndum sínum í dag og alls ekki ólíklegt að met hans muni standa í einhvern tíma.

Árangur Jóns er sá besti síðan hann vann til silfurverðlauna á Ólympíumóti fatlaðra í Aþenu 2004 og vindurinn í hlaupinu í dag var -0,3.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 13. september 2008 13:07
Eyþór: Stefni á gull 2012

Sundgarpurinn Eyþór Þrastarson hefur lokið keppni á Ólympíumóti fatlaðra í Peking en hann stóð sig frábærlega á mótinu og bætti tímana sína verulega í 400m. skriðsundi og 100m. baksundi. Hann sagði í stuttu samtali við heimasíðuna að nú væri stefnan sett á gull á Ólympíumótinu 2012.

Nú hefur þú lokið keppni. Ertu sáttur við þína frammistöðu á Ólympíumótinu?
Já, mjög sáttur. Ég held að þetta sé besta mót sem ég hef tekið þátt í.

Ertu farinn að hugsa um London 2012?
Já, ég set stefnuna á gull 2012!

Hvað tekur nú við hjá þér?
Mér var sagt að til þess að ná árangri þá þyrfti maður að gera allt sem þjálfarinn segði manni að gera. Ætli ég bíði ekki bara eftir því hvað þjálfarar mínir leggji fyrir mig.

Hvað finnst þér eftirminnilegast við þátttökuna þína á Ólympíumótinu?
Allt bara, sundið, frítt fæði, fólkið, staðurinn. Þetta hefur allt verið ein ógleymanleg gandreið.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 13. september 2008 03:40
Eyþór lauk keppni í Peking með 5 sekúndna bætingu

Sundmaðurinn Eyþór Þrastarson hefur lokið keppni á Ólympíumóti fatlaðra í Peking en hann varð tólfti í undanrásum í 100m. baksundi í dag og komst því ekki inn í úrslit. Eyþór komst inn á Ólympíumótið á sínum besta tíma sem var 1:25,90 mín. en hann synti í dag á 1:20,12 mín. og bætti þ.a.l. tímann sinn 5,78 sek. Frábær frammistaða hjá þessum unga og efnilega sundmanni sem vafalítið á eftir láta betur fyrir sér finna í lauginni þegar fram líða stundir.

Kínverjinn Bozun Yang hefur verið sjóðheitur á Ólympíumótinu og synti hann í undanrásum með Eyþóri og bætti heimsmetið um tæpa sekúndu þegar hann kom í mark á tímanum 1:08,40 mín. Vatnsteningurinn er að hafa góð áhrif á sundmenn hér í Peking sem slá heimsmet á hverjum degi.

Eyþór var í dag með millitímann 38,57 sek. en lokatími hans var 1:20.12. Sundmenn Íslands hafa því lokið keppni og bæði Eyþór Þrastarson og Sonja Sigurðardóttir stóðu sig með mikilli prýði. Eyþór bætti sína bestu tíma verulega og Sonja synti á sínum besta tíma í tæp tvö ár. Þjálfararnir Ingi Þór Einarsson og Kristín Guðmundsdóttir hafa unnið mikið og gott starf með þau Eyþór og Sonju hér í Peking og getur sundhópurinn sáttur við unað.

Leiðrétting: Í Morgunblaðinu í gær kom fram að Eyþór Þrastarson hefði stórbætt Íslandsmetið í 400m. skriðsundi en það er ekki rétt heldur stórbætti Eyþór sinn eigin besta tíma. Rétt er að Birkir Rúnar Gunnarsson á Íslandsmetið í flokki S 11 í 400m. skriðsundi en það er 5:02,38 mín. og setti Birkir það í Frakklandi árið 1995.

Myndir: Á efri myndinni sendir Eyþór Þrastarson góðar kveðjur upp í stúku en á neðri myndinni eru foreldrar hans ásamt Steinunni móður Sonju Sigurðardóttur en þau þrjú áttu stúkuna í Vatnsteningnum í morgun!

Spretthlauparinn Jón Oddur Halldórsson keppir einnig í dag í 100m. hlaupi og hefst það á slaginu kl. 18:00 að staðartíma eða um kl. 10:00 á Íslandi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 12. september 2008 09:26
Frábært aðstoðarfók Íslands í Peking

Ólympíuþorpið í Peking sér vel um íbúa sína og er málum þannig háttað að hver þjóð fær ákveðinn fjölda aðstoðarmanna eftir því hversu margir keppendur fylgja þjóðinni. Ísland datt svo sannarlega í lukkupottinn þegar aðstoðarmönnum var úthlutað en fimm manna úrvalssveit er reiðubúin Íslandi til aðstoðar við hvert það atvik sem kann að koma upp.

Hópurinn mætir snemma morguns í hýbíli íslenska hópsins og er sjaldnast farinn heim fyrr en seint á kvöldin. Ómetanlegt er að hafa enskumælandi túlka með í för enda enskan lítt útbreitt mál í Kína þó hún sé helsta bjargræðisleið Frónverja utan landsteinanna.

Þrír þessara aðstoðarmanna eru lögfræðinemar við háskóla í Peking og hafa þau sýnt Íslandi mikinn áhuga og hyggja öll á komu. Sá elsti í hópnum er fyrrum hjartalæknir við Japan-Chinese Friendship Hospital í Peking hann bauð hluta af íslenska hópnum í hjartaómun á dögunum.

Mynd: Frá vinstri, Brady, Cathy, og Ling. Fyrir aftan er hjartalæknirinn Mr. Wang og Gilbert.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 11. september 2008 14:09
Eyþór: Þetta sund í dag, fæðingin, giftingin og dauðinn

Sundkappinn 17 ára gamli Eyþór Þrastarson var að vonum kátur með árangurinn sinn í 400m. skriðsundi í dag þegar hann hafnaði í 8. sæti á Ólympíumóti fatlaðra í Peking. Eyþór setti persónulegt met þegar hann synti á tímanum 5:11,54 í undanrásum og varð svo áttundi í úrslitasundinu frammi fyrir nokkur þúsund áhorfendum.

Hver voru þín viðbrögð við sundi þínu í undanrásum í dag?
Ég var mjög ánægður með þetta sund og þetta var alveg það sem ég ætlaði mér að gera.

Hvernig upplifðir þú þessa stóru stund í þínu lífi?
Þetta sund í dag, fæðingin, svo giftingin og svo dauðinn.

Ertu búinn að setja þér ný tímamarkmið í 400m. skriðsundi?Þau eru ekki tilbúin en þau eru allavega ekki lengur 5:11,54 mín. í dag.

100m. baksund er næst á dagskrá. Hvernig leggst sú grein í þig?
Ég get ekki annað en látið mér hlakka til. Ég hef ekki bætt mig nægilega í þessu sundi upp á síðkastið en hef hugsað mér að breyta því núna á næstunni.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 11. september 2008 13:33
Eyþór hafnaði í áttunda sæti

Úrslitin í 400m. skriðsundi á Ólympíumóti fatlaðra fóru fram í Peking í kvöld þar sem Eyþór Þrastarson var á meðal keppenda. Eyþór varð áttundi í úrslitasundinu og kom í mark á tímanum 5:15,63 mín. en í undanrásum í morgun synti hann á tímanum 5:11,54 sem er glæsilegur árangur hjá þessum 17 ára sundmanni.

Spánverjinn Enhamed Enhamed nældi sér í gullverðlaun á tímanum 4:38,32, annar varð Kínverjinn Bozun Yang á 4:43,29 og bronsverðlaunin hlutu Kanadamenn þegar Donovan Tildesley synti á tímanum 4:49,45.

Dagurinn í dag var einhver sá stærsti á íþróttamannsferli Eyþórs en tími hans í undanrásum er langbesti tími Eyþórs í 400m. skriðsundi.

Millitímar Eyþórs í úrslitasundinu:

34,49
1:14,11
1:54,13
2:34,76
3:15,06
3:55,55
4:35,55

Lokatími: 5:15,63

Á morgun, 12. september, er enginn af íslensku keppendunum að keppa en þann 13. september eru bæði þeir Eyþór og Jón Oddur Halldórsson að keppa. Eyþór í 100m. baksundi og Jón Oddur í 100m. spretthlaupi.

Mynd: Ingi Þór Einarsson sundþjálfari lætur Eyþór vita að hann sé að nálgast endamarkið.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 11. september 2008 11:41
Íslandsleikar Special Olympics í frjálsum íþróttum og knattspyrnu

Laugardaginn 13. september 2008 verða haldnir Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu og frjálsum íþróttum í Boganum á Akureyri.  Íslandsleikar Special Olympics eru haldnir í samvinnu Íþróttasambands Fatlaðra, Knattspyrnusambands Íslands og aðildarfélaga ÍF á Akureyri.  Markmið ÍF og KSÍ er að knattspyrnufélög taki aukna ábyrgð á því að stuðla að tækifærum fyrir fatlaða á sviði knattspyrnuiðkunar.  Leikmenn úr meistaraflokki Þórs munu sjá um upphitun fyrir knattspyrnumótið.
Aðalstyrktaraðili Special Olympics á Íslandi er GLITNIR.

Dagskrá mótsins.
 
kl. 10.00 Frjálsar, upphitun

kl. 10.30 Mótssetning

 kl. 10.35 keppni hefst, frjálsar

 kl. 12.30 Knattspyrna, upphitun

 kl. 13.00 Knattspyrna, keppni hefst

 kl. 15.00. Verðlaunaafhending  (Verðlaunaafhending fer einnig hugsanlega fram á milli greina)

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 11. september 2008 11:36
Sparkvallaverkefni Íþróttasambands Fatlaðra og Knattspyrnusambands Íslands 2008

Sparkvallaverkefni ÍF og KSÍ hófst árið 2007 en tilgangur þessa verkefnis er að auka áhuga og þátttöku fatlaðra drengja og stúlkna í knattspyrnu. Allir aldurshópar velkomnir.

Ákveðið hefur verið að standa fyrir sparkvallaverkefni IF og KSÍ á Akureyri í samvinnu við ÍBA.

Opin æfing verður á sparkvellinum við Brekkuskóla á Akureyri sunnudaginn 14. september 2008.

Æfingin verður frá kl. 12:00 til 13:30. Leiðbeinandi verður: Jónas L. Sigursteinsson en auk þess munu Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari og Kristinn R. Jónsson, þjálfari U19 karla mæta á svæðið auk fleiri góðra gesta.

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 11. september 2008 08:19
Eyþór í úrslit!

Sundmaðurinn Eyþór Þrastarson er kominn í úrslit í 400m. skriðsundi á Ólympíumótinu í Peking en Eyþór keppir í flokki S 11 sem er skipaður alblindum keppendum. Eyþór lauk sundinu á 5.11;54 mín. sem er mikil persónuleg bæting og ánægjuleg fyrir þennan unga sundmann.

Eyþór var áttundi og síðastur inn í úrslitin sem fara fram kl. 18:49 hér í Peking eða um kl. 11.00 heima á Íslandi. Fyrstur eftir undanrásir var heimamaðurinn Bozun Yang á tímanum 4:46,06 mín.

Millitímar Eyþórs í sundinu:
33,40
1:11,01
1:49,53
2.30,03
3:10,28
3:51,44
4:32,52
Lokatími: 5:11,52

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 11. september 2008 02:24
Eyþór syndir á annarri braut í dag

Sundmaðurinn Eyþór Þrastarson hefur keppni í dag á Ólympíumóti fatlaðra er hann keppir í undanrásum í 400m. skriðsundi. Eyþór er í seinni undanrásum og syndir á annarri braut. Hann synti á 5:25.90 mín. og náði þannig lágmörkum inn á mótið en besti tíminn inn á mótið er 4:42.46 mín. en hann á Spánverjinn Enhamed.

Eyþór hefur verið í fantaformi á æfingum hér úti í Peking og því verður fróðlegt að sjá hvernig honum mun takast til á þessu fyrsta Ólympíumóti sínu. Nái hann inn í úrslit í dag syndir hann aftur seinna í kvöld, að öðrum kosti syndir hann ekki aftur fyrr en 13. september þegar hann keppir í 100m. baksundi.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 10. september 2008 15:39
Yfirlýsing frá Íþróttasambandi fatlaðra

Í tilefni af skrifum DV 9. september 2008 vill Íþróttasamband fatlaðra taka fram að sú hefð hefur skapast að bjóða einum ráðherra ríkisstjórnarinnar á Ólympíumót fatlaðra.

Íþróttasamband fatlaðra óskaði eftir því að Jóhanna Sigurðardóttir, Félags- og tryggingamálaráðherra yrði heiðursgestur Ólympíumóts fatlaðra árið 2008 í Peking og þekktist hún boðið.

Íþróttasamband fatlaðra hefur átt mjög gott samstarf við menntamálaráðherra og harmar þessi ómaklegu skrif.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 9. september 2008 17:39
Baldur: Gerði það sem ég ætlaði mér

Langstökkvarinn Baldur Ævar Baldursson frá Ólafsfirði varð sjöundi á Ólympíumótinu í Peking í dag og jafnaði Íslandsmet sitt í greininni er hann stökk 5,42 metra. Heimasíðan lagði nokkrar laufléttar spurningar fyrir Baldur sem rétt eins og Sonja er staðráðinn í því að komast til London eftir fjögur ár og ætlar kappinn strax á æfingu á morgun.

Hvernig leið þér þegar þú gekkst inn á völlinn í dag og sást allan þennan fjölda?
Mér leið vel og ég ætlaði bara að gera mitt besta og komast í 8 manna úrslitin. Ég var fljótur að blokka út allt mannhafið og var bara einbeittur.

Ertu sáttur við árangurinn?
Já, ég gerði það sem ég ætlaði mér að gera og að enda sjöundi í báðum flokkunum (F 37 og F 38) er bara mjög gott og vera fjórði í mínum flokki er mjög ásættanlegt.

Hvað tekur svo við núna?
Bara æfingar fyrir Ólympíumótið í London 2012, bara strax á morgun!

Ertu farinn að gæla við sex metra markið?
Ég gæli bara fyrst við að ná Evrópumeistarametinu og svo sjáum við hvað setur.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 9. september 2008 17:19
Baldur jafnaði Íslandsmetið í Peking

Tvö heimsmet voru slegin í dag þegar Baldur Ævar Baldursson keppti í langstökki á Ólympíumóti fatlaðra í Peking. Baldur hafnaði í 7. sæti af 13 keppendum en keppt var sameiginlega í tveimur fötlunarflokkum, F 37 og F 38. Baldur stökk lengst 5,42 metra og jafnaði þar sitt eigið Íslandsmet. Grenjandi rigning var í Fuglshreiðrinu í dag og aðstæður kunnuglegar fyrir Frónverja sem oft á frjálsíþróttamótum heima hafa sætt sig við válynd veður.

Stökksería Baldurs:
5,42; 5,22; 5,39
Úrslit:
5,29; 5,31 og síðasta stökkið var ógilt.
Vindurinn í besta stökki Baldurs var +0,1 en í keppninni var hann nokkuð breytilegur.

Baldur stökk lengst í fyrsta stökkinu sínu í dag er hann fór 5,42 metra og jafnaði þar Íslandsmet sitt sem hann setti á Landsmóti Ungmennafélaga í Kópavogi árið 2007. Baldur hafnaði í 7. sæti eins og áður greinir með samtals 942 stig. Baldur hefur því lokið keppni og eru þeir félagar Jón Oddur Halldórsson spretthlaupari og Eyþór Þrastarson sundmaður næstir þegar þeir keppa í sínum greinum þann 13. september.

Heimsmet var setti í flokki Baldurs í dag (F37) en það gerði Kínverjinn Ma Yuxi þegar hann stökk 6,19 metra. Í flokki F38 var gríðarleg spenna þar sem tveir máttu sætta sig við að deila heimsmetinu en Túnismaðurinn Chida Farhat varð Ólympíumótsmeistari á næstbesta stökki sem var 6,40 metrar. Pakistaninn Ali Haider jafnaði heimsmet Farhat í sínu síðasta stökki í dag þegar hann fór 6,44 metra en þá lengd átti Farhat í fimmta stökki.

Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra Íslands var viðstödd keppnina í kvöld og afhenti blómakransa við verðlaunahátíðina í langstökkinu. Jóhanna er heiðursgestur Íþróttasambands fatlaðra í Peking en á morgun heldur hún aftur heim til Íslands. Grenjandi rigning var í Fuglshreiðrinu þegar Jóhanna afhenti blómvendina en ráðherra lét ekki smá rigningu á sig fá og afgreiddi málið með miklum myndarskap.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 8. september 2008 15:39
Össur meitlar Ólympíulið fatlaðra í stein

Í kvöld bauð Össur hf, en hann er einn af helstu stuðningsaðilum ólympíuliðs fatlaðra til kvöldverðar. Þar voru að auki mættir aðstandendur „Team Össur“, sem eru fatlaðir íþróttamenn frá ýmsum löndum sem fá stoðtæki frá Össuri, aðallega gervifætur, auk annars stuðnings.

Þarna voru einnig mætt þau Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra ásamt fylgdarliði og sendiherra Íslands í Kína og hans fólk.

Veislan var að hefðbundnum kínverskum hætti, á veitingastað í gömlum kínverskum stíl. Matseðillinn samanstóð af ótalmörgum smáréttum. Athygli okkar vakti að ekki var eitt einasta hrísgrjón á boðstólum.

Undir borðum fóru fram margvísleg skemmtiatriði að kínverskum sið, einleikur með grímum, töfrabrögð krydduð með grínbrögðum. Mesta athygli okkar og hrifningu vakti þó sýning á kínverskri bardagalist að hætti Jackie Kahn. Færnin og hraðinn voru aðdáunarverð. Það eina sem á vantaði var að kapparnir hlypu upp veggina.

Ræður voru haldnar og menn færðu hver öðrum gjafir. Þannig færði ÍF gestgjöfunum slæður og bindi með merki ÍF. Össur hf færði keppendum Íslands, fararstjóra, félagsmálaráðherra og sendiherranum hverjum og einum stein mikinn sem í var grafið nafn hvers og eins að íslenskum og kínverskum hætti. Með þessu verður orðstír þeirra ódauðlegur.

Að lokninni veislunni var haldið aftur heim í Ólympíuþorpið þar sem við tóku ákafar æfingar í kínverskri bardagalist og þótti spatískt hreyfimynstur fararstjórans sérstaklega ógnvænlegt en jafnframt talsvert spaugilegt.

Á morgun er síðan komið að Baldri Ævari Baldurssyni, Ólafsfirðingi, að keppa í langstökki.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 8. september 2008 07:46
Strax farin að huga að London

Sonja Sigurðardóttir var kát í bragði eftir sundið sitt í dag þrátt fyrir að hafa ekki náð inn í úrslitin í 50m. baksundi. Sonja hafnaði í 10. sæti af 14 á tímanum 57,90 sem er hennar besti tími í tæp tvö ár.

Hvernig leið þér á leið út í laugina?
,,Þetta var svolítið skrítið en hausinn var alveg tómur og ég var vel einbeitt.“

Hver voru þín markmið hér í Peking?
,,Ég stefndi að því að komast í úrslit en ég var tveimur sætum frá því. Nú er ég strax bara farin að huga að Ólympíumótinu í London 2012 en það eru minna en 1500 dagar þangað til svo það er ekki seinna vænna en að fara að undirbúa sig fyrir það,“ sagði Sonja kát í bragði.

Hvað á svo að fara að gera núna í Peking þegar þú ert búin að keppa?
,,Ég ætla að horfa á alla hina íslensku keppendurna og hvetja þá áfram. Svo kíkir maður eitthvað í bæinn,“ sagði Sonja ánægð með öflugt dagsverk.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Mánudagur 8. september 2008 07:03
Flott sund hjá Sonju sem lokið hefur keppni í Peking

Sonja Sigurðardóttir reið í dag á vaðið á Ólympíumóti fatlaðra í Peking þegar hún tók þátt í 50m baksundi í Vatnsteningnum víðfræga. Sonja kom í mark á tímanum 57,90 sek. sem er hennar besti tími í tæp tvö ár.

Sonja hafnaði í 10. sæti í undanrásum af 14 keppendum og það dugði því ekki til þess að ná inn í úrslitin. Tvö heimsmet voru slegin í lauginni í dag og komu þau í síðustu tveimur sundunum áður en Sonja hóf sína keppni. Laugin, keppendur sem og áhorfendur voru því í góðum gír og það nýtti Sonja sér vel og synti á 57,90 sekúndum.


 
Íþróttasamband Fatlaðra | Sunnudagur 7. september 2008 16:32
Ráðherra bauð íslenska hópnum í veglega veislu

Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra Íslands stóð í dag að veglegu hófi til handa íslensku keppendunum á Ólympíumótinu í Peking. Jóhanna er heiðursgestur Íþróttasambands fatlaðra á Ólympíumótinu og bauð til hófs í sendiherrabústað Íslendinga í samráði við Gunnar Snorra Gunnarsson sendiherra Íslands í Kína.

Íslenski hópurinn átti þarna góða stund með ráðherra sem og fulltrúum frá Össuri en Össur er einn af aðalstyrktaraðilum Íþróttasambands fatlaðra. Á Ólympíumótinu eru 23 einstaklingar víðsvegar að úr heiminum sem skipa Team Össur en það er einvalalið afreksíþróttamanna sem keppa hér í Peking og njóta þau stuðnings Össurar. Starfsmenn Össurar halda úti blogsíðu á meðan mótinu stendur á vefsíðunni http://ossur.com/?PageID=3411

Jóhanna hélt skemmtilega tölu yfir hópnum í hófinu og óskaði þeim alls hins besta á mótinu og kvaðst stolt af íslensku keppendunum. Hún sagði einnig að hún hefði skemmt sér konunglega á opnunarhátíð Ólympíumótsins og hlakkaði til að fylgjast með framgangi Íslands hér í Peking. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands fatlaðra leysti bæði ráðherra og sendiherra út með veglegum gjöfum á hófinu en með Sveini Áka í för hér í Peking eru þau Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri fræðslu- og útbreiðslusviðs og Special Olympics á Íslandi og Þórður Árni Hjaltested ritari stjórnar ÍF.

Sonja Sigurðardóttir ríður á vaðið á morgun þegar hún keppir í 50m baksundi en keppnisdagurinn hefst kl. 09:00 að staðartíma en Sonja syndir laust fyrir kl. 10:00. Við minnum á að sýnt er beint frá hinum ýmsu greinum Ólympíumótsins á vefsíðunni www.paralympicsport.tv

Kristín Guðmundsdóttir sundþjálfari er spennt fyrir morgundeginum og hefur fulla trú á því að Sonja muni gera sitt allra besta í lauginni. ,,Æfingar hafa gengið vel að undanförnu, Sonja er í fantaformi og virðist kunna vel við sig í þessari glæsilegu sundhöll,“ sagði Kristín.

Gullkorn dagsins á Jón Oddur Halldórsson í samtali sínu við Inga Þór Einarsson sundþjálfara. Ingi Þór hafði verið að slá um sig og bera sig heldur karlmannlega:
Jón Oddur: Ingi, þú veist hvernig þetta er með naglann sem stendur upp úr!
Ingi: Nei.
Jón Oddur: Hann er alltaf laminn niður!

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 6. september 2008 18:21
Jón Oddur fór fyrir íslenska hópnum í hreiðrinu

Hu Jinato forseti Kína opnaði í dag formlega Ólympíumót fatlaðra 2008 við magnaða opnunarhátíð í Fuglshreiðrinu í Peking. Spretthlauparinn Jón Oddur Halldórsson var fánaberi íslenska hópsins en Jón Oddur er eini keppandinn í hópnum sem áður hefur tekið þátt á Ólympíumóti. Athöfnin og allt ferlið í kringum hana tók íslenska hópinn sex klukkustundir. Laust fyrir kvöldmat var lagt af stað frá Ólympíuþorpinu í Fuglshreiðrið og kom hópurinn sæll og glaður aftur heim í kot á miðnætti eftir mikið sjónarspil.

Troðfullt var á leikvanginum og uppselt í hvert einasta sæti og létu þessir 91 þúsund áhorfendur vel í sér heyra. Utanumhald Kínverja á mótinu er með þvílíkum ólíkindum að annað eins verður seint leikið eftir. Við Ólympíumót fatlaðra eru 40.000 sjálfboðaliðar keppendum og gestum innan handar í öllum sínum daglegu erindagjörðum og hvergi bregður út af í skipulaginu.

Vegleg veisla var í boði fyrir þá gesti sem mættu snemma á opnunarhátíðina en hún hófst á innmarseringu þjóðanna þar sem Ísland var nr. 60 í röðinni. Fremstur í flokki fór Jón Oddur Halldórsson með íslenska fánann en lestina ráku þeir félagar Axel Nikulásson tengiliður Íslands við framkvæmdanefnd mótsins og Kári Jónsson frjálsíþróttaþjálfari. Óvenjuleg sjón blasti við hópnum er hann hélt út úr göngunum og inn á leikvanginn enda ekki á hverjum degi sem hátt í 100.000 manns taka á móti þér með lófataki og skemmtilegheitum.

Á opnunarhátíðinni sjálfri unnu Kínverjar mikið með frumefnin, sólarupprásina og tilurð lífsins. Inn á milli skörtuðu heimamenn svo einni sinni merkustu uppfinningu (púðrinu) þegar litríkir flugeldar prýddu himinn. Allt ætlaði svo um koll að keyra þegar heimamenn gengu síðastir inn á leikvanginn. Kínverjar fjölmenntu á pallana og fögnuðu sínu fólki af miklum innilegheitum.

Nokkur þemu voru á hátíðinni sem hófst á myndrænni för um geiminn sem varð svo að skemmtilegu tímaflakki. Börn á aldrinum 6-12 ára vöktu óskipta athygli áhorfenda en þau voru 2000 talsins og komu inn á sviðið í dýrabúningum. Samhæfing þeirra var óaðfinnanleg og undirstrikaði enn einu sinni hversu mikilli vinnu, tíma og fjármunum hefur verið varið í að halda Ólympíumótið hér í Peking.

Lokahnykkurinn var svo ekki af verri endanum í kvöld þegar kínverskur gullverðlaunahafi frá Ólympíumótinu í Aþenu 2004 hífði sig af gólfi leikvangsins í hjólastjól upp í rjáfur og tendraði Ólympíueldinn.

6. september 2008 er dagur sem líkast til mun seint fara úr minni íslenska hópsins en nú er Ólympíumótið hafið og strax á morgun hefst keppnin af fullum þunga. Eins og áður hefur komið fram á heimasíðunni verður það Sonja Sigurðardóttir, ÍFR, sem ríður á vaðið þann 8. september er hún keppir í 50m baksundi.

Vissir þú að:
148 þjóðir marseruðu inn á leikvanginn í dag.
Gunnar Snorri Gunnarsson er sendiherra Íslands í Kína.
Ólafur Magnússon aðalfararstjóri Íslands og Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands fatlaðra eru á sínu sjöunda Ólympíumóti.

Gullkorn dagsins:
Sonja Sigurðardóttir sundkona fékk sér sundsprett í Ólympíuþorpinu. Þetta hafði hún að segja á laugarbakkanum: ,,Það er vatn inni í sundbolnum mínum!“

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 5. september 2008 15:26
Ísland formlega boðið velkomið í Ólympíuþorpið

Móttökuhátíð Íslands fór fram í Ólympíuþorpinu í dag þar sem Íslendingar voru boðnir velkomnir í þorpið og á Ólympíumót fatlaðra. Athöfnin fór fram á alþjóðasvæðinu í þorpinu þar sem íslenski hópurinn fékk góða gesti í heimsókn. Íslenski sendiherrann Gunnar Snorri Gunnarsson var viðstaddur athöfnina sem og formaður ÍF Sveinn Áki Lúðvíksson sem kom til Peking í dag ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur félags- og tryggingamálaráðherra Íslands. Jóhanna verður heiðursgestur Íslands á mótinu.

Ólafur Magnússon aðalfararstjóri Íslands í ferðinni afhenti borgarstjóranum í Ólympíuþorpinu forláta leirvasa við athöfnina í dag. Vasinn var allur hinn veglegasti og þótti borgarstjóranum mikið til koma enda vasinn skreyttur engu öðru en íslenska fáknum.

Á morgun verður svo opnunarhátíð Ólympíumótsins og hefst hún kl. 20:00 að staðartíma eða um hádegisbil á Íslandi. Opnunarhátíðin fer fram í Fuglshreiðrinu glæsilega en leikvangurinn tekur 91 þúsund manns í sæti. Við hvetjum sem flesta til að fylgjast vel með á vefsíðunni www.YouTube.com/ParalympicSportTV en þar verður hægt að nálgast fjölda frétta af mótinu sem og beinar útsendingar.

Keppnisdagskrá íslenska hópsins
8. september – Sonja Sigurðardóttir – 50m baksund
9. september – Baldur Ævar Baldursson – langstökk
11. september – Eyþór Þrastarson – 400m skriðsund
13. september – Eyþór Þrastarson – 100m baksund
13. september – Jón Oddur Halldórsson – 100m spretthlaup
14. september – Þorsteinn Magnús Sölvason – lyftingar, bekkpressa

Þess má geta að hér í Peking er að verða uppselt á alla viðburði í sundhöllinni sem og á aðalleikvanginn sem er fuglshreiðriðs svo von er á fjölmenni við hvern þann atburð þar sem íslensku keppendurnir munu keppa.

Það var heitt í dag og á frjálsíþróttaæfingunni var langstökkvarinn frá Ólafsfirði, Baldur Ævar Baldursson, duglegur við að drekka vatn en hann og Jón Oddur Halldórsson æfðu undir stjórn Kára Jónssonar við æfingavöllinn skammt við fuglshreiðrið í dag.

Gullkorn dagsins:
Fréttamaður að tala við Eyþór Þrastarson sundmann: „Hvernig líst þér svo á Kína? Æ, ég veit það ekki, ég hef ekki séð neitt af því ennþá!!“

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Fimmtudagur 4. september 2008 14:07
6500 fjölmiðlamenn munu fylgjast með Ólympíumótinu

Laugardaginn 6. september næstkomandi verður Ólympíumót fatlaðra sett í Peking í Kína og mun það standa fram til 17. september. Alls eru 6500 fjölmiðlamenn staddir í Kína og munu þeir gera Ólympíumótinu góð skil en aldrei áður hafa jafn margir starfsmenn fjölmiðla verið við Ólympíumót fatlaðra.

Íslenski hópurinn hélt áfram æfingum sínum í dag og er óðum að fá betri og sterkari tilfinningu fyrir leikvöngunum þar sem greinarnar fara fram. Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra Íslands hélt af stað áleiðis til Peking í dag ásamt þeim Sveini Áka Lúðvíkssyni formanni ÍF, Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur framkvæmdastjóra fræðslu- og útbreiðslusviðs og Special Olympics á Íslandi. Þá var Þórður Árni Hjaltested einnig með í för en hann er ritari stjórnar ÍF. Hæstvirtri Jóhönnu til halds og trausts í ferðinni verða þau Hrannar Björn Arnarsson aðstoðarmaður ráðherra og Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri.

Þetta fríða föruneyti er væntanlegt til Peking á morgun og mun þá m.a. vera viðstatt mótttökuhátíð íslenska liðsins inni í Ólympíuþorpinu sem hefst kl. 18:00 að staðartíma eða kl. 10:00 á morgun.

Á meðfylgjandi mynd sést hvar Jón Oddur Halldórsson fær meðferð hjá Ludvig Guðmundssyni lækni ÍF í ferðinni. Jón Oddur mun keppa í 100m spretthlaupi þann 13. september næstkomandi. Hlaupinu hjá Jóni var breytt af mótshöldurum og það fært frá 12. september til 13. september.

Gullkorn dagsins er í boði Jóns Odds Halldórssonar: Betlarar geta ekki verið vandfýsnir.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Miðvikudagur 3. september 2008 15:35
Íslenski hópurinn hóf æfingar í dag

Íslenska keppnishópnum var ekki til setunnar boðið í dag og hóf æfingar í og við keppnisstaði sína á Ólympíumótinu í Peking en keppni hefst þann 7. september næstkomandi. Fyrst í röðinni er Sonja Sigurðardóttir sem syndir í 50m baksundi þann 8. september.

Ingi Þór Einarsson annar tveggja sundþjálfara Íslands í ferðinni var með sundfólkinu við æfingar í Vatnsteningnum í dag og bar hann sundhöllinni góða söguna;

,,Sundliðið æfði í vatnsteningnum. Höllin er svakaleg, einu orði sagt, auðvitað er laugin bara 25*50 m og hún er full af vatni, en það er svo margt annað í kring, sem spilar inni í. Það væri hægt að æfa fallhlífarstökk úr loftinu og skíðastökk úr stúkunni. Eyþóri og Sonju fannst svakalega gott að synda í lauginni og fundu sig mjög vel, þrátt fyrir að vera ennþá með ferðaþreytu. Við erum öll spennt fyrir framhaldinu,'' sagði Ingi en sundhópurinn æfir aftur í keppnislauginni í hádeginu á morgun.

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Þriðjudagur 2. september 2008 16:52
Íslenski hópurinn kominn til Peking

Íslenski Ólympíuhópurinn er mættur til Peking í Kína þar sem Ólympíumót fatlaðra fer fram dagana 6.-17. september næstkomandi. Hópurinn lagði snemma af stað á mánudagsmorgun og eftir átta klukkustunda bið í Danmörku eftir tengiflugi var loks lagt af stað í lokaáfangann. Ólafur Magnússon aðalfararstjóri í ferðinni og framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs ÍF tók á móti hópnum ásamt Axeli Nikulássyni starfsmanni íslenska sendiráðsins í Kína en Axel er tengiliður íslenska hópsins við framkvæmdanefnd leikanna. Þá voru félagarnir Adolf Ingi Erlingsson og Óskar Nikulásson einnig viðstaddir komu hópsins á flugvellinum og ræddu við ferðalangana.

Nánar

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Laugardagur 30. ágúst 2008 20:07
Ólympíuþorpið opnar

Senn líður að því að 13. Ólympíumót fatlaðra verði sett í Peking í Kína en opnunarhátíð mótsins fer fram þann 6. september n.k. Undirbúningur framkvæmdaaðila Ólympíumótsins er í fullum gangi og líkt og á Ólympíuleikunum leggja Kínverjar mikið á sig til að allur aðbúnaður verði sem bestur fyrir þátttakendur og aðra þá er að mótinu koma. Keppni í hinum ýmsu greinum Ólympíumótsins fer fram á sömu leikvöngum og notaðir voru á Ólympíuleikunum og keppendur og aðrir búa í Ólympíuþorpinu líkt og þátttakendur á nýafstöðnum Ólympíuleikum. Þannig verður Ólympíuþorpið frá 1. – 18. september heimili 7.383 einstaklinga, þar af 4.099 íþróttamanna. Íslensku þátttakendurnir koma til Peking þann 2. september n.k. og verða þeir formlega boðnir velkomnir í þorpið í móttökuathöfn sem fram fer þann 5. september n.k.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | Föstudagur 29. ágúst 2008 23:09
Fengu Canon myndavélar að gjöf fyrir Kínaferðina

Fengu Canon myndavélar að gjöf fyrir Kínaferðina

Nýherji hefur fært öllum íslenskum keppendunum, sem halda á Ólympíumót fatlaðra í Peking í Kína, Canon Ixus myndavélar. Markmiðið með gjöfinni er að gera keppendum mögulegt að fanga þann stórviðburð sem Ólympíumótið er. Þá fengu keppendur einnig minniskort fyrir myndavélarnar svo þeir eigi þess kost að taka eins margar myndir frá ferðinni og kostur er.

Ólympíumót fatlaðra hefst 6. september í Kína. Íslendingar eiga tvo fulltrúa í frjálsíþróttum, tvo í sundi og einn lyftingamann.

”Við erum full tilhlökkunar til ferðarinnar og keppninnar. En þrátt fyrir mikinn keppnisanda ætlum við einnig að njóta þess að vera hluti af jafn stórum leikum og Ólympíuleikar fatlaðra eru og viljum taka með okkur góðar minningar heim. Gjöfin frá Nýherja mun því án ef koma keppendum í góðar þarfir því þeir munu eflaust taka myndir af hvort öðru, borginni og keppninni eins og kostur er,” segir Jón Björn Ólafsson hjá Íþróttasambandi fatlaðra.

 
Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 27. ágúst 14:24
Ólympíumótsfarar kvaddir með virktum
Rúmfatalagerinn stóð í gær að veglegu kveðjuhófi fyrir þá fimm íþróttamenn sem dagana 6.-17. september næstkomandi munu taka þátt í Ólympíumóti fatlaðra í Beijing í Kína. Undirbúningur keppenda er nú á lokastigi og mánudaginn 1. september mun hópurinn halda áleiðis út en opnunarhátíð Ólympíumóts fatlaðra fer fram kl. 18:00 að staðartíma þann 6. september. Aðalfararstjóri í ferðinni verður framkvæmdastjóri afreks- og fjármalasviðs ÍF, Ólafur Magnússon, en í dag hélt hann áleiðis til Beijing að undirbúa komu hópsins.

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 22. ágúst 13:47
Íslandsmet í 200m flugsundi í Póllandi
Evrópumeistaramóti þroskaheftra í sundi lauk í Póllandi í gær þar sem Hafnfirðingurinn Karen Björg Gísladóttir nældi sér í silfurverðlaun í 200m flugsundi á tímanum 3.05,86 og setti um leið nýtt Íslandsmet. Glæsilegur árangur hjá þessari öflugu sundkonu.

Vinkona Karenar, Hulda Hrönn Agnarsdóttir, keppti í 50m baksundi og 100m skriðsundi í. Hún synti í undanrásum á tímanum 41,63 og varð sjöunda inn í úrslit. Hún synti svo í úrslitunum á 40,42 og varð fjórða sem var nokkuð svekkjandi því sú sem var í 3. sæti var á tímanum 40,41 en Hulda var vel sjáanlega á undan henni en átti miður góða innkomu í bakkann. Í skriðinu var Hulda á tímanum 1.13,83 í undanrásum og sjöunda í úrslit en synti svo á 1.13,61 og varð fimmta.
Karen synti 200m flugsundið bara í úrslitum á tímanum 3.05,86, varð í 2. sæti á nýju Íslandsmeti.

Íslenski hópurinn landaði því einum silfurverðlaunum í Póllandi og fjórum bronsverðlaunum. Hópurinn er væntanlegur heim í dag.

Til hamingju stelpur!

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 21. ágúst 12:26
Réttindanámsskeið í sjúkraþjálfun á hestbaki
Þessa dagana er haldið námskeið til réttinda í kennslu í sjúkraþjálfun á hestbaki. Tveir af sjúkraþjálfurum Æfingastöðvar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, þær Guðbjörg Eggertsdóttir og Þorbjörg Guðlaugsdóttir standa fyrir námskeiðinu. Auk þeirra kenna Sigrún Sigurðardóttir reiðkennari og Ulrika Stengaard-Olson reiðsjúkraþjálfari frá Svíþjóð. Námskeiðið stendur í fimm daga og er þetta fyrri hluti námskeiðsins. Seinna námsskeiðið verður svo að líkindum haldið að ári. Veðrið hefur verðið mjög gott þessa daga sem námskeiðið hefur verið í gangi og hafa þátttakendur lært að beita hinum ýmsu kúnstum við hestamennskuna. Námskeiðinu lýkur á föstudaginn.
Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 21. ágúst 10:33
Karen landaði bronsi í 400m. fjórsundi
Þriðja keppnisdegi á Evrópumóti þroskaheftra í sundi lauk í gær þar sem íslensku keppendurnir lönduðu fjórðu bronsverðlaununum sínum. Karen Björg Gísladóttir frá sundfélaginu Firði í Hafnarfirði synti í 400m. fjórsundi á tímanum 6.22,45 mín. og hafnaði í 3. sæti.

Hulda Hrönn Agnarsdóttir einnig úr Firði synti í 100m. baksundi og bætti tímann sinn verulega í undanrásum á 1.27,86 mín. og var sjötta inn í úrslit. Hulda gerði því miður ógilt í úrslitum er hún taldi of lítið inn í bakkann og náði ekki að spyrna sér í hann.

Íslensku keppendurnir hafa því unnið til fjögurra bronsverðlauna og fer lokakeppnisdagur mótsins fram í dag.

Við sendum stelpunum baráttukveðjur út til Póllands en í dag keppir Karen í 200m. flugsundi og Hulda í 50m. baksundi og 100m. skriðsundi.

Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 20. ágúst 12:21
Tvenn bronsverðlaun í Póllandi í gær
Í gær kepptu þær Karen og Hulda báðar í sömu greinunum, 50m flugsundi og 200m fjórsundi á EM þroskaheftra sem nú fer fram í Póllandi.

50m flug: Hulda synti á 37,96 (átti 36,96) og varð í 10. sæti og komst því ekki í úrslit. Karen synti á 35.27 (á best 34.20 sem er íslandsmet) og var önnur inn í úrslit. Í úrslitum synti Karen á 35,29 og varð í þriðja sæti.
200m fjórsund: Hulda synti á tímanum 3.14,99 (átti 3.06,13) og varð áttunda inn í úrslit. Hulda synti svo á 3.10,74 og varð sjöunda í úrslitum. Karen synti á tímanum 2.59,71 sem er bæting um 5 sek. og varð hún þriðja inn í úrslit. Í úrslitum var hún svo á 3.00,32 og varð í 3. sæti. Sem sagt tvö brons í gær og hópurinn ánægður með árangurinn.
Allir í góðu formi og miklu stuði.
Kveðja,
Inga Maggý, Ingi Þór, Hulda Hrönn og Karen Björg

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 19. ágúst 10:33
Bronsverðlaun á fyrsta degi
Fyrsta keppnisdegi á Evrópumeistaramóti þroskaheftra í sundi lauk í gær þar sem Ísland landaði einum bronsverðlaunum þegar Karen Björg Gísladóttir syndi 100m. flugsund á tímanum 1.20,74 í undanrásum og svo í úrslitum á 1.20,45 og varð í 3 sæti.

Hulda Hrönn Agnarsdóttir og Karen syntu báðar í 50m. skriðsundi í gær. Hulda synti á tímanum 33.36 og var áttunda inn í úrslit. Karen synti á 32.51 og var sjötta inn í úrslit. Í úrslitunum synti Hulda mjög vel, varð í 6. sæti á tímanum 32,42 sem er bæting. Karen synti á sama tíma og um morguninn (32,51) og varð sjöunda.

Íslenski hópurinn nýtur sín vel í Póllandi og ætla sér mikla hluti í dag.

Íþróttasamband Fatlaðra | mánudagur 18. ágúst 18:08
Vegleg gjöf frá EJS
Lokaundirbúningur Íþróttasambands fatlaðra stendur nú sem hæst fyrir Ólympíumót fatlaðra sem fram fer í Peking í Kína dagana 6.-17. september næstkomandi. Tölvuverslunin EJS kom færandi hendi af því tilefni og gaf ÍF veglega ferðatölvu ásamt tösku utan um vélina í tilefni af Ólympíumóti fatlaðra. Þessi rausnarlega gjöf kemur sér einkar vel fyrir sambandið varðandi fréttaflutning af íslensku keppendunum á Ólympíumótinu enda um hágæða búnað að ræða frá EJS.

Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF og aðalfararstjóri í ferðinni til Peking tók við gjöfinni frá Steinunni Mörtu Gunnlaugsdóttur verslunarstjóra EJS á Grensásvegi.

Íþróttasamband fatlaðra færir EJS bestu þakkir fyrir þennan ómetanlega stuðning.

Heimasíða EJS: http://ejs.is



Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 13. ágúst 15:50
Í góðri trú
Ólympíumót fatlaðra fer fram í Peking í Kína dagana 6.-17 september næstkomandi og munu fimm íslenskir keppendur reyna með sér á leikunum. Ljóst er að kostnaður Íþróttasambands fatlaðra við þátttökuna í mótinu eru umtalsverður og því hefur rúmlega 3000 fyrirtækjum á Íslandi verið sent bréf ''Í góðri trú.''

Nú þegar lokaundirbúningur stendur sem hæst langar íslensku keppendurna að leita eftir styrk frá þessum rúmlega 3000 fyrirtækjum að upphæð 5000,- kr. eða því sem nemur 1000,- kr. á hvern keppanda. Um leið og greitt er fyrir greiðsluseðilinn öðlast viðkomandi hlutdeild í afrekum þessa mikla íþróttafólks.

Fatlaðir íslenskir íþróttamenn hafa á undanliðnum árum vakið aðdáun og eftirtekt vegna framgöngu sinnar á stórmótum erlendis.

Þá er öllum þeim sem ekki fá greiðsluseðlana senda í pósti frjálst að leggja þessu öfluga íþróttafólki lið með frjálsum framlögum á neðangreindum reikningi.

Í Peking gerum við okkar besta og treystum á stuðning þinn!

Bankanr.
0313-26-4396
kt: 620579-0259

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 12. ágúst 15:50
ÍF hvetur alla til að fjölmenna í Reykjavíkurmaraþon Glitnis
Á Menningarnótt í Reykjavík fer jafnan fram Reykjavíkurmaraþon Glitnis. Laugardaginn 23. ágúst næstkomandi fer maraþonið fram þar sem hægt verður að hlaupa í Latabæjarhlaupinu, 1,0km, 3 km, 10 km, 21 km og 42 km.
Maraþonhlaupið er opið öllum 18 ára og eldri. Hálfmaraþonhlaupið er opið hlaupurum 16 ára og eldri. Aldurstakmark í 10 km hlaup er 12 ára og eldri. Skemmtiskokkið eru öllum opið.

Nú getur þú skráð þig í Reykjavíkurmaraþon Glitnis því skráningar eru hafnar á vefsíðunni www.marathon.is Það er skynsamlegt að skrá sig sem fyrst því skráningargjöldin breytast eftir því sem nær dregur hlaupi. Í leiðinni getur þú valið þér góðgerðarfélag, sem þú vilt hlaupa fyrir og safna áheitum fyrir. Allir geta hlaupið til góðs í ár og látið gott af sér leiða.

Íþróttasamband fatlaðra hvetur sem flesta innan sinna vébanda til þess að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninun en Glitnir og Íþróttasamband Fatlaðra undirrituðu á dögunum nýjan samstarfssamning. Hann felur í sér áframhaldandi stuðning Menningarsjóðs Glitnis við starfsemi sambandsins og Special Olympics á Íslandi en bankinn hefur verið aðalstyrktaraðili Special Olympics á Íslandi frá árinu 2001.

Heimasíða Reykjavíkurmaraþonsins http://www.glitnir.is/marathon

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 12. ágúst 15:42
Karen og Hulda halda til keppni í Póllandi
Tveir íslenski þátttakendur verða á meðal keppenda á Evrópumeistaramóti þroskaheftra í sundi sem fram fer í Ostrowiec Swietokrzyski, 180 km fyrir sunnan Varsjá í Póllandi dagana 18.-21. ágúst. Keppendurnir sem synda fyrir Íslands hönd koma báðar úr Firði í Hafnarfirði og heita þær Karen Björg Gísladóttir og Hulda Hrönn Agnarsdóttir.

Fyrir ári síðan tóku þessar tvær stúlkur þátt á HM í Belgíu og stóðu sig með mikilli prýði. Þar setti Karen 9 Íslandsmet og fékk þrjú bronsverðlaun; í 50m og 100m flugsundi og 400m fjórsundi. Hulda átti einnig góðu gengi að fagna á mótinu og bætti tímann sinn í fjórum greinum.

Þjálfarar í ferðinni verða þau Inga Maggý Stefánsdóttir og Ingi Þór Einarsson.

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 6. ágúst 22:58
IPC gangsetur nýja síðu á Youtube
Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) hefur heldur betur bætt við sig snúningi undanfarið og hafa komið á laggirnar sinni eigin vefsíðu innan vébanda Youtube. Frá og með deginum í dag verður hægt að fara inn á www.YouTube.com/ParalympicSportTV og fylgjast með svipmyndum úr íþróttalífi fatlaðra. Hægt verður að fylgjast grannt með fjölmörgum íþróttagreinum, gerast áskrifandi og leggja orð í belg á þessari nýju síðu Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra.
Á meðan á Ólympíumóti fatlaðra stendur í Peking mun þessi nýja vefsíða IPC vera vel uppfærð af helstu viðburðum hvers dags á meðan á mótinu stendur.

Íþróttasamband Fatlaðra | laugardagur 26. júlí 01:07
Steini sterki: Gerði mér ekki í hugarlund að þetta tækist [frétta af mbl.is]
Ísland sendir fimm íþróttamenn til keppni á Ólympíumóti fatlaðra sem fram fer í september í höfðuborg Kína, Peking. Þar af eru tveir sundmenn og tveir frjálsíþróttamenn, en einnig kraftlyftingamaðurinn Þorsteinn Magnús Sölvason, eða Steini sterki eins og hann er kallaður, sem keppir í bekkpressu.

NánarÍsland sendir fimm íþróttamenn til keppni á Ólympíumóti fatlaðra sem fram fer í september í höfðuborg Kína, Peking. Þar af eru tveir sundmenn og tveir frjálsíþróttamenn, en einnig kraftlyftingamaðurinn Þorsteinn Magnús Sölvason, eða Steini sterki eins og hann er kallaður, sem keppir í bekkpressu.

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | laugardagur 26. júlí 00:49
Sáttur meðal sex bestu [frétt af dv.is]
Íþróttasamband fatlaðra tilkynnti í gær hópinn sem mun taka þátt á Ólympíumóti fatlaðra fyrir hönd Íslands í Peking dagana 6.-17. september. Jón Oddur Halldórsson tvöfaldur silfurverðlaunahafi frá síðustu leikum er á meðal keppenda.

Þótt hann sé ungur að árum er spretthlauparinn Jón Oddur Halldórsson reyndastur keppenda.,,Ég er orðin mjög spenntur. Undirbúningurinn hefur gengið vel og þetta stefnir allt í rétta átt,''sagði Jón Oddur við DV í gær.

,,Ég hef ekki verið að ná mínu besta akkúrat núna en ég er að nálgast það. Það er möguleiki að ég verði upp á mitt besta á Ólympíuleikunum en ég þori nú ekki að fullyrða það,'' sagði Jón Oddur og bætti við glettinn:''Það eru engin nákvæm vísindi í þessu.''

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 23. júlí 16:21
ÍF kynnir keppendur á Ólympíumótinu í Peking
Íþróttasamband fatlaðra stóð að blaðamanna- og kynningarfundi á keppendum sínum sem taka þátt á Ólympíumótinu í Peking dagana 6.-17. september næstkomandi. Fundurinn fór fram á Radisson SAS Hóteli Sögu og var vel sóttur.

Þeir sem keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíumótinu eru eftirfarandi:

Jón Oddur Halldórsson, Reynir/Víkingur, 100 metra hlaup
Baldur Ævar Baldursson, Snerpa, langstökk
Sonja Sigurðardóttir, ÍFR, 50 metra baksund
Eyþór Þrastarson, ÍFR, 400 metra skriðsund og 100 metra baksund
Þorsteinn Magnús Sölvason, ÍFR, bekkpressa

Hópurinn heldur ytra þann 1. september n.k. og er áætluð heimkoma þann 18. september.

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 23. júlí 16:18

Íslandsmót í einliðaleik í boccia fært til
Vegna kröfu frá ÍTR og ÍBR verður Íþróttasamband fatlaðra að færa til Íslandsmótið í Boccia í einliðaleik um eina viku með öllum þeim óþægindum sem það kann að valda. Mótið er nú á dagskrá helgina 25.26. október í Laugardalshöll.

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 22. júlí 12:16
Pistorius keppir ekki á Ólympíuleikunum [frétt af mbl.is]
Suður-afríski hlauparinn Oscar Pistorius, sem missti báða fæturna á unga aldri en notar gervifætur frá stoðtækjaframleiðandanum Össuri, fær ekki draum sinn uppfylltan að keppa á Ólympíuleikunum í Peking í næsta mánuði.
Pistorius mistókst í fyrrakvöld að vinna sér keppnisréttinn í 400 metra hlaupi á úrtökumóti þegar hann kom í mark á 46,25 sekúndum en lágmarkið var 45,55 sek. Hann hélt hins vegar í þá von að verða boðið að vera í boðhlaupssveit Suður-Afríkumanna í 4x400 metra hlaupinu á leikunum en varð ekki að ósk sinni.
Í dag greindi Leonard Chuene, forseti frjálsíþróttasambands Suður-Afríku, frá því að Pistorius hefði ekki orðið fyrir valinu og muni þar af leiðandi ekki keppa á Ólympíuleikunum þar sem fjórir aðrir hlauparar eru með betri tíma en Pistorius.

Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 9. júlí 00:35
Vel heppnuð ferð í Blinda Kaffihúsið
Föstudaginn 4. júlí síðastliðinn snæddi fjöldi manns á vegum Íþróttasambands fatlaðra í blindu kaffihúsi að Hamrahlíð 17 í Reykjvík. Þarna var saman kominn hluti hópsins sem viðstaddur verður Ólympíumót fatlaðra í Peking í september á þessu ári. Bæði keppendur, fararstjórar og aðrir létu vel af þessari reynslu sem svo sannarlega var athyglisverð tilbreyting frá hversdagslífinu.

Það er Ungmennadeild Blindrafélagsins sem stendur að blinda kaffihúsinu í Hamrahlíð en opið er mánudaga til föstudaga frá kl. 11 til 15 og laugardaga frá kl. 12-16.

Borða pantannir eru í síma 525 0034 og 895 8582.

Nánar (myndir)

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 4. júlí 11:25
Glitnir áfram aðalbakhjarl Special Olympics á Íslandi
Glitnir og Íþróttasamband Fatlaðra undirrituðu á dögunum samstarfssamning sem felur í sér áframhaldandi stuðning Menningarsjóðs Glitnis við starfsemi sambandsins og Special Olympics á Íslandi en bankinn hefur verið aðalstyrktaraðili Special Olympics á Íslandi frá árinu 2001.

Starfsemi Special Olympics á Íslandi hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og skemmst er að minnast vel heppnaðrar þátttöku á Alþjóðaleikunum í Shanghai í Kína í október á síðasta ári. Alls tóku þátt 32 keppendur frá Íslandi, á aldrinum 12-47 ára. Verkefnin framundan eru ekki síður spennandi en Special Olympics á Íslandi hefur staðið fyrir Íslandsleikum í frjálsum íþróttum og knattspyrnu og næstu leikar verða haldnir á Akureyri 13. september 2008. Árlega eru haldnir Íslandsleikar í knattspyrnu, innan- og utanhúss í samstarfi við Knattspyrnusamband Íslands. Knattspyrnumótið innanhúss er haldið í tengslum við Evrópuviku Special Olympics í samstarfi við UEFA.

Mynd:Sveinn Áki Lúðviksson, formaður IF og Lárus Welding, bankastjóri

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 1. júlí 00:09
Síðustu sparkvallaæfingunni lokið í bili
Um síðustu helgi fór fram síðasta sparkvallaæfing á vegum ÍF og KSÍ og að vanda var fjörugur hópur á ferðinni. Að þessu sinni mætti landsliðskonan Sif Atladóttir og var iðkendum innan handar á æfingunni. Að sjálfsögðu bretti Sif upp ermar þegar kom að því að spila á æfingunni og sýndi þá inn á milli hvers hún er megnug.

Tilgangur þessa verkefnis á vegum ÍF og KSÍ er að auka áhuga og þátttöku fatlaðra karla og kvenna í knattspyrnu. Síðar í haust er ráðgert að fleiri æfingar verði haldnar í Sparkvallaverkefni ÍF og KSÍ og munu þær verða auglýstar þegar nær dregur landsleikjum A-landsliðs karla í knattspyrnu. Áætlað er að næstu æfingar verði í kringum landsleikina og þá munu nokkrir af leikmönnum landsliðsins verða viðstaddir æfingarnar.

Myndir frá síðustu æfingunni

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 27. júní 21:05
Metþátttaka í sumarbúðum ÍF
Sumarbúðir Íþróttasambands Fatlaðra standa nú sem hæst á Laugarvatni og hefur þátttakan í sumarbúðunum aldrei verið meiri en einmitt nú. Alls eru 104 þátttakendur í sumarbúðunum þetta árið en fleiri sóttu um en því miður komust ekki allir að þetta sumarið.

Í sumarbúðunum er margt hægt að hafa fyrir stafni s.s. göngu- og hestaferðir, fara í sund og hina ýmsa leikið bæði utan- og innandyra að ógleymdum kvöldvökunum skemmtilegu.

Laugardaginn 28. júní hófst síðara námskeiðið en sumarbúðirnar standa yfir í tvær vikur á hverju sumri. Tæplega þriggja ára tuga reynsla er komin á sumarbúðirnar og það leyndi sér ekki á iðkendum að þau höfðu beðið í töluverðan tíma eftir því að komast á Laugarvatn þetta sumarið.
Myndir
Heimasíða sumarbúðanna

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 27. júní 20:53
Sparkvallaverkefni ÍF og KSÍ í fullum gangi
Í síðasta ári hófu Íþróttasamband fatlaðra og Knattspyrnusamband Ísland með sér samstarf sem fékk heitið Sparkvallaverkefni ÍF og KSÍ. Sparkvallaverkefnið þótti takast með ágætum á síðasta ári. Áframhald hefur verið á því í sumar og verður á komandi mánuðum. Tilgangur þessa verkefnis er að auka áhuga og þátttöku fatlaðra karla og kvenna í knattspyrnu.
Verkefnið hefur gengið þannig fyrir sig að opnar æfingar hafa verið haldnar á sparkvellinum við Laugarnesskóla og hafa þrjár slíkar æfingar verið haldnar í sumar, 15. júní, 22. júní og 28. júní. Í öll skiptin hafa landsliðsmenn úr A-landsliði kvenna í knattspyrnu sótt æfingarnar og tekið virkan þátt, m.a. Edda Garðarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir, Ásta Árnadóttir og Rakel Hönnudóttir. Æfingarnar voru haldnar í tengslum við landsleiki kvennalandsliðsins í undankeppni Evrópumótsins. Leiðbeinendur á æfingunum voru íþróttafræðingarnir Marta Ólafsdóttir og María Ólafsdóttir.
Síðar í haust verða haldnar fleiri æfingar í tengslum við leiki hjá A-landsliði karla. Karlalandsliðið leikur í undankeppni heimsmeistaramótsins hér heima í september og október. Áætlað er að halda æfingar í kringum þá og munu nokkrir af leikmönnum karlaliðsins mæta á æfingarnar. Eins og fyrr segir er um opnar æfingar að ræða, allir geta verið með, byrjendur sem lengra komnir, stelpur og strákar.
Myndir
Myndband frá æfingunni (á vef KSÍ)

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 24. júní 00:34
Vel heppnaðar æfingabúðir að Laugarvatni
Sameiginlegar æfingabúðir þátttakenda á Evrópumeistaramóti þroskaheftra í sundi og væntanlegra Ólympíumótsfara fóru fram á Laugarvatni um síðustu helgi og tókust með miklum ágætum. Evrópumeistaramótið fer fram í Ostrowiec í Póllandi 17.-21. ágúst n.k. og Ólympíumótið 6.-17. september n.k. í Peking.

Brian Marshall fyrrum landsliðsþjálfari SSÍ hélt fyrirlestur um hópefli og í kjölfarið setti hópurinn sér markmið á fyrirlestrinum. Bæði einstaklings- og hópamarkmið.

Keppendur á Evrópumótinu 17.-21. ágúst:
Karen Björg Gísladóttir, Fjörður
Hulda Hrönn Agnarsdóttir, Fjörður

Hópur Ólympíufara á vegum ÍF verður kynntur til leiks síðar í tengslum við útgáfu Hvata, tímarits ÍF.

Myndir

Íþróttasamband Fatlaðra | mánudagur 23. júní 23:52
Sumarhátíð CP félagsins
Hin árlega sumarhátíð CP félagsins fer fram í Reykholti í Biskupstungum helgina 4.-6. júlí næstkomandi. Boðið verður uppá stæði fyrir tjaldið eða gistingu í svefnpokaplássi. Þeir sem ekki vilja gista geta keyrt á staðinn að morgni laugardags og til baka um kvöldið. Sama gamla verðið, kr 2.500.- fyrir fullorðna, 1.500.- fyrir 6-12 ára og frítt fyrir yngstu börnin. Tökum VISA og EURO.

Pokasjóður, Ölgerð Egils og Bláskógabyggð styrkja hátíðina í ár. Innifalið í verðinu á sumarhátíðina er hreinlega allt sem hér að ofan er talið þ.e. tjaldaðstaða eða gisting í svefnpokaplássi í Reykholtsskóla, grillaðstaða á föstudag, sund, kaffihlaðborð, glæsilegur kvöldverður, skemmtun, dans og aðgangur að dýragarðinum í Slakka.

Skráið ykkur sem fyrst á www.cp.is eða í síma 691-8010 (Ásdís).

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku fyrir 1. júlí.

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 19. júní 14:38
Veglegur styrkur frá Lionsklúbbnum Eir
Lionsklúbburinn Eir kom færandi hendi á dögunum og afhenti Íþróttasambandi Fatlaðra styrk að upphæð 50.000,- kr. Styrkinn afhentu þær Guðríður Hafsteinsdóttir og Guðný Kristjánsdóttir frá Eir en þau Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Camilla Th. Hallgrímsson veittu styrknum móttöku.

Styrkurinn var afhentur þann 7. júní síðastliðinn á Íþróttaleikvanginum í Laugardal þegar Íslandsmót ÍF í frjálsum íþróttum fór fram. Styrkurinn var ætlaður til nota við Pekingferð keppenda á vegum ÍF sem halda til keppni á Ólympíumóti fatlaðra í Kína dagana 6.-17. september næstkomandi.

Íþróttasamband Fatlaðra færir Eir sína bestu þakkir fyrir.

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 19. júní 14:32
Jóhann með silfur í Rúmeníu
Opna rúmenska borðtennismótið fór fram um síðastliðna helgi í Rúmeníu þar sem borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson úr NES var meðal þátttakenda. Jóhann keppti í bæði einliða- og tvíliðaleik og nældi sér í silfur í tvíliðaleiknum.

Í opnum flokki mætti Jóhann ítölskum keppanda og lagði hann 3-1 og þar á eftir mætti hann sterkum ísraelskum spilara og sá vart til sólar og mátti sætta sig við 3-0 ósigur.

Í liðakeppninni spilaði Jóhann með Rússa og höfnuðu þeir í 2. sæti, töpuðu fyrir Slóvökum í úrslitum 1-3 þar sem að Jói vann einn leik. Þeir töpuðu ekki leik á leiðinni í úrslitin en máttu eins og fyrr segir sætta sig við silfrið.

Í einliðaleiknum var Jói með Evrópumeistaranum í riðli og ítölskum spilara. Hann spilaði fyrst við EM meistarann og tapaði 1-3 í hörkuleik en Jói hefur ekki unnið lotu af þessum spilara í mjög langan tíma. Síðan kom öruggur 3-1 sigur gegn Ítalanum og í útsláttarkeppninni lenti Jói á móti Rússanum og tapaði 1-3 þar sem að Jói vann fyrstu lotuna og rétt tapaði næstu og það hefði getað breytt einhverju. Fyrir vikið hafnaði Jóhann í 5.-6. sæti í einliðaleiknum.

Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 18. júní 11:17
Sparkvallarverkefni ÍF og KSÍ - 1. æfing
Fyrsta æfing af þremur í Sparkvallarverkefni ÍF og KSÍ fór fram á sparkvellinum við Laugarnesskóla þann 15. júní sl. Sérstakir gestir á æfingunni voru landsliðs- og KR-konurnar Edda Garðarsdóttir og Hólmfríður Magúsdóttir. Léku þær listir sínar með þátttakendum á æfingunni og kenndu þeim ýmislegt í göldrum knattspyrnunnar enda engir aukvisar á þar á ferð. Þótti æfingin takast vel og vakti almenna ánægju meðal þátttakenda.
Í lok æfingarinnar buðu þær stöllur, Edda og Hólmfríður, þátttakendum á landsleik Íslands og Slóveníu í undankeppni EM kvenna sem fram fer á Laugardalsvelli 21. júní n.k.
Önnur æfing verður haldinn á sama stað sunnudaginn 22. júní og sú þriðja laugardaginn 28.júní en æfingarnar eru settar á í tengslum við landsleiki íslenska kvennalandsliðsins.
Sem fyrr verða æfingarnar frá kl. 10.00 til 12.00 og leiðbeinendur þær Marta Ólafsdóttir og María Ólafsdóttir.
Myndir frá æfingunni.

Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 18. júní 10:52
Meistararitgerð
Nýlega varði Ingi Þór Einarsson, formaður sundnefndar ÍF, meistararitgerð sína sem nefnist A COMPARISON OF RACE PARAMETERS IN ICELANDIC SWIMMERS WITH AND WITHOUT INTELLECTUAL DISABILITIES eða “Samanburður á keppnisframmistöðu íslenskara sundmanna með og án þroskahömlunar”.
Án efa mun ritgerðin opna augu manna varðandi mismun sundþjálfunar sundmanna með og án þroskahömlunar og verða innlegg í umræðu sem leiðir til lausnar deilu sem staðið hefur um flokkun þroskaheftra íþróttamanna á alþjóðavísu.

Til hamingju Ingi Þór

Íþróttasamband Fatlaðra | mánudagur 16. júní 16:08
Sameiginlegar æfingabúðir
Sameiginlegar æfingabúðir þátttakenda á Evrópumeistaramóti þroskaheftra í sundi og væntanlegra Ólympíumótsfara verða haldnar á Laugarvatni 21. -22. júní n.k.
Evrópumeistaramótið fer fram í Ostrowiec í Póllandi 17. - 21. ágúst n.k. og Ólympíumótið 6. - 17. september n.k. í Peking. Undirbúningur vegna þessara móta er í fullum gangi og góður stígandi í líkamlegu "formi" þeirra.
Einn Ólympíumóts"kandidatana", Jón Oddur Halldórsson spretthlaupari í flokki T35, er nú kominn á fullt skrið í undirbúningi sínum fyrir mótið í haust. Jón hefur nú keppt á þremur mótum til þessa og hefur bætt sig í hverju hlaupinu á fætur öðru. Laugardaginn 7. júní var Íslandsmót ÍF í frjálsum á Laugardalsvelli þar sem Jón hljóp 100 metrana á 15,31 sek með mótvind uppá 3,5 metra á sekúndu. Síðan hljóp hann 100m á héraðsmóti HSK á Laugarvatni á tímanum 14,45 sek með mótvind uppá 1,9 m/s. Síðasta keppni Jóns Odds var svo á vormóti ÍR þar sem hann fékk loks hagstæðar aðstæður + 1,2 m/s og tímann 13,72 sek. Jón æfir nú undir stjórn Kára Jónssonar og heldur mikið til á Laugarvatni við æfingar í sumar og er greinilega að ná sínum fyrri styrk á brautinni.

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 10. júní 19:14
Sparkvallaverkefni Íþróttasambands Fatlaðra og Knattspyrnusambands Íslands 2008
Sparkvallaverkefni ÍF og KSÍ hófst árið 2007 og ákveðið hefur verið að halda verkefninu áfram og standa fyrir þremur æfingum í júní 2008. Tilgangur þessa verkefnis er að auka áhuga og þátttöku fatlaðra karla og kvenna í knattspyrnu.

Opnar æfingar verða á sparkvellinum við Laugarnesskóla sunnudaginn 15. júní, sunnudaginn 22. júní og laugardaginn 28.júní en æfingarnar eru settar á í tengslum við landsleiki íslenska kvennalandsliðsins.

Æfingar verða frá kl. 10.00 til 12.00. Leiðbeinendur verða: Marta Ólafsdóttir og María Ólafsdóttir

Allir þátttakendur 14. júní fá 2 miða á landsleik Íslands gegn Slóveníu og 22.júní 2 miða á landsleik Íslands og Grikklands
Einnig fá þátttakendur peysu meðan birgðir endast sem þeir verða í á landsleiknum.

Allir geta verið með, byrjendur sem lengra komnir, stelpur og strákar.

Sjá auglýsingu

Íþróttasamband Fatlaðra | sunnudagur 8. júní 23:55
Íslandsmót ÍF 2008 í frjálsum og sundi
Á Laugardalsvelli fór Íslandsmót ÍF í frjálsum íþróttum utanhúss með þátttöku keppenda frá sex félögum. Ágætis árangur náðist þrátt fyrir að verðurguðirnir gerðu keppendum lífið leitt. Mesta athygli vakti þátttaka og árangur þriggja ungra og efnilegra íþróttamanna, þeirra Ingeborgar Garðarsdóttur, ÍFR, sem keppir í telpnaflokki í flokki hreyfihalmaðra, Sigurjóns Sigtryggssonar, Snerpu, sem keppir í piltaflokki og Jakobs Lárussonar, NES, sem keppir í drengjaflokki en þeir keppa báðir í flokki þroskaheftra. Vonandi er þátttaka þessara ungmenna vísir að auknum fjölda frjálsíþróttafólks í íþróttum fatlaðra. Meðal keppenda voru einnig þeir Jón Oddur Halldórsson, Reyni og Baldur Ævar Baldursson sem báðir hafa náð lágmörkum fyrir Ólympíumót fatlaðra.
Úrslit mótsins
Myndir frá mótinu

Bikarmót ÍF fór fram í Grafarvogslaug. Að venju var keppni hörð í mörgum greinum og gaman var að fylgjast með gömlum sundhetjum eins og Sigrún Huld Hrafnsdóttur, Ösp, synda og safna stigum fyrir sitt félag. Bikarmeistari árið 2008 var íþróttafélagið Fjörður en þetta er í fyrsta sinn sem félagið hampar þessum titli og fögnuðu liðsmenn Fjarðar vel í mótslok. Í öðru sæti var íþróttafélagið Ösp og í þriðja sæti ÍFR - Íþróttafélag faltaðra í Reykjavík. Öspin hafði forystu mestan hluta keppnirnar og það var ekki fyrr en í síðustu grein sem Fjörðurinn seig fram úr og stal sigrinum.
Myndir frá mótinu

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 5. júní 17:38
Veglegt mótahald um helgina
Laugardaginn 7. júní næstkomandi mun Íþróttasamband Fatlaðra standa að tveimur stórmótum. Íslandsmót ÍF í frjálsum íþróttum utanhúss mun fara fram á Laugardalsvelli og Bikarkeppni ÍF í sundi mun fara fram í íþróttamiðstöðinni í Grafarvogi. Þá munu tveir fatlaðir keppendur taka þátt á Íslandsmóti WPC í bekkpressu sem fram fer í nýju Intersport versluninni í Lindum í Smárahverfinu í Kópavogi.

Íslandsmót ÍF í frjálsum íþróttum hefst á Laugardalsvelli laugardaginn 7. júní kl. 9.30 og verður keppt í 100m. og 200m. hlaupi, kúluvarpi, langstökki og hástökki. (Sjá tímaseðil)

Bikarmót ÍF í sundi fer fram í Grafarvogslaug laugardaginn 7. júní og hefst keppni kl. 12 að hádegi og lýkur um kl. 14.

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 3. júní 16:26
Ný vefsíða Ólympíumóts fatlaðra hefur niðurtalningu
Föstudaginn 29. maí síðastliðinn hóf opinber vefsíða göngu sína fyrir Ólympíumót fatlaðra í Peking sem fram fer dagana 6.-17. September á þessu ári. Slóðin á vefsíðuna er http://en.paralympic.beijing2008.cn/index.shtml en þar er hafin niðurtalning í leikana.

Vefsíðan er yfirgripsmikil upplýsingaveita um Ólympíumót fatlaðra 2008 og er hún aðgengilega á ensku og kínversku. Á meðan Ólympíumótinu stendur verður tíður fréttaflutningur af gangi mála á vefsíðunni sem og beinar útsendingar frá blaðamannafundum í Kína.

Við hvetjum sem flesta til þess að kynna sér síðuna með því að smella á slóðina hér að ofan.

Íþróttasamband Fatlaðra | mánudagur 2. júní 15:25
Nýr starfsmaður ÍF
Jón Björn Ólafsson hefur hafið störf á skrifstofu ÍF. Jón Björn er 28 ára gamall, fæddur og uppalinn Suðurnesjamaður, íslenskufræðingur að mennt með fjölmiðlafræði sem aukagrein. Frá lokum háskólanáms starfaði hann hjá Víkurfréttum í Reykjanesbæ, síðast sem forstöðumaður íþróttadeildar blaðsins. Þá á Jón Björn og rekur vefsíðuna www.karfan.is sem er liður af tómstundum hans en þar undir falla allar íþróttir.

Íþróttasamband fatlaðra býður Jón Björn velkomin til starfa og væntir mikils af störfum hans í framtíðinni.

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 27. maí 19:56
Fjörður fyrirmyndarfélag
Á aðalfundi Fjarðar 26. maí sl. hlaut félagið þá viðurkenningu frá Íþróttasambandi Íslands að mega kalla sig fyrirmyndarfélag. Fyrirmyndafélag ÍSÍ er gæðaviðurkenning fyrir barna- og unglingastarf. Gæðaviðurkenningin felur í sér að Fjörður hefur staðist þær gæðakröfur sem íþróttahreyfingin gerir. Til þess að standast slíkar gæðakröfur þarf íþróttafélag að sýna það í verki að hún geri raunhæfar kröfur um bæði og innihald þess starfs sem það vinnur.

Íþróttasamband fatlaðra færir íþróttafélaginu Firði hamingjuóskir fyrir verðskuldaða viðurkenningu.

Nánari upplýsingar um Fyrirmyndafélög ÍSÍ er hægt að finna með því að smella hér.

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 27. maí 19:45
Norðurlandamót í boccia
Mótið gekk vel en þessi mót eru haldin annað hvert ár til skiptis á hverju Norðurlandanna. Næsta mót verður í Danmörku árið 2010 og árið 2012 verður mótið á Íslandi

Í einstaklingskeppni vann enginn Íslendingur til verðlauna en í sveitakeppni urðu tvær sveitir í þriðja sæti.

Sveitakeppni úrslit;
Kristín Jónsdóttir, Ösp, Aðalheiður Bára Steinsdóttir,Grósku, Hulda Klara Ingólfsdóttir, Ösp flokki 1 bronsverðlaun.
Margret Edda Stefánsdóttir, ÍFR og Þórey Rut Jóhannesdóttir, ÍFR rennuflokki bronsverðlaun

Á myndasíðu ÍF www.123.is/if má sjá myndir frá mótinu.

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | mánudagur 25. maí 23:52
Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu 2008
Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu fóru fram í knattspyrnuhöllinni á Akranesi í dag laugardaginn 24. maí.

Sturlaugur Sturlaugsson, formaður Íþróttabandalags Akraness bauð keppendur velkomna og setti mótið. Ingibjörg Harpa Ólafsdóttir, íþróttakennari stjórnaði upphitun og Þórður Guðjónsson, knattspyrnumaður afhenti verðlaun. Dómarar voru frá knattspyrnudómarafélagi Akraness en helstu skipuleggjendur á Akranesi voru Guðlaugur Gunnarsson frá KSÍ og Jón Þór Þórðarson íþróttafulltrúi ÍA.

Keppt var í tveimur styrkleikaflokkum og konur og karlar kepptu saman í liði. Allir aldursflokkar kepptu saman og allir höfðu gaman að þó keppnisskapið sé í öndvegi hjá flestum, mismikið þó. Þátttakendur voru frá íþróttafélögunum Ösp Reykjavík, Nesi Reykjanesbæ, Þjóti Akranesi og Suðra Selfossi. Mikil áhersla er lögð á að allir þeir sem áhuga hafi geti verið með , hvort sem um er að ræða byrjendur eða lengra komna og því eru lið mjög fjöbreytileg á þessum mótum.
Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 23. maí 11:11
Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu 2008
Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu fara fram í knattspyrnuhöllinni á Akranesi laugardaginn 24. maí 2008. Keppni hefst kl. 12.00, upphitun kl. 11.30 .

Keppt er í tveimur styrkleikaflokkum og konur og karlar keppa saman í liði.

Þetta er samstarfsverkefni Íþróttasambands Fatlaðra, Knattspyrnusambands Íslands, Íþróttabandalags Akraness og íþróttafélagsins Þjóts á Akranesi. Undanfarin ár hefur Íþróttasamband Fatlaðra og Knattspyrnusamband Íslands staðið fyrir slíkum leikum innanhúss og utanhúss í samstarfi við aðildarfélög ÍF.

Samstarf ÍF og KSÍ hefur miðað að því að efla áhuga fatlaðra á knattspyrnuiðkun og koma af stað umræðu um gildi þess að fatlaðir geti stundað knattspyrnu, hvar á landi sem þeir búa. Markmið er að knattspyrnufélög taki þátt í þessu samstarfi og bjóði upp á æfingar fyrir fatlaða og/eða skapi þeim skilyrði til að taka þátt í æfingum með sínum jafnöldrum.

Stefnt er að því að ÍA standi að knattspyrnuæfingum fyrir fatlaða í haust í samstarfi við íþróttafélagið Þjót.

Nánari upplýsingar um samstarf IF og KSÍ gefur Guðlaugur Gunnarsson gulli(hjá)ksi.is

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 23. maí 11:02
Norðurlandamót í boccia
Norðurlandamót í boccia verður haldið helgina 23. – 25. maí í Noregi.
Keppendur, þjálfarar og aðstoðarfólk komu saman á lokaæfingu í Öskjuhlíðarskóla í gær og í morgun var haldið til Noregs.

Keppendur eru eftirtaldir;
Margrét Stefansdóttir, ÍFR
Hjalti Bergmann Eiðsson, ÍFR
Þórey Rut Jóhannesdóttir, ÍFR
Stefán Thorarensen, Akri
Aðalheiður Bára Steinsdóttir, Grósku,
Kjartan Ásmundsson, Ösp
Kristín Jónsdóttir, Ösp
Hulda Klara Ingólfsdóttir, Ösp

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 23. maí 10:59
Pokasjóður styrkir Íþróttasamband fatlaðra
Í árlegri úthlutun Pokasjóðs fyrir árið 2008 hlaut Íþróttasamband fatlaðra styrk vegna Sumarbúða ÍF en alls úthlutaði sjóðurinn í ár rúmlega 100 milljónum króna til hinna ýmsu verkefna.
Pokasjóður hefur undanfarin ár styrkt starfsemi sumarbúðanna á rausnarlegan hátt og gert sambandinu kleift að standa myndarlega að rekstri þeirra.

Íþróttasamband fatlaðra færir stjórn Pokasjóðs sínar bestu þakkir fyrir þann velvilja og stuðning sem sjóðurinn hefur sýnt sambandinu undanfarin ár.

Á myndinni sést Bjarni Finnson, formaður Pokasjóðs (t.v.), Jóhann Arnarsson, forstöðumaður Sumarbúða ÍF og Björn Jóhannsson, framkvæmdastjóri sjóðsins (t.h.)

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 23. maí 10:54
Íþróttafélagið Eik 30 ára
Íþróttafélagið Eik á Akureyri fagnaði 30 ára afmæli sínu hinn 16. maí sl. og bauð af því tilefni til veglegrar veislu með þátttöku nýrra og eldri félaga.
Haukur Þorsteinsson, formaður félagsins til margra ára, stiklaði á stóru í ræðu sem hann hélt af þessu tilefni og vakti ýmislegt er þar kom fram ljúfar minningar margra viðstaddra.
Í afmælishófinu færði Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður ÍF, félaginu að gjöf fundarhamar sem að sjálfsögðu var smíðaður úr eik. Þá var Haukur Þorsteinsson, formaður Eikar sæmdur Gullmerki ÍF en merkið er veitt “íslenskum ríkisborgara fyrir góð störf í þágu íþróttamála fatlaðra í heild, einstakra íþróttagreina eða félaga”

Á myndinni sést Sveinn Áki Lúðvíksson sæma Hauk Þorsteinsson gullmerkinu.

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 20. maí 17:32
Kiwanisklúbburinn Hekla styrkir þátttöku ÍF í Ólympíumóti fatlaðra
Allt frá stofnun Íþróttasambands Fatlaðra hafa Kiwanis- og Lionshreyfingarnar hér á landi verið meðal dyggustu stuðningsaðila sambandsins.
Nýlega færðu fulltrúar Kiwanisklúbbsins Heklu sambandinu styrk vegna þátttöku Íslands í Ólympíumótinu sem fram fer í Kína í septembermánuði n.k. Klúbbfélagar hafa í gegnum tíðina styrkt margvísleg málefni hvort heldur hjá einstaklingum eða félagasamtökum og hefur ÍF verið meðal þeirra sem klúbburinn hefur styrkt.
Íþróttasamband fatlaðra færir félögum í Kiwanisklúbbnum Heklu sínar bestu þakkir fyrir velvilja og veittan stuðning.

Á myndinni má sjá fulltrúa Kiwanisklúbbsins. Heklu ásamt Sveini Áka Lúðvíkssyni, formanni ÍF við afhendingu styrksins.

Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 14. maí 21:08
Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu 24. maí
Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu fara fram í knattspyrnuhöllinni á Akranesi laugardaginn 24. maí 2008.

Þetta verkefni er samstarfsverkefni Íþróttasambands Fatlaðra, Knattspyrnusambands Íslands, Íþróttabandalags Akraness og íþróttafélagsins Þjóts á Akranesi. Undanfarin ár hefur Íþróttasamband Fatlaðra og Knattspyrnusamband Íslands staðið fyrir slíkum leikum innanhúss og utanhúss í samstarfi við aðildarfélög ÍF.

Samstarf ÍF og KSÍ hefur miðað að því að efla áhuga fatlaðra á knattspyrnuiðkun og koma af stað umræðu um gildi þess að fatlaðir geti stundað knattspyrnu, hvar á landi sem þeir búa. Markmið er að knattspyrnufélög taki þátt í þessu samstarfi og bjóði upp á æfingar fyrir fatlaða og/eða skapi þeim skilyrði til að taka þátt í æfingum með sínum jafnöldrum.

Stefnt er að því að ÍA standi að knattspyrnutilboðum fyrir fatlaðra í haust í samstarfi við íþróttafélagið Þjót.

Skráningar liða þurfa að berast fyrir 20. maí á skrifstofu ÍF if(hjá)isisport.is cc á gulli(hjá)ksi.is

Nánari upplýsingar um samstarf IF og KSÍ gefur Guðlaugur Gunnarsson gulli(hjá)ksi.is

Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 14. maí 21:04
Lokaverkefni KHÍ, íþróttakennaraskor 2008 - Hreyfihömluð born í íþróttakennslu
Íþróttakennaranemarnir Marta Ólafsdóttir og María Ólafsdóttir hafa unnið lokaverkefni við KHÍ, íþróttakennaraskor þar sem rannsakað er hvort hreyfihömluð born fái íþróttakennslu í grunnskólum Reykjavíkur.

Heimsóttir voru 40 grunnskólar og lagðar spurningar fyrir íþróttakennara. Svörun var sérlega góð en 39 skólar af 40 tóku þátt í rannsókninni. Samkvæmt niðurstöðum voru 21 skóli með hreyfihamlaða nemendur en fram kom að hugtakið hreyfihamlaður er skilgreint á mismunandi hátt. Niðurstöður verða kynntar nánar síðar en þetta er athyglisvert rannsóknarefni og mikilvægt þegar háskólanemendur velja að vinna að verkefnum sem tengjast íþróttastarfi fatlaðra og réttindum þeirra til að stunda íþróttir.

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 8. maí 15:32
Opna Breska meistaramótið í sundi 2008
Heimsmet og fimm Íslandsmet féllu á Opna breska sundmótinu sem fram fór í Sheffield á Englandi
25. - 27. april sl.

Á vegum Íþróttasambands Fatlaðra tóku 13 keppendur þátt á mótinu. Auk Íslands tóku þátt keppendur frá 16 löndum, víðs vegar að úr heiminum, enda mótið liður í undirbúningi margra fyrir Ólympíumót fatlaðra sem fram fer í septembermánuði n.k.

Fimm Íslandsmet féllu á mótinu og alls unnu íslensku keppendurnir til sjö gullverðlauna, þriggja silfurverðlauna og sjö bronsverðlauna.

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 6. maí 23:30
EURO CUP 2008
Íþróttafélagið Ösp tekur þessa dagana þátt í EURO CUP 2008 sem er knattspyrnumót á vegum Special Olympics í Evrópu. 24 þjóðir taka þátt í mótinu og keppt er í Austurríki, Sviss, Lichtenstein og Þýskalandi. Samkvæmt reglum Special Olympics eru öll lið flokkuð í jafna riðla í þeim tilgangi að lið svipuð að getustigi keppi saman til úrslita.
Íslenska liðið var flokkað í riðil sem fram fer í Sviss en í riðlinum með Íslandi eru Finnland, Sviss og Belgía.
Í þessum riðli eru lið sem eru metin með styrkleika í meðallagi en sterkasti riðillinn fer fram í Þýskalandi.

Á síðunni www.specialolympics.ch má sjá úrslit leikja – EC 2008

Myndasíða frá keppninni er á www.123.is/ospin

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 2. maí 23:17
Ráðstefna um gildi íþrótta fyrir börn með sérþarfir og fyrir einstaklinga og samfélög
Forsetafrú Íslands, frú Dorrit Moussaieff var heiðursgestur ráðstefnunnar í boði hennar hátignar Sheikha Mozah sem er eiginkona furstans eða Emírsins í Qatar.
Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics og fræðslu og útbreiðslusviðs ÍF fékk boð um að koma á ráðstefnuna sem fagaðili með frú Dorrit Moussaieff en einnig var Helga Þórarinsdóttir, deildarstjóri Skrifstofu Forseta Íslands með í för. Þetta var mikill heiður fyrir Íþróttasamband Fatlaðra og Special Olympics á Íslandi en m.a. var lögð fram í Qatar greinargerð um íþróttastarf fatlaðra á Íslandi.

Ráðstefnan var haldin í Shaffallah Center þar sem börn og unglingar með sérþarfir stunda nám og fá margvíslega þjálfun hjá sérfræðingum á hverju sviði. Hreyfiþjálfun og íþróttastarf er mjög stór þáttur í daglegum verkefnum nemenda sem byrja hvern dag með æfingum. Fulltrúar á ráðstefnunni fóru í skoðunarferð um Shaffallh Center og kynntu sér starfsemina en þessi miðstöð hefur vakið alþjóðaathygli fyrir metnaðarfullt og árangursríkt starf. www.shaffallah.org.qa

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 22. apríl 13:20
Ólympíuleikar í Peking
Ólympíuleikarnir fara fram í Peking í Kína í ágústmánuði n.k. og í kjölfar þeirra Ólympíumót fatlaðra. Ólafur Rafnsson forseti Íþrótta- og Ólympíusambandsins hefur skrifað þarfa grein um viðhorf íþróttahreyfingarinnar til málsins.

Í grein þessari, sem birt er á heimasíðu Íþrótta- og Ólympíusambandsins, segir meðal annars; “Ísland hefur ávallt tekið þátt í Ólympíuleikum - og aldrei dregið fulltrúa frá leikum þrátt fyrir stjórnmálalegt óviðri sögunnar. Engin breyting verður á því nú. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Íþróttasamband fatlaðra vinna nú að því að undirbúa keppendur Íslands fyrir keppni á Ólympíuleikunum og Ólympíumóti fatlaðra - sem einnig fara fram í Peking á þessu ári”.

Greinina í heild má lesa hér.

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 22. apríl 13:16
Liverpool open í borðtennis
Dagana 13. - 17. mars sl. tóku þrír íslenskir borðtennismenn þátt í Liverpool open í borðtennis. Þetta voru þeir Jóhann Rúnar Kristjánsson íþróttafélaginu Nes, Tómas Björnsson úr ÍFR og Elvar Thorarensen, íþróttafélaginu Akri en hann hefur ekki tekið þátt í alþjóðlegu móti síðan 1999.

Árangur þeirra Elvars og Tómasar, sem keppa í flokki C6, var mjög viðunandi þó svo að þeir hafi ekki náð að vinna leik að þessu sinni.

Jóhann spilaði með Breta í liðakeppni og þeir urðu í 3. sæti í sínum riðli en í sínum flokki C2 gerði Jóhann enn betur þar sem hann varð í 2. sæti í einliðaleik. Tapaði hann fyrir heimsmeistaranum í úrslitaleik en undanúrslitum vann Jóhann meðal annars þann sem er “rankaður” númer 6 á heimslistanum.

Eftir mót þetta skipar Jóhann Rúnar 13. sæti heimslistans og er fyrsti varamaður í sínum flokki inn á Ólympíuleika fatlaðra í Peking í haust.

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 22. apríl 13:01
Erna Friðriksdóttir - Winter Park Colorado
Erna Friðriksdóttir frá Egilsstöðum sem æft hefur í Winter Park í Colorado síðan í janúar er nú komin til Íslands. Hún kom við á skrifstofu ÍF þann 16. apríl og sagði frá ferðinni en hún hefur verið við æfingar með landsliðsfólki frá USA auk einstaklinga frá Japan, Nýja Sjálandi og Bretlandi. Erna hefur keppt í þremur mótum og náð verðlaunasæti. Hún stefnir á áframhaldandi æfingar í framtíðinni og er mjög áhugasöm um að ná langt í skíðaíþróttinni.

Mynd af Ernu í Colorado. Fleiri myndir á www.123.is/if

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 17. apríl 17:59
Olís styrkir ÍF
Olíuverslun Íslands hf – Olis hefur skrifaði undir styrktarsamning við Íþróttasamband fatlaðra um beinan fjárstuðning vegna Ólympíumóts fatlaðra sem fram fer í Peking í september n.k.

Olís hefur um margra ára skeið stutt starfssemi sambandsins og var nú endurnýjaður formlegur samningur um fjárhagslegan stuðning vegna undirbúnings og þátttöku íslensku keppendanna á mótinu.

Auk þessa býðst aðildarfélögum Íþróttasambands fatlðara aðgangur að ýmsum þeim tilboðum og fríðindum Olís sem hefur upp á að bjóða.

Mynd: Camilla Th Hallgrímsson, varaformaður Íþróttasambands fatlaðra og Sigurður K. Pálsson forstöðumaður markaðssviðs Olís við undirritun samningsins. Með þeim á myndinni eru þau Guðrún Jónsdóttir frá markaðssviði Olís og Ólafur Magnússon frá ÍF.
Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 16. apríl 15:53
Kynning, Menntaskólinn við Sund
ÍF var með árlega kynningu á íþróttum fatlaðra fyrir nemendur í Menntaskólanum við Sund, föstudaginn 11. apríl. Guðmundur Ólafsson íþróttakennari hefur óskað eftir samstarfi við ÍF á hverju ári og auk kynningar á starfsemi IF taka nemendur þátt í verklegum æfingum.

Fleiri myndir á www.123.is/if

Íþróttasamband Fatlaðra | miðvikudagur 9. apríl 22:07
Árangursríkt íþróttaumhverfi
Einn helsti fræðimaður á sviði íþróttafélagsfræði á Norðurlöndunum heldur fyrirlestur í Laugardalshöllinni kl. 16:30-18 n.k. fimmtudag. Fyrirlesturinn er ætlaður stjórnendum íþróttafélaga í Reykjavík og mun hann bæði ræða um íþróttaumhverfið frá sjónahorni frjálsra félagasamtaka og svo borgaryfirvalda.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

Íþróttasamband Fatlaðra | mánudagur 7. apríl 00:44
Íslandsmóti Íþróttasambands Fatlaðra lokið
Íslandsmót Íþróttasambands Fatlaðra í 5 greinum var haldið dagana 4. – 6. apríl.
Keppni fór fram í boccia, bogfimi, borðtennis, frjálsum íþróttum og lyftingum. Frjálsar íþróttir , boccia og lyftingar fóru fram í Frjálsíþróttahöllinni Laugardal og Laugardalshöll og borðtennis og bogfimikeppni fór fram í ÍFR húsinu, Hátúni 14.

Skráðir keppendur voru um 270 en um siðustu helgi fóru fram sundgreinar þar sem voru 75 keppendur. Keppendur á Íslandsmótum ÍF þessar 2 helgar voru því um 345. Keppendur koma frá aðildarfélögum ÍF og einnig frá almennum íþróttafélögum. Umsjón með framkvæmd mótsins höfðu íþróttanefndir ÍF.
3. árs nemar KHÍ, íþróttakennaraskorar á Laugarvatni sáu um dómgæslu á bocciamótinu og störfuðu við frjálsíþróttamótið en verkefnið er liður í námskeiði skólans í íþróttum fatlaðra.

Úrslit boccia
Úrslit bogfimi
Úrslit borðtennis
Úrslit frjálsar
Úrslit lyftingar (keppnisskýrsla)


Mynd: Vignir Unnsteinsson setti 2 Íslandsmet í lyftingum.

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 4. apríl 15:48
Íslandsmót Íþróttasambands Fatlaðra
Íslandsmót Íþróttasambands Fatlaðra í 5 greinum verður haldið helgina 4. – 6. apríl. Keppt verður í boccia, bogfimi, borðtennis, frjálsum íþróttum og lyftingum.
Keppni fer fram í Frjálsíþróttahöllinni Laugardal, Laugardalshöll og ÍFR húsinu, Hátúni 14.
Skráðir keppendur eru um 270 en um siðustu helgi fóru fram sundgreinar þar sem voru 75 keppendur. Keppendur á Íslandsmótum ÍF þessar 2 helgar eru því um 345. Keppendur koma frá aðildarfélögum ÍF og einnig frá almennum íþróttafélögum.
Umsjón með framkvæmd mótsins hafa íþróttanefndir ÍF.
Starfsfólk á mótinu er m.a. 3. árs nemar KHÍ, íþróttakennaraskorar á Laugarvatni en verkefnið er liður í námskeiði skólans í íþróttum fatlaðra.
Dagskrá mótsins
Keppendalisti

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 4. apríl 15:48
Sumarbúðir ÍF á Laugarvatni
Hinar árlegu Sumarbúðir ÍF verða haldnar að venju á Laugarvatni í sumar. Eins og áður verður boðið upp á tvö vikunámskeið,
það fyrra vikuna 20. - 27. júní og hið síðara vikuna 27. júní - 4. júlí.
Verð fyrir vikudvöl á Laugarvatni er kr. 49.000 og
kr. 95.000 fyrir tveggja vikna dvöl.
Þó margir kjósi vikunámskeið fer þeim fjölgandi sem velja báðar vikurnar.
Umsóknarfrestur er til 1. maí nk.
Sjá auglýsingu

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 1. apríl 14:11
Þórður Árni Hjaltested sæmdur Gullmerki ÍSÍ
Á ''Formannafundi ÍF'' sem haldinn var 29. mars sl. var Þórður Árni Hjaltested, ritari stjórnar Íþróttasambands fatlaðra sæmdur Gullmerki ÍSÍ fyrir vel unnin störf í þágu íþrótta fatlaðra á Íslandi.
Þórður Árni, sem er íþróttafræðingur að mennt, hefur setið í stjórn Íþróttasambands fatlaðra frá 1986 og gengt bæði störfum varaformanns og ritara en auk þess hefur hann verið þjálfari hjá Gáska, sem er íþróttafélag þroskaheftra í Mosfellsbæ og tengt Skálatúnsheimilunu frá 1982. Þá hefur Þórður Árni verið valinn til starfa á alþjóðavettvangi þar sem hann hefur setið í stjórn Evrópudeildar INAS-Fid (alþjóðasamtök þroskaheftra íþróttamanna) undanfarin 13 ár bæði sem meðstjórnandi og tæknilegur ráðgjafi (thecnical officer). Einnig hefur Þórður Árni verið fararstjóri á þrennum Alþjóðaleikum Special Olympics, verið fararstjóri á Ólympíumótum fatlaðra og fjölmörgum öðrum alþjóðamótum sem fatlaðir íslenskir íþróttamenn hafa tekið þátt í. Það er því óhætt að fullyrða að Þórður Árni hafi lagt drjúgan skerf til uppbyggingar og þróunar íþrótta fatlaðra hér á landi.
Á myndinni sést Hafsteinn Pálsson, stjórnarmaður Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, sæma Þórð Árna gullmerkinu.

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 1. apríl 13:52
Ný heimasíða Aspar
Íþróttafélaið Ösp hefur breytt veffangi heimasíðu sinnar. Nýja veffangið er www.ospin.is

Nokkur aðildarfélaga ÍF hafa nú þegar sett upp heimasíður þar sem meðal annars má finna upplýsingar um íþróttagreinar sem þar eru stundaðar og helstu fréttir úr starfi viðkomandi félagsins.

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 1. apríl 13:33
Þorsteinn Sölvason sló í gegn á BK lyftingamóti WPC
Þorsteinn Sölvason sló í gegn á BK lyftingamóti WPC sem haldið var laugadaginn 15. mars. Hann lyfti 170 kg. í bekkpressu í 82,5kg flokki sem er Íslandsmet. Þorsteinn stefnir að því að vinna sér inn rétt til keppni á Ólympíumóti fatlaðra sem haldið verður í Peking í Kína nú í haust.

Íþróttasamband Fatlaðra | mánudagur 31. mars 00:34
Íslandsmót Íþróttasambands Fatlaðra í sundi
Íslandsmót Íþróttasambands Fatlaðra í sundi var haldið í Innilauginni í Laugardal, helgina 29. – 30. mars.
75 keppendur frá 11 félögum tóku þátt í mótinu. Sundnefnd IF sá um framkvæmd mótsins í samvinnu við SSÍ.
Alls voru 13 Íslandsmet sett á mótinu og þar af setti Hrafnkell Björnsson úr ÍFR fimm Íslandsmet en Hrafnkell, sem keppir í flokki S5, hefur sýnt ótrúlegar framfarir undanfarna mánuði.
Eftirtaldir einstaklingar settu Íslandsmet á mótinu:

Björn Daníel Daníelsson S10 100 skrið 1:54,56 29/03/08
Hrafnkell Björnsson S5 50 skrið 58,71 29/03/08
Hrafnkell Björnsson S5 100 skrið 2:08,66 29/03/08
Pálmi Guðlaugsson S6 50 flug 47,51 29/03/08
Björn Daníel Daníelsson SB9 50 bringa 57,33 29/03/08
Guðmundur Hermannsson SB8 50 bringa 59,26 29/03/08
Pálmi Guðlaugsson S6 200 fjór 3:55,94 29/03/08
Hrafnkell Björnsson S5 50 bak 1:06,92 29/03/08
Hrafnkell Björnsson S5 100 bak 2:20,14 29/03/08
Guðmundur Hermannsson SB8 50 bringa 58,72 29/03/08
Marino Adolfsson SB7 50 bringa 1:29,66 29/03/08
Pálmi Guðlaugsson S6 100 flug 1:53,56 30/03/08
Hrafnkell Björnsson S5 50 bak 1:06,66 30/03/08
Marino Adolfsson SB7 100 bringa 3:18,40 30/03/08

Útslit mótsins voru eftirfarandi.

Myndir frá mótinu verða settar á myndasíðu ÍF www.123.is/if

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 27. mars 03:07
Íslandsmót Íþróttasambands Fatlaðra 2008
Dagskrá og nánari upplýsingar

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 27. mars 02:50
Íslandsmót Íþróttasambands Fatlaðra í sundi - 50 m laug
Íslandsmót Íþróttasambands Fatlaðra í 50 m laug fer fram í Sundlauginni í Laugardal 29. og 30. mars n.k.
Mótið hefst kl. 15.00 á laugardag (upphitun kl. 14.00) og kl. 10.00 á sunnudag ( upphitun kl. 9.00)
Sundnefnd ÍF sér um skipulag og umsjón mótsins og eins og undanfarin ár munu dómarar frá SSÍ starfa á mótinu en ÍF hefur átt mjög gott samstarf við SSÍ vegna sundmóta á vegum ÍF.
Íslandsmót ÍF í sundi eru nú haldin tvisvar á ári, á vorin í 50 m laug og á haustin í 25 m laug.

Mótaskrá Íslandsmótsins

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 27. mars 02:45
Formannafundur ÍF
Formannafundur ÍF verður haldinn laugardaginn 29. mars n.k. Í lögum Íþróttasambands fatlaðra stendur að ''það ár sem sambandsþing er ekki haldið skal halda formannafund með formönnum sambandsfélaga''.

Á formannafundum sem þessum er þau mál rædd sem efst eru á baugi hverju sinni auk þess sem ýmsar nýjungar í íþróttum fatlaðra eru kynntar.

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 13. mars 00:30
Hádegisfundur ÍSÍ - keppnisáherslur í barna- og unglingaíþróttum
Fræðslusvið ÍSÍ boðar til hádegisfundar föstudaginn 14. mars næstkomandi í E-sal Íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal kl. 12.00-13.00.
Rolf Carlsson frá Svíþjóð mun fjalla um keppnisáherslur í barna- og unglingaíþróttum. Rolf er með frægari aðilum í Svíþjóð í þessum efnum og hefur gert athyglisverðar rannsóknir á þessu sviði.
Fyrirlesturinn verður á ensku, er öllum opinn og er aðgangur ókeypis. Fyrirspurnir verða leyfðar að loknum fyrirlestrinum.

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 6. mars 16:50
Hængsmót 2. - 3. maí 2008
Hið árlega Hængsmót fer fram á Akureyri 2. - 3. maí n.k. og fer að venju fram í Íþróttahöllinni. Keppnisgreinar verða, boccia: einstaklings- og

sveitakeppni, borðtennis: karlar og konur, sem og lyftingar, ef næg þátttaka fæst en stefnt er að því að mótið verði sett í kringum hádegið á föstudeginum og keppni ljúki seinnipart á laugardeginum. Um kvöldið verður síðan mjög veglegt lokahóf að vanda með veislumat, lifandi tónlist og ýmsum glæsilegum uppákomum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Páll Halldórsson aph @ simnet.is

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 6. mars 16:18
Vettvangsnám - KHÍ
Þann 5. Mars var Katrín Harðardóttir nemandi í KHÍ, íþróttakennaraskor á skrifstofu ÍF í tengslum við vettvangsnám.

Hún tók að sér ýmis verkefni og kynnti sér starfsemi ÍF einn dag í sínu vettvangsnámi en hún er í vettvangsnámi hjá ÍSÍ.

Íþróttasamband Fatlaðra | mánudagur 3. mars 11:54
Vinamót Gnýs og Suðra á Sólheimum
Laugardaginn 16. febrúar var haldið Vinamót Gnýs og Suðra á Sólheimum.
Fyrirkomulag mótsins var með óhefðbundnu sniði en keppt var í 4ra manna
liðum og hvert lið var skipað 2 keppendum frá hvoru félagi. Keppendur
höfðu einn bolta hver og 4 útköst voru í hverri umferð. Liðin voru 7 og
var keppt í einum riðli. Gnýr bauð Suðrafélögum í mat og leysti þá út með
gjöfum frá vinnustofum staðarins. Þegar móti lauk fóru allir á tónleika
með Jónasi Sig. og félögum á Grænu könnunni.
Mótið tókst mjög vel og er ákveðið að halda næsta mót á Selfossi að ári.
Myndir

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 21. febrúar 13:09
Úthlutun úr Afrekskvennasjóði Glitnis og ÍSÍ
Þann 20. febrúars sl. var úthlutað úr Afrekskvennasjóði Glitnis og ÍSÍ í þriðja sinn. Sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við bakið á afrekskonum í íþróttum og gera þeim betur kleift að stunda sína íþrótt og ná árangri. Í stjórn sjóðsins sitja þær Svafa Grönfeldt, Vanda Sigurgeirsdóttir og Vala Flosadóttir.

Að þessu sinni voru tvær og hálf milljón króna til úthlutunar sem renna til sjö glæsilegra íþróttakvenna. Úthlutunin tekur mið af því að í ár er Ólympíuár og margar íþróttakonur að keppast við að tryggja sér þátttökurétt á leikunum. Alls bárust 97 umsóknir í Afrekskvennasjóðinn að þessu sinni og nam heildarfjárhæð þeirra um 150 milljónum króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í september 2008.

Meðal styrkþega nú voru sundkonurnar Embla Ágústsdóttir og Sonja Sgurðardóttir úr Íþróttafélagi Fatlaðra í Reykjavík. Á myndunum sem fylgja fréttinni má sjá þær stöllur Emblu og Sonju sem og styrkþegana alla eða fulltrúa þeirra ásamt sjóðsstjórninni, Ólaf Rafnsson forseta ÍSÍ og Birnu Einarsdóttur Framkvæmdastjóra Viðskiptabankasviðs Glitnis.

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 21. febrúar 13:03
Anna Kristín Jensdóttir valin íþróttamaður Seltjarnanesbæjar árið 2007
Anna Kristín hefur æft sund hjá Íþróttafélagi fatlaðra, ÍFR, sl. átta ár. Allt frá því hún byrjaði að æfa sund hefur hún tekið hröðum framförum og unnið til fjölda verðlauna bæði hérlendis og erlendis. Síðastliðið ár var viðburðaríkt hjá Önnu Kristínu en hún hampar nú 6 Íslandsmetum og 4 Íslandsmeistaratitlum. Anna á eitt Norðurlandamet. Anna Kristín stundar nám við Valhúsaskóla og mun ljúka 10. bekk í vor. Anna Kristín hefur lagt afar hart að sér við æfingar og keppni auk þess að vera góð fyrirmynd ungra og upprennandi íþróttamanna.

Til hamingju Anna Kristín!

Íþróttasamband Fatlaðra | mánudagur 18. febrúar 22:24
Glæsilegur árangur Íslendinga á Malmö-open
Fjölmennur hópur fatlaðra íslenskra íþróttamanna hélt nýverið í víking til Svíþjóðar og tók þátt í Malmö-open, fjölgreina móti þar sem keppt er í hinum ýmsu íþróttagreinum sem fatlaðir íþróttamenn leggja stund á. Alls tóku fimm íþróttafélög frá Íslandi þátt í mótinu að þessu sinni þ.e. ÍFR, Ösp, Ívar frá Ísafirði, Þjótur Akranesi, Akur Akureyri og Fjörður Hafnarfirði.
Sundlið Íþróttabandalags Reykjavíkur sigraði með yfirburðum í stigakeppni sundmóts Malmö Open en liðið var skipað félagsmönnum úr Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík (ÍFR) og Íþróttafélaginu Ösp. Þetta var í fimmta skiptið í röð sem lið ÍBR vinnur þennan bikar og vannst bikarinn því til eignar. Sundlið Ívars frá Ísafirði og Fjarðar úr Hafnarfirði urðu einnig sigursæl á mótinu.
Einnig var keppt í borðtennis og boccia þar sem Tómas Björnsson, ÍFR hafnaði í þriðja sæti í sinum flokki í borðtennis og Kolbeinn Pétursson, Akri Akureyri sigraði í B-úrslitum í sínum flokki.

Íþróttasamband Fatlaðra | mánudagur 18. febrúar 22:03
Þorramót Fjarðar
Þorramót Fjarðar fór fram laugardaginn 16. febrúar. Þar kepptu félagar úr Firði við bæjarfulltrúa Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Álftaness.
Mótið er árlegur viðburður og alltaf mikil stemming á staðnum og öllum boðið upp á veitingar áður en úrslit hefjast.
Hjálagt eru nokkrar myndir frá mótinu

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 12. febrúar 16:43
Afrekskvennasjóður Glitnis
Auglýst er eftir umsóknum í Afrekskvennasjóð Glitnis og ÍSÍ. Nánar hér.

Framundan er þriðja úthlutun úr Afrekskvennasjóði Glitnis og ÍSÍ. Til sjóðsins var stofnað með framlagi úr Menningarsjóði Glitnis og tilgangur hans er að styðja við bakið á afrekskonum í íþróttum og gera þeim betur kleift að stunda sína íþrótt og ná árangri.

Frestur til að skila inn umsóknum fyrir þessa úthlutun rennur út föstudaginn 15. febrúar n.k. Hægt er að nálgast reglugerð um sjóðinn og umsóknareyðublöð hér

Nánari upplýsingar veitir Örvar Ólafsson, orvar@isi.is. Hægt er að senda umsóknir á rafrænu formi beint til hans.

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 8. febrúar 15:18
Vetraríþróttir fatlaðra; opinn fundur RVK og námskeið Hlíðarfjalli
Mikið er að gerast í vetraríþróttum fatlaðra á næstunni. Opinn fundur um vetraríþróttir og útivist fyrir fatlaða verður haldinn fimmtudaginn 6. mars 2008 kl. 20.00 í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.

Námskeið á vegum ÍF og VMÍ í samstarfi við Winter Park, Colorado,
Hlíðarfjalli, Akureyri 7. – 9. mars 2008

Sjá auglýsingu

Dagskrá (PDF)

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 7. febrúar 13:35
Endurnýjun samstarfssamnings Icelandair og Íþróttasambands fatlaðra
Nýlega endurnýjuðu Icelandair og Íþróttasamband fatlaðra samstarfssamning um ferðir íþróttafólks sambandsins á flugleiðum Icelandair.

Samningurinn, sem nær til ársins 2010, felur meðal annars í sér að allt íþróttafólk og aðrir sem ferðast á vegum sambandsins til og frá Íslandi fljúgi með Icelandair á hagstæðustu fargjöldum sem bjóðast. Einnig fær Íþróttasamband Fatlaðra ákveðna styrktarupphæð árlega greidda inn á viðskiptareikning sinn auk gjafabréfa í hlutfalli viðskipta sinna við Icelandair.
Icelandair hefur allar götur síðan 1994 verið einn af af aðalsamstarfs og stuðningsaðilum Íþróttasambands fatlaðra og þannig gert fötluðu íþróttafólki kleift að halda hróðri Íslands á lofti víða um heim.
Mynd: Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands fatlaðra og Þorvarður Guðlaugsson sölustjóri Icelandair.

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | þriðjudagur 5. febrúar 11:33
Nemendur KHÍ á námskeiði um íþróttir fatlaðra
3. árs nemendur Kennaraháskóla Íslands, Íþróttafræðiskorar á Laugarvatni hafa verið á námskeiði um íþróttir fatlaðra en námskeiðið fer fram í janúar og febrúar.

Fjölmargir aðilar koma að námskeiðinu, þann 23. Febrúar heimsóttu þau sérdeild FB í Breiðholti og í dag var Halldór Guðbergsson, formaður Blindrafélags Íslands og fyrrverandi keppnismaður í sundi með fyrirlestur og æfingar fyrir hópinn. Á myndunum eru nemendur í verklegu æfingunum .

Þann 6. Febrúar verður Ingi Þór Einarsson með erindi um sundþjálfun og afreksþjálfun fatlaðra og þann 8. Febrúar fara nemendur í vettvangsferð á Reykjalund þar sem Ludvig Guðmundsson í læknaráði ÍF verður með fyrirlestur og kynnir starfsemi Reykjalundar.

Nemendur fara á bocciadómaranámskeið en nemendur munu verða starfsmenn Íslandsmóts í boccia og fleiri greinum 4. - 6. apríl 2008.

Áralangt ánægjulegt og farsælt samstarf hefur verið á milli ÍF og KHÍ, íþróttafræðiskorar á Laugarvatni.

Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 1. febrúar 14:07
Endurbætt vefsjónvarp IPC
Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra - IPC vinnur stöðugt að því að auka og koma á framfæri efni er varðar íþróttir fatlaðra.
Nýjasta framtak IPC hvað þetta varðar er að nú má finna á heimasíðu þeirra www.paralympic.org www.paralympic.org beinan aðgang að vefsjónvarpi hreyfingarinnar ParalympicSport.TV. Þessi breyting auðveldar þeim aðgang er áhuga hafa á því að sjá og kynnast íþróttum fatlaðra því einungis þarf að ræsa vefsjónvarpið á heimasíðunni til að sjá efni sem sýnir fatlaða íþróttamenn við æfingar og keppni.

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 24. janúar 00:07
Grasrótarverðlaun KSÍ og UEFA 2007
Íþróttasamband Fatlaðra hefur tvisvar hlotið grasrótarverðlaun UEAFA og KSÍ vegna Íslandsleika Special Olympics.

Lögð er áhersla að virkja aðildarfélög ÍF til samstarfs vegna leikanna sem haldnir eru innan- og utanhúss. Umsjónaraðili Íslandsleika Special Olymics 2007 innanhúss var íþróttafélagið NES Reykjanesbæ og utanhúss íþróttafélagið Ívar, Ísafirði.

Grasrótarverðlaun KSÍ og UEFA 2007 hlaut Íþróttafélagið Nes sem var umsjónaraðili Íslandsleika Special Olympics innanhúss 1. apríl 2007. Leikarnir fóru fram í Reykjaneshöllinni og voru samvinnuverkefni íþróttafélagsins Ness, Íþróttasambands Fatlaðra og KSÍ.

Íþróttasamband Fatlaðra óskar stjórn, þjálfurum og iðkendum hjá íþróttafélaginu til hamingju með þessa viðurkenningu og óskar félaginu velfarnaðar í uppbyggingarstarfi á sviði knattspyrnu fyrir fatlaða.

Mynd: Fulltrúar KSÍ ásamt fulltrúum íþróttafélagsins Ness við afhendingu grasrótarverðlaunanna

Íþróttasamband Fatlaðra | mánudagur 21. janúar 11:19
ÍSÍ úthlutar um 60 milljónum til afreksstarfs
Þann 11. janúar sl. fór fram blaðamannafundur þar sem kynntar voru styrkveitingar ÍSÍ til afreksstarfs sérsambanda á árinu 2008 en meðal styrkþega voru nokkrir fatlaðir íþróttamenn.
Nánar

Íþróttasamband Fatlaðra | föstudagur 18. janúar 12:19
Knattspyrna fyrir blinda
Í nóvember sl. fór formaður Blindrafélagsins, Halldór Guðbergsson, ásamt fimm einstaklingum frá Íslandi til Noregs til að kynna sér tiltölulega nýja íþróttagrein sem aðlöguð hefur verið að þörfum blindra og sjónskertra, en það er fótbolti. Alþjóðaíþróttasamband blindra (IBSA) stendur fyrir miklu kynningarstarfi um allan heim til að vinna að útbreiðslu íþróttagreinarinnar. Alþjóða knattspyrnusambandið styrkir verkefnið og er það liður í að gera knattspyrnuna að íþróttagrein sem allir geta stundað, ekki bara afreksfólk. Norska knattspyrnusambandið var gestgjafi á þessu námskeiði sem ætlað var þjálfurum og dómurum. Þátttakendur voru frá fjórum löndum, Noregi, Finnlandi, Íslandi og Færeyjum. Eins og áður sagði fóru sex einstaklingar frá Íslandi, þrír frá Íþróttasambandi fatlaðra, einn frá Knattspyrnusambandinu og tveir frá Blindrafélaginu. Hér á eftir verður íþróttagreininni lýst stuttlega og hvernig hún getur nýst við almenna þjálfun blindra og sjónskertra.
Nánar

Nöfnin á þátttakendunum eru frá vinstri; Rafn Rafnsson frá HR (íþróttaakademíunni), og síðan þið félagarnir tveir, María Ólafsdóttir og Marta Ólafsdóttir frá KHÍ (íþróttaskor) og Guðlaugur Guðmundsson frá KSÍ

Íþróttasamband Fatlaðra | sunnudagur 6. janúar 23:33
Nýárssundmót barna og unglinga 2008
Hið árlega Nýársmót Íþróttasambands fatlaðra var haldið í Laugardal um helgina. Góð stemmning var í húsinu og mikill fjöldi áhorfenda. Karen Björg Gísladóttir, Firði, hlaut Sjómannabikarinn fyrir 50 metra skriðsund en hún synti á tímanum 32,41 og hlaut fyrir það 732 stig. Í öðru sæti varð Hulda Agnarsdóttir, einnig úr Firði með 703 stig fyrir 50 metra skriðsund og í þriðja sæti Eyþór Þrastarson, ÍFR, með 536 stig fyrir 50 metra skriðsund.

Hér má sjá heildarúrslit mótsins: http://sund.sc42.info/nyarsmot2008/

Fleiri myndir frá mótinu má sjá á www.123.is/if

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 3. janúar 22:03
Nýárssundmót ÍF 2008 - sunnudaginn 6. januar kl. 15
Nýárssundmót ÍF 2008 fer fram sunnudaginn 6. janúar kl. 15.00 í innisundlauginni í Laugardal.

Þetta árlega sundmót er fyrir fötluð börn og ungmenni 17 ára og yngri og keppt er eftir sérstöku stigakerfi.

Undanfarin ár hefur verið sérstakur flokkur ungra barna og byrjenda þar sem synt er 25 m sund frjáls aðferð.
Þar má nýta aðstoðarmann og nota kút, kork eða önnur hjálpartæki.

Skátar úr skátafélaginu Kópum standa heiðursvörð, skólahljómsveit Kópavogs leikur og venjulega er sérstök stemming á þessum árlegum Nýárssundmótum ÍF.

Heiðursgestur árið 2008 verður borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson.

Til nánari kynningar eru myndir frá Nýárssundmóti 2007 er á myndasíðu ÍF www.123.is/if
Fjölmiðlum er heimilt að nýta myndir af þeirri síðu í samráði við ÍF.

Umsjónaraðili er sundnefnd Íþróttasambands Fatlaðra. Formaður Ingi Þór Einarsson issi@islandia.is

Íþróttasamband Fatlaðra | fimmtudagur 2. janúar 21:00
Kjör íþróttamanna og íþróttakvenna sérsambanda ÍSÍ
Þann 28. desember sl. fór fram kjör á íþróttamanni ársins 2007, en það var Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnukona, sem hlaut titilinn að þessu sinni. Í öðru sæti varð Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður, og í þriðja sæti Ragna Ingólfsdóttir, badmintonkona.

Þá fór fram afhending á viðurkenningum til íþróttamanna og íþróttakvenna sérsambanda og sérgreinanefnda ÍSÍ, en alls voru veittir 60 bikarar vegna þessa. Meðal þeirra sem viðurkenningu hlutu voru íþróttamenn ársins úr röðum fatlaðra, sundkonan Karen Björg Gísladóttir og borðtennismaðurinn Jóhann Rúnar Kristjánsson.

Jóhann Rúnar var þennan dag staddur í Bandaríkjunum þar sem hann tók þátt í opna bandaríska meistaramótinu í borðtennis. Veitti faðir hans, Kristján G. Gunnarsson viðurkenningunni viðtöku fyrir hans hönd en á myndinni sjást þau Karen Björg og Kristján G. Gunnarsson með viðurkenningu ÍSÍ.